24.7.2025 | 11:17
Stillum fókusinn
Í sumar sofna ég á kvöldin út frá því að lesa ljóðabækur Davíðs Stefánssonar, meðvitaður um það að ég muni að morgni vakna inn í veröld þar sem flest snýr orðið öfugt við það sem Davíð taldi rétt og satt. Hvað skýrir þessa þróun, þar sem Ísland er að verða óþekkjanlegt og hugsjónir fyrri kynslóða eru daglega vanvirtar af yfirvöldum? Er Íslandi stjórnað með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi eða ráða önnur sjónarmið för?
Í leit að skilningi er áhugavert að lesa bók eftir Christoper Lasch sem gefin var út árið 1995, "The Revolt of the Elites and the Betrayal of Democracy".
Lasch heldur því fram að við séum að verða vitni að hægfara uppreisn gegn hefðbundnum gildum vestrænna samfélaga, en uppreisnin sé þó ekki leidd af almenningi heldur af yfirstéttinni / elítunni / stjórnendum / menningarfrömuðum. Þessi stétt hafi enga hollustu við þjóðríkið, samfélagið, innlent lýðræði eða hefðbundin þjóðleg gildi. Þessi "elíta" skeyti ekki um hag almennings í landinu heldur sé aðaláhugamálið þeirra eigin starfsferill. Lasch hélt því líka fram að fjölmiðlar og háskólar sem áður hlúðu að lýðræðislegum rótum samfélagsins séu orðnir að strengjabrúðum valdhafa og ástundi innrætingu í stað gagnrýninnar hugsunar. Afleiðingarnar birtist m.a. í því að til sé orðið "andverðleika-þjóðfélag" þar sem prófgráður skipta meira máli en siðferðileg heilindi.
Hljómar þetta kunnuglega? Þá mæli ég með að menn leggi frá sér reifarana og fari að lesa alvöru bókmenntir sem hjálpa okkur að sjá stóru myndina.
Sjálfur ætla ég ekki að taka þátt í mótmælum eða neinum átökum. Í baráttu við myrkrið þurfum við að nota ljós. Í stað þess að reyna beita dómhörku og valdi væri nær að hinn almenni Íslendingur einbeitti sér að því að færast nær ljósi, birtu og von, hækka tíðni eigin hugsana og fókusera á þá framtíð sem við viljum sjá en ekki trúa þeim sem vilja gera myrkrið að ljósi og lygi að sannleika.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning