Fyrir hvern eru stjórnmálaflokkarnir að vinna? Af hverju taka þeir upp vond mál hvers annars?

Ég er góður strákur. Vel upp alinn. Ljúfur og kurteis. Þetta er a.m.k. það sem ég segi sjálfum mér, þótt konan mín segi að ég megi helst ekki verða svangur, því þá sýni ég á mér verra snið. Á álagstímum og á ferðalögum í útlöndum gleymist þetta stundum. En Internetið gleymir engu. Á netinu má sjá að ég á það til að vera virkilega leiðinlegur við samferðafólk mitt, sbr. bloggfærslu sem ég ritaði 13.4.2023 um þá fyrirætlan forystu Sjálfstæðisflokksins að leggja fram frumvarp um bókun 35. Í færslunni sagði ég m.a.

Í undirgefni og fylgispekt við erlent skrifstofuveldi hyggjast Alþingismenn, með stuðningi embættismanna íslenska ríkisins, leggja stjórnarskrá lýðveldisins á bálköstinn með því að samþykkja frumvarp sem veitir erlendum reglum almennan forgang umfram íslensk lög,“ [...]

Með því að standa að framlagningu slíks frumvarps leggur Sjálfstæðisflokkurinn stefnu sína og hugsjónir á bálið. Yfir brunarústunum mun forysta flokksins og þingmenn vonandi sjá sóma sinn í því að segja sig úr flokknum eða leggja til að fyrri hluti nafns hans verði þurrkaður út svo að heitið verði aðeins "Flokkurinn".

Ég man glöggt hvar ég sat þegar ég skrifaði þetta og það hlýtur að hafa verið áður en ég borðaði morgunmatinn þann daginn! En grínlaust, þá liggur nú fyrir að formaður og varaformaður eru bæði á útleið: Formaðurinn hættur á þingi og varaformaðurinn komin með annan fótinn til Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem hennar bíður vonandi glæstur starfsferill.

Vika er langur tími í pólitík segir klisjan, en allt getur greinilega hringsnúist á tæpum tveimur árum: Forystufólk hverfur á braut og vond þingmál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að koma í gegnum þingið eru tekin upp af pólitískum andstæðingum þess flokks, sbr. það að Samfylkingin ætlar nú að taka upp bókunarmál XD og keyra það í gegnum þingið, væntanlega með dyggum stuðningi annarra ríkisstjórnarflokka. Áhugavert verður að sjá hvernig þingmenn XD munu reyna að samræma sitt tal, þ.e. annars vegar yfirlýsta andstöðu við ESB aðild og hins vegar stuðning við frumvarpið um bókun 35 sem veikir stöðu Íslands gagnvart ESB. Verði frumvarpið um bókun 35 að lögum munu stuðningsmenn ESB aðildar geta byggt á því í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, að Ísland sé hvort sem er komið með báða fætur inn fyrir þröskuldinn í Brussel og að full aðild sé aðeins staðfesting á því. 

Til hvers hafa þá kynslóðir Sjálfstæðismanna barist? Hvað hefur þá orðið um þær hugsjónir sem flokkurinn var byggður á? Má kasta þeim öllum á bálið til að tryggja sjálfum sér þægilegt sæti í ylnum frá valdinu?

Nýkjörnir alþingismenn tóku að sér að verja hagsmuni lands og þjóðar, en ekki hagsmuni erlends skrifstofuveldis. ESB er á fallanda fæti, bæði efnahagslega og pólitískt. Allir þeir sem hyggjast styðja frumvarpið um bókun 35 verða að gera grein fyrir því hvernig stuðningur þeirra við frumvarpið samræmist skyldum þeirra við stjórnarskrá lýðveldisins sem þeir hafa unnið drengskaparheit að. 

Er hugsanlegt að einmitt þetta mál um bókun 35 afhjúpi að íslenskir stjórnmálaflokkar þjóna fyrst og fremst erlendu stofnanaveldi og að æðsti draumur íslenskra stjórnmálamanna sé að komast í öruggt starf á þeim vettvangi? Spyr sá sem ekki veit. 

 


mbl.is Þórdís Kolbrún skipuð sérstakur sendifulltrúi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband