25.4.2025 | 11:21
Leigubílar, bænahús, heimskuleg lagasetning og flokksræði.
Í tilefni af stöðunni sem komin er upp á Keflavíkurflugvelli, þar sem kaffistofa leigubílstjóra hefur verið tekin af þeim og notuð undir bænahús, þá er vert að rifja upp aðvörunarorð mín í tengslum við fyrirsjáanlega skaðlegar breytingar Alþingis á lögum um leigubifreiðaakstur, en breytingin var gerð í desember 2022. Þar sagði ég orðrétt:
Virðulegi forseti. Það er engin dyggð í því fyrir löggjafarþing að buna út lögum að nauðsynjalausu og mér sýnist að það sé einmitt að gerast hér. Verið er að setja hér lög með hálfum huga því að þingið er nýbúið að samþykkja hér áðan að hefja skuli endurskoðun þessara laga eigi síðar en 1. janúar 2025.
James Madison var fjórði forseti Bandaríkjanna. Hann var einn af þeim sem komu að samningu stjórnarskrár Bandaríkjanna sem hefur verið höfð að fyrirmynd vestrænna stjórnarskráa síðan. Hann varaði við því að löggjafarþing voguðu sér að reyna að drekkja almenningi í því sem hann kallaði pappírsstormi. Hér er verið að setja lög um heila stétt að því er mér virðist án nokkurra skýrra forsendna. Það gildir nú bara hið fornkveðna að betri er krókur en kelda. Ég vara við því að þetta sé gert og segi nei.
Þetta tíst fyrrum dómsmálaráðherra (smellið til að stækka) eldist ekki sérlega vel, enda var fyrirsjáanlegt að með breytingum á lögum um leigubíla var verið tefla margvíslegum hagsmunum í hættu - að óþörfu. Ég var eini þingmaður XD sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, auk Birgis Þórarinssonar.
Í tilefni af þeirri sorglegu stöðu sem upp er komin er engin ástæða til annars en að segja frá frá því hér að eftir atkvæðagreiðsluna héldu stjórnarliðar lauflétta samkomu í skrifstofum þingsins handan við Austurvöllinn. Þar átti ég góð samtöl við viti borið fólk úr öðrum flokkum, m.a. Lilju Alfreðsdóttur úr Framsókn og Bjarna Jónsson úr VG, en á heimleiðinni rann upp fyrir mér að enginn þingmaður XD hafði talað við mig allt kvöldið, fyrir utan auðvitað Birgi Þórarinsson. Og þannig, góðir Íslendingar, virkar þetta í framkvæmd: Ef þú kýst ekki eftir flokkslínunni - jafnvel þótt frumvörpin séu glórulaus og heimskuleg - þá ertu ekki með í partýinu. Stjórnarskrárákvæði 48. gr. um að þingmenn séu "eingöngu bundnir við sannfæringu sína" er þannig vanvirt í framkvæmd þar sem flokksræði yfirtrompar þingræðið.
E.S. Eftir þessa atkvæðagreiðslu var ég aldrei aftur kallaður inn sem varaþingmaður hjá XD, því menn sem vilja fylgja sannfæringu sinni eru illa þokkaðir af í stjórnkerfi sem lýtur flokksræði.
Athugasemdir
Ég vil taka undir þessa gagnrýni á flokksræði. Það má bera saman fylgishrun Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Í nýlegri DV grein er sagt frá því að Svandís formaður Vinstri grænna sjái enga sök hjá sér eða mistök sem hafi valdið fylgishruni. Þeir sem gera athugasemdir í DV eru á því að mjög skorti upp á sjálfsgagnrýnina hjá henni. En þarna má tala um flokksræði í VG sem ekki var að hjálpa.
Eitt sinn var flokksræðið í Sjálfstæðisflokknum styrkur hans, en ég efast um að þannig sé þetta lengur.
Á mínu æskuheimili kusu amma og afi Sjálfstæðisflokkinn. Þá voru í raun aðeins þrjár fylkingar í landinu. Flestir studdu Framsókn eða Sjálfstæðismenn. Síðan voru það kommarnir, Alþýðubandalagið, tengdir við fátækt fólk og ríkisstarfsmenn aðallega. Síðan voru það kratarnir sem kusu Alþýðuflokkinn, og voru í millistétt mikið. En Sjálfstæðisflokkurinn var með fylgi allra stétta eins og Framsókn.
Þarna á þessum tíma þegar 60-70% kusu Framsókn eða Sjálfstæðisflokk, þá var sterkt flokksræði til að halda hjörðinni saman, kannski með óttastjórnun eins og óvinir flokksins sögðu.
En í dag er staðan bara allt önnur.
Með alla þessa flokka og fylgi Sjálfstæðisflokksins stundum undir 20%, þá er flokkurinn orðinn einn af mörgum. Þá getur það orðið veikleiki að taka ekki nógu mikið mark á gagnrýni og öðrum en mest ítök hafa í forystunni.
Vítin eru til að varast þau. Örlög Vinstri grænna geta orðið til eftirbreytni. Nú berast þær fregnir að hinn kommúnistaflokkurinn eigi í innbyrðis deilum, Sósíalistaflokkurinn.
Hvað er orðið um Sjálfstæðisflokkinn? Eru það glóbalistarnir sem ráða þar mestu? Kemur á óvart og í andstöðu við sögu flokksins og heitið á honum!
Ég tel það alveg ljóst að þú hafðir rétt fyrir þér með leigubifreiðamálið. Hér var lítill markaður sem hafði jafnvægi innbyrðis. Auðvitað fór það útum þúfur, því miður.
Það er bara staðreynd að mörg mál sem komu fram í Katrínarstjórninni voru mjög til skaða en ekki bóta, eins og fóstureyðingafrumvarpið, vandræðagangurinn með hvalveiðar og fleira.
Ég kalla eftir því að endurskoðun verði gerð á vondri löggjöf úr fortíðinni. Vond löggjöf getur líka verið mjög nýleg.
Það er til margskonar frjálshyggja. Það er til þjóðleg frjálshyggja og svo nýfrjálshyggjustefna sem oft er kennd við ofurríka og alþjóðahyggjuna.
Hægrimenn í Bretlandi eru í krísu. Er ekki það sama að gerast hér á Íslandi?
Ingólfur Sigurðsson, 25.4.2025 kl. 13:14
Sæll Ingólfur og takk fyrir góða athugasemd. Jú, það sama er að gerast hér. Íhaldsflokkurinn í Bretlandi hefur tapað áttum og týnt sinni eigin stefnu, a.m.k. er lítið sem ekkert íhald þar að finna, þótt Badenoch sé sennilega betri en flestir forvera hennar síðustu ár. Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi rís ekki lengur undir merkjum og hefur gert allt annað en að verja sjálfstæði landsins síðustu ár með því að grafa hér undan íslensku löggjafarvaldi og íslensku framkvæmdarvaldi með stöðugu undanhaldi og þjónkun við ESB með vísan til þess að EES megi á engan hátt gagnrýna. Og nú hefur XD gert ítrekaðar tilraunir til að veikja íslenskt dómsvald með því að styðja við frumvarpið um bókun 35 sem sviptir íslenska dómstóla því valdi sem um var samið í upphafi EES, þ.e. um innlent túlkunarvald íslenskra dómstóla um EES rétt þegar hann rekst á íslenskan rétt. Í framkvæmd hefur þetta ekki verið vandamál, en ESB sættir sig ekki við að Ísland eigi sjálfstæða rödd.
Arnar Þór Jónsson, 25.4.2025 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning