22.6.2025 | 09:08
Uppskrift að farsæld eða ávísun á vandræði?
Ég hef (ennþá) tröllatrú á dómgreind Íslendinga, en hallast þó að því að áttavitarnir sem við höfum vanist á að nota síðustu áratugi hafi allir bilað á síðustu árum. Pólitískt segulnorður RÚV, háskólanna, kirkjunnar, Sjálfstæðisflokksins og ríkisstyrktra fjölmiðla vísar allt í átt að ný-kommúnisma (woke-hugmyndafræðin er gamaldags kommúnismi í nýjum fötum).
Eins og í Rússlandi fyrir 100 árum er verið að umbylta íslensku samfélagi. Þetta er sem betur fer ekki gert með aðferðum Bolsévikka sem notuðu bál og brand, heldur Mensévikka sem vildu koma sósíalisma á í mörgum smærri skrefum, með áróðri og innrætingu sem fengi almenning til að kjósa "rétt". Samkvæmt byltingarritum (gömlum og nýjum) ber að bæla niður andmæli og byggja nýtt samfélag á grunni kreddunnar, þar sem eignum er endurúthlutað og framleiðslutækin / iðnaðurinn / landbúnaðurinn / sjávarútvegsfyrirtækin eru sett í eigu "almennings" (sem fámenn pólitísk valdaklíka og vinir þeirra stjórna og fleyta rjómann ofan af). Til að þetta megi takast þarf að koma á sterkri miðstýringu, þjappa saman valdinu, hafa stjórn á skoðanamyndun fólks til að tryggja hugmyndafræðilega einsleitni - og í stuttu máli móta samfélagið að sósíalískri (nú "vók") fyrirmynd.
Eins og í Rússlandi Leníns freista "vókistar" nútímans þess að stýra umræðunni með því að þrengja það svið sem leyfilegt er að ræða um. Allt sem ekki má efast um / ræða er stimplað sem "öfgar" og öllum er ætlað að fylgja meginstraumnum án frekari spurninga / umræðu.
Þar sem hugmyndafræðin gengur út á að þjappa saman valdi undir fána ólýðræðislegs yfirþjóðlegs valds má ekki ræða um mikilvægi sjálfsstjórnar, beint lýðræði, um það hvað innviðir 320.000 manna smáríkis þola, um vernd tungumálsins, um alþjóðlega glæpastarfsemi, um veikburða löggæslu, forræði þjóðríkis á eigin landamærum o.s.frv. Þetta eru víst ekki leyfilegar áhyggjur, en lögmætt er að magna upp ótta við loftslagsbreytingar (sem hafa þó alltaf verið til staðar) og vopnaskak í fjarlægum löndum (sem því miður virðist aldrei verða stöðvað). Síðastnefndu atriðin má nýta til að fá fólk til að afsala sér bæði fjármunum og valdi. Friðarsinnar eru þ.a.l. illa þokkaðir af "vók-samfélaginu".
Á 20. öld reyndu menn víða um heim að gera pólitíska hugmyndafræði að trúarsetningu. Það gafst ekki vel og endaði með kúgunarstjórn til að tryggja "einingu" og "frið". Stóri lærdómurinn er sá að þessum þjóðum hefði farnast betur ef efasemdamönnum hefði verið leyft að spyrja lögmætra spurninga, veita málefnalegt aðhald og benda á aðrar leiðir en þá sem ríkisreknir fjölmiðlar, ríkisreknir stjórnmálaflokkar, ríkisreknir háskólar og ríkisrekin kirkja eru sammála um að beri að fylgja.
Bara lauflétt pæling á sunnudagsmorgni. Eigið yndislegan dag!
Athugasemdir
Þegar allir traustustu áttavitarnir vísa í aðra átt en þinn væri e.t.v. ástæða til að skoða þinn betur. Rangfærslur þínar í síðasta bloggi voru margar, stórar og áberandi, fjarstæðukenndar fullyrðingar án sannana og raka. Áttaviti sem greinilega vísar ekki rétt.
Glúmm (IP-tala skráð) 22.6.2025 kl. 14:21
Gloom, þegar kommúnisti eins og þú kallar RÚV o.fl. "traustustu áttavitana", þá ætti það eitt og sér að vera nóg til að fá skynsamt fólk til að staldra við og hugsa sitt ráð (sjálft). P.S. Ef þú treystir þér ekki til að hrekja það sem ég sagði í síðasta bloggi með rökum, þá er hér ábending til þín: Órökstuddar fullyrðingar hjálpa þér ekki.
Arnar Þór Jónsson, 22.6.2025 kl. 15:34
Þegar kommúnisti eins og ég kalla kirkjuna, háskólana, RÚV, Sjálfstæðisflokkinn og ríkisstyrkta fjölmiðla "traustustu áttavitana", þá ætti það eitt og sér að vera nóg til að fá flest fólk til að staldra við og skoða hvers vegna þeirra áttaviti bendir eitthvað allt annað. Og einhvernvegin held ég að fleiri treysti kirkjunni til að segja satt en pólitískum framagosa sem gengur með einræðisherrann í maganum. Skoðanakannanir og kosningar virðast einnig styðja það.
Þar sem áður hefur verið bent á rangfærslurnar, með vísan í stjórnarskrá og með tilvitnunum úr frumvarpinu, án árangurs. Og þú hefur haldið áfram með fullyrðingar sem þú hefur ekki getað bent á með sama hætti að séu réttar, enda marg hraktar. Er nokkuð tilgangslaust að vera að segja þér sömu hlutina aftur og aftur. Svo virðist sem þú hafir sett þér tvær ófrávíkjanlegar reglur þegar þú ákvaðst að leggja lögin á hilluna og gerast pólitíkus. Að þykjast ekki heyra sannleikann og segja ekki sannleikann.
Glúmm (IP-tala skráð) 22.6.2025 kl. 19:17
Það að harðsvíraður kommúnisti eins og þú finnir samhljóm með kirkjunni, Rúv, XD ársisn 2025 og ríkisstyrktum fjölmiðlum segir allt sem segja þarf. Háskólarnir hafa verið á þínu bandi öllu lengur. Ég er ekki "pólitískur framagosi", því ég fór ekki í framboð fyrir sjálfan mig heldur til að reyna að vekja þess þjóð til vitundar um það að hún flýtur sofandi að feigðarósi. Fáir þú og skoðanabræður þínir að ráða verður Ísland óþekkjanlegt innan fárra ára. Þá munu menn líta til baka og skilja hvað ég var að segja. Ef þú treystir þér til að nefna t.d. 5 af "mörgum" "rangfærslum" í síðustu færslu skal ég svara hverri og einni, en persónulegar árásir styðja þinn málflutning alls ekki.
Arnar Þór Jónsson, 22.6.2025 kl. 23:34
Einhverjir mundu kalla það persónulega árás að vera kallaður kommúnisti. En sumir ekki kommúnistar telja sig víst undanþegna reglum sem þeir heimta að allir aðrir fylgi. Hér eru fimm rangfærslur úr upphafi síðustu færslu:
Engu að síður krefst ESB þess að reglur þess séu æðri landslögum aðildarríkja, þ.m.t. EES ríkja á þeim (sífellt fleiri) sviðum sem EES samningurinn tekur til.
Verði frumvarpið um bókun 35 samþykkt á Alþingi þýðir það að Alþingi geti ekki sett lög sem ganga gegn EES.
Þetta þýðir einnig að EES réttur yfirtrompar íslensk lög, jafnvel þótt þau lög hafi verið sett áður en EES kom til sögunnar og einnig íslensk lög sem sett verða héðan í frá!
Þetta þýðir að ESB (og stofnanir þess) geta valtað yfir íslenskan rétt (og stjórnarskrána) með nýjum reglum sem Íslendingum ber að innleiða
Frumvarpið um bókun 35 miðar auk þess að því að íslenskir dómstólar hafi ekkert túlkunarvald um þær ótal reglur EES réttar sem frumvarpið vísar til.
Glúmm (IP-tala skráð) 23.6.2025 kl. 00:50
Engu að síður krefst ESB þess að reglur þess séu æðri landslögum aðildarríkja, þ.m.t. EES ríkja á þeim (sífellt fleiri) sviðum sem EES samningurinn tekur til.
Svar: Þetta er rétt. Lestu frumvarpið. Krafa ESB er sú að reglur þeirra gangi framar íslenskum lögum ef þetta tvennt stangast á. Það er líka rétt að EES samningurinn hefur bólgnað út á rúmlega 30 árum og teygt sig inn á svið sem engann óraði fyrir að EES gæti tekið til, sbr. m.a. orkumál.
Verði frumvarpið um bókun 35 samþykkt á Alþingi þýðir það að Alþingi geti ekki sett lög sem ganga gegn EES.
Svar: Þetta er rétt. Ef Alþingi setur slík lög yrðu þau að engu hafandi, sbr. skýrt ákvæði í frumvarpinu.
Þetta þýðir einnig að EES réttur yfirtrompar íslensk lög, jafnvel þótt þau lög hafi verið sett áður en EES kom til sögunnar og einnig íslensk lög sem sett verða héðan í frá!
Svar: Þetta er rétt. Sérhvert ákvæði (bæð eldra og yngra) sem stangast á við "skuldbindingu" sem Íslendingar hafa undirgengist (sem telja nú mörg þúsund - og enginn hefur yfirsýn yfir þær allar) mun þurfa að víkja fyrir EES rétti, því EES yfirtrompar íslensk lög. Með þessu er verið að vanvirða yfir 1000 ára réttarsögu og réttarhefð Íslendinga.
Þetta þýðir að ESB (og stofnanir þess) geta valtað yfir íslenskan rétt (og stjórnarskrána) með nýjum reglum sem Íslendingum ber að innleiða
Svar: Þetta er rétt, því Íslendingar hafa ALDREI haft manndóm í sér til að beita samningsbundnu neitunarvaldi og þegar umræða um slíkt kom upp í samhengi við 3ja orkupakkann sagði íslenskur fræðimaður í Evrópurétti að útilokað væri að fara þá leið því búið væri að samþykkja þetta í sameiginlegu EES nefndinni. Við erum sem sagt í þeirri stöðu að ef einhvern óþekktur embættismaur í Brussel réttir andmælir ekki á nefndarfundi, þá er Alþingi og þjóðin föst í netinu. Slíkt "stjórnarfar" er afbökun á öllu því sem stjórnarskráin og lýðræðislegt fyrirkomulag miða að.
Frumvarpið um bókun 35 miðar auk þess að því að íslenskir dómstólar hafi ekkert túlkunarvald um þær ótal reglur EES réttar sem frumvarpið vísar til.
Svar: Þetta er rétt. Bókun 35 í EES samningnum geymir áætlun um það að íslenskir dómstólar hafi hlutverki að gegna við að túlka lögin og leita samræmingar ef íslenskur réttur stangast á við EES rétt. Þetta var skrifað svona inn vegna fullveldissjónarmiða, þ.e. samningamenn Íslands árið 1992-1993 vissu að ekki væri hægt að taka dómsvaldið frá Íslandi. Það er nú reynt að gera án þess að tala um það. Þess í stað tala þingmenn nú eins og EES sé mikilvægari en allt annað og að við "verðum" þess vegna að gera það sem okkur er skipað að gera. Þessu höfnuðu íslensk stjórnvöld í meira en 30 ár, sbr. m.a. minnisblað frá utanríkisráðuneytinu frá 2021, sjá hér: https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Utanrikisraduneytid/PDF-skjol/Samskipti%20vi%c3%b0%20Eftirlitsstofun%20EFTA%20vegna%20athugunar%20stofnunarinnar%20%c3%a1%20innlei%c3%b0ingu%20b%c3%b3kunar%2035%20%c3%a1%20%c3%8dslandi_20250217.pdf?fbclid=IwQ0xDSwK8-E9leHRuA2FlbQIxMQABHjU4JHNPu9KSH1R5HRKKxvmfCIShtq7e28GQcKaGX8D86QSlewXmR36JlBfK_aem_ybkXfrhyrwHALLo0FeosYg
Kæri Gloom, ég vona að þetta hjálpi þér að færast nær einhvers konar skilningi, út úr fordómum þínum, þröngsýni og kreddum. Góð kveðja, Arnar.
Arnar Þór Jónsson, 23.6.2025 kl. 07:58
Þú hefur greinilega ekki lesið frumvarpið, eða velur að fara frekar með rangt mál. Tvö lítil dæmi: Það er hvergi minnst á ESB í frumvarpinu. Og Alþingi getur samkvæmt frumvarpinu sett lög sem ganga gegn EES.
# Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. #
Glúmm (IP-tala skráð) 23.6.2025 kl. 12:23
Elsku vinur, ég skil sífellt betur hvers vegna þú felur sjálfan þig á bakvið dulnefni. Ef ég væri svona vitlaus myndi ég gera hið sama. EES stendur fyrir samning sem gildir milli ESB og 3ja EFTA ríkja, þ.m.t. Íslands. Þetta eiga allir að vita. Sömuleiðis mega nú allir vita að EES er ekki eiginlegt samstarf, heldur er það ESB sem setur reglurnar og hin innleiða. Af þessu leiðir að ef Alþingi setur lög gegn EES skyldum, þá myndi það framkalla samningsbrotamál og líklegast alls kyns skaðabótamál. Með öðrum orðum: Alþingi getur sett lög sem ganga gegn EES ... en myndi auðvitað aldrei gera það. Það er hinn kaldi raunveruleiki sem þú sérð kannski ekki ofan í holunni þinni þar sem þú felur þig.
Arnar Þór Jónsson, 23.6.2025 kl. 13:17
Talandi um fólk með lítið vit. Það eru semsagt rangfærslur hjá þér og þú viðurkennir það, en telur það í lagi vegna þess að þú sért þeim gáfum gæddur að geta spáð fyrir um vilja Alþingis um alla ókomna framtíð.
Þær eru djúpar pólitísku holurnar sem menn grafa þegar rök fyrir lygum eru sótt í eigin spádóma.
Glúmm (IP-tala skráð) 23.6.2025 kl. 14:16
Það eru engar rangfærslur í textanum. Það sjá allir sem lesa textann og samskiptin hér að ofan. Með samþykki frumvarpsins um bókun 35 væri Alþngi að binda hendur sínar og veikja stöðu sína. Það er ekki spádómur heldur staðreynd.
Arnar Þór Jónsson, 23.6.2025 kl. 14:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.