25.4.2025 | 08:15
Er Internetið hættulegra stjórnvöldum en hugsandi fólki?
Kæri lesandi.
Er hægt að treysta þér og mér til að stjórna okkur sjálfum? Eða þurfum við sérfræðinga frá ríkinu til að hafa vit fyrir okkur?
Svarið við þessu ætti að vera augljóst, því samkvæmt stjórnarskránni byggir allt stjórnkerfið á lýðræðislegum grunni, þar sem forsendan er sú að fólk hafi nothæfa dómgreind.
Reynsla síðustu 5 ára bendir samt sem áður til þess að stjórnvöld (og einhver hluti almennings) hafi misst trúna á þessari grunnforsendu lýðræðisins - og komist að þeirri niðurstöðu að almenningi sé ekki treystandi. Afleiðing þessaarar nálgunar birtist ekki síst í vilja yfirvalda til að stýra umræðu, ritskoða og berja niður heilbrigðar efasemdir.
Ritskoðun er aðalsmerki alræðisríkja og andstæð öllu því sem lýðræðið byggir á. Engu að síður hafa stjórnvöld, ríkisstofnanir, ríkisforstjórar og útvaldir sérfræðingar lagt áherslu á að við, sauðsvartur almúginn, eigum ekki að efast um góðvild og visku stjórnvalda heldur treysta í blindni því sem kemur frá opinberum aðilum og kokgleypa þá línu sem stjórnvöld hafa lagt.
Út frá þessu blasir auðvitað við að Internetið er stórhættulegt fyrirbæri og nauðsynlegt að sérfræðingar stjórnvalda hafi vit fyrir almúganum. Dæmi: Þegar "veiran skæða" ógnaði öllu lífi var víst hægt að lesa alls konar kenningar á netinu um það hvernig best væri að læknast / fyrirbyggja veikindi, t.d. með því að drekka klór(!). Þar sem almenningi er auðvitað ekki treystandi til að leggja sjálfstætt mat á svona "heilræði" þá var gripið til þess "skoða" þúsundir myndbanda á Youtube og koma á viðamiklu ritskoðunarsamstarfi, ekki aðeins á milli ríkja og ritskoðunarnefnda (afsakið, fjölmiðlanefnda) þeirra, heldur einnig með samstarfi við samfélagsmiðla "eins og Google, Twitter, Facebook" sem "tóku við sér" og voru "í samstarfi við fjölmiðlanefndir Evrópu".
Já, Internetið er sannarlega hættulegur staður þar sem margur góður drengurinn og saklaus stúlkan getur villst á refilstigu, sérstaklega eftir að Twitter breyttist í X.com og alls konar kenningar fá að fljúga þar án eftirlits frá útvöldum sérfræðingum ríkisvalds. Þá er nú gott að geta huggað sig við að enn eru starfræktar fjölmiðlanefndir í Evrópu - og á Íslandi - þar sem fólk er einbeitt í þeim fróma ásetningi að hafa vit fyrir okkur, sem getum ekki haft vit fyrir okkur sjálfum.
Ég skrifa þetta til að minna sjálfan mig og lesendur á að mesti vandi Íslendinga er ekki dómgreindarskortur (því öll þekkjum við mun á góðu og illu) heldur hugleysi. Síðarnefndi lösturinn birtist í andlegu mótstöðuleysi þjóðar sem lætur stjórnvöld valta yfir sig daglega, úr ýmsum áttum, hvort sem það varðar sóttvarnir, hernaðarhyggju eða annan áróður sem notaður er til að hræða fólk til hlýðni við þá stefnu sem stjórnvöld hafa bitið í sig hverju sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning