8.5.2025 | 07:52
Ögurstund í sögu lýðveldisins nálgast
Umræðum þingmanna um veiðigjöld mun væntanlega ljúka í þessari viku með þeirri niðurstöðu að gjöldin hækka, en enginn þarf þó að ímynda sér að sú hækkun skili sér til íslensku þjóðarinnar, því hækkunin mun fyrst og fremst nýtast til að þenja enn frekar út ríkisbáknið (sem lætur fólkið í landinu þjóna sér en ekki öfugt) og belgja út erlenda sjóði sem merktir eru ýmsum "góðum" málefnum svo sem hernaði og veðráttu.
Að veiðigjöldunum afgreiddum mun meirihluti Alþingi snúa sér að því að samþykkja frumvarp um bókun 35 og víkja þar með frá grundvallarforsendum sem lagðar voru til grundvallar við gerð EES samningsins, þ.e. um íslenskt fullveldi, innlent dómsvald og sjálfstætt löggjafarvald. Fyrst og fremst lýtur þetta frumvarp að því að veikja innlenda dómstóla og skera þannig eina síðustu sneiðina af íslenska fullveldinu til að afhenda það á silfurfati til ESB.
Síðar meir munu lögfræðingar og sagnfræðingar leita skýringa á því í rannsóknum og bókum hvers vegna kjörnir fulltrúar Íslendinga (með fulltingi embættismanna) grófu sjálfviljugir undan sjálfstæði landsins og afhentu ríkisvald úr landi án heilbrigðs viðnáms.
Athugasemdir
Innleiðing Bókunar 35 er að sjálfsögðu brot á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Hið sama má segja um 3. orkupakka ESB vegna valdaframsal til ACER/ESA. Afar merkilegt má telja, að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð fyrir þeim landráðagjörningum. Nú þurfa viðkomandi ráðherrar og jafnvel alþingismenn að svara til saka skv. ákvæðum hegningarlaga, sem auðsægilega hafa verið brotin með grófum hætti vegna framsals á löggjafarvaldi Alþingis til ESB með Bókun 35.
...eða eins og þú segir sjálfur í umsögn þinni til utanríkismálanefndar Alþingis:
"Alþingi og ríkisstjórn Íslands sækja umboð sitt til íslenskra kjósenda. Kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi hafa ekki þegið neitt lýðræðislegt umboð til að afhenda áhrifa- og ákvörðunarvald í hendur erlendra valdastofnana, því það er í reynd það sem frumvarpið um bókun 35 miðar að, hvað sem líður orðalagi um sjálfstæða löggjöf Alþingis."
Júlíus Valsson, 9.5.2025 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.