19.7.2025 | 07:58
Alþingi Íslendinga eða afgreiðsluskrifstofa ESB?
Veik staða Íslands gagnvart ESB á vettvangi EES er farin að grafa alvarlega undan stjórnskipun lýðveldisins okkar. Um þetta fjallar grein mín í Morgunblaðinu í dag, sem ber heitið "Alþingi Íslendinga eða afgreiðslustofnun ESB?"
Í greininni segir m.a.:
Sú þróun sem hér hefur verið lýst felur ekki í sér lagalega hagræðingu, heldur er hér um að ræða kerfisbundinn flutning á lagasetningarvaldi úr landi. Í stað þess að standa vörð um íslenska réttarhefð og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar hefur Alþingi sætt sig við það hlutskipti að gerast nokkurs konar regluvörður við færiband erlendrar reglugerðarverksmiðju. Með vísan til lagatæknilegra sjónarmiða og þess að EES-samninginn beri að vernda hefur Alþingi opnað allar flóðgáttir fyrir innstreymi reglna frá ESB í íslenskan rétt og þar með heimilað ESB afskipti af íslenskum innanríkismálum, langt umfram það sem nokkur maður sá fyrir í upphafi, þ.e. við gerð EES-samningsins. Allt þetta hefur gerst án nokkurrar raunverulegrar viðleitni til að aðlaga regluverkið íslenskum aðstæðum eða íslenskum hagsmunum. Íþyngjandi regluverk vegið að stjórnarskránni Tvenns konar afleiðingar blasa við: 1. Lagalegur óskýrleiki: Lögfræði hefur alla tíð verið snar þáttur í íslenskri menningu, en nú stöndum við frammi fyrir ofvöxnu regluverki sem stöðugt verður ógagnsærra og óaðgengilegra. Tugþúsundir blaðsíðna af reglum sem eiga uppruna sinn handan úthafsins, sem innleiddar hafa verið hér án nægilegs skýrleika og án samhengis. 2. Stjórnskipulegt niðurbrot: Alþingi fer með löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins og ber á þeim grunni skylda til að annast löggjafarstarfið fyrir opnum tjöldum með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi. Með því að innleiða erlent regluverk án nægilegrar aðgæslu, án athugasemda, án þess að beita nokkurn tímann samningsbundnu neitunarvaldi sem í stuttu máli jafngildir hömlulausri innleiðingu er Alþingi að brjóta gegn anda stjórnarskrárinnar og bregðast stjórnskipulegu hlutverki sínu.
![]() |
Formgalli útskýrir af hverju umsóknin er virk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samningsbundnu neitunarvaldi hefur reyndar verið beitt í a.m.k. einu máli. Fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni hafa nefnilega virt niðurstöður tveggja bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna á grundvelli stjórnarskrár og staðið í vegi fyrir kröfum ESB um að þröngva ríkisábyrgð á innstæðutryggingum (DSG III) inn í EES samninginn líkt og hefur verið gert innan ESB. Þetta sannar að umrætt neitunarvald er raunverulegt og nothæft. Af sömu ástæðum er aðild Íslands að ESB útilokuð því kjósendur eru búnir að hafna þessum órjúfanlega hluta hennar. Ekki einu sinni heldur tvisvar með afgerandi og bindandi hætti.
Þar með er búið að svara öllum aðildarspurningum sem máli skipta og hugmyndir um að halda ráðgefandi atkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi viðræður um eitthvað sem er þegar búið að hafna og þar með bannað, eru marklausir draumórar.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.7.2025 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.