2.2.2025 | 12:15
Trump, tollar og tilvistarlegt samhengi
Fyrir þá sem eiga erfitt með að sjá stóru myndina, þá snúast tollahækkanir Trumps á nágrannaríkin og Kína ekki aðallega um tolla, heldur um almenna hagsmunagæslu USA gagnvart þessum ríkjum, sem Trump telur greinilega að fyrirrennarar hans í embætti hafi vanrækt. Hagsmunagæsla fyrir sitt eigið ríki er hugtak sem gæti komið yngra fólki spánskt fyrir sjónir, en þetta er þó það sem stjórnmál gengu út á áður en hnattvæðingar-áherslur hófu innreið sína, þ.e. áherslur sem breyttu kjörnum fulltrúum þjóða í hagsmunaverði alþjóðlegra stórfyrirtækja og stofnana sem seilast eftir áhrifum og valdi, m.a. á Íslandi. [Alþjóðlegar stofnanir virðast hafa verið gerðar að einhvers konar öryggisneti fyrir stjórnmálamenn sem þjónað hafa þessu kerfi vel, sbr. Mark Rutte sem orðinn er aðalritari Nato og K. Jakobsdóttur sem komin er í góða stöðu hjá WHO].
Nánast allir vestrænir stjórnmálamenn eru í andarteppu af hneykslun yfir tollahækkunum Trumps, en sjá ekki bjálkann í eigin auga. ESB, sem ný ríkisstjórn Íslands sér í hillingum, er í raun n.k. haftasamtök, sem hafa reist tolla- og innflutningsmúra á ytri landamærum. Rifja má t.d. upp meðferðina (hótanir og þvingunarráðstafanir) sem Bretar máttu sæta frá hendi ESB eftir Brexit.
Öfugt við flesta frambjóðendur hér á Íslandi og víðar í Evrópu ætlar Trump að standa við þau loforð sem hann gaf kjósendum sínum. Það er eitthvað alveg nýtt í stjórnmálum 21. aldar, sem síðustu ár hafa að mestu snúist um kynjafræði og svikin loforð: Hann virðist ekki vera einn af þeim sem lofar öllu til að komast í valdastólinn en gerir svo allt annað þegar hann er sestur þar. Trump veit að Kanadamenn eru ekki í neinni stöðu til að fara í tollastríð við USA af því að Bandaríkjamenn geta sjálfir framleitt nánast allt sem þeir flytja inn frá Kanada.
Sem sagt: Nýir tímar eru að ganga í garð, þar sem stórveldi heimsins munu í auknum mæli fara að huga að því að byggja upp (að nýju) eigin innviði. Þetta setur þá kröfu á íslensk stjórnvöld að slíkt hið sama verði gert á Íslandi og stjórn komið á málaflokka sem stjórnleysi hefur ríkt í árum saman. Þar geta menn horft til stefnumála Lýðræðisflokksins: Leggja niður hælisleitendakerfið; hagræða (og skera niður) í ríkisrekstri; efla íslenskan iðnað og innlenda matvælaframleiðslu; beina fjármunum í innviðauppbyggingu; taka til í stjórnsýslunni, taka stjórnmálaflokka af ríkisjötunni (sem og fjölmiðla), efla hagsmunagæslu fyrir Ísland innan EES og endurnýja pólitíska hugsun á Íslandi. Ef þetta verður ekki gert núna mun það reynast Íslendingum mjög dýrkeypt á næstu árum.
Já, það eru nýir tímar að renna upp, þar sem kjörnir fulltrúar verða að sinna meginhlutverki sínu aftur, sem er hagsmunagæsla fyrir land sitt og þjóð. Þetta voru áherslur mínar í forsetaframboðoi og okkar í Lýðræðisflokknum í Alþingiskosningum. Um þessar áherslur dylgjaði fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins með því að reyna að kenna þær við "öfgar", sem segir okkur allt sem segja þarf um flokkinn undir hans forystu sem orðinn var sósíaldemókratískkur, woke-flokkur með lítt dulið ESB blæti. Eina von Sjálfstæðisflokksins til að endurheimta trúverðugleika og til að geta staðið undir því að kallast hægri flokkur er að kosinn verði nýr formaður, sem hefur í hjarta sínu tileinkað sér hugsjónir flokksins um íhaldssama, klassíska frjálslyndisstefnu, sem NOTA BENE gengur ekki út á þjónkun við alþjóðastofnanir, kynjafræði eða meðvirkni með valdboðssinnuðum embættismönnum / yfirlýstum vinstri flokkum.
Alþjóðavædd græðgi verður jaðarsett. Erlendum ríkjum og erlendum stórfyrirtækjum verður gert erfiðara að kaupa ræktarland og auðlindir annars staðar. Innantómur orðaflaumur mun verða afhjúpaður sem skrum og ósannindi. Iðnaðarframleiðsla mun flytjast aftur til Bandaríkjanna -og annarra ríkja sem munu sjá að þau verði að geta verið sjálfbærarari en þau eru nú. Í stað þess að orkuframleiðsluríki eins og Noregur (og Ísland af einhverjum ástæðum!) setji höfuðið í snöru ESB með því að samþykkja, að þarflausu, orkupakka ESB og taki þar með áhættu á stórfelldri hækkun orkuverðs innanlands, þá sjáum við nú viðsnúning í kortunum. Hver einasta þjóð þarf að vera sjálfri sér nóg í orkuframleiðslu og hafa fulla stjórn á þeim málum. Það, ásamt því að setja sín eigin lög, heitir fullveldi - og í því felst engin harðlína, heldur aðeins hrein skynsemi og sjálfsögð ábyrgð á eigin hagsmunum og eigin framtíð.
Nýr tími er runninn upp og þeir tímar eru að að baki þar sem íslenskir stjórnmálamenn komast upp með að sýna ósjálfstæði, ákvarðanafælni og meðvirkni með því að flytja inn erlendar reglur í massavís og vanhugsaðar kreddur (svo sem loftslagsbábiljur) og skaða þar með íslenska hagsmuni.
Ef nota má aftur myndlíkinguna frá í gær um þjóðarskútuna, þá blása vindarnir nú úr allt annarri átt en þeir gerðu áður. Kunni íslensk stjórnvöld eitthvað fyrir sér á því sviði sem hér um ræðir ber þeim að endurstilla seglin og rétta skútuna af, ef ekki á illa að fara. Það þarf m.ö.o. snör handtök og fumlaus vinnubrögð, þar sem hagsmunir Íslands verða settir í fyrsta sæti aftur, en hagsmunir ESB og annarra í neðri sæti. Til þess þarf annað viðmót en hroka og yfirlæti. Við skulum eiga vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir og leiðtoga þeirra, án þess að gefa afslátt af okkar eigin gildum og án þess að skaða eigin hagsmuni. Í því felst m.a. að ráðherrar Íslands eiga ekki að vera stríðsæsingamenn.
[P.S. Lesendum Mbl.is er bent á hvaðan fréttavefur Morgunblaðsins sækir sínar upplýsingar, þ.e. til NYT, NBC og Reuters, sem vísað er til neðst í þessari frétt, en enginn af þessum fréttaveitum flokkast undir að vera borgaralega sinnaðar. Enn og aftur afhjúpast að öfugt við Morgunblaðið sjálft lýtur Mbl ekki ritstjórnarlegu aðhaldi eins og þessi vefur ætti að gera, a.m.k. meðan Árvakur vill kallast borgaraleg, hægri sinnuð útgáfa].
Kanada og Mexíkó mæta Trump af hörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning