7.7.2025 | 09:40
25 cm árið 1993, 4 hillumetrar nú.
Íslenskir stjórnmálamenn virðast flestir haldnir einhvers konar EES-blæti og tala eins og allt muni fara hér á hvolf ef við "virðum" ekki "skuldbindingar okkar" samkvæmt samningnum. Svona hefur m.a. nýr formaður Sjálfstæðisflokksins talað í ræðustól Alþingis um frumvarpið um bókun 35.
Frammi fyrir þessu skulum við hafa eitt á hreinu: Ísland gerði efnahagslegan samning við EB árið 1993. Á þeim forsendum taldist EES naumlega standast kröfur stjórnarskrárinnar, þar sem valdaframsal samkvæmt samningnum væri takmarkað og á afmörkuðum sviðum.
Nú hefur gagnaðilinn stökkbreyst í pólitískt bandalag (ESB) sem gerir sífellt auknar pólitískar og lagalegar samræmingarkröfur til Íslands.
Þegar Íslendingar gerðu samninginn er áætlað að heildarregluverkið sem Íslendingar bjuggu við hafi verið 4-5 þúsund blaðsíður (25 cm. í bókahillu). Nú, rúmlega 30 árum síðar, er áætlað er blaðsíðufjöldi regluverksins sé á bilinu 60-80 þúsund (4 hillumetrar!). Inni í þessu eru þúsundir lagalegra "skuldbindinga" sem Íslendingar hafa undirgengist blindandi, þ.e. án nægilegrar umræðu og án viðeigandi aðgæslu, enda er viðurkennt að hagsmunagæsla Íslands hafi ekki verið nándar nærri góð.
EES er ekki heilög kýr. Löngu er tímabært að gerð sé heiðarleg úttekt á kostum samningsins og göllum, þ.m.t. óhagræði fyrirtækja af því að búa við flókið og ógagnsætt regluverk - og þeim göllum sem í því felast að reglur sem gilda hér séu samdar erlendis og að íslensk stjórnmál séu í hugrænni gíslingu erlendra stofnana, sem gera kröfu um það að Íslendingar (og þó sérstaklega íslenskir stjórnmálamenn) endurtaki í sífellu að okkur "beri" að "virða skuldbindingar okkar samkvæmt EES" sem þanist hafa út eftir að samningurinn var undirritaður og enginn íslenskur stjórnmálamaður sér lengur til botns í.
P.S. Öldum saman létu menn sér duga 10 boðorð - og ef menn hefðu vit á því (og siðferðilegt þrek til) að fylgja þeim reglum sem þar birtast, þá værum við laus við sífellt uppnám og æsifréttir, skrifræðisbákn væru óþörf og lífið vafalaust talsvert einfaldara!
Athugasemdir
Það sem er gott fyrir fólkið, Íslendinga, er ekki málið í þessu.
Augljóst að ríkjasamband sem krypplar sjálft sig með ólögum er ekki eitthvað sem nokkur ætti að sækjast eftir.
Menn vilja í embættin, sýnekúrurnar.
Andskotinn hirði Ísland á meðan.
Ásgrímur Hartmannsson, 7.7.2025 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning