12.7.2025 | 09:02
Takk fyrir að hlusta.
Alþingismenn eru kjörnir sem umboðsmenn þjóðarinnar til að annast lagasetningu og geta því ekki framselt löggjafarvaldið áfram til erlendra stofnana nema með skýru og fyrirframgefnu umboði kjósenda. Slíkt umboð hefur hvorki verið gefið né fengið og því eru þingmenn umboðslausir til að samþykkja frumvarpið um bókun 35. Líkja má þessu við að lögmaður eða endurskoðandi framseldi vald umbjóðanda síns án heimildar frá umbjóðandanum slíkt væri einfaldlega ógilt. Á nánari umfjöllun um þetta má hlusta með því að smella á þetta viðtal síðan í gær, sem finna má hér.
Athugasemdir
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Segir í stjórnarskránni. Hvergi er minnst á að þeir séu umboðsmenn bundnir vilja kjósenda. Það er bara eitthvað sem menn segja til að reyna að binda hendur pólitískra andstæðinga og er andstætt stjórnarskránni. Það væri einskonar stjórnarskrárbrot ef alþingismenn færu að vinna sem umboðsmenn frekar en að fara eftir sinni sannfæringu. Stjórnarskráin leggur þá skyldu á herðar alþingismanna að þeir starfi ekki sem umboðsmenn heldur aðeins eftir sinni sannfæringu.
Í frumvarpinu um bókun 35 er ekkert valdaframsal. Það fjallar um það þegar Íslensk lög stangast á við önnur Íslensk lög þá hafi lög með vissan uppruna forgang ákveði Alþingi Íslendinga ekki annað. Allt vald er áfram hjá Alþingi. Alþingi Íslendinga setur öll lögin, Alþingi Íslendinga ákveður hver þeirra hafi forgang og Íslenskir dómstólar dæma eftir þeim Íslensku lögum.
Glúmm (IP-tala skráð) 12.7.2025 kl. 12:59
Gloom, þú verður að leita þér hjálpar annars staðar en hér, en ég bendi þér á að við búum hér í svokölluðu fulltrúalýðræði, þar sem þignmenn eru í hlutverki fulltrúa okkar á grundvelli umboðs sem kjósendur hafa veitt þeim. Eins og aðrir umboðsmenn hafa þeir svigrúm til athafna innan marka umboðsins - og þingmenn innan takmarka þess drengskaparheitis sem þeir hafa unnið að stjórnarskránni.
Í sögulegu samhengi má vissulega finna dæmi um menn sem litið hafa á vald ríkisins sem eitthvað sem þeim leyfist að ráðstafa að eigin vild, sbr. Lúðvík 14. sem sagði "Ríkið, það er ég", en það er leitt að sjá fólk básúna þetta hugarfar í dag. En kannski skiljanlegt þegar haft er í huga að þú "skreytir" gerviprófílinn þinn með hakakrossi.
Arnar Þór Jónsson, 12.7.2025 kl. 16:32
1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Ekki Ísland er lýðveldi með fulltrúalýðræði sem starfar sem umboðsmenn kjósenda. Stjórn er annað en umboð. Alþingismenn starfa með stjórnvaldi en ekki umboði.
48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.
Stjórnarskráin er dönsk að uppruna. Það er sennilega þess vegna sem þú hafnar því sem hún segir, telur það líklega vera valdaframsal. Alþingismenn eru samt eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Skrúðmælgi og heimspekilegar pælingar breyta engu um það.
Ég, eins og allir óskráðir notendur blog.is, ræð engu um hvaða skraut síðan setur við það sem ég skrifa. Breyti ég einum staf breytist sennilega myndin, best að prufa.
Glumm (IP-tala skráð) 12.7.2025 kl. 17:14
Sennilega þarf annað netfang til að breyta skrautinu.
Glúmm (IP-tala skráð) 12.7.2025 kl. 17:16
Veistu hvað "þingbundin stjórn" merkir? Þegar þú hefur skoðað það geturðu komið aftur og vonandi lagt eitthvað gáfulegra til málanna. Danska stjórnarskráin er að mig minnir belgísk að uppruna og sú belgíska er frönsk að uppruna og sú franska rekur rót sína til Bandaríkjanna og bandaríska sjálfstæðisyfirlýsingin rekur rót sína aftur til atburða í Bretlandi á 17. öld og þeir atburðir lituðust af hefðum sem rekja mátti aftur til Magna Carta á 13. öld og Magna Carta átti rót sína í breskri lagahefð sem átti rót sína að rekja til germanskrar lagahefðar sem er sú sama og íslenska þjóðveldið byggðist á. Þetta gæti verið mun lengri frásögn, en punkturinn er sá að þótt einn valdboðssinnaður einstrengingur eins og þú þykist geta lesið það út úr einu stjórnarskrárákvæði að þingmenn geti brotið hefðir, vikið sér undan skyldum sínum, farið á bak orða sinna, farið gegn lögum, stjórnarskrá og eigin drengskaparheiti og fært vald almennings til erlendra stofnana í umboðsleysi, þá talar stjórnskipunarhefðin öðru máli og af henni eru menn bundnir, m.a.s. kjánar eins og þú.
Arnar Þór Jónsson, 12.7.2025 kl. 18:21
Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Hefðir, siðir og venjur sem krefjast annars eru stjórnarskrárbrot. Stjórnarskráin trompar hefðir, siði og venjur.
Skylda alþingismanna er að fara eftir sinni sannfæringu en ekki einhverra annarra.
Loforð stjórnmálamanna hafa hingað til ekki þótt vera heilög og sennilega fleiri brotin en haldin.
Ég hef hvergi mælt með því að alþingismenn fari gegn lögum, stjórnarskrá og eigin drengskaparheitum. Ég læt þig um það.
Ég læt mér nægja að benda á hvað stjórnarskráin segir og hvert innihald frumvarpsins um bókun 35 er, þú virðist frekar fáfróður um hvort tveggja.
Glúmm (IP-tala skráð) 12.7.2025 kl. 19:00
Ég skil. Stjórnspekingurinn Gloom hefur talað. Þingmenn geta umbylt gamalgrónum túlkunarhefðum á grundvelli bókstafstúlkunar Glooms. Kærar kveðjur til hinna píratanna.
Arnar Þór Jónsson, 12.7.2025 kl. 19:42
Frumvarpið sem er kennt við bókun 35 felur ekki í sér framsal löggjafavalds Alþingis eins og Glúmm bendir réttilega á, heldur beitingu þess. Það snýst nefnilega ekki um neinar reglur sem eru settar af ESB heldur eingöngu lög sem Alþingi sjálft hefur sett í því skyni að fylgja 7. gr. EES-samningsins sem hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 2/1993. Þegar Alþingi fer eftir íslenskum lögum er það ekki að brjóta þau heldur framfylgja þeim.
Jafnvel þó frumvarpið hefði í för með sér framsal löggjafarvalds væru þau áhrif "að vettugi virðandi" þar sem það myndi stangast á við stjórnarskrá. Að leysa úr því hvort svo sé er í verkahring dómstóla og ef þeir kæmust að þeirri niðurstöðu að ákvæði frumvarpsins samræmdist ekki stjórnarskrá yrði einfaldlega litið framhjá því í réttarframkvæmd. Þess vegna eru áhyggjur af því að þetta leiði til framsals löggjafarvalds óþarfar enda hlýtur Hæstarétti Íslands, sem hefur margítrekað í dómaframkvæmd sinni að gerðir ESB hafi sem slíkar ekkert lagagildi hér á landi heldur eingöngu lög sem Alþingi hefur sett, að vera treystandi til að fylgja sínum eigin fordæmum í þeim efnum ef á þetta reynir.
Ég vil því leggja til að fólk sem er þeirrar skoðunar að frumvarpið feli í sér framsal löggjafarvalds sem samræmist ekki stjórnarskrá hefji undirbúning að því að láta reyna á þetta álitefni fyrir dómstólum þegar frumvarpið hefur verið samþykkt. Það er rétti vettvangurinn til þess og fólk sem er þeirrar skoðunar hefur fullan rétt að á leita viðeigandi úrlausnar um álitaefnið.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.7.2025 kl. 21:57
Guðmundur, að mæla fyrir um almenna reglu þess efnis að skuldbindingar samkvæmt EES (sem nú telja í þúsundum) skuli ganga framar öðrum lögum frá Alþingi er víst framsal á löggjafarvaldi - og það er hrein afneitun að viðurkenna það ekki.
Nú hefur þú sjálfur sem starfsmaður Flokks fólksins horft upp á bremsulausa innleiðingu á öllu sem kemur frá Brussel og þér er einnig ljóst að hvaða afleiðingar það hefur að mæla fyrir um almennan forgang. Sé erfitt fyrir Alþingi nú að setja lög gegn EES reglum, þá verður það óhugsandi eftir samþykki frumvarpsins, því auk samningsbrotamála mættum við þá líka búast við skaðabótamálum á hendur íslenska ríkinu.
Það að þú skulir láta þér detta í hug að varpa eigi þessari heitu kartöflu yfir til dómstóla er til marks um algjöra uppgjöf af þinni hálfu og viðleitni til að koma ábyrgðinni á þessari óhæfu yfir á dómstóla. Alþingi leyfist ekki að stunda slík vinnubrögð.
Arnar Þór Jónsson, 12.7.2025 kl. 22:16
Sæll Arnar.
Ég hef ekki áhuga á að að standa í neinum átökum við þig um afstöðu til málsins enda virði ég rétt allra til að hafa sína eigin skoðun á því og þú hefur komið þinni skoðun vel á framfæri sem er í góðu lagi. Það eina sem vakir fyrir mér er að draga fram staðreyndir málsins en svo læt ég öðrum eftir að draga sínar eigin ályktanir af þeim og móta sér afstöðu eftir því.
Ekki eru allir á einu máli um hvort frumvarpið feli raunverulega í sér það framsal valds sem sumir hafa áhyggjur af eða ekki. Ég vildi einfaldlega benda á eðlilega leið til að láta reyna á það álitaefni. Eins og ég lærði sjálfur í mínu námi og þú kannast væntanlega við er það í verkahring dómstóla eða skera úr um það hvort tiltekin lagasetning standist stjórnarskrá eða ekki.
P.S. Ég var vissulega starfsmaður þingflokks á fyrri helmingi síðasta kjörtímabils en ekki lengur svo því sé haldið til haga. Síðan þá hef ég starfað á öðrum og ótengdum vettvangi við hagsmunagæslu venjulegs fólks sem þarf aðstoð við að gæta réttinda sinna. Með stolti og um leið af auðmýkt.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.7.2025 kl. 23:12
Takk fyrir Guðmundur. Ég óska þér allra heilla og velgengni á nýjum vettvangi. Vilji menn hafa staðreyndirnar með í för þegar kemur að umræðu um bókunarfrumvarpið þá eru hér nokkrar til íhugunar fyrir lesendur:
1. Íslendingar gerðust aðilar að EES í þeirri trú að þeir væru að gera viðskiptasamning.
2. Nú hefur samningurinn umbreyst í samning sem virðist eiga að vera grunnur að einhvers konar pólitískri og lagalegri sameiningu á sviðum sem eru fjarlæg fyrstu útgáfu EES.
3. Eins og mál hafa þróast er vart hægt að tala lengur um samstarf. Nær væri að tala um einstefnu, þar sem ESB leggur línurnar / semur reglurnar og Ísland samþykkir - ýmist með eða án heimatilbúinna viðauka (blýhúðun).
4. ESB gerir kröfu um réttareiningu (Gleichschaltung). Í þvi felst að aðildarþjóðir verði að lúta einu sameiginlegu heildrænu regluverki.
5. Vandamálið er að Ísland hefur aldrei gerst aðili að ESB - og þarf að breyta stjórnarskrá áður en slíkt getur gerst.
6. Á meðan þrýstingurinn eykst frá ESB verður áhrifaleysi og valdaleysi Íslands sífellt meira áberandi - og pínlegra fyrir þá sem enn reyna að halda uppi Pótemkín-tjöldum um að Ísland hafi einhver raunveruleg áhrif en sé ekki eins og (tæplega 400þ manna) korktappi í (400M manna) úthafi.
7. Ísland hefur aldrei beitt samningsbundnu neitunarvaldi. Þegar slíkt hefur verið ávarpað hefur því verið svarað af hálfu ESB með þjósti og hótunum þannig að ráðamenn Íslands hafa koðnað niður eins og smákrakkar. Minna má hér á umræður um Orkupakka 3.
8. Kæmi til þess að Ísland beiti neitunarvaldi þá eru ýmsar hótanir hafðar í frami, þar á meðal um samningsrof, samningsbrotamáli og / eða skaðabótamál.
9. Með því að lögfesta efni frumvarpsins um bókun 35 er verið að festa Ísland enn fastar í snöru ESB og girða í raun fyrir að neitunarvaldinu verði beitt. Auk þess er verið að slá út af borðinu alla aðkomu íslenskra dómstóla að þeim reglum sem hér um ræðir.
10. Með frumvarpinu er því í raun grafið undan fullveldisrétti Íslands á tvennan hátt, þ.e. bæði innlendu löggjafarvaldi og innlendu dómsvaldi.
11. Þetta er alþingismönnum þó óheimilt að gera, því þeir hafa ekki heimild til að framselja umboð sitt til erlendra valdastofnana. Alþingismenn hafa verið kjörnir til að fara með íslenskt löggjafarvald, nánar tiltekið til að semja lagareglurnar sem hér eiga að gilda, taka þátt í umræðum um efni reglnana og greiða atkvæði um það hvort reglurnar eigi að öðlast hér lagagildi.
12. Verði frumvarpið um B35 að lögum hér verður almenna reglan sú að erlendar reglur - samdar erlendis af erlendum mönnum sem við höfum aldrei kosið - gildi hér fram yfir íslensk lög frá Alþingi ef þetta tvennt stangast á.
P.S. Öllum heilvita mönnum sem þekkja sögu EES vita að setningin "nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað" er aðeins upp á punt. Alþingi hefur aldrei - og mun aldrei - setja lög sem fara í bága við það sem yfirvaldið í Brussel vill. Vilji menn hins vegar halda slíkum möguleika opnum, þ.e. að Íslendingar geti markað sína eigin braut og haldið óskertu frelsi til að setja sín eigin lög, þá eiga menn að hafa vit á því að binda ekki hendur sínar með því að samþykkja þetta frumvarp.
Arnar Þór Jónsson, 13.7.2025 kl. 07:27
Skyldan til að innleiða reglur sem falla undir EES-samninginn samkvæmt 7. gr. hans hefur verið hluti af íslenskum lögum nr. 2/1993 sem Alþingi setti af eigin frumkvæði en ekki vegna neinnar kröfu frá ESB. Frumvarpið sem nú er rætt um bætir engu efnislega við þessa skyldu heldur aðeins útfærslu á því að ná betur því markmiði að uppfylla hana. Ef Ísland innleiðir ekki slíkar reglur réttilega eða gerir það en setur svo önnur lög sem víkja þeim til hliðar er ríkið brotlegt við EES-samninginn og getur orðið skaðabótaskylt gagnvart þeim sem verða fyrir tjóni af völdum þess. Álveg óháð bókun 35 hefur þetta verið gildandi réttur samkvæmt íslenskum lögum frá 1. janúar 1994.
Það athugist vel að hér er ég alls ekki að fjalla um hvort þetta fyrirkomulag sé gott eða slæmt, á kostum þess og göllum getur hver og einn haft sína skoðun, heldur er ég eingöngu að fjalla um staðreyndir málsins.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.7.2025 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.