20.2.2025 | 07:08
Frumvarpið um bókun 35: Lykilatriði til umræðu
Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES var það sagt vera í þeim tilgangi að fá aðgang að sameiginlegum markaði. Aðild okkar að EES var aldrei kynnt til sögunnar sem fyrsti þáttur í einhvers konar pólitískum samruna með öðrum Evrópuríkjum og síðar sambandsríki með yfirþjóðlegri stjórn.
Nú, 30 árum síðar er brýnt að við horfumst í augu við þá fullveldisskerðingu sem EES hefur í framkvæmd leitt yfir okkur. Ef Íslendingar vilja eiga síðasta orðið um hvaða lög gilda hér í þessu landi og forðast að festast í sífellt þéttara regluverki ESB (með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í formi hugsanlegra bótamála og erfiðari útgöngu ef / þegar að því kemur) má Alþingi ekki samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir. Þar segir orðrétt:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]
Feitletraða setningin í frumvarpstextanum er að mínum dómi villandi yfirbreiðsla og sjónhverfing. Ef Alþingi verður á annað borð búið að leiða í lög almenna forgangsreglu EES réttar gagnvart ósamrýmanlegum íslenskum rétti, þá sýnir reynslan, bæði ESB ríkjanna og nú reynsla Íslendinga í 30 ár, að 0% líkur eru á því að Alþingi muni setja lög sem fara í bága við EES réttinn, enda myndi slík lagasetning í ríki sem samþykkt hefur forgang EES réttar teljast jafngilda samningsbroti. Slík lagasetning myndi jafnframt vera til þess fallin að opna fyrir óteljandi skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu, þar sem byggt yrði á því að hlutaðeigandi hefðu haft réttmætar væntingar um forgang EES réttar samkvæmt skýrri meginreglu frumvarpsins. Alþingi á ekki að taka þátt í að setja hér lagareglur sem ætlað er það hlutverk að blekkja Íslendinga til að halda að fullveldi Íslands sé óskert þegar búið er að leiða í lög skýrt ákvæði um almennan forgang EES réttar. Alþingi, sem löggjafarþing, getur ekki leikið tveimur skjöldum gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. íslenskum kjósendum, með því að grafa undan löggjafarhlutverki sínu með því að viðurkenna forgang EES reglna en látast á sama tíma geta sett lög sem hagga forgangsreglunum sem stafa frá Brussel. Hér er komið að brennipunkti í íslenskri lagasetningu og íslenskri lögfræði. Viðurkenna þarf heiðarlega og afdráttarlaust hver staðan er. Hún er sú að þegar til kastanna kemur, þ.e. þegar íslenskur réttur stangast á við ESB rétt, þá er krafa ESB afdráttarlaus: Íslenskur réttur skal víkja, því eðli og inntak evrópuréttarins gerir a verkum að skrifstofuveldið í Brussel verður að vera í bílstjórasætinu og að Alþingi geti aldrei verið nema í farþegasætinu í þessu samhengi. Þetta bjagaða valdasamhengi, þessi innbyggða slagsíða, er lykillinn að því að skilja frumvarpið um bókun 35 og veika stöðu Alþingis í því samhengi, sem reynt er að breiða yfir með orðalagi frumvarpsins þótt ljóst sé að frumvarpið er lagt fram vegna þrýstings frá ESB og að sá þrýstingur er til kominn vegna þess að Alþingi leyfist í reynd ekki að beita fullveldisrétti sínum til lagasetningar sem færi í bága við EES rétt.
Athugasemdir
Er ekki réttarstaðan nú þegar sú að ef Alþingi setur lög sem fara í bága við EES rétt eða víkja honum til hliðar telst það vera samningsbrot sem getur varðað skaðabótaskyldu ríkisins? (Sbr. t.d. Hrd. 236/1999) Myndi samþykkt þessa frumvarps breyta einhverju um það?
Guðmundur Ásgeirsson, 20.2.2025 kl. 18:59
Himinn og haf er milli þess, annars vegar, að reyna með lögskýringu að skýra íslensk lög til samræmis við EES-rétt og hins vegar þess að líta alfarið fram hjá skýrum íslenskum lagaákvæðum sem mæla fyrir um annað en EES-reglur gera.
Arnar Þór Jónsson, 20.2.2025 kl. 20:14
Ég þekki vel muninn á þessu tvennu en spurningin sneri ekki að því heldur hvort það sé ekki nú þegar þannig að ef íslensk lög samræmast ekki EES reglum geti það leitt til skaðabótaskyldu ríkisins fyrir samningsbrot? Mig grunar reyndar að við vitum báðir rétt svar.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.2.2025 kl. 23:10
Mig grunar að þú vitir jafn vel og ég Guðmundur, að eldra fyrirkomulag hefur ekki verið til neinna teljandi vandræða og að frumvarpið er því lagt fram án annarrar nauðsynjar en þeirrar að koma á algjörri lagasamræmingu í takt við þarfir ESB.
Arnar Þór Jónsson, 22.2.2025 kl. 09:22
Gæti það ekki einmitt sparað einstaklingum og ríkinu fjölda skaðabótamála vegna ósamræmis laga við EES rétt ef tekið yrði skýrt og skilmerkilega fram í lögum að EES reglur skuli gilda þegar þær hafa á annað borð verið innleiddar í íslensk lög? Eða til hvers annars ætti þá að innleiða þær? Ég held að það yrði til minni vandræða ef fólk þyrfti síður að höfða mál gegn ríkinu til að ná fram umsömdum réttindum sínum samkvæmt EES-samningnum. Vilji Íslendingur fá að njóta þeirra réttinda sem hann á tilkall til hefur það ekkert með meintar "þarfir ESB" að gera. Hitt er svo alveg aðskilið álitaefni sem verðskuldar umræðu, hvort sumar reglur EES falli vel að íslenskum aðstæðum eða ekki. Geri þær það alls ekki getur verið ástæða til að gjalda varhug við þeim, en reglur sem bæta réttindi almennings ættu samt alltaf að gilda hér til jafns við önnur lönd.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.2.2025 kl. 19:49
Það er gott að sjá að þú áttar þig á að EES reglur veita ekki bara réttindi, þær geta líka virkað í hina áttina. Þess vegna er það réttaröryggismál að hafa bremsur sem virka. Þetta hefur verið stöðug einstefna í 30 ár. Sú staðreynd gefur ekki ástæðu til að leggja niður allar varnir. Þvert á móti.
Arnar Þór Jónsson, 22.2.2025 kl. 21:08
Já ég átta mig svo sannarlega á því að EES reglur eins og allar aðrar reglur og lög fela ekki aðeins í sér réttindi heldur líka ákveðnar skyldur. Þetta eru reyndar tvær hliðar á sama peningi eins og þú og fleira gott fólk hefur kennt mér. Einmitt þess vegna er ég ekki alveg sammála því að EES samstarfið hafi verið stöðug einstefna í 30 ár, því það hafa ekki eingöngu verið lagðar auknar skyldur á herðar okkur á grundvelli EES samningsins heldur hefur hann einnig fært Íslendingum heilmikil aukin réttindi. Á hinn bóginn tel ég líka að það sé ekki aðeins eðlilegt heldur beinlínis nauðsynlegt að hafa skoðanaskipti um þessi málefni og nota gagnrýna hugsun til að vera á varðbergi gagnvart því að hinar auknu skyldur verði ekki óbærilegar. Það má kannski kalla þetta einhverskonar vegasalt sem þarf að halda í sæmilegu jafnvægi.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.2.2025 kl. 21:48
Innstreymi lagareglna til Íslands verður að kallast einstefna, enda hefur Ísland aldrei beitt neitunarvaldi. Þegar lagasetning tekur á sig slíka mynd er aðeins tímaspursmál hvenær regluverkið fer að verða íþyngjandi og óhagstætt fyrir þá sem eru í hlutverki móttakenda.
Arnar Þór Jónsson, 22.2.2025 kl. 22:08
Þarna kemur að því sem mér finnst eiginlega vera kjarni málsins. Ísland hefur aldrei beitt neitunarvaldinu. Mér hefur lengi fundist vera þörf fyrir miklu virkari og ákveðnari hagsmunagæslu á viðeigandi vettvangi í sameiginlegu EES nefndinni. Það er sá varnagli sem er fyrir hendi til að koma í veg fyrir að nýjar reglur rúlli umhugsunarlítið inn á færibandi. Þennan varnagla þarf að nýta betur til að sigta út það slæma en halda því góða. Annars getur skapast hætta á því að þetta vaxi okkur yfir höfuð og við lendum í ógöngum. Ég veit reyndar um eitt dæmi þar sem slík hagsmunagæsla hefur verið viðhöfð, það er í málum er varða tryggingar á bankainnstæðum (sbr. Icesave málið) en Ísland hefur staðið fast gegn því að ríkisábyrgð á slíkum tryggingum verði tekin upp í EES samninginn að kröfu ESB og sú vörn hefur haldið, að minnsta kosti hingað til.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.2.2025 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.