Þekktu andstæðinginn og skildu hvaða leik þú ert að spila

Bók Sun Tzu, The Art of War, sem áður hefur verið vísað til hér, gengur út á að vita hvaða "leik" menn eru að spila og þekkja mótherjann. Mótherji Íslands innan EES er ríkjasamband sem vill verða sambandsríki og þenur stöðugt út löggjöf sína, inn í alla hugsanlega anga dagslegs lífs, viðskipta, umhverfis, fiskveiða o.s.frv. Eins og EES hefur þróast er ekki lengur hægt að tala um "samstarf". Nær væri að tala um einstefnu þar sem ESB setur reglurnar og Ísland fylgir. 

Á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis í dag hyggst ég undirstrika að þingmönnum leyfist ekki að spila rússneska rúllettu með hagsmuni síns eigin heimaríkis og fólksins í landinu. Almennt orðalag í frumvarpi um bókun 35 opnar ekki aðeins fyrir forgang EES réttar umfram íslensk lög, grefur ekki aðeins undan Alþingi, rýrir réttaröryggi og dregur úr fyrirsjáanleika laga, heldur er verið að opna hér pandórubox alls kyns hugsanlegra skuldbindingr samkvæmt EES samningnum sem teljast "réttilega innleiddar" í íslenskan rétt með "skýru og óskilyrtu lagaákvæði". 

Á það hefur verið bent að stór hluti þeirra laga sem Alþingi samþykkir á hverju ári á uppruna sinn í EES rétti. Fyrsta skrefið á þessari vegferð - og sennilega það mikilvægasta - er stigið hjá sameiginlegu EES nefndinni, en hlutverk hennar er að taka "samhljóma ákvarðanir um hvaða ESB-gerðir, sem samþykktar hafa verið á vettvangi Evrópusambandsins, skuli teknar upp í viðauka EES-samningsins og innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum." Nefndin hittist mánaðarlega. Á síðasta fundi nefndarinnar 14. mars sl. samþykkti hún 79 ESB-gerðir, sem skulu teknar upp í viðauka EES samningsins og innleiddar í EFTA/EES ríkjunum. Miðað við umfang hefðbundinna gerða má ætla að á þessum eina fundi hafi nefndin bætt rúmlega 5000 blaðsíðum við EES réttinn. Eftir standa um 500 gerðir sem bíða afgreiðslu hjá hefndinni og árlega bætast við um 500 nýjar ESB-gerðir, sem eiga við um EES samninginn. Sé miðað við sömu tölur, þá má gera ráð fyrir að þannig séu á hverjum tíma rúmlega 30.000 blaðsíður "í pípunum". Þetta undirstrikar að umfang EES réttarins hleypur nú á tugum þúsundna blaðsíðna. Jafnframt er rétt að minna á að hver einasta ESB-gerð (reglugerðir og tilskipanir) hefur í sér fólgna skuldbindingar fyrir sérhvert aðildarríki.

Sem dæmi um skuldbindingar Íslands má af handahófi nefna skuldbindingar á sviði: 

  • Sameiginlegs raforkumarkaðar
  • Baráttu gegn loftslagsbreytingum 
  • Dýralækningar (lyfjagjöf o.fl.)
  • Plönturækt (m.a. reglur sem miða að því að hefta útbreiðslu sjúkdóma)
  • Efnaöryggi (e. chemical safety) 
  • Rafræn samskipti
  • Lýðheilsa (aðgerðir gegn sjúkdómum o.fl.)
  • Samgöngumál
  • Ríkisstyrkir
  • Fiskveiðar (skuldbindingar um sjálfbærar veiðar o.fl.)
  • Heilbrigðisþjónusta 
  • Fjölmiðlun 

Í stuttu máli: Á hverju ári buna inn tugir þúsunda blaðsíðna úr hundruðum ESB-gerða sem innleiddar eru í íslenskan rétt. Sérhver þessara ESB-gerða hafa í sér fólgnar ýmiss konar skuldbindingar fyrir Ísland. Magnið er slíkt að enginn hefur yfirsýn yfir þetta og enginn sér til botns í því skuldbindingarfeni sem hér um ræðir. Frammi fyrir þessu er óábyrgt og óforsvaranlegt fyrir Alþingi Íslendinga að gefa út slíkan opinn tékka, sem Íslendingar nútímans og framtíðarinnar gætu þurft að greiða dýru verði. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband