Hefur þú framið hugsanaglæp?

Hvað er frjáls fjölmiðill? Almennt séð er það fréttaveita sem er óháð afskiptum frá ríkisvaldi og öðrum utanaðkomandi aðilum svo sem fyrirtækjum eða áhrifamönnum. 

Búa Íslendingar við frjálsa fjölmiðlun í þessu landi þar sem stærsti fjölmiðillinn er ríkisrekinn og þrengir svo að öðrum fjölmiðlum að þeir segjast þurfa að grenja út RÍKISSTYRK til að lifa?

Getum við sem almennir borgarar í slíku ríki gengið út frá því að það sé dyggð að treysta gagnrýnislaust því sem við heyrum frá sérfræðingum ríkisins og því sem við heyrum í ríkisreknum / ríkisstyrktum fjölmiðlum eða fulltrúum ríkisrekinna stjórnmálaflokka? Verðum við að trúa og treysta sérfræðingunum og fulltrúum valdsins? Er ekki leyfilegt að efast / hugsa sjálfstætt / spyrja spurninga / leita annarra leiða / rannsaka frumforsendur sjálfur? Búum við í ríki þar sem þeir sem vilja nota eigin vitsmuni eru litnir hornauga sem "hugsanaglæpamenn"?

Alræðisríki krefjast þess að almenningur beri traust til handhafa ríkisvalds og ríkisstofnana. Alvöru lýðræðisríki gera enga slíka kröfu til borgaranna. Í lýðræðislegu fyrirkomulagi þurfa kjörnir fulltrúar að vinna sér inn traust með orðum sínum og athöfnum. Í lýðræðisríkjum þurfa ríkisstofnanir að sýna í verki, en ekki áróðri, að þeim sé treystandi. Verði trúnaðarbrestur milli valdhafa og borgara mega borgararnir spyrja, gagnrýna og skipta um valdhafa. 

Hornsteinn lýðræðislegs stjórnarfars er samkvæmt þessu ekki það að borgararnir treysti valdhöfum, fjölmiðlum og stofnunum. Hornsteinninn er miklu fremur sá að borgararnir veiti réttmætt aðhald, kynni sér málin sjálf, skoði frumforsendur, leggi sjálfstætt mat á það sem blasir við en gleypi ekki hrátt það sem að þeim er rétt. Í lýðræðisríki er borgurunum heimilt að efast um fyrirætlanir og aðgerðir stjórnvalda. Sjálfstætt hugsandi fólk er þannig grunnstoð heilbrigðs lýðræðis, ekki ógn við lýðræðið. Með öðrum orðum: Fulltrúalýðræðið grundvallast á rétti fólks til að setja ríkisvaldinu mörk og veita fulltrúum ríkisvalds málefnalegt aðhald. 

Alþingi er skipað kjörnum fulltrúum fólksins í landinu. Það kallast fulltrúalýðræði. Þetta þjónar þeim tilgangi að minna á að völdin tilheyra fólkinu, ekki þingmönnum og ekki ráðherrum sem fara aðeins tímabundið með valdið í umboði kjósenda. Meðan kjörnir fulltrúar eru í þjónustu fólksins fara þeir misvel með það traust sem þeim er sýnt. Í áranna rás hafa þeir afhent mikið vald til embættismanna, sérvalinna sérfræinga og jafnvel til erlendra skrifstofumanna. 

Í þessu ljósi er ástæða til að minna á það aftur og aftur að hlutverk almennings í þessu samhengi er ekki að bera blint traust til þeirra sem fara með völdin, heldur að veita þeim aðhald. Það gerum við m.a. með því að bera upp spurningar, kalla eftir rökstuðningi og mega efast um það sem verið er að gera í nafni valdsins. 

question

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það sýndi sig heldur betur eftir síðustu Alþingiskosningar hversu  vel er hægt að TREYSTA kjörnum fulltrúum og hversu "VEL" þeir fylgja eftir stefnu sinni og "loforðum".........

Jóhann Elíasson, 27.4.2025 kl. 10:55

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég elska elítuna, allar mínar skoðanaraskanir eru óviljug afleiðing af misgengum kennurum Ríkisskólans.

:)

Guðjón E. Hreinberg, 27.4.2025 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband