5.5.2025 | 07:27
"Skringileg skautun" eða eðlilegt andsvar fólks sem hefur fengið nóg af lygum og óheilindum?
Íslendingar eru ekki vitlausari en aðrar þjóðir og engin ástæða er til að ætla annað en að Íslendingar vilji bjarta framtíð fyrir sig, börnin sín og landið sitt. Fram hjá því verður þó ekki litið að Íslendingar búa við einsleitt skólakerfi, einsleitt fjölmiðlaumhverfi og einsleita pólitík, þar sem flestir fræðimenn, fjölmiðlamenn og ráðamenn una sér best á hnjánum í tilbeiðslu gagnvart stærri erlendum ríkjum / ríkjasamböndum, eins og hirðmenn fortíðar sem vildu gerast handgengnir erlendu konungsvaldi, eltast við vald án nokkurs sýnilegs æðri tilgangs og öðlast virðingu án þess að þurfa að axla neina ábyrgð.
Hér verður ekki reynt að setja fram neina stóra kenningu um þetta, en kannski tilgátu: Er þetta myndbirting inngróinnar minnimáttarkenndar þjóðar sem daglega fær þau skilaboð í ríkisreknum skólum og ríkisreknum fjölmiðlum að við þurfum að skammast okkar fyrir fortíð okkar og sögu? Skapar smæð þjóðfélagsins skapar alls konar "jafningja-pressu" og samanburð sem gerir að verkum að erfitt getur reynst að standa fyrir utan hjörðina, fara sína eigin leið og hugsa sjálfstætt? Skýrir þetta að einhverju leyti hvers vegna Íslendingar tóku meira ástfóstri við covid-sprauturnar en flestar (allar?) aðrar vestrænar þjóðir og hvers vegna kannanir benda til að yfir 90% þjóðarinnar myndu kjósa frambjóðendur Demókrataflokksins í BNA og hvers vegna 96% íslenskra kvenna hefðu kosið þessa konu hér.
Í klassísku tilliti þjóna stjórnmál því hlutverki að jafnvægisstilla þjóðarskútuna. Hvernig er það hægt ef yfir 90% kjósenda hafa varpað sér á aðra hlið skipsins og keppast við að fordæma þá sem vilja reyna að leiðrétta slagsíðuna? Hvort sem þetta er orsök eða afleiðing, þá er raunveruleikinn sá að Íslendingar fengu í síðustu kosningum að velja úr 7-8 útgáfum af bandaríska Demókrataflokknum (frá sósíalistum til Sjálfstæðisflokks) auk Miðflokks sem vill standa með annan fótinn í sama feni og hinir og svo Lýðræðisflokksins sem hélt á lofti klassískum málflutningi frjálslynds íhalds, sem algeng voru í íslenskri pólitík fyrir 25 árum, en hafa vart mátt heyrast síðustu ár. Vitað var að þegar veitt er í tjörn sem geymir innan við 10% kjósenda mun það kvíslast enn meira, en röddin varð samt að fá að heyrast, því engin skúta getur siglt með viðvarandi slagsíðu. Leiðréttingin er ekki aðeins nauðsynleg, hún er óhjákvæmileg og óumflýjanleg. Þegar kjósendur hafna gömlum flokkum, sem sannað hafa gagnsleysi sitt og brotið öll loforð, þá er það heilbrigðismerki og sýnir eðlilegt lífsmark meðal hugsandi fólks en ekki "skringilega skautun víða um heim". Prófessor sem þannig talar sýnir minni skilning á stjórnmálum en hinn venjulegi, almenni kjósandi. Óskiljanlegt er hvers vegna verið er að borga mönnum fræðimannslaun sem sýna minni skilning á viðfangsefninu en maðurinn á götunni, sem ekkert fær borgað fyrir sitt pólitíska framlag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning