1.8.2025 | 17:35
Ljóðrænn texti um ekki svo ljóðrænt viðtal.
Arnar Þór Jónsson vekur athygli á uppsagnarbréfi Gunnars Braga Sveinssonar til ESB og segir að misræmi sé í enska textanum sem sendur var til Brussel og þeim íslenska sem þjóðin fékk að sjá. Hann vill að bréfin verði birt hlið við hlið svo fólk átti sig á hver munurinn er. Segir Arnar Þór ekki útilokað að enska textanum hafi verið breytt af ókjörnum embættismönnum til að svo liti út að einungis væri um hlé á aðildarviðræðum að ræða en ekki uppsögn umsóknarinnar. Reynist það rétt er um sviksamleg störf embættismanna utanríkisráðuneytisins að ræða sem þjóna öðrum herrum en lýðræðislega kjörnum valdhöfum.
Stjórnarskráin er síbrotin en ekkert gert, ráðherra skrifar undir breytta bindandi utanríkisstefnu Íslands sem aðlöguð verður að utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Ekki mun meirihluti þings í gíslingu evrópusambandssinna víkja ráðherra sem vinnur í trúnaði við ESB úr starfi. Það mun þjóðin hins vegar gera næst þegar tækifæri gefst í almennum þingkosningum.
Ástandið sýnir þörf á stjórnlagadómstól sem tekur fyrir mál og sker úr um hvort þau hlíti stjórnarskrá lýðveldisins eða ekki. Það reglugerðafargan sem vélrænt er skellt yfir þjóðina frá ESB skerðir athafnafrelsi landsmanna og eykur skriffinnskukostnað.
Fjölmiðlar, svikulir stjórnmálamenn og embættismenn íslenska djúpríkisins hygla sjálfum sér á kostnað þjóðarinnar. Þeirra vegna má ekki ræða mörg mál og þöggun ríkir, almenningur má ekki vita sannleikann. Litlu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur er kosinn, sex hliðar teningsins sýna alltaf sömu niðurstöðu þegar honum er kastað. Eins mála flokkar og einskis mála flokkar hafa völdin og verja og smyrja hver aðra.
Landsmenn eru skattpíndir fyrir einsleitar rúv-fréttir sem eru eins og skólp úr bilaðri skólpleiðslu og landsmenn skildir eftir með fýluna. Vók kemur landsmönnum í heilaþvegið mók og djúpríkið hlær og fitnar eins og púkinn á fjósbitanum.
En víkingar Íslands eru að vakna, þökk sé verndara íslenskra karlmanna, sem hvetur þá til dáða. Þá er gott að þeir láti sér vaxa skegg eins og hin góða fyrirmynd séra Geir Waage, pastor emeritus, gerir." Þessi myndræni (og ljóðræni) texti er samantekt Gústafs A. Skúlasonar á samtali mínu við hann og Írisi Erlingsdóttur, sem birtist á Netinu rétt í þessu og finna má hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning