Lágpunktur í sögu Alþingis: Óvirðing við lýðræðislegar hefðir, gegn stjórnarskrá, trúnaðarbrot gagnvart kjósendum.

Frumvarpið um bókun 35 er líklega mesti smánarblettur sem fallið hefur á Alþingi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. 

Útskýring: Þingmenn fara með löggjafarvald í umboði íslensku þjóðarinnar og eru þannig í raun umboðsmenn kjósenda sinna, kosnir til að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi. Eins og aðrir umboðsmenn starfa þingmenn á grunni persónulegs trausts, þ.e. þeim hefur verið treyst fyrir þessari ábyrgð á grundvelli þess að þingmaðurinn auðsýni heilindi, noti alla sína dómgreind og svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum sínum. (Þetta á einnig við um varaþingmenn sem kjörnir hafa verið til að koma inn á Alþingi í forföllum þingmanna). 

Grundvallarregla í íslenskum, norrænum, engil-saxneskum og Rómarrétti, er sú að umboðsmaður getur ekki afhent umboð sitt öðrum manni án yfirlýsts samþykkis umbjóðandans (í þessu tilviki kjósandans). 

Þetta þýðir að þingmenn geta ekki afhent öðrum umboð til að koma fram sem handhafar íslensks löggjafarvalds. Þeim er m.ö.o. óheimilt að afhenda öðrum vald til að taka þátt í umræðum um fyrirhuguð lög, þeim er óheimilt að afhenda öðrum vald til að kjósa um lög sem eiga að gilda á Íslandi og þeim er óheimilt að afhenda öðrum ákvörðunarvald um efni og innihald lagareglna sem gilda eiga hérlendis. 

Ástæðan er sú að allar þessar skyldur verða þingmenn að annast persónulega enda hafa þeir verið persónulega kosnir til þess - og bera persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum á grundvelli þess trausts sem kjósendur hafa sýnt þeim. Lög um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 undirstrika þetta: Enginn má taka til máls í umræðum á Alþingi nema þeir sem löglega hafa verið kjörnir til þingmennsku.  

Í stuttu máli snýst þetta um persónulega ábyrgð þingmanna við kjósendur sína, um virðingu við lýðræðislegar hefðir, um aldagamlar meginreglur laga um hlutverk og skyldur umboðsmanna - og síðast en ekki síst - um það drengskaparheit sem þingmenn hafa sjálfir undirritað, sbr. 47. gr. stjskr., sem felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. 

Allt er þetta til áminningar um og staðfestingar á að frumvarpið um bókun 35 er hreinasta ósvinna, dónaskapur við kjósendur, ósvífni gagnvart lýðveldinu, óvirðing við stjórnarskrána, brot á þeim skyldum sem þingmenn (og ráðherrar) hafa persónulega skuldbundið sig til að sinna og virða. 

 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Í þessari grein stjórnarskrárinnar felst það að alþingismenn eru ekki umboðsmenn kjósenda sinna, kosnir til að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi. Ég vona að það sé ekki lýðræðisleg hefð að vinna eið að stjórnarskránni og starfa svo ekki eftir því sem hún segir. Allt tal um umboðsmenn, persónulegar skuldbindingar og lýðræðislegar hefðir eru því merkingarlaust lýðskrum, vísvitandi tilraun til blekkinga, sem á sér enga stoð í stjórnarskrá og ganga jafnvel gegn henni.

Glúmm (IP-tala skráð) 9.7.2025 kl. 11:52

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Gloom, stjórnarskrárgjafinn lítur á hvern alþingismann sem umboðsmann þjóðarheildarinnar, en ekki fulltrúa tiltekins kjördæmis eða stjórnmálaflokks. Þetta þýðir að þingmenn bera trúnaðarskyldur gagnvart íslensku þjóðinni, en ekki við erlendar stofnanir. Í slíku trúnaðarsambandi geta menn ekki vikið sér undan hlutverki sínu með því að reyna að framselja umboð sitt til að semja lög, taka þátt í umræðum og greiða atkvæði um lög. Hitt er jafnljóst að í öllum stærri málum hljóta allir þingmenn að hafa samráð við sína kjósendur og svara til ábyrgðar gagnvart þeim, því mörgu hefur verið lofað í aðdraganda kosninga, m.a. um hollustu við kjósendur, sem er í samræmi við inntak lýðræðis, en auk þess hafa þingmenn unnið það heit að verja og vernda stjórnarskrána.

Arnar Þór Jónsson, 9.7.2025 kl. 13:17

3 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Ólafur Jóhannesson lagaprófessor notaði þetta orðalag, þ.e. að alþingismenn væru "umboðsmenn þjóðarheildarinnar".

Arnar Þór Jónsson, 9.7.2025 kl. 13:33

4 identicon

Hvað Ólafur Jóhannesson fyrrverandi þingmaður og ráðherra sagði, e.t.v. til að reyna að binda hendur pólitískra andstæðinga, hefur ekki sama vægi og það sem stendur svart á hvítu í stjórnarskránni. Ég tek meira mark á stjórnarskránni sjálfri en því sem pólitíkusar segja að standi þar en geta samt ekki bent á neitt þar í máli sínu til stuðnings. Sama á við um lýðskrumara og frumvörp sem þeir geta ekki vitnað beint í máli sínu, skáldskap sínum, til stuðnings. 

Glúmm (IP-tala skráð) 9.7.2025 kl. 14:13

5 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Gott að vita að þú sért tilbúinn að taka við fræðimannskeflinu af Ólafi Jóhannessyni. Aldeilis ekki amalegt að fá slikan speking í hans stað sem notar eina lögskýringarreglu, þ.e. að túlka allt sér í hag. 

fyrir mitt leyti (og Ólafs) segi ég og skrifa: Alþingismenn eru umboðsmenn þjóðarheildarinnar á löggjafarþingi Íslendinga.  

Arnar Þór Jónsson, 9.7.2025 kl. 14:45

6 identicon

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Þetta er ekki túlkun,"eingöngu bundnir við sannfæringu sína". þetta er ein grein stjórnarskrárinnar. Og það mjög skýr grein. Heimspekilegar sturtupælingar um umboð og skyldur breyta engu um það og ógilda ekki greinina.

Þú mátt trúa hverju sem er og öllu sem sagt er í pólitískum tilgangi, til að slökkva á hugsun og kalla fram tilfinningar, í áróðurs, hátíðar eða lofræðum. Reyndu bara að ruglast ekki svona oft á því og því sem stendur svart á hvítu. Það þarf hvorki að vera fræðimaður né spekingur til að sjá mun á því sem stendur og því sem margir vildu að stæði en stendur ekki. Þú ættir að geta ráðið við það.

Glúmm (IP-tala skráð) 9.7.2025 kl. 16:25

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband