12.7.2025 | 21:41
Hlutverk þingmanna
Þessi bloggsíða hefur verið í gangi síðan í janúar 2023 og þjónað ágætlega sem vettvangur hugsunar, tjáningar og samskipta.
Aðalmarkmið mitt hefur verið að leggja lóð á vogarskálar nauðsynlegrar leiðréttingar, því Íslendingar hafa - allt of margir - lagt blint traust á ríkisvaldið og viljað greiða götu slíkrar valdbeitingar, á meðan ég hef í anda klassísks frjálslyndis minnt á að öllu valdi verði að setja mörk. Fyrir það hef ég verið kallaður öllum illum nöfnum, þar sem hófstillt íhald og klassískt frjálslyndi hefur verið jaðarsett af ríkisreknum fjölmiðlum og flokkum hérlendis síðustu ár.
Einn áhugasamasti lesandi þessa bloggs er huldumaður sem aðhyllist allt það sem ég tel verst í stjórnarfari, þ.e. fyrirvaralausan skoðanahroka, andstöðu við málfrelsi, ofurtrú á að sérfræðingar viti betur en jafnvel þeir sem standa næst vettvangi, blint valdboð, fyrirlitningu á öllum hefðum og venjum, vanþekkingu á sögulegum staðreyndum, kommúnisma, ótakmarkað vald og að valdið komi ekki frá almenningi heldur ofan frá og niður. Athugasemdirnar hafa verið svo ógáfulegar, svo illa ígrundaðar, svo þröngsýnar, svo uppfullar af órökstuddum sleggjudómum, að mér er ljóst að hér er ég að sá fræjum í ófrjóan svörð.
En vonandi ná einhver fræ að spíra - og þótt ég sé ósammála athugasemdum og telji þær jafnvel stafa af vanþekkingu, þá hvetja þær mig og kannski aðra til að hugsa og lesa og rifja upp, því öll erum við enn að læra.
Í tilefni af "umræðum" hér um hlutverk þingmanna eru hér nokkrir punktar til íhugunar:
- Alþingi gegnir lykilhlutverki í stjórnskipuninni og í því felst ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldi (bæði í Reykjavík og Brussel) sem verður sífellt ágengara og seilist nú til þess að setja lögin sjálft með tilskipunum og reglugerðum sem Alþingi telur sér skylt að samþykkja og innleiða í íslensk lög.
- Í þessu felst að hlutverk þingmanna er m.a. að verja sjálfstæði Alþingis og valdsvið þingsins samkvæmt stjórnarskrá. (Þeir sem íhuga að styðja frumvarpið um bókun 35 virðast hafa gleymt þessu eða aldrei lært).
- Í kosningum gefst kjósendum tækifæri til að veita þingmönnum endurgjöf vegna starfa þeirra, annað hvort með því að kjósa þá (listann) aftur eða með því að velja annað.
- Af þessu leiðir að þingmenn þurfa að halda sambandi við kjósendur sína, hlusta, heyra hvað brennur helst á fólki, skynja til hvers er ætlast af þingmanninum. Þingmaður sem vanvirðir vilja kjósenda og / eða vanvirðir skyldur sínar við þjóðina getur ekki búist við að fá endurkjör.
- Af þessu leiðir að augljóslega verða þingmenn fyrir alls kyns þrýstingi, bæði frá hagsmunahópum, frá þingflokknum o.fl., en stjórnarskráin (48. gr.) minnir þá á að himinn og haf getur verið milli þess sem tiltekinn hagsmunahópur heimtar og þess sem telja má farsælast fyrir þjóðarheildina.
- Þingmenn eru fyrst og síðast umboðsmenn þjóðarheildarinnar, ekki sérhagsmuna. Meginhlutverk þeirra er að gæta hagsmuna lands og þjóðar, ekki flokkshagsmuna og ekki sinna eigin hagsmuna.
- Í allri umræðu um þjóðarhag þurfa menn að geta lagt mismunandi sjónarmið á vogarskálarnar. Samhliða þurfa menn að geta lagt mat á vægi þeirra röksemda sem settar eru fram. Dæmi: Fjárhagslega hagsmuni þarf að vega á móti sjónarmiðum um fullveldi, borgaralegt frelsi o.s.frv.
- Í nútímapólitík eru fæst mál svart/hvít. Því er mikilvægt að á þingið veljist fólk sem getur séð samhengi hlutanna á hlutlægan hátt og tekið ákvörðun út frá heildarmynd, en ekki út frá þröngsýni, kreddu, sérhagsmunagæslu eða flokkshagsmunum.
Er Alþingi þannig skipað í dag? Því getur hver og einn svarað fyrir sig.
Athugasemdir
Hún er ekki flókin 48. greinin. 48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Ekkert í henni um hagsmunahópa, ekkert um þingflokka og ekkert um að halda sambandi við kjósendur sína. Þar, eða í einhverri annarri grein, er heldur ekkert minnst á að alþingismenn séu umboðsmenn þjóðarheildarinnar. En það er bara stjórnarskráin. Plagg sem Arnar Þór segir að skuli ekki taka bókstaflega. Hann viti betur hvaða reglur skuli gilda, og þær er ekki að finna í stjórnarskránni.
Glúmm (IP-tala skráð) 12.7.2025 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning