Vilji menn hafa staðreyndirnar með í för þegar kemur að umræðu um bókunarfrumvarpið þá eru hér nokkrar til íhugunar fyrir lesendur:
1. Íslendingar gerðust aðilar að EES árið 1993 í þeirri trú að þeir væru að gera viðskiptasamning.
2. Nú hefur samningurinn umbreyst í samning sem virðist eiga að vera grunnur að einhvers konar pólitískri og lagalegri sameiningu á sviðum sem eru fjarlæg fyrstu útgáfu EES.
4. ESB gerir kröfu um réttareiningu (Gleichschaltung). Í þvi felst að aðildarþjóðir verði að lúta einu sameiginlegu heildrænu regluverki.
5. Vandamálið er að Ísland hefur aldrei gerst aðili að ESB - og þarf að breyta stjórnarskrá áður en slíkt getur gerst.
6. Á meðan þrýstingurinn eykst frá ESB verður áhrifaleysi og valdaleysi Íslands sífellt meira áberandi - og pínlegra fyrir þá sem enn reyna að halda uppi Pótemkín-tjöldum um að Ísland hafi einhver raunveruleg áhrif en sé ekki eins og (tæplega 400þ manna) korktappi í (400M manna) úthafi.
7. Ísland hefur aldrei beitt samningsbundnu neitunarvaldi. Þegar slíkt hefur verið ávarpað hefur því verið svarað af hálfu ESB með þjósti og hótunum þannig að ráðamenn Íslands hafa koðnað niður eins og smákrakkar. Minna má hér á umræður um Orkupakka 3.
8. Kæmi til þess að Ísland beiti neitunarvaldi þá eru ýmsar hótanir hafðar í frammi, þar á meðal um samningsrof, samningsbrotamál og / eða skaðabótamál.
9. Með því að lögfesta efni frumvarpsins um bókun 35 er verið að festa Ísland enn harðar í snöru ESB og girða í raun fyrir að neitunarvaldinu verði beitt. Auk þess er verið að slá út af borðinu alla aðkomu íslenskra dómstóla að túlkun og lögskýringum á því réttarsviði sem hér um ræðir.
10. Með frumvarpinu er því í raun grafið undan fullveldisrétti Íslands á tvennan hátt, þ.e. bæði innlendu löggjafarvaldi og innlendu dómsvaldi.
11. Þetta er alþingismönnum þó óheimilt að gera, því þeir hafa ekki heimild til að framselja umboð sitt til erlendra valdastofnana. Alþingismenn hafa verið kjörnir til að fara með íslenskt löggjafarvald, nánar tiltekið til að semja lagareglurnar sem hér eiga að gilda, taka þátt í umræðum um efni reglnana og greiða atkvæði um það hvort reglurnar eigi að öðlast hér lagagildi.
12. Verði frumvarpið um B35 að lögum hér verður almenna reglan sú að erlendar reglur - samdar erlendis af erlendum mönnum sem við höfum aldrei kosið - gildi hér fram yfir íslensk lög frá Alþingi ef þetta tvennt stangast á.
P.S. Öllum heilvita mönnum sem þekkja sögu EES vita að setningin "nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað" er aðeins upp á punt. Alþingi hefur aldrei - og mun aldrei - setja lög sem fara í bága við það sem yfirvaldið í Brussel vill. Vilji menn hins vegar halda slíkum möguleika opnum, þ.e. að Íslendingar geti markað sína eigin braut og haldið óskertu frelsi til að setja sín eigin lög, þá eiga menn að hafa vit á því að binda ekki hendur sínar með því að samþykkja þetta frumvarp.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning