Hvað kallast "kalkúleruð" áhætta ef enginn hefur raunverulega metið áhættuna?

Hver er stærsta eiturpillan í eftirfarandi frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35? Þar segir orðrétt:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]

Árlega er mikilll fjöldi EES gerða (reglugerðir, tilskipanir) innleiddar í íslenskan rétt. Með varfærni má áætla að hvert ráðuneyti, sem nú eru 12 að tölu, gefi út um 20 innleiðingarreglugerðir á ári. Auk ráðuneytanna hefur Alþingi veigamiklu hlutverki að gegna við innleiðingu EES réttar. Á vef Alþingis má sjá - og það hefur skrifstofa þingsins staðfest - að um fimmtungur stjórnarfrumvarpa á 151. löggjafarþingi var upprunninn í ESB, þá er átt við fjölda en hvorki tekið tillit til umfangs eða mikilvægis, sem þess vegna gæti verið miklu stærra hlutfall - þótt erfitt kunni að vera að meta/mæla nákvæmlega.

Fjöldi skuldbindinga sem Ísland undirgengst með hverri EES tilskipun og reglugerð fer eftir eðli og umfangi gerðarinnar sem um ræðir. Fjöldinn getur verið frá 1-5 (einföld tilskipun) upp í tugi og jafnvel meira en 100 (ef um er að ræða flóknar tilskipanir). Stór reglugerð getur falið í sér tugi og jafnvel hundruðir skuldbindinga fyrir aðildarríki. 

Allir vita að í rúmlega 30 ára sögu EES hefur Ísland aldrei beitt neitunarvaldi. Allt þetta þýðir að geigvænlegt magn af lagareglum (og þar með skuldbindingum) rennur viðstöðulaust í gegnum kerfið án þess að nokkur hafi heildaryfirsýn yfir þær skuldbindingar sem í þessu felast. Ef enginn hefur yfirsýn, þá er ekki einu sinni hægt að segja að verið sé að taka "kalkúleraða áhættu". Slík áhættutaka með hagsmuni lands og þjóðar er óforsvaranleg. Þingmenn og ráðherrar hafa ekkert umboð til að fara þannig með fjöregg þjóðarinnar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekker við þetta að bæta.  Skömm þeim sem þetta styðja og þá sérstaklega Inga Sæland fyrir að

 gjörsamlega að svíkja allt sem hún lofaði.

Ekki eitt loforð efnt. Geri aðrir betur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 15.5.2025 kl. 07:55

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Sigurður Kristján. Ég viðurkenni að ég var sjálfur svo bláeygður eftir rúm 50 ár á Íslandi að ég þurfti að stíga ofan í þennan drullupoll stjórnmálanna til að skilja hversu djúpur og óhreinn og spilltur hann er. Þetta gengur út á að lofa öllu fögru, jafnvel þótt sá sem talar viti að hann getur aldrei efnt loforðin. Þeir sem lofa mestu geta átt von á að fá flest atkvæði. Í hugum þeirra sem þannig tala til kjósenda er aðalatriðið að frambjóðandinn sjálfur komist á þing / í sveitarstjórn, en hagsmunir lands og þjóðar eru aukaatriði. Þetta gera menn í trausti þess að minni kjósenda sé eins og hjá gullfiskum eða að kjósendur sætti sig við að svona sé leikurinn spilaður (sem flestir Íslendingar virðast raunar sætta sig við). 

Arnar Þór Jónsson, 15.5.2025 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband