2.7.2025 | 08:57
Veitum strandveiðisjómönnum það frelsi sem þeir þurfa
Í mínum huga og margra annarra er strandveiðisjómaðurinn táknmynd hins frjálsa manns. Það er draumi líkast að sigla sínum eigin báti út á miðin og sameina í eitt tvær af innstu tilhneigingum sérhvers karlmanns, þ.e. veiðiþrána og veðmálabakteríuna, því val á veiðistað er ávallt nokkurs konar veðmál. Því miður hafa yfirvöld á Íslandi gengið of langt í frelsisskerðingunni á þessu sviði eins og öllum öðrum. Strandveiðisjómenn mega aðeins veiða 12 daga í mánuði, þá fjóra sumarmánuði sem í boði eru, en auk þess er bannað að róa föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Þessu til viðbótar eru strandveiðar bannaðar á "rauðum dögum", þ.e. 1. maí, uppstigningardag, annan í hvítasunnu, 17. júní og á frídegi verslunarmanna. Afleiðingin af þessari forsjárhyggju stjórnvalda er sú að sjómennirnir okkar þurfa stundum að taka óhæfilega áhættu með því að róa á dögum þar sem aðstæður eru mjög krefjandi og hættulegar. Fengju strandveiðisjómenn fullt frelsi um val á þeim dögum sem þeir nota til að sækja sinn afla á miðin, þá yrði um leið dregið stórlega úr líkum á hörmulegum sjóslysum eins og því sem varð í Patreksfirði í fyrradag. Magnús Þór Hafsteinsson sem lést slysinu var mætur maður. Aðstandendum hans er vottuð samúð. Vonandi verður ótímabært andlát hans til þess að gerðar verða löngu tímabærar breytingar á regluverki um strandveiðar og frelsið til þeirra aukið, í anda Magnúsar og allra annarra sem bera frelsisþrána í brjósti.
Athugasemdir
Ef 3 gömul vindstig, hægur vindur, gola, er strandveiðibátum svona hættuleg ætti frekar að herða reglur um ástand og útbúnað bátanna en að fjölga þeim dögum sem hobbísjómenn fá til að leggja sig í lífshættu og tæma sjóði björgunarsveita. Setja jafnvel bann á veiðar þegar vindur fer yfir 5m/s.
Glúmm (IP-tala skráð) 2.7.2025 kl. 12:46
Þú veist ekkert hvað þú ert að tala um frekar en fyrri daginn Gloom. Kynntu þér hvernig veðrið var og sjólag þegar slysið varð áður en þú þvaðrar út í bláinn.
Arnar Þór Jónsson, 2.7.2025 kl. 14:08
Glúmm (IP-tala skráð) 2.7.2025 kl. 14:56
Gloom, það var kröpp bára og brot í henni og straumurinn á móti vindáttinni. Þú þorir ekki að koma fram undir nafni en treystir þér til að leggja mat á sjólag vestur á fjörðum út frá veðurkorti og heimtar fleiri reglur, bönn og höft, frá blekiðjubákninu fremur en að treysta vönum og staðkunnugum mönnum til að ráða því hvenær þeir róa og hvenær ekki. Guð blessi þig.
Arnar Þór Jónsson, 2.7.2025 kl. 16:23
Það var ekkert að veðri eða sjóalagi, enda allir koppar á sjó og enginn annar varð fyrir neinu alvarlegra en smá sólbruna. Og nafn mitt breytir engu um það.
Það er nokkur mótsögn í því að kenna umhverfisþáttum um dauða á vönum og staðkunnugum manni en segja svo að treysta skuli vönum og staðkunnugum mönnum til að ráða því hvenær þeir róa og hvenær ekki. En skeður oft þegar menn kríta hratt og liðugt án allrar hugsunar.
Þú ættir að halda þig við hæpnar túlkanir á stjórnarskrá, lögum og frumvörpum. Því þessi tilraun þín til að nota þennan sorgaratburð til að slá einhverjar pólitískar keilur er þér bara til skammar. Guð hjálpi þér.
Glúmm (IP-tala skráð) 2.7.2025 kl. 17:14
Gloom, vinsamlegast hættu að tjá þig um það sem þú veist ekkert um. Hér skrifar strandveiðimaður lýsingu á aðstæðum í gær á fb vegg minn, aðspurður hvort vont hafi verið í sjóinn. Hann svarar: "já - kaldi meðfram vestfjarðakjálkanum og leiðinleg alda - ekki gott fyrir lítinn bát."
Arnar Þór Jónsson, 2.7.2025 kl. 17:39
Einhvernvegin treysti ég bókfærðum staðar athugunum og mælingum veðurstofunnar betur en minni og mati einhvers fylgjenda þíns á facebook sem enginn veit hvort var nokkurn staðar nálægt.
Glúmm (IP-tala skráð) 2.7.2025 kl. 18:09
Þú afhjúpar fordóma þína og fákænsku í hverjum einasta pósti. Sá sem skrifaði þessa lýsingu er þaulreyndur sjómaður, sem stundað hefur strandveiðar lengur en þú hefur falið þig á bakvið nafnleynd. Þú mátt halda áfram að treysta veðurstofunni og hvers kyns kennivaldi sem vill stjórna og stýra úr fjarlægð. Ég tek meira mark á fólki sem þekkir aðstæður af eigin raun. Þú aðhyllist valdboð að ofan. Ég vil að fólk fái að ráða sér sjálft, þ.m.t. hvenær það fer á sjó - og að ríkið sé ekki að skerða það svigrúm með ferköntuðum bannreglum sem eru úr tengslum við raunveruleikann.
Arnar Þór Jónsson, 2.7.2025 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.