24.2.2025 | 08:32
Lítum okkur nær
Úkraína er að tapa stríðinu og staðan mun versna því lengur sem evrópskir ráðamenn halda áfram að styðja stríðsreksturinn með pólitískum yfirlýsingum sínum. Kennari á skólalóð hlustar ekki á staðhæfingar um hver hafi byrjað slagsmálin, hann stöðvar þau. Við þurfum fullorðið, ábyrgt fólk aftur í stjórnmálin, ekki ósjálfstætt fólk sem kann ekki annað en að enduróma upphrópanir "stóru strákana" (evrópskra ráðamanna) sem þau líta mest upp til, þ.m.t. Keir Starmer sem sprangar um í fullum herklæðum á hlálegum áróðurs-myndum, þótt hann sé sjálfur algjör væskill sem veldur ekki boxhönskum, hvað þá byssum, og ætti því ekki að vera etja öðrum í fremstu víglínu.
Nei, við þurfum að fá frið fyrir þessari hræsni ráðamanna sem veifa úkraínska fánanaum og þykjast vera að verja frið og frelsi og lýðræði. Málflutningur þeirra er á röngum forsendum, því friður verður aldrei tryggður með stríði heldur með viðræðum og sáttahug. Við þurfum fólk sem einbeitir sér að því að ná niður verðbólgu og vöxtum, stendur vörð um íslenska orku á hagstæðu verði og kann að spara í ríkisrekstri. Í stað þess að þykjast vera áhrifamenn á stóra sviðinu í útlöndum ættu íslenskir ráðherrar að einbeita sér að því að verja efnahag Íslands, sjálfstæði og menningu þessarar fámennu þjóðar.
Sem friðelskandi hljótum við Íslendingar að vilja ganga fram með góðu fordæmi.
Athugasemdir
Vel sagt Arnar Þór,
Hvaða ítök eiga EU (Globalistarnir) á okkar alþingi, ráðamenn? Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn og allt þetta fólk virðist falla í raðir eins og góðir hermenn og gera allt fyrir þessa elítu. Hvaða undirlægjuháttur er hér í gangi?
Trausti (IP-tala skráð) 24.2.2025 kl. 08:59
Sæll Trausti, þetta er góð og réttmæt spurning, sem íslenskir blaðamenn mættu gjarnan reyna að svara. Gagnlegt væri að sjá hvort / hve miklir fjármunir frá USAID runnu til íslenskra fyrirtækja / einstaklnga / þrýstihópa / stjórnmálaflokka / stjórnmálamanna.
Arnar Þór Jónsson, 24.2.2025 kl. 09:06
Blessaður Arnar.
Tvennt eftir eldmessu þína.
Fyrsta; ertu að mæla friðarsamningum Chamberlains í Munchen bót??
Áður en þú svarar þá vil ég benda þér á að góður sagnfræðingur færði rök fyrir því að það hefðu verið skýringar á Seinna stríði, hann benti á þær, var úthrópaður fyrir, og sakaður um að styðja málstað Þjóðverja. Sem hann var ekki, benti aðeins á að stríð spretta aldrei uppúr sjálfu sér, en hann væri ekki að mæla lausninni bót, einhliða árásarstríð þess sem teldi sig þurfa rétta sinn hlut.
Annað; hvernig áttu íslensk stjórnvöld, sem og ESB að stöðva blóðbaðið á Gasa??
Það er auðvelt að halda eldmessu Arnar á meðan almennt er talað, en raunveruleikinn er sjaldnast almennur, það gerist eitthvað, og síðan þarf að takast á við það.
Sbr. þessi orð þín, sem vissulega eru rétt; "Kennari á skólalóð hlustar ekki á staðhæfingar um hver hafi byrjað slagsmálin, hann stöðvar þau."
En er málið þá dautt, má búllinn þá halda áfram að berja og lemja líkt og Morgunblaðið hefur afhjúpað að er stefna Góða fólksins í Reykjavík gagnvart ofbeldi barna innflytjenda gagnvart innlendum, síðasta fréttin vitnar í sýruárás, reyndar fyrir utan skólalóð.
Eldmessa sem getur ekki svarað þessum spurningum Arnar, er eldmessa án innihalds.
Íhugaðu svar þitt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.2.2025 kl. 16:31
Sæll Ómar.
Sagan endurtekur sig ekki en hún geymir vissulega stef sem ríma. Aðstæður þá og nú eru aðrar og hagsmunirnir snúa öðru vísi. Fram hefur komið að Bretland og Bandaríkin stóðu í vegi fyrir friðarsamkomulagi á ögurstundu vorið 2022, sjá t.d. https://x.com/TomasOrpington/status/1889998398256005612
Við þetta bætist auðvitað að skoða verður aðdraganda stríðsins í víðara samhengi, sjá t.d. hér: https://x.com/abetterworld98/status/1892959144837021759
Ábyrgar þjóðir eiga að kalla strax eftir vopnahléi og bjóða fram aðstoð / vettvang við friðarumræður, en ekki henda sér í það að fjármagna vopnakaup og knýja þar með áfram stríðsvélarnar og þá sem hafa beinan hag af því að framkalla stríðsátök.
Arnar Þór Jónsson, 24.2.2025 kl. 17:27
Blessaður Arnar.
Ég skil þetta alveg en Úkraína hefði aðeins ennst álíka lengi og Pólland 1939 ef landið hefði ekki verið fjármagnað og hervætt. Átt þá bara að láta landið falla??
Sagan verður aldrei hundsuð Arnar, það er útilokað, þá hjakka menn bara alltaf í sama farinu. Aðdragandi stríðsins var, en stríðið er. En ef við viljum skoða aðdragandann þá er hann mun eldri en væringar 21. aldar, harmsaga Úkraínu byrjaði eftir byltingu bolsévikana og þeir frömdu ítrekað þjóðarmorð í Úkraínu. Einn angi hennar var að flytja Rússa í stórum stíl á kolasvæði Donbass héraðsins í kjölfar iðnvæðingar Stalíns. Svipað var gert í öðrum sovétlýðveldum, til dæmis í löndum Eystrasaltsins. Þau lönd höfðu lifað af misvonda nýlendukúgun frá því á 12-13 öld, en Stalín var langt kominn með að skipta út þeim fornu þjóðum fyrir Rússa.
Geta Rússar þar hafið erjur, krafist sjálfstæðis og síðan fengið Pútín til að rétta sinn hlut??
Hvar endar þá það???
Ég er ekkert að réttlæta það að menn héldu friðarráðstefnu án þess að bjóða Rússum en ég veit það að ef stærri ríki ætla að leiðrétta landamæri einhliða með árásarstyrjöld, þá endar það alltaf með báli og brandi.
Bál og brandur eru endalok dauðans en ekki friðar.
Svo sakna ég þess hvernig þú telur að hægt hefði verið að stöðva blóðbaðið á Gasa.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2025 kl. 07:20
Ómar, þú hefur trúlega ekki skoðað það sem ég sendi þér, því þetta er ekki einhliða mál. Styrjöld lýkur aðeins á tvennan hátt: Með sigri annars aðilans (Úkraína er ekki að fara að sigra Rússland) eða með friðarsamningum. Íslendingar hefðu auðvitað ekki getað stöðvað brjálæðið á Gaza upp á eigin spýtur, en við hefðum a.m.k. getað haldið sjálfsvirðingunni, talað fyrir friði og reynt að fá aðra í það lið með okkur. Þótt aðrar þjóðir flekki hendur sínar með blóði þurfum við ekki að gera það.
Arnar Þór Jónsson, 25.2.2025 kl. 08:34
Jú Arnar, ég þekki þetta mál ágætlega, og ég ítreka að ég skil alveg að þetta mál er tvíhliða. En það er aldrei friður sem er á forsendum ofbeldisseggjanna, þeir halda alltaf áfram. Það varð enginn friður eftir Munchen og af hverju ætti að vera friður á forsendum Rússa?? Sbr. að við tökum það sem við viljum.
Ég sé ekki skynsemina í því og hef söguna með mér í þeirri skoðun minni.
Ég frekar en aðrir hef ekki hugmynd um hvernig menn Trumps sjá fyrir sér þessar friðarviðræður. Eins og Trump talar í dag þá virðast hans menn aðeins ræða um uppgjöf Úkraínu gagnvart ofbeldinu og síðan hvernig hræið eigi að verða efnahagsleg nýlenda Bandaríkjanna. Svona talar aðeins heiðið fólk, fólk sem stendur fyrir vargöld en ekki frið.
Varðandi brjálaði á Gasa þá er ljóst að þeir sem töluðu fyrir friði á forsendum Hamas, sem og tóku undir áróður samtakanna, snéru staðreyndum á haus líkt og hin meinta frjálslynda ríkisstjórn Bidens benti á, að þeir framlengdu ófriðinn og brjálæðið. Engu að þessu fólki datt í hug að benda Hamas á að gefast upp þegar ljóst var að samtökin hefðu kallað þessi dráp og eyðileggingu yfir fólkið sitt.
En á meðan Hamas barðist og hélt gíslum sínum, þá höfðu stjórnvöld í Ísrael réttmæta ástæðu til að herja og drepa. Eins og alltaf er gert í stríðum.
Ég er einn af þeim sem fyrir mjög mörgum mánuðum, og fékk kárínur fyrir frá mætum manni sem lítur til dæmis á þig sem Varðmann þjóðarinnar Arnar, að Biden stjórnin hefði átt að knýja ríkisstjórn Ísraels til að samþykkja vopnahlé gegn frelsun gíslanna, þá flestir komið á lífi heim. Vegna þess að það var þá útséð að ísraelski herinn hefði afl til að útrýma Hamas, frekara stríð var þá tilgangslaus dráp. Hins vegar færði ég rök fyrir því að íbúar Gasa hefðu gert upp við Hamas.
Þarf ekki að vera rétt hjá mér, en ég legg allavega mat á ástandið og forsendur friðar.
Skólastjórinn stöðvaði slagmálin þegar ég lamdi búllann í bekknum til baka, eftir að hann kýldi mig á kjaftinn á ganginum vegna þess að ég lét hann ekki kúga mig á skólalóðinni fyrr í útifríinu. Þó aðeins 9 ára gamall þá hvarflaði ekki að mér að biðjast afsökunar á að hafa svarað fyrir mig, að neita láta ofbeldi kúga mig. Búllinn lamdi mig aldrei aftur og við erum ágætir vinir í dag.
Við megum aldrei gleyma Arnar að stundum er friðartal í þágu ofbeldis og ofbeldisseggja.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2025 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.