Hvað hefur nýr Bandaríkjaforseti eiginlega gert?

Á Íslandi ríkir pólitískt hnignunarástand. Grafið hefur verið undan tiltrú á getu okkar til stjórna okkur sjálf og til að vera fullvalda þjóð. Þessi þróun, þar sem þjóðríkið hefur verið gert veikara með opnum landamærum og fjárvana lögreglu, og með þjónkun gagnvart ólýðræðislegu fjarlægu valdi, hefur orðið sífellt meira áberandi. Þessi öfugþróun er engin tilviljun, heldur afleiðing þess að við höfum setið uppi með atvinnustjórnmálamenn sem segja eitt en gera annað. Í framkvæmd birtist þetta í því að litlu skiptir hvaða flokkar sitja í stjórn, allir ganga erinda ESB, WEF o.fl., hvort sem þeir gera sér fulla grein fyrir því eða ekki.

En nú kveður við nýjan tón vestan hafs. Trump var kosinn af meirihluta þjóðarinnar vegna loforða sem hann gaf ... og virðist ætla að efna, sem hljómar ótrúlega í eyrum kjósenda sem vanir eru öðru. Eins og heyra má í ríkisreknum fjölmiðlum og í máli íslenskra þingmanna (núverandi og fyrrverandi) þá eru þetta hræðilegar fréttir. 

Hvað hefur Donald Trump gert? Hann hefur bannað öllum körlum (sem hafa tekið lyf eða gengist undir skurðaðgerðir og vilja láta líta á sig sem konur) að keppa í kvennaíþróttum og stöðvað kynleiðréttingaraðgerðir á unglingum. Hann hefur boðið öllum bandarískum hermönnum, sem voru reknir fyrir að neita að taka mRNA-bóluefnin, aftur í herinn – og það með fullri afturvirkri launagreiðslu. Hann hefur fyrirskipað að ríkisstarfsmenn hætti dyggðaskreytingu á borð við „þetta eru fornöfnin mín“ í tölvupóstum stjórnvalda. Hann hefur hótað að hækka tolla og skipað nýja tegund fólks í opinber embætti, þ.e. fólk sem er annt um landið sitt, landamæragæslu og innlenda lagasetningu. Þetta hefur leitt til þess að skrúfað hefur verið fyrir straum ólöglegra innflytjenda á sama tíma og brottvísanir eru hafnar - á methraða. Hann hefur dregið Bandaríkin út úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Hann hefur hent kolefnishlutleysismarkmiðum út úm gluggann, sbr. Parísarsamkomulagið.usa

Hann hefur skrúfað fyrir stjórnlausa eyðslu á almannafé í rafbílakaup og í rafhleðslustöðvar. DEI (Diversity, Equity, Inclusion) er horfið úr bandarískri stjórnsýslu og hann hefur hótað að skera niður styrki til háskóla sem halda því áfram. Undir stjórn DT er byrjað að skera niður útbólgnar ríkisstofnanir. Flett hefur verið ofan af hræðilegri spillingu í útgjöldum USAID í gæluverkefni vinstrimanna, þar á meðal til að stýra dagskrárvaldi í meginstraumsmiðlum sem hafa nánast allir verið á fóðrum hjá USAID. Hann hefur látið ESB líta mjög illa út með því að boða friðarviðræður til að ljúka Úkraínustríðinu, því ESB (og íslenskir utanríkisráherrar) hafa ekkert gert annað en að kalla eftir meira blóði án þess að leggja fram neinar hugmyndir um hvernig binda megi enda á manndrápin. Trump boðar endurskipulagningu í Miðausturlöndum sem gætu gefið Palestínumönnum nýja von í nýju og betra umhverfi og Ísraelsmönnum von um frið. Síðast en ekki síst hefur hann gert RFK jr. að heilbrigðisráðherra sem mun varpa skæru kastljósi á spilltan lyfjaiðnað, matvælaiðnað og orkuiðnað í Bandaríkjunum. 

Lítur þetta hræðilega út? Já, fyrir fyrri bandaríkjaforseta (Obama veitti engin andsvör þegar Rússar réðust inn á Krímskaga 2014 + Biden sem gerði ekkert til að koma í veg fyrir innrás Rússa árið 2022).

Jafnvel þótt yfir 90% Íslendinga sé í nöp við Trump, þá breytir það ekki því að hér eru runnir upp nýir tímar, þar sem íslenskum stjórnmálamönnum leyfist ekki lengur að sóa fjármunum í gæluverkefni en vanrækja innviði. Slíkt mun líta mjög illa út í samanburði við forysturíki Vesturlanda, þ.e. BNA. Allir þjngflokkar á Alþingi Íslands hafa brugðist í þessu samhengi með rangri forgangsröðun, sviknum loforðum og verkleysi.  

Lýðræðisflokkurinn fékk örfáar vikur til að heyja kosningabaráttu sl. haust, gegn ofurefli ríkisrekinna flokka. Þetta var barátta Davíðs við Golíat: Barátta fyir því að verja landið og vekja fólkið, gera Ísland aftur að góðu landi til að búa í, þar sem staðinn er vörður um auðlindir landsins og hreina náttúru, unnið gegn vaxtaokri og skipulagðri glæpastarfsemi, talað gegn stríðsæsingu, hömlur settar á sóun almannafjár, loftinu hleypt úr útblásnu ríkisvaldi og unnið gegn ritskoðun. Jafnvel þótt við ofurefli sé að etja, þá er það samviskumál að finna leið til að halda baráttunni áfram.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tími lýðræisflokksins mun koma.

Íslendingar eru bara enn of bláeygdir en eru kannski að vakna

vegna svika forynjana sem eru ad stjórna í lansdpólitíkinni og

þeirra sem ætla að stjórna í Reykjavík.

Sigurður Kristján Hjaltested, 14.2.2025 kl. 08:25

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Svo segir Drottinn:

(Arnar Þór Jónsson!), gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim.

Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum (Stjórnmálaelítu landsins), gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum (90%), og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig. (Jer. 1:17-19).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 14.2.2025 kl. 12:14

3 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Arnar Þór og miklar þakkir fyrir skrif þín sem eru ljós fyrir íslenska þjóð. Þú hefur lög að mæla. Baráttan verður að halda áfram og margeflast. Lýðræðisflokkurinn vann kraftaverk í síðustu kosningum að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins á undraverðum tíma. Tek undir með þér:

Gerum Ísland að góðu landi aftur!

Gústaf Adolf Skúlason, 14.2.2025 kl. 12:28

4 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Kæru Sigurður, Guðmundur og Gústaf. Takk fyrir ykkar góðu og hvetjandi orð.

Arnar Þór Jónsson, 14.2.2025 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband