23.1.2025 | 09:14
Fjölmiðlaþokan
Þegar ritsíminn var lagður frá austurströnd Bandaríkjanna til vesturs opnuðust nýjar boðleiðir milli manna, milli ættingja og vina. Viðskipti urðu auðveldari. Fréttir flugu á svipstundu frá einum stað til annars. Var þetta ekki allt jákvætt? Jú að flestu leyti vafalaust, en í baksýnisspeglinum má sjá að þeir sem efuðust um nýbreytnina höfðu líka rétt fyrir sér þegar þeir bentu á að langflestar fréttir af atburðum hinum megin í heimsálfunni skipta í raun engu fyrir þá sem búa í mörg þúsund kílómetra fjarlægð. Viðvaranir þessara manna hafa ræst: Viska í klassískum skiliningi (um hvernig menn lifi góðu lífi) hefur vikið fyrir fánýtum fróðleik og heilalausri afþreyingu.
Þegar horft er yfir sviðið á 21. öldinni og rætt við yfirlýsta "fréttafíkla" birtist oftar en ekki mynd af þjóðfélagi sem hefur misst sjónar á kjarna tilverunnar og tilgangi lífsins, sem veit ekki hvert leiðin liggur og hefur enga áætlun, enga hugsjón, engan siðferðilega, heimspekilega, andlega undirstöðu. Menn leiðar oftar hugann að því sem gerist í fjarlægum löndum en að tilgangi eigin lífs. Fréttir af lestarslysum í útlöndum taka meira pláss en eigin sálarheill. Upphlaup vegna orða og gjörða frægs fólks í útlöndum taka meira rými en samtöl við börn okkar og foreldra. Áhyggjur af stefnumálum erlendra stjórnmálaflokka fylla meira pláss en umhugsun um hvert við sjálf erum að stefna með okkar eigið líf.
Dagskrárstjórar stórra fjölmiðla setja í raun dagskrá fyrir umræðuefni á vinnustöðum og við kvöldmatarborð fjölskyldunnar. Skoðanaleiðtogar skrifa handrit fyrir fylgjendur sína, sem enduróma og endurtaka það sem þeir hafa heyrt. Mannleg samskipti grynnka þegar hver og einn maður er orðinn að nokkurs konar útvarpstæki fyrir skoðanir annarra. Hver ertu þá í grunninn, ef þú hugsar ekki sjálfur, velur ekki þína eigin leið heldur lætur berast með straumnum? Til hvers er þá lifað?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning