11.2.2025 | 00:33
Pólitískt upplausnarástand
Efni þessarar fréttar segir okkur að það er ekki allt með felldu í íslenskri pólitík. Ný þriggja flokka ríkisstjórn leysir af hólmi aðra þriggja flokka stjórn og tekur samstundis við að ljúka þeim þingmálum sem fyrri stjórn hafði ætlað að gera. Ég (og félagar mínir í XL) höfðum bent á að stjórnmálaflokkarnir væru allir samvaxnir, á pyngjunni, því þeir hafa notað löggjafarvaldið til að setja reglur sem gera flokkana að ríkisstofnunum, svo framkvæma fulltrúar þessara sömu flokka lögin með því að borga út þessar (ca. 1000) milljónir á ári. Ef vafaatrið koma upp (t.d. um hvort útgreiðslur til flokka hafi verið lögmætar / skilyrði laga hafi verið uppfyllt), þá taka fulltrúar þessa sama marghöfða skrímslis að sér að úrskurða um málið. Allt vald er þá í raun á einni hendi, löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald. Þetta heitir spilling á góðri íslensku. Vestrænar stjórnarskrár, sérstaklega ákvæði um valddreifingu, áttu að verja okkur fyrir einmitt svona misbeitingu á valdi.
Það sem verra er, áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ljúka málum fyrri stjórnar (m.ö.o. pólitískra andstæðinga sinna) gefur til kynna að Íslandi sé mögulega alls ekki stjórnað frá Austurvelli, heldur allt annars staðar frá. Í nýlegu viðtali sagði Liz Truss að þarna væru að verki skuggaöfl. Í Bandaríkjunum tala æðstu ráðamenn daglega um djúpríkið (deep state) sem þurfi að uppræta, en þar er vísað til samgróninga milli ríkisvaldsins / fjárveitingarvaldsins og þeirra sem eru á ríkisspenanum. En á Íslandi er ekkert slíkt í gangi, er það? Hver sem ýjar að slíku þar er að dreifa samsæriskenningum, enda er vel farið með fé íslenska ríkisins (lesist: almannafé) á Íslandi, ekki satt? Hvergi er verið að sóa þeim peningum, nei nei, ekkert að sjá hér.
Nú ætlar ný ríkisstjórn að koma í gegn frumvarpi um bókun 35, sem hugnast mun ESB sérlega vel, því ESB vill að komið sé á lagalegri einingu (þ. Gleichschaltung) á öllu EES svæðinu og kann því illa að smáþjóð norður í ballarhafi sé með einhverja fyrirvara, hvað þá beiti samningsbundnu synjunarvaldi.
Ný ríkisstjórn sýnist einbeitt í því að halda áfram að ganga erinda ESB og NATO í öllu því sem lýtur að stríðsrekstri.
Ný ríkisstjórn virðist sömuleiðis vera ákveðin í því að leyfa alþjóðlegum gróðafyrirtækjum að nota Ísland og hafið í kringum landið sem ruslakistu með niðurdælingu á alls konar efnum sem gætu borist í grunnvatn og lífríkið að öðru leyti.
Fyrir hvern eru stjórnvöld að vinna? Er nema von að spurt sé? Íslensk stjórnmál eru að leysast upp fyrir framan augun á okkur. Þau eru að breytast úr því að vera harmleikur í það að vera skrípaleikur, þar sem enginn tekur ábyrgð, þar sem alvarleg mál eru leyst upp í grín, þar sem gerður er öfugsnúningur á gríni og alvöru.
Ég minni hér aftur á örlög Úkraínu á 20. öld: Úkraína var sjálfstætt ríki í mjög skamman tíma áður en Sovétríkin í raun innlimuðu Úkraínu. Þetta var gert á svo lymskulegan hátt að fæstir gerðu sér grein því sem gerst hafði: Þingið var enn til staðar, en ákvörðunarvaldið í öllu sem máli skiptir hafði verið flutt til Kreml. Ríkisstofnanir voru enn að störfum en voru í raun aðeins orðnar afgreiðslustofnanir fyrir erlent vald. Skattlagning var aukin en peningarnir runnu ekki til að bæta þjónustu við skattgreiðendur í Úkraínu, heldur til að fóðra Sovétið. Örlög Úkraínu eru víti til að varast.
Hvert er verið að stefna með Ísland? Stendur íslenska ríkið á sterkum og sjálfstæðum fótum? Eru íslenskir embættismenn að verja íslenska hagsmuni eða erlenda ... eða jafnvel bara sína eigin hagsmuni? Svari nú hver fyrir sig. Stóra áhyggjuefnið er þetta: Hver mun koma Íslandi til varnar og framtíðarkynslóðum Íslendinga ef ríkisvaldið á Íslandi er nú að mestu leyti mannað fólki sem er valdhlýðið, spyr engra spurninga, framkvæmir hugsunarlaust það sem þeim er skipað að gera? Hvar á sjálfstæð hugsun heima í kerfi sem týnir yfir 150 hælisleitendum; sem leyfir eldra fólki og öryrkjum ekki að vinna og lifa sómasamlegu lífi; sem notar fjármuni fátæks fólks á Íslandi til að þenja út sjóði erlendis sem gera ríkt fólk ennþá ríkara?
Á Íslandi ríkir pólitískt upplausnarástand, ekki bara í Reykjavíkurborg, heldur einnig í landsmálunum. Ef stjórnmálin verða ekki endurnýjuð frá grunni með nýju fólki og afturhvarfi til grundvallargilda, þá getum við fljótlega afskrifað sjálfstætt íslenskt lýðveldi, því miður.
![]() |
Stefán Vagn: Kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning