Nútíminn er "orvelskur"

Með hverjum deginum sem líður tekur samfélag okkar á sig "orvelskari" mynd, sbr. enska orðið Orwellian sem vísar til framtíðarsamfélags í anda George Orwells. Í ljósi aðstæðna hefðu Íslendingar meira gagn af því að kynna sér rit (viðvaranir) Orwells en að sækja auglýst námskeið fyrrum forsætisráðherra um "glæpasögur".

Ný sviðsmynd að teiknast upp: Trump og Pútín töluðu saman í síma í 90 mínútur í gær um framtíð Úkraínu, án þess að Úkraínuforseti væri með í því samtali, þótt Biden hafi ítrekað lýst því yfir annar háttur yrði hafður á. Aðspurður sagði Trump að forsætisráðherra Úkraínu væri ekki lengur með lýðræðislegt umboð. Með símtalinu er hann þó í raun að undirstrika að smáríki eru peð á taflborði stórveldanna, sem eru þrjú, sbr. Orwell: Oceania (BNA), Evrasía (Rússland) og Austasía (Kína). Nýr tími er runninn upp í stað eldri sviðsmyndarinnar, þar sem bandarískt skattfé var m.a. notað til að fjármagna samtök ríkustu hagsmunaaðila / stórfyrirtækja / auðmanna (e. stakeholders) sem miða að því að koma á miðstýrðu, fjarlægu og ólýðræðislegu valdi.  

Stóra myndin er kannski ekki vel sýnileg ennþá á Íslandi, þar sem ríkisfjölmiðillinn brýtur hlutleysisskyldur sínar daglega og reynir að sameina þjóðina í illvilja gegn sumum en ekki öðrum. Illa er komið fyrir þjóð sem hefur týnt Guði en reynir að sameinast í reiði, heift og illvilja. Pólitískur óstöðugleiki hérlendis þrýstir stjórnmálamönnum sífellt lengra inn í heimatilbúinn hliðarveruleika, þar sem stjórnmálaflokkar misnota löggjafarvaldið til að skammta sér fé úr vösum almennings og gæta hagsmuna hvers annars ef framkvæmdin reynist gölluð, því enginn flokkur þolir leiðréttingu á kerfinu. Í hliðarveruleika íslenskra stjórnmála ræða eru kynjamál efst á dagskrá (kynferði ráðherra í ríkisstjórn, kynjamerkingar á klósettum, kynleiðréttingar, kynhneigð, hvort kynin eru 37 eða 73), en ekki um spillinguna sem vellur upp úr öllum pottum þegar lokið er tekið af þeim. Ríkisreknir fjölmiðlar taka þátt í að ýta undir veruleikafirringuna í von um að styrkjakerfi þeirra verið látið óáreitt og blaðamenn taka jafnvel einnig þátt í leiknum í von um að fá góða stöðu sem upplýsingafulltrúar hjá einhverjum af flokkunum. Hér eru þó ekki allir fjölmiðlar og blaðamenn samsekir, því einstaka maður sker sig úr og leitar sannleikans. Ytri aðstæður gera slíkum mönnum þó erfitt fyrir, sbr. það fréttir af því hvernig ESB bar 132 milljónir Evra á fjölmiðla í aðdraganda kosninga til þings ESB og hvernig USAID notaði skattfé almennings til að fjármagna nær alla meginstraumsmiðla (MSM) sem fjölmiðlanefnd í speki sinni vill að við tökum mest mark á (stórir og rótgrónir fjölmiðlar).  

Á námskeiðinu um Orwell, sem Katrín Jakobsdóttir er ekki að fara að kenna, væri líka full ástæða til að ræða um hellislíkingu Platóns, því hún dregur fram hvernig hópur fólks (heil þjóð?) getur orðið föst í hlekkjum fáfræði og farið að líta á skuggamyndir sem raunveruleika í stað þess að nota eigin augu og eigin hyggjuvit til að horfa á veruleikann eins og hann birtist í raun og veru. 

Hvorki íslensk þjóð, né þingmenn, né ný ríkisstjórn getur lengur leyft sér að nota ímyndanir sem áttavita og ganga um með bundið fyrir augun. ESB er peð á taflborði stórveldanna og mun ekki veita Íslandi efnahagslegt né hernaðarlegt skjól á þeim tímum sem nú fara í hönd, hvað svo sem forsætisráðherra segir.

Ísland á að vera málsvari friðar og sátta, land þar sem raunsætt mat er lagt á stöðu landsins og vernd umhverfisins. Landfræðileg staða okkar er bæði veikleiki og styrkur. Við getum átt friðsamleg og vinsamleg samskipti við aðra og notað okkar veiku rödd til að stilla til friðar fremur en að gerast gjammandi smáhundur í bandi stærri ríkja. Ísland er og verður vonandi "eilífðar smáblómið" sem sungið er um, því allir menn og m.a.s. stórveldin veigra sér við að traðka slík blóm í svaðið. 

 


mbl.is Styrkjamálið til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnar.

Ég hnaut um þessi orð þín; "Illa er komið fyrir þjóð sem hefur týnt Guði en reynir að sameinast í reiði, heift og illvilja."

Þau eru bein tilvísun í magnaða færslu þína um harminn sem að þér leitar, og ég las á feisbókarsíðu þinni þegar ég var staddur í borg umferðarteppnanna, þar hafði ég aðeins aðgang að spjaldtölvu, og puttasláttur Android stýrikerfisins hentar mér ekki, lækið kom í stað mikillar þakkar.

En ég hugsaði mér mér, þarna er Arnar loksins kominn heim frá USA, orð hans eru tímalaus, kjarninn er sá að þjóðin hefur gleymt guði sínum, mennsku sinni, með þekktum afleiðingum.

Án þess að mér komi nokkuð við vegferð þín Arnar, fyrir utan að ég fagna henni, þá finnst mér þú betri hérlendis en erlendis.

Það sem ég skil samt ekki, og það er tilefni þessa orða minna, er túlkun þín á raungerningu Orwellismans, vissulega eru blokkirnar orðnar þrjár, en ertu að leggja blessun þína yfir að ofbeldið stjórni heimsmynd okkar??

Realisminn segir vissulega að það þurfi að semja, að sá freki, sá stærri megi búlla þann minni og veikburðaðri, en hvert leiðir sá realismi okkur??

Á sínum tíma endaði þessi realismi í Seinna stríði, sem hefði orðið það síðasta ef atómsprengjan hefði verið til staðar 1939 í stað 1945.

Mér finnst viðurkenning á þessum realisma vera akkúrat vera það sem þú varar við í þessum orðum þínum; "Illa er komið fyrir þjóð sem hefur týnt Guði en reynir að sameinast í reiði, heift og illvilja."

Og í algjör andstöðu við niðurlag pistils þíns; "Ísland á að vera málsvari friðar og sátta, land þar sem raunsætt mat er lagt á stöðu landsins og vernd umhverfisins. Landfræðileg staða okkar er bæði veikleiki og styrkur. Við getum átt friðsamleg og vinsamleg samskipti við aðra og notað okkar veiku rödd til að stilla til friðar fremur en að gerast gjammandi smáhundur í bandi stærri ríkja. Ísland er og verður vonandi "eilífðar smáblómið" sem sungið er um, því allir menn og m.a.s. stórveldin veigra sér við að traðka slík blóm í svaðið."

Og án þess að ég viti það gjörla, þá hygg ég að sá sem sagt er frá í hinum Nýja vitnisburði, hefði verið sama sinnis.

Málsvari friðar og sáttar viðurkennir ekki ofbeldi og kúgun hins stærri, heimsmynd Orwells, sem Orwell gagnrýndi svo mjög, er heimsmynd annarra, til dæmis þeirra sem hafa týnt Guði sínum.

Það er ekki bæði sleppt og haldið Arnar, allavega sagði Jesú það.

Hann er kannski talinn úreltur í dag, en ég held samt ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2025 kl. 17:24

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Kæri Ómar. Þú ert ótrúlega glöggur: Já, ég er kominn aftur til Íslands. Takk fyrir góða spurningu, sem er réttmæt. Nei, ég legg alls enga blessun yfir þetta, heldur þvert á móti vil draga fram og minna á að Orwell var að senda okkur viðvörun um hvað gerist þegar menn og þjóðir afsala sér frelsi sínu (og sjálfsábyrgð) yfir til miðstýrðs, fjarlægs, yfirþyrmandi valds því það endar með stöðugum átökum og stríðsrekstri, þar sem borgararnir eru espaðir upp í falska samstöðu með daglegum "hatursstundum" þar sem óvinaþjóðir eru skrumskældar og gerðar að skelfilegum ógnvöldum. Takk fyrir þinn málflutning. 

Arnar Þór Jónsson, 13.2.2025 kl. 19:16

3 identicon

Landfræðileg staða lands/þjóðar á ekki að hafa áhrif á hvaða afstôðu lands/þjóð hefur/tekur.

Hvernig á svokallaðri sjálfstæðri þjóð að taka sjálfstæða ákvôrðun með minnisblað aftan á hnakkadrambinu?

Engum dettur slíkt í hug nema þeim sem hefur minna en hundsvit, ennþá minna af því viti sem þeim hefur môgulega verið skaffað.

L (IP-tala skráð) 14.2.2025 kl. 01:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Arnar og takk fyrir svar þitt, þótti mikilvægt að þú hnykktir á þessum mikilvæga kjarna, um frelsið, og hvað gerist þegar menn glata því.

Eins og Ísland er í dag þarf kjark og manndóm til að skrifa orð eins og þessi sem ég tók upp úr fyrri pistli þínum;

".. í raun sú þungbærasta, því allt of margir Íslendingar afneita hinni andlegu, guðlegu vídd tilverunnar og reyndu að þagga niður í okkur hjónunum - og svo félögum okkar í Lýðræðisflokknum - þegar við bentum á það sem mestu skiptir, sem er friðar- og kærleiksboðskapur Krists. Íslenskur nútími, með allri sinni sjúklegu og kæfandi efnishyggju, þolir ekki að nafn Jesú eða Guðs sé nefnt. 

Við erum í andlegri baráttu. Hið illa er raunverulegt og sjáanlegt öllum sem það vilja sjá. En ljósið skín í myrkrinu og myrkrið fær ekki höndlað það.".

Þess vegna er þínu hlutverki ekki lokið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.2.2025 kl. 07:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband