18.2.2025 | 09:04
Á tímamótum
Evrópskir "leiðtogar" sem sátu kindarlegir undir ræðu J.D. Vance um daginn voru skömmustulegir vegna þess að þau skildu strax að allir aðrir sáu að þau voru hugmyndafræðilega nakin. Allt fína talið þeirra um "frelsi" og "lýðræði" var fokið út í vindinn, því nú mega allir vita að frelsis- og lýðræðisást þeirra er fölsk og innantóm, sbr. það sem viðgengst í heimalöndum þeirra sjálfra, sbr. t.d. Þýskaland og Bretland. Hvernig á að vera hægt að skilja þessa öfugþróun, þar sem ríkisstjórnir þjóðríkjanna misvirða eigin stjórnarskrár í framkvæmd - og reyna jafnvel að setja lög sem grafa undan réttaröryggi borgaranna og veikja innlent löggjafarvald? Hvernig stendur á því að Evrópuríkin keppast við að flytja inn unga menn frá fjarlægum löndum og hýsa þá, fæða og klæða á kostnað skattgreiðenda sem njóta ekki sambærilegrar þjónustu? Hvernig stendur á því að engu virðist skipta hvaða flokkar eru kosnir, því allir framkvæma þessar sömu stefnur? Hvers vegna eru t.d. flestir Evrópuleiðtogar svona á móti friðarviðræðum og heimta meira stríð? Illa er fyrir okkur komið ef nota á stríð til að breiða yfir eitthvað sem þolir ekki dagsljósið.
Varla nokkur maður vill til þess hugsa að stríðsæsingarnar, ritskoðunin og sviksemin við eigin þjóðir hafi mögulega eitthvað með þær 4,7 trilljónir dollara sem virðast hafa runnið úr sjóðum Bandaríkjanna undir woke-stjórn Biden bandaríkjaforseta. Margt þyrfti að endurskoða í orðum og verkum síðustu ára ef í ljós kæmi að íslenskir fræðimenn, blaðamenn, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafi fengið greitt fyrir að halda tilteknum sjónarmiðum á lofti, en rægja önnur, snúa staðreyndum á hvolf, t.d. með því að segja í (í anda Orwells) að stríð sé friður, ánauð sé frelsi og að fáfræði sé styrkur. En vonandi sýndu Íslendingar meira siðferðilegt viðnám og seldu ekki sálu sína fyrir peninga sem áttu að vera órekjanlegir.
Ný Bandaríkjastjórn vinnur svo hratt að því að afhjúpa myrkraverk hinnar fyrri að vindáttin snýst nú leifturhratt. Afleiðingarnar eru þegar byrjaðar að koma fram, t.d. í því hvernig allt í einu má nú ræða opinberlega um hugsanlega skaðsemi "bóluefnanna góðu" gegn "veirunni skæðu". Hér er t.d. einn helsti málsvari lyfjasprautanna farinn að spyrja býsna alvarlegra spurninga.
Við stöndum á tímamótum. Mikil umskipti eru að eiga sér stað, jafnvel pólskipti í pólitík og frjálsri umræðu. Uppgjörið má ekki einkennast af reiði eða hefndarþorsta, heldur er þetta tækifæri til lærdóms. Vonandi lærum við öll okkar lexíur af því sem gerst hefur.
Athugasemdir
Hvað segurðu. Voru einhverjir leiðtogar frá evrópu sem sátu undir þessari ræðu. Held að bandaríkjamenn eigi ekki að tala um lýðræði í öðrum löndum. Sjálfir búa þeir við að einungir milljarðamæringar geta boðið sig fram til embættis forseta. Hérna myndi það sennilega þýða að einungis félagar í kivanis og lions auk frímúrara gætu boðið sig fram til embættis. Bandaríkjamenn eru orðnir hrokafullir og vitlausir og munu einangra sig frá alþjóða samfélaginu.
jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 18.2.2025 kl. 12:31
Það voru um 60 leiðtogar sem sátu undir ræðu JD Vance, sjá t.d. https://en.m.wikipedia.org/wiki/61st_Munich_Security_Conference. Ráðstefnan er til að ræða og viðra hugmyndir í öryggismálum https://securityconference.org/en/msc-2025/ í þessu tilfelli kom varaforseti USA með þarfa áminningu til fundargesta, sem hafa stutt vonlausa stefnu í Úkraníumálinu og staðið fyrir ritskoðun og einhliða áróðri í ýmsum málum undanfarin ár. Þetta var tímamótaræða og gagnrýndi vitleysuna sem hefur verið í gangi í Evrópu að undirlagi fráfarandi stjórnar Bidens.
Pétur Ari Markússon (IP-tala skráð) 18.2.2025 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.