6.2.2025 | 03:21
Úr nöldrinu á Alþingi í góða stöðu erlendis?
Þegar almennir borgarar ráða sig í vinnu hjá einkafyrirtækjum er oft að finna ákvæði í ráðningarsamningi um trúnaðarskyldur og að viðkomandi skuldbindi sig til að hverfa ekki til starfa hjá samkeppnisaðila í tiltekinn tíma eftir að ráðningarsambandi lýkur gagnvart fyrri vinnuveitanda. Þetta er nefnt hér í ljósi þess að nú gerist það a.m.k. í annað sinn á stuttum tíma að íslenskir stjórnmálamenn gerast erindrekar erlendra stofnana á meðan þeir gegna trúnaðarstörfum sem kjörnir þingfulltrúar. Samhliða fréttaflutningi af ráðningu ÞKRG í ólaunaða stöðu hjá Evrópuráðinu rifjast upp fréttirnar af því þegar Katrín Jakobsdóttir varð sendiherra "velsældarverkefnis" hjá WHO. Katrín fékk þessa vegtyllu eftir að hafa dyggilega fylgt þeim línum sem WHO lagði í "kófinu". ÞKRG fær sína stöðu eftir að hafa ýft stríðsfjaðirnar ítrekað vegna Úkraínu. Frammi fyrir þessu er varla óeðlilegt þótt íslenskir kjósendur velti fyrir sér hvort í þessu birtist einhver stef sem vert er að skoða nánar.
Öll vitum við að vettvangur stjórnmálanna er einn versti drullupyttur sem unnt er að stíga út í. Í raun ættum við öll að vera þakklát þeim sem fórna tíma sínum og orku í stjórnmálastarf. Um leið er ljóst að starfsöryggi stjórnmálamanna er afskaplega lítið, a.m.k. í samanburði við aðra sem þiggja laun frá ríkinu. Margir fyrrum þingmenn hafa borið vitni um það að atvinnumöguleikar þeirra séu mjög skertir eftir að þingsetu lýkur. Með hliðsjón af þessu hlýtur að mega spyrja hvort verið geti að íslenskir stjórnmálamenn standi frammi fyrir meiri freistnivanda en stjórnmálamenn í stærri samfélögum, því atvinnumarkaður á Íslandi er auðvitað miklu minni en annars staðar og tækifæri afdankaðra pólitíkusa enn færri fyrir vikið. Birtist freistnivandinn í því að íslenskir stjórnmálamenn sjái sér sérstakan hag í því að koma ár sinni vel fyrir borð hjá alþjóðlegum stofnunum, eignast þar vini og koma sér í mjúkinn, til að fá möguleika á starfi þar ef stjórnmálaferillinn heima skyldi fá snubbóttan endi? Sendiherrastaða hjá WHO spillti örugglega ekki fyrir því að Katrín Jakobsdóttir fengi fast starf hjá WHO í byrjun nóvember 2025.
Erum við hér einhverju nær því að skilija betur öll faðmlögin, knúsin og kossana á fundum ráðherra og erlendra embættismanna, þar sem vinfengið er svo gott og innilegt að helst minnir á fundi kommúnistaleiðtoga í Ráðstjórnarríkjunum? Á fundum Nato, ESB, WEF og hvert sem litið er, þá virðast allir (nema helst Milei og Trump) svo ægilega góðir vinir, næstum eins og þau séu í einum og sama klúbbnum. Vont væri til þess að hugsa ef þessi góði vinskapur færi svo að snúast um að útvega hvert öðru vinnu eftir að stjórnmálaþátttöku lýkur?
Í aðdraganda forsetakosninganna benti ég á að þingmenn og ráðherrar þurfi að aðgæta mjög vel hvort erindisrekstur fyrir erlendar stofnanir kunni að hafa í för með sér hagsmunaárekstur. Þær ábendingar verða enn brýnni eftir því sem fleiri íslenskir þingmenn taka að sér erindisrekstur fyrir erlendar stofnanir, samhliða þingmennsku.
Þegar menn bjóða sig fram til setu á Alþingi er það ósögð en sjálfsögð forsenda að viðkomandi sinni því starfi af fullri alúð og einurð, en ekki sem hlutastarfi og gangi ekki erinda annarra hagsmuna en íslenskra kjósenda á meðan. Er það ósanngjörn krafa?
Segir stöðuna ekki hafa áhrif á þingstörf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning