5.4.2025 | 11:12
Góðvild í verki
"Mitt ríki er ekki af þessum heimi" var svar Krists gagnvart Pílatusi, æðsta fulltrúa rómverska heimsveldisins í Júdeu.
Í svarinu felst að þessi heimur sem við búum í hér birtist daglega sem rangsnúinn heimur, þar sem málefnum er meðvitað snúið á hvolf og hlutlægir mælikvarðar leystir upp þegar valdagírugir og fégráðugir menn reyna að gera myrkur að ljósi og ljós að myrkri, gott að illu og illt að góðu.
Í slíkum heimi þar sem lygi er sett fram sem sannleikur og sannindi eru útmáluð sem lygi, getur verið háskalegt að vilja bera sannleikanum vitni. En áður en við seljum samvisku okkar og sál fyrir silfurpeninga, áður en við göngumst veraldlegu valdi á hönd, áður en við gerumst þjónar þeirra sem seilast til áhrifa í þessum öfugsnúna heimi, þá er vert að muna að tilvist okkar hér er aðeins augnablik í eilífðinni og að hvernig svo sem lög mannanna eru toguð og teygð, afskræmd og afbökuð, þá gilda lög ofar þessum veraldlegu lögum, sem endurspegla þann rétt sem gildir í eilífðinni, þar sem rétt er rétt og rangt er rangt - og þar sem skýr greinarmunur er gerður á góðu og illu, þar sem málum er stjórnað af visku, góðvild og kærleika, með hag, framför og upplýsingu allra sálna að leiðarljósi.
Þessi jörð var sköpuð til að vera himnaríki en ekki helvíti, en mennirnir falla daglega á prófinu, iðka ofbeldi í stað elsku, stríð í stað friðar, gegn vilja Guðs. Hvernig væri að við reyndum - í alvöru - að láta Guðs vilja ráða för, ekki okkar eigin vilja?
E.S. Þegar við sjáum visku, góðvild og kærleika birtast í verki ber okkur að heiðra slíkt og vegsama þá sem sýna samferðamönnum sínum umhyggju. Í gær áttum við hjónin einlæga gleðistund þegar elsti sonur okkar og Guðjón æskuvinur hans í SKRIPO opnuðu listasýningu í Epal á Laugavegi 7. Sá viðburður hefði ekki orðið að veruleika án stuðnings fólks sem stutt hefur þá félagana á leiðinni af óeigingirni og einlægum velvilja. Hér viljum við sérstaklega þakka og heiðra Óskar Guðmundsson rithöfund og þúsundþjalasmið, sem hefur miðlað til þeirra af reynslu sinni og hjálpað þeim að opna dyr á listabrautinni sem að öðrum kosti hefðu verið þeim lokaðar. Óskar hefur leyft þeim að standa á sínum herðum og lyft þeim upp. Einnig ber að nefna hér Sædísi Arndal kennara sem á fyrstu stigum í grunnskóla hlúði svo fallega að þeim fræjum sem blómstruðu á sýningunni í gær.
Athugasemdir
Guðs blessun.
Guðjón E. Hreinberg, 5.4.2025 kl. 11:43
Ertu ekki svolítið að misskilja þessi orð. Ég hef alltaf skilið þetta þannig að ríki hans sé í andaheiminum en ekki þeim heimi sem við sjáum.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 5.4.2025 kl. 11:54
Jesús svaraði: Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan. (Jóh. 18:36).
Arnar Þór Jónsson er ekki að misskilja neitt.
Jesús er hér að segja að Hans ríki sé ekki hluti af hinu fallna Jarðríki. Fyrir Syndafallið var til Ríki Guðs á jörðu, kallað Eden. Ríki Hans kemur aftur innan skamms á Jörðu, og mun standa í 1000 ár. En fyrst mun Guð eyða hinum rangsnúna heimi sem við lifum nú í.
Hann gaf okkur fyrirmæli um að biðja Faðir vorið. Þar biðjum við að Ríki Hans komi og Hans vilji verði á jörðu sem á Himni.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 5.4.2025 kl. 18:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning