15.2.2025 | 10:45
RÚV er risaeðla sem getur ekki lifað í frjálsu umhverfi hins nýja tíma
Ég tilheyri (ennþá) fámennum en ört vaxandi minnihlutahópi, sem kveikir aldrei - og þá meina ég aldrei nokkurn tímann - ótilneyddur á fréttatíma Rúv. Venjuleg nauðung, svo sem hótun um beint ofbeldi myndi ekki duga, enda er það lágmarksréttur hvers manns að mega verja sig. En nóg um það. Í gærkvöldi gerðist sem sagt þessi sjaldgæfi viðburður, að ég horfði á upphaf fréttatíma Rúv vegna þess að annar maður kveikti á þessu kl. (19) í gærkvöldi.
Á þessum fyrstu mínútum sannfærðist ég enn og aftur um þarfleysi Rúv í nútímasamfélagi og furðaði mig auk þess á fréttamatinu: Fyrsta frétt var um kjarabaráttu hreingerningarfólks á Íslandi, þar sem fréttastofan sjónvarpaði m.a. þeirri staðhæfingu að einhverjir í þeim hópi hefðu þurft að "pissa í fötu" við störf sín vegna álags. Vissulega dapurt ef rétt er, en ætti ekki að vera fyrsta frétt.
Aðalfréttin mætti afgangi, og þar huldi umfjöllun Rúv jafnmikið og hún upplýsti: Ráða mátti af "fréttaflutningi" Rúv að ræða varaforseta USA á öryggisráðsstefnu í München hefði verið léttvægt grín og m.a. snúist um Gretu Thunberg og Musk. Svo var ekki og það er tímabært að þjóðin sem byggir þessa eyju hér norður í hafi hætti að taka við gerilsneyddum upplýsingum frá fréttastofu Rúv. Ræða J.D. Vance var ekkert minna en sögulegur stórviðburður, sem markar skýr tímamót í varnarmálapólitík Evrópu á 21. öld. Flestir leiðtogar sátu þöglir undir ræðunni og áttuðu sig á því að þeir þurfa nú að endurhugsa alla sína nálgun og breyta um takt, strax í dag, ef þeir ætla ekki að líta út eins og steingerðar risaeðlur: Áframhaldandi ritskoðunartilburðir munu slá þau sjálf í andlitið; orðræða í stíl kommúnista um falsfréttir og rangar / misvísandi upplýsingar (e. misinformation) mun ekki veita neina vörn; klassískt frjálslyndi mun leysa af hólmi gervi-frjálslyndið sem (ókjörnir) leiðtogar ESB og ráðherrar á Íslandi hafa aðhyllst undir því yfirskini að þau séu að "vernda almenning" og "verja lýðræðið". Þetta er allt saman búið og nú þarf ESB í þokkabót að fara að taka ábyrgð á eigin vörnum, sem þýðir í stuttu máli að heimatilbúinn sósíalismi, þar sem peningum almennings er eytt í gæluverkefni stjórnmálamanna, getur ekki lengur viðgengist. Auk þess verða menn að taka ábyrgð á landamærum sínum. Þetta er hinn nýi veruleiki og þeir sem vilja kynnast honum ættu frekar að horfa beint á ræðuna sjálfir, en að móttaka hann í fitusprengdu og gerilsneyddu formi frá ríkisrekinni fréttastofu Rúv. Ræðuna má t.d. sjá hér - og áhugasömum er bent á að þegar Vance mælir fram lykilsetningu í anda Voltaire sem er í raun hornsteinn klassísks frjálslyndis, þá bregður utanríkisráðherra Íslands, Þorgerði Katrínu, fyrir á myndinni (sjá ca. 8.58-9.05), en þá gerist það "óvænta" að þessi helsti talsmaður "frjálslyndis" (lesist: gervi-frjálslyndis) á Íslandi finnur ekki hjá sér neinn vilja til að klappa. Myndskeiðið segir meira en mörg orð. Ræðan í heild segir meira en "frétt" Rúv í gær.
Í anda Cato hins gamla ætti ég að ljúka öllum pistlum á sömu setningu: "Að lokum legg ég til að RÚV (og ritskoðunarnefndin ... afsakið "fjölmiðlanefnd" verði lögð niður".
Athugasemdir
Þú ert með mjög sterkar skoðanir og fastmótað álit á einhverju sem þú "-- kveikir aldrei - og þá meina ég aldrei nokkurn tímann - ótilneyddur á fréttatíma Rúv.--" þannig að það er augljóslega eitthvað annað en efnistök og sannleiksgildi fréttanna sem stýrir þínum skoðunum. Og ekki gott þegar fólki með þannig hugarfar fjölgar. Þegar það að vera óupplýstur með skoðanir meitlaðar í stein þykir dyggð.
P.S. Draumurinn um MAGA er farinn að fölna hjá kjósendum Trumps, nú er það FAFO sem á hug þeirra allan.
Glúmm (IP-tala skráð) 15.2.2025 kl. 15:46
Vel mælt Arnar.
Ég hélt að Vance byggi ekki yfir þessum styrk, en þegar ég sá fréttaskot Rétttrúnaðarins, þar sem ég geng fastlega út frá að hann hafi verið sýndur í sínu versta ljósi, þá varð ég hugsi, hann gerði þetta vel.
Þetta þarf líka að gerast vel á Íslandi Arnar, þar veist þú þitt hlutverk, og það dugar ekki að vísa í erlendis eitthvað. Það er skýring þess að ég bauð þig velkominn heim.
Gleymum svo ekki að forsendur okkar, sem viljum að nýr tónn sé sleginn, að þær geta verið mismunandi, sem og að við þurfum ekki að vera sammála í öllu hinum nýja tón.
Vonumst jafnvel til að fleiri nýir tónar verði slegnir. Persónulega finnst mér skipta máli sá tónn sem þú slóst þegar þú fjallaðir um harma þína og meltingu á þeim.
Síðan verðum við að umbera og skilja, þar með sýna samúð og nærgætni, þeim sem skilja ekki hina nýju tóna og leit þeirra eftir ljósinu, framtíð barna okkar. Við vitum að innst inni þrá þeir hina nýju tóna, en í ótta sínum afhjúpa þeir sína innri veikleika, efann og hinn nagandi kvíða, að þurfa að feta sig frá myrkrinu yfir í ljósið, að hjálpræði þeirra felst í að lúta höfði í auðmýkt og bæn, lúta höfði og biðja almættið fyrirgefningar.
Þeirra efi er þinn styrkur Arnar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.2.2025 kl. 16:27
"Ég tilheyri (ennþá) fámennum en ört vaxandi minnihlutahópi, sem kveikir aldrei - og þá meina ég aldrei nokkurn tímann - ótilneyddur á fréttatíma Rúv. "
Ánægjulegt að sjá svipað þennkjandi menn eins og ég sjálfur eru þarna úti. :)
Þetta var mjög athyglisverð ræða hjá Vance.
Þorgerður Katrín stendur enn með Úkraníu þangað til hún fær aðrar upplýsingar frá EU.
Trausti (IP-tala skráð) 15.2.2025 kl. 19:15
Ég er ein af þeim sem opna ekki Rúvfréttir nema þegar afkomendur mínir eru hér,er alltof lúin til að taka séns á pólitískum umræðum í mínum ranni. Laumast til að ibba gogg hér á þessum velli,en oftar fagna hreint frábærum pistlum.
Helga Kristjánsdóttir, 16.2.2025 kl. 02:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.