21.5.2025 | 06:59
"Autopennar" finnast víðar en í Bandaríkjunum
Nú geisar mikil umræða í Bandaríkjunum um vélstýrðan penna (e. Autopen) Joe Biden. M.a. er vísað til þess að Joe hafi samþykkt 2,5 milljarða dollara framlag til Úkraínu meðan hann var í fríi í St. Croix, sbr. meðfylgjandi mynd. Á sama tíma hafi "forsetinn" undirritað náðunarbréf, slakað á landamæragæslu o.fl. Spurt er hver stýrði pennanum í fjarveru forsetans, hvert peningarnir fóru og hvort / hvernig megi rekja upp það sem þannig hafi verið samþykkt. Í raun hafi forsetaembættið og vald þess verið yfirtekið af óþekktu og umboðslausu fólki. Talað er um þetta sem eitt stærsta hneyskli í sögu Bandaríkjanna og að þetta megi aldrei endurtaka sig, því svona "vinnubrögð" við lagasetningu brjóti gegn grundvallarviðmiði vestrænnar stjórnskipunar um jafnvægi milli valdaaðila (e. checks and balances).

Á sama tíma horfa Íslendingar þegjandi upp á það, árum og áratugum saman, að Alþingismenn og ráðherrar skrifi undir og innleiði ALLAR tilskipanir og reglugerðir sem Brussel-veldið póstsendir til Íslands. Engin þjóð getur búið við slíkt bremsulaust stjórnarfar án þess að þurfa að gjalda fyrir það að lokum. Í raun er þessi framkvæmd hrein og klár niðurlæging fyrir þjóð sem á stjórnarskrá og kýs sér ennþá fulltrúa á löggjafarþing í þeim tilgangi að þeir gæti réttar Íslendinga. En þessi framkvæmd er þó ekki aðeins niðurlægjandi og þetta er ekki aðeins til marks um lausung í lagasetningu. Þetta sjálfvirka afgreiðslu- og undirritunarferli felur í sér viðvarandi brot gegn þeim skyldum sem handhafar íslensks löggjafarvalds hafa undirgengist með þvi að vinna drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins.
Athugasemdir
Rétt og sönn samlíking.
Ragnhildur Kolka, 21.5.2025 kl. 08:50
Takk fyrir Ragnhildur. Hvað þarf til að vekja Íslendinga af þessum Þyrnirósarsvefni?
Kær kveðja, ARnar.
Arnar Þór Jónsson, 21.5.2025 kl. 14:09
Talandi um Bandaríkin. Þar tekur alríkislöggjöf sem er samþykkt í Washington DC sjálfkrafa gildi strax fyrir öll aðildarríkin. Ekkert þarf að senda í pósti og engin þörf er á sérstakri innleiðingu í hverju ríki fyrir sig.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2025 kl. 22:01
Sæll Guðmundur, þú hlýtur að vera að oftúlka, því það hefur verið rauður þráður í allri sögu BNA að verja sjálfsákvörðunarrétt ríkjanna. Um þetta hafa átakalínur í bandarískri pólitík verið dregnar í rúmlega 200 ár, sbr. m.a. deildu Alexanders Hamilton (sem var federalisti) við Thomas Jefferson (sem vildi verja sjálfákvörðunarrétt ríkjanna). Stjórnarskrá Bandaríkjanna er skrifuð til að verja fólk fyrir ofríki miðstýrðs valds.
Arnar Þór Jónsson, 22.5.2025 kl. 06:04
Það er hárrétt að mjög margt í bandaríska kerfinu felur í sér dreifstýringu sem er til þess fallin að tempra ofríki miðstýrðs valds enda er heilbrigt jafnvægi í þeim efnum nauðsynlegt.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.5.2025 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.