Hvað tengir okkur saman?

Á lífsleiðinni hef ég orðið fyrir ýmiss konar reynslu sem erfitt er að útskýra sem tilviljanir. Dæmi: Í vikunni sem leið fékk ég fregnir af því að kær vinur minn hefði látist daginn áður. Þær fréttir komu, því miður, ekki alveg á óvart, því hann hafði glímt við erfið veikindi um hríð. Þegar mér bárust þessar fréttir varð ég þó sem þrumu lostinn því einmitt þessa sömu nótt sem hann lést hafði mig dreymt hann svo ljóslifandi og hann hafði kvatt mig svo fallega í draumnum, brosandi og hlæjandi sínum eftirminnilega hlátri. Þann sama dag hafði svo raunar konan mín spurt mig - upp úr eins manns hljóði - hvað væri að frétta af þessum góða vini mínum. Um hann hafði hún ekki spurt áður svo ég muni - og ég man heldur ekki eftir að hafa dreymt hann fyrr. Það var eins og hann hefði vitjað okkar beggja þessar klukkustundir eftir andlátið. 

Annað dæmi: Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál hélt fund í Valhöll fyrir u.þ.b. 3 árum. Húsfyllir var á fundinum. Á fremsta bekk sat maður sem ég þekkti vel í sjón átti að vita hvað hét fullu nafni, en mundi þó alls ekki þá stundina. Um kvöldið þegar ég lagðist til svefns reyndi ég að rifja upp millinafn hans og föðurnafn en gat ómögulega munað. Ég sofnaði út frá því að fara með stafrófið í leit að föðurnafninu. Daginn eftir átti ég bókaðan fund á kaffihúsi úti í bæ og þegar ég gekk þar inn kl. 9 var einmitt þessi maður sá fyrsti sem ég sá þar inni og hann kom gangandi á móti mér með útrétta hönd og kynnti sig með fullu nafni. (Ég viðurkenni að þá leit ég í kringum mig til að sjá hvort þarna væri falin myndavél, sbr. kvikmyndina Truman Show). Fleiri dæmi mætti nefna. 

Á tímamótum lífsins, á afmælum, við andlát, við barnsfæðingu, getum við ekki annað en leitt hugann að tilgangi þessa furðulega ferðalags sem við erum hér á. "Við erum gestir og hótel okkar er jörðin" orti Tómas Guðmundsson, og tónlistarmaðurinn Jónas Sig. færði í glæsilegan "sósíal-realískan" nútímabúning með því að segja "Við erum hótel og gestir okkar eru hugmyndir allra hinna". Meginhugmynd hins vestræna manns, sem hann hefur leyft öðrum að planta í hugskot sitt, er að Guð sé ekki til. Samfélag sem ætlar að leggja slíka forsendu til grundvallar daglegu lífi, án þess að hafa annan tilvistarlegan valkost, leiðir daglegan glundroða yfir þjóðfélagið, því engin hugmyndafræði getur fyllt í það skarð sem trúin skilur eftir sig og engin kredda getur verið það akkeri sem vonin um framhaldslíf veitir.

Við erum öll samtengd. Hugar okkar og hjörtu eru tengd sömu uppsprettu, sama ljósi. Þetta vitum við öll og höfum skynjað í okkar eigin lífi. Þessu ljósi, þessum kærleika, megum við ekki afneita, heldur fylla líf okkar með þeirri vissu að andinn er eilífur og lifir áfram þótt líkaminn visni og deyi. 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Vel sagt. Amen fyrir þessu.

Sigurður Kristján Hjaltested, 4.5.2025 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband