8.7.2025 | 10:31
Ætlum við að bregðast komandi kynslóðum?
- Stjórnarskrá lýðveldisins byggir á þeim grunni að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni. Í þessu felst m.a. að lögin stafa frá vilja þjóðarinnar en ekki geðþótta valdhafa.
- Þetta er til áminningar um að ríkisvaldið skal vera takmarkað: Sömu aðilar mega ekki semja lögin / setja þau og framkvæma lögin.
- Handhafar valdsins bera ábyrgð gagnvart valdhafanum, sem er íslenska þjóðin (ekki ESB / Nato / SÞ).
- Vald sem ekki er takmarkað umbreytist, fyrr eða síðar, í óheft vald sem ógnar öllu og öllum.
- Samkvæmt íslenskri réttarhefð eru lögin sett til að stuðla að réttlæti (að hver og einn fái það sem hann verðskuldar). Á sama grunni miðar málsmeðferð fyrir dómi að því að leita sannleikans.
- Stjórnarskráin var sett til að setja ríkisvaldinu skorður og reisa varnargarða í kringum frelsi borgaranna.
- Stjórnarskráin miðar þannig að því að koma í veg fyrir að ríkisvaldið setji reglur og noti þær til að berja á almenningi.
- Nú standa Íslendingar frammi fyrir því að verið er að reyna að umbylta lögum Íslands og stjórnarfari með því að framselja lagasetningarvaldið frá kjörnum fulltrúum Íslendinga á Alþingi til starfsmanna hjá framkvæmdavaldi ESB í Brussel.
- Sjálfstæði, sjálfsstjórn, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur: Allt þetta byggir á þeirri undirstöðu að ENGIR AÐRIR en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar (valdhafans) semji og setji lögin í landinu, m.ö.o. að ALLT LÖGGJAFARVALD sé í höndum kjörinna þingfulltrúa þjóðarinnar.
- Þetta byggir á þeirri undirstöðu að lögin stafa frá fólkinu í landinu ekki frá geðþótta valdhafans. Ætli menn að hörfa af þessum grunni, þá ráðum við ekki lengur okkar eigin för.
- Forn meginregla í germönskum rétti, sem á sér samsvörun í kirkjurétti o.fl., er að sá sem fer með vald í umboði annarra (þingmenn í umboði þjóðarinnar) getur ekki framselt það vald í hendur annars manns (t.d. til ESB), sbr. lat. Delegata potestas non potest delega). Þetta þýðir m.ö.o. að Alþingi hefur ekkert umboð til að víkja sér undan ábyrgð sinni gagnvart umbjóðanda sínum / valdhafanum / þjóðinni og framselja erlendri valdastofnun lagasetningarvald sitt.
- Niðurstaða: Þjóðin getur ekki orðið bundin af öðrum lögum en þeim sem sett eru af kjörnum fulltrúum hennar.
Við sem nú lifum höfum enga heimild til að skerða frelsi komandi kynslóða, veikja stjórnarfarið í landinu, skemma lykilstofnanir lýðveldisins, grafa undan frelsi Íslendinga og möguleikum afkomenda okkar til sjálfsákvörðunar.
Athugasemdir
Stjórnarskrá lýðveldisins mætti e.t.v. í hálfkæringi túlka þannig að hún byggi á þeim grunni að vald ríkisins sé veitt af þjóðinni. En þjóðin færir vald frá einum stjórnvöldum til þeirra næstu við hverjar Alþingiskosningar, og úrskurð Alþingis, en hefur sjálf aldrei neitt annað vald. Samkvæmt stjórnarskránni er valdið aldrei hjá þjóðinni og þjóðin ekki með neitt boðvald yfir þingmönnum og ráðherrum.
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Vilji þjóðarinnar á ekki að stýra athöfnum þingmanna og ráðherra.
Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi. Rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafa alþingismenn og ráðherrar. Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.
Í öllu þessu felst greinilega að lögin stafa frá vilja þingmanna og ráðherra en ekki vilja þjóðarinnar. Handhafar valdsins bera ábyrgð gagnvart valdhafanum, sem eru þeir sjálfir. Þjóðin er ekki valdhafi þó hún kjósi hverjir fari næst með valdið, ef Alþingi leyfir.
P.s. Þjóðin er ekki og verður ekki bundin af öðrum lögum en þeim sem sett eru af kjörnum fulltrúum hennar, sama hvert hægt er að rekja uppruna þeirra laga. Ekki er verið að reyna að umbylta lögum Íslands og stjórnarfari með því að framselja lagasetningarvaldið frá Alþingi til ESB, ekkert framsal á sér stað. Sjálfstæði, sjálfsstjórn, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur: Allt þetta byggir á þeirri einu undirstöðu að Alþingi setji lögin í landinu. Sjálfstæði, sjálfsstjórn, fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur byggja ekki á því að öll lög séu samin innan landhelgi og eigi sér ekki neinar fyrirmyndir utan hennar.
Glúmm (IP-tala skráð) 8.7.2025 kl. 18:29
Mikið svakalega ertu ruglaður. Ertu fyrrverandi þingmaður Pírata?
Arnar Þór Jónsson, 8.7.2025 kl. 21:17
Því miður þá virðist allt hér á hraðri leið í hund og kött, eins og sagt var einhvern tíma.
Viktoría Nuland viðurkenndi að Bandaríkjamenn hefðu greitt fimm billjón dollara í stuðning við stjórnarbyltinguna í Úkraínu 2014.
Hve hátt hlutfall íslenskra þingmanna gæti staðist svona einnar milljóna evru greiðslu, svarta og sykurlausa fyrir réttu sannfæringuna þegar á reynir? – spyr ég nú bara í einfeldni minni, en þannig virðast kaupin gerð nú til dags á eyrinni.
En ég hvet þig til að halda ótrauður þínu striki, Arnar Þór.
Jónatan Karlsson, 9.7.2025 kl. 06:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.