15.7.2025 | 14:04
Umbylting stjórnarfarsins í bága við stjórnarskrá og drengskaparheit
Við undirleik þessarar ríkisstjórnar og hinnar fyrri er að eiga sér stað umbylting á stjórnarfari Íslands, þar sem stjórnarskráin sætir daglegum árásum.
Um þetta hyggst ég skrifa grein og birta í lengra máli, þar sem bent verður á helstu einkenni þess sem hér um ræðir:
- Í orðum og verki tala ráðherrar og þingmenn um EES samninginn sem einhvers konar yfirstjórnarskrá sem þurfi að verja og vernda hvað sem það kostar.
- ESB hefur hlutverk eins konar framkvæmdarvalds (ekki löggjafarvalds) gagnvart Íslandi í gegnum EES samninginn og í því hlutverki eru stofnanir ESB þegar þær semja reglur (stjórnvaldsfyrirmæli) sem ætlað er að gilda hérlendis.
- Almenna reglan í íslenskri lögfræði hefur verið sú að stjórnvaldsfyrirmæli víkja fyrir almennum lögum þar sem þetta tvennt stangast á. Með frumvarpinu um bókun 35 er verið að snúa þessu á hvolf og miðað að því að gera erlend stjórnvaldsfyrirmæli æðri almennum íslenksum lögum ef þetta tvennt stangast á!
- Alþingismenn hafa ekkert umboð til að umsnúa íslenskum rétti á þennan hátt, né heldur til að framselja lagasetningarvald til erlendra manna eða stofnana. Ástæðan fyrir því er tvíþætt: Í fyrsta lagi hafa alþingismenn ekkert umboð til að framselja umboð sitt til annarra án leyfis umbjóðandans, sbr. meginreglur sviði samningaréttar. Í öðru lagi leiðir af stjórnarskránni að enginn má fara með löggjafarvald hérlendis aðrir en þeim sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins og þannig lýst hollustu við lýðveldið Ísland, sjálstæði þess, lands og þjóðar.
![]() |
Vonar að Evróputengd mál verði ofarlega á blaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki rétt að með frumvarpinu sé lagt til að gera stjórnvaldsfyrirmæli æðri almennum lögum. Þvert á móti er tekið fram í greinargerð með frumvarpinu að með því sé ekki um að ræða neina slíka breytingu á almennri forgangsröð réttarheimilda. Hvað varðar stjórnvaldsfyrirmæli fjallar forgangsreglan í frumvarpinu eingöngu um þau tilvik þegar innbyrðis árekstur verður á milli mismunandi stjórnvaldsfyrirmæla og hvor þeirra skuli þá gilda framar hinum. Öll almenn lög munu því áfram standa ofar stjórnvaldsfyrirmælum að því leyti sem þau eru ósamrýmanlegum lögunum.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.7.2025 kl. 16:22
það laumast að mér sú drungalega hugsun að þetta Evrópu/Who kjaftææði allt sé ekki eitthvað sem verði leyst á friðsamlegan hátt.
Þetta er ekki eitthvað sem við erum að biðja um, sem þjóð. Það er verið að troða þessu uppá okkur með valdi.
Ásgrímur Hartmannsson, 15.7.2025 kl. 17:52
Guðmundur, þú skilur e.t.v. ekki það sem ég er að segja. ESB er að gefa út reglur sem eiga sér ekki lýðræðislega rót. Jafnvel þótt horft væri á þetta bara innan ESB er alvarlegur lýðræðishalli. Gagnvart EFTA ríkjunum er þessi halli miklu alvarlegri, því lýðræðisstoðin er engin. Þessar tilskipanir og reglugerðir eiga að ganga framar íslenskum lögum ef þetta stangast á! Þetta sýnir hvílíkar ógöngur stjórnarfar okkar er komið í.
Arnar Þór Jónsson, 15.7.2025 kl. 18:04
Ég skil alveg það sem þú skrifaðir og var einfaldlega að benda kurteislega á að það er ekki rétt að með frumvarpinu sé lagt til að gera stjórnvaldsfyrirmæli æðri almennum lögum ef þetta tvennt stangast á. Eftir sem áður mun gilda sú almenna regla sem þú vísar til að stjórnvaldsfyrirmæli víkja fyrir almennum lögum og því verður ekki snúið á hvolf heldur stendur óhaggað.
Hvað varðar gerðir ESB (sem er samheiti yfir tilskipanir og reglugerðir ESB) þá hafa þær sem slíkar ekkert lagagildi hér á landi eins og Hæstiréttur Íslands hefur margítrekað slegið föstu í fjölmörgum dómum. Með umræddu frumvarpi er ekki lög til nein breyting þar á, enda myndi það stangast á við stjórnarskrá. Slík "bein lagaáhrif" gerða ESB eru eingöngu til staðar innan ESB ríkja en einmitt þess vegna leyfir stjórnarskráin ekki aðild Íslands að ESB.
Þar sem gerðir ESB hafa sem slíkar ekkert lagagildi hér á landi geta þær ekki heldur gengið framar íslenskum lögum. Aðeins tvennt getur gengið framar almennum íslenskum lögum: stjórnarskráin og önnur almenn íslensk lög sem eru sértækari (lex specialis) eða yngri (lex posterior) en þau sem þurfa að víkja. Með umræddu frumvarpi er lagt til að við þá upptalningu bætist einn flokkur almennra íslenskra laga: þau sem eru sett til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt EES-samningnum og veita íslenskum borgurum réttindi í samræmi við hann. Ég þekki ekki gott latínuheiti fyrir þann flokk en kannski mætti nota "lex sui generis", með vísan til þess að í lagafræðum hafa orðin sui generis sem þýða "sérstaks eðlis" gjarnan verið notuð til að lýsa réttarkerfi EES.
Hvað sem því líður eru slík lög samt jafn íslensk og öll önnur lög sem Alþingi setur til að innleiða reglur sem leiða af þjóðréttarsamningum í íslenskan rétt, til dæmis lög um Mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 eða lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Jafnvel stjórnarskráin sjálf inniheldur ákvæði sem fela í sér lögfestingu á reglum sem leiða af þjóðréttarsamningum. Aldrei hefur neinn haldið því fram að setning þeirra laga eða stjórnarskrárbreytingin árið 1995 hafi falið í sér framsal valds í hendur útlendra stofnana eða skerðingu á fullveldi Íslands. Við sem njótum þeirra réttinda sem af þessu leiða höfum þvert á móti fagnað þeim.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.7.2025 kl. 21:28
Guðmundur, vinsamlegast ekki snúa út úr. Ég er ekki að tala um beina réttarverkun heldur um frumvarpið eins og það hefur verið lagt fram. Öllum má vera orðið ljóst að afgreiðsla Alþingis á þessum reglum er sjálfvirk og stjórnarfarið fyrir vikið orðið að hreinum skrípaleik. Jafnframt vara ég við því að menn leggi of mikið upp úr tali um ætluð réttindi sem verið er að veita, því EES hefur líka fært yfir okkur skuldbindingar í þúsundatali sem geta birst eins og uppvakningar þegar minnst varir. Frumvarpið sem hér um ræðir er opinn tékki um almennan forgang óteljandi reglna frá ESB ef þær stangast á við önnur lög frá Alþingi, jafnvel yngri lög. Þar með fýkur lex posterior talið þitt út um gluggann.
Arnar Þór Jónsson, 15.7.2025 kl. 21:59
Ég var ekki að snúa útúr heldur að reyna að draga fram staðreyndir.
Öllum réttindum fylgja vissulega skyldur. Þeim sem þurfa að virða réttindi almennra borgara og brjóta ekki gegn þeim gæti þótt það fela í sér íþyngjandi skyldu en ber þeim sem svo er ástatt um enga vorkunn í brjósti.
Við vitum báðir hvað lex posterior þýðir og eins og ég var að benda er með frumvarpinu verið að lögfesta sambærilega forgansreglu nema bara út frá annarri skilgreiningu á því hvað gengur framar öðru í hvaða tilvikum. Í öllum tilvikum er um að ræða íslensk lög (eða stjórnvaldsfyrirmæli).
Öllum er frjálst að hafa skoðanir á og afstöðu til þess hvort hitt eða þetta fyrirbæri sé gott eða slæmt og allt í góðu með það. Ég ætlast ekki til þess að neinn hafi mína skoðun eða afstöðu, en ég hef ekki áhuga á umræðu um skoðanir eða afstöðu til málefna nema á grundvelli réttra staðreynda. Það sem er, það er, alveg sama hvað mér eða öðrum finnst um það sem það er.
Fólk hefur mismunandi skoðanir á EES-samningnum og afstöðu til hans en ég var bara hvorki að skrifa um skoðanir né afstöðu heldur staðreyndir máls. Ef ég hef einhversstaðar rangt fyrir mér um þær má gjarnan leiðrétta mig.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.7.2025 kl. 00:03
Verða útgefin stjórnvaldsfyrirmæli erlendra stofnana sjálfkrafa að "íslenskum lögum" við það eitt að Alþingi stimpli þau? Er 30 ára notkun á Alþingi í þessu samhengi, án viðnáms, ekki orðið að einhvers konar misnotkun? Þetta hefur orðið til þess að gildandi regluverk á Íslandi hefur frá 1993 þanist úr um tugi þúsunda blaðsíðna, frá ca. 4500 upp í ríflega ca. 70.000 bls. Sú spurning er orðin áleitin hvort þetta standi undir nafni sem lög eða hvort við séum í raun að fást við eitthvað allt annað.
Arnar Þór Jónsson, 16.7.2025 kl. 07:28
Stjórnvaldsfyrirmæli erlendra stofnana hafa ekkert lagagildi á Íslandi.
Ekkert verður sjálfkrafa að lögum á Íslandi, aðeins frumvörp sem hafa hlotið þrjár umræður á Alþingi og samþykki meirihluta í atkvæðagreiðslu. Áður en allt það getur gerst þarf einhver Íslendingur að hafa skrifað frumvarpið.
Ef um er að ræða góð mál er alls engin þörf á "viðnámi". Ef viðnám skortir gegn "slæmum" málum geta kjósendur haft áhrif á það í kosningum. Svo geta verið skiptar í einstökum málum um hvort þau séu góð eða slæm.
Kannski umræðan ætti frekar að snúast um þetta frekar en tröllasögur um að allt sem er í líkingu við það sem tíðkast í öðrum löndum sé af hinu illa.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.7.2025 kl. 00:10
Gildandi lögum ætlað að endurspegla vilja almennings og alþingismönnum er ætlað það hlutverk að verja hagsmuni kjósenda í þessu samhengi. Þegar Alþingi er hætt að endurskoða, aðlaga, afmarka og rökræða með markvissum hætti þær reglur sem verið er að leiða í lög á Íslandi, þá er það í raun ekki að stunda löggjafarstarf, heldur að afgreiða og meðhöndla reglur sem stafa frá erlendu framkvæmdarvaldi. Með frumvarpinu um bókun 35 er verið að leggja til að framvegis gildi hér sú almenna regla að þessi erlendu stjórnvaldsfyrirmæli, sem innleidd hafa verið hér hömlulaust áratugum saman og innihalda þúsundir skuldbindinga fyrir Ísland á grundvelli EES, skuli að meginreglu gangi framar íslenskum lögum!
Um þetta mun ég nánar fjalla í Morgunblaðsgrein sem birt verður á næstu dögum.
Arnar Þór Jónsson, 18.7.2025 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.