3.8.2025 | 10:12
"Alla hluti skildu þeir jarðligri skilningu ..."
Allt sem við gerum og segjum miðast út frá því hver við teljum okkur vera. (Ó)menning samtímans heldur stöðugt að okkur þeirri hugmynd að við séum líkami okkar, hormón, bein, vöðvar, blóð og vessar - og að þegar þessi "vél" bilar endanlega þá sé tilveru okkar endanlega lokið. Ef við samþykkjum að þetta sé satt, þá munu orð okkar og athafnir miðast við þessar forsendur, sem munu ráða því hvernig við verjum orku okkar og tíma.
En ef við spyrjum aftur: "Hver er ég? / Hvaða hugmynd hef ég um innsta kjarna tilveru minnar?" þá gætum við fundið allt önnur svör, t.d. að við séum andlegar verur, hver og einn með eigin sál - sem dvelur aðeins tímabundið í þessari "tjaldbúð" sem líkaminn er.
Ef þú vilt að heimurinn verði að betri stað, þá hljótum við að þurfa að finna - innra með okkur sjálfum - að við séum eitthvað annað og meira en hold og blóð. Um leið og við förum að lifa út frá slíkri "uppfærðri" sjálfsmynd mun framganga okkar breytast til hins betra.
P.S. Framangreindar línur eru skrifaðar eftir að hafa hlustað á stórmerkilegt viðtal Joe Rogan við Chadd Wright, sem birtist 1.8. sl.
Jarðbundinn maður hafnar því sem andi Guðs boðar, honum er það heimska. Hann getur ekki skilið það af því að andinn veitir skilninginn. (Fyrra Korintubréf, 2:14)
En alla hluti skildu þeir jarðlegri skilningu því þeim var eigi gefin andleg spektin (Snorri Sturluson, Edda)
Athugasemdir
Aðeins eitt sem ég vil bæta við.
Þú vitnar í formálann að Snorra Eddu þarna síðast. Það kann að vera að hann sé seinni tíma viðbót, jafnvel ekki eftir Snorra sjálfan. Fræðimönnum ber ekki saman um þetta. Bókin fór í gegnum margar uppritanir, eintök eftir eintök. Einnig kann að vera að Snorri hafi skrifað þetta til að sýna fram á að hann væri ekki heiðinn, til að afsaka verk sitt.
Ýmislegt annað í Snorra Eddu er hægt að túlka þannig að þeim "hafi verið gefin andleg spektin", það er að segja líkingamál sem túlka mætti sem líkingu fyrir hið andlega.
Eiginlega öll trúarbrögð hafa andlega vídd, líka Ásatrú.
Ingólfur Sigurðsson, 3.8.2025 kl. 16:33
Trúarbrögð eru fyrst og fremst verkfæri ráðandi afla til að efna til átaka, stríðs, við nágranna sína. Aðferð til að fá ungt fólk til að vilja fórna lífi sínu, sálin lifi áfram og fái ríkuleg verðlaun. Hvort sem það er veisla hvert kvöld í Valhöll, 40 jómfrúr eða syndafyrirgefning og himnavist. Drottni til dýrðar og sálinni til bjargar má ljúga og stela, meiða og myrða.
Trúin gerir engan að betri manni en kallar það versta í mannlegu eðli fram í mörgum. Góður maður þarf ekki trú, en illmennin þyrstir í hana og umfaðma hana af miklum ákafa. Trúa því að illvirki líkamans, drottni til dýrðar, tryggi sálinni góða vist.
Glúmm (IP-tala skráð) 3.8.2025 kl. 17:09
Vitræn og áhugaverð athugasemd frá Glúmm! Það eru eingyðistrúarbrögðin sem að undanförnu hafa valdið stríðum. Pútín styður Rétttrúnaðarkirkjuna, er á móti samkynhneigð og vestrinu. Innrásin í Úkraínu er drifin áfram af kristilegu trúarofstæði og rússneskri þjóðerniskennd í bland. Þar er Jahve að verki greinilega. Líka í Gaza. Gyðingar bókstaflega fundu upp Abrahamstrúarbrögðin. Abrahamstrúarbrögðin og Jahve drífa áfram mannfallið á Gaza og í Úkraínu.
Indverjar eru fremur friðsamir, fjölgyðistrúar. Pakistanar eru herskárri, islamistar.
Kínverjar sem ekki tigna Jahve verða að teljast í hófsamari kantinum líka.
Það eru margar aldir síðan heiðnir Vesturlandabúar voru miklir stríðsmenn og fjöldamorðingjar, á víkingatímanum nánar tiltekið.
Ingólfur Sigurðsson, 3.8.2025 kl. 18:03
Þakka ágætar athugasemdir og málefnalegar. Eitt af því sem mannkynssagan kennir er að mannskepnan getur ekki lifað án trúar og tilbeiðslu. Hér er fjallað um það frá skemmtilegum vinkli: https://www.instagram.com/reel/DMs5LPeJKVl/?igsh=cDZuZjhzMzMwdWI3&fbclid=IwY2xjawL9qPpleHRuA2FlbQIxMABicmlkETF3dTZrWFdzZnN2QWlXa3diAR7laqrIGQ7S9cd37WopP80903fMJL35OnsBmujyHXIuuu0OM5ixX_wL4GdyHw_aem_3K7OxPMMNjwuXUKgXWPypA
Arnar Þór Jónsson, 4.8.2025 kl. 14:57
Trú og tilbeiðsla hefur í gegnum árþúsundin staðið í vegi fyrir mannréttindum og framförum í vísindum, tækni og lækningum. Og eftir því sem áhrif trúar og tilbeiðslu hafa dvínað hafa réttindi aukist, lífskjör batnað, ævi lengst og fólki fjölgað. Þegar við horfum á þjóðfélög sem dragast afturúr eða þróast ekkert áfram má sjá að þar eru trú og tilbeiðsla ráðandi öfl í þjóðfélaginu.
Mannskepnan er úrræðagóð og með mikla aðlögunarhæfni. En eitt af því sem mannkynssagan kennir er að mannskepnan getur, og hefur, lifað af þrátt fyrir trú og tilbeiðslu.
Glúmm (IP-tala skráð) 4.8.2025 kl. 16:17
Gloom, þeir sem trúa á æðri mátt en ekki t.d. stokka og steina eða aðrar guðlausar kreddur, hafa sennilega annan skilning en þú á því hvað í því felst "að lifa" og telja að þetta líf hér sé ekki annað en skuggamynd / blekking / reynslupróf.
Arnar Þór Jónsson, 4.8.2025 kl. 16:45
Ég hef gaman að svona pælingum, hef lengi spurt mig að þessu. Mamma sem er sannkristin hefur notað þetta orðalag, "að trúa á stokka og steina" í niðrandi merkingu um heiðingja. Stokkur er þarna í merkingunni trjástofn eða viðarbútur, eða lítið tré. Þó má segja að þessi tegund af trú sé undanfari trúar á andleg goðmögn, því þarna er maðurinn að skilja egóið frá utanaðkomandi hlutum, og að læra að tigna annað en sjálfan sig. Nútímaþjóðfélagið okkar vestræna er eiginlega jafn frumstætt og hin frumstæðustu þjóðfélög, þar sem ekki er trúað á Guð eða guði heldur bara reglur samfélagsins, og tótem og tabú til staðar, eitt af tabúunum er að bannað er að tala fallega um Hitler. Hugsun sett skorður. Ekkert er svarthvítt.
Dr. Helgi Pjeturss sem ég held mikið uppá var hluti af þessari vísindatrú og framfaratrú sem Glúmm talar um, að vísindin séu andstæða trúarbragða, og vísindin ein boði framfarir. Þessvegna reyndi hann að útskýra allt trúarlegt á efniskenndan og vísindalegan hátt.
En áður en mannúð varð til sem sjálfstætt fyrirbæri eða mannréttindahugtakið, þá voru mýturnar leiðarvísirinn og trúarbrögðin. Þannig eiga húmanistar það trúarbrögðum að þakka að þeirra hyggja varð til.
Drúíðarnir voru bæði vísindamenn og prestar hinna keltnesku samfélaga. Þeir kenndu um gang himintunglanna, þeir kenndu það sama og Babýloníumenn, samkvæmt ýmsum heimildum.
Himinhnettirnir voru taldir guðir. Kenningar um breytni og eðli manna voru til. Spáð var í innyfli dýra og flug fugla. Þetta átti að gefa vísbendingar um allt mögulegt, eins og lestur í spákúlur, ástarmál, veðurfar, stríð og frið, hreysti og veikindi.
Samfara þessu komu fram hugmyndir um náttúruna og eðli hennar. Þótt Forn Grikkir hafi átt sína heimspekinga og taldir fyrstir getur verið að drúíðar og aðrir hafi verið fyrirrennarar þeirra og að samskonar heimspeki hafi mótazt með öðrum þjóðum, án þess að vera skráð niður. Það er jafnvel mjög sennilegt.
Þegar Charles Darwin kom fram með þróunarkenninguna voru aðrir að hugsa svipað og að minnsta kosti einn annar var að setja fram svipaðar kenningar. Það er ekki eina dæmið um það hvernig mannkynið er samstillt, ein þjóð eftir aðra kemst á svipaða þróunarbraut.
Þótt ég sé varla kristinn nema að hluta til þá viðurkenni ég að kristnin hafði taumhald á fólki.
Ég tel að aukning á ofbeldisverkum sé vegna skorts á þessum reglum kristninnar. Ef trúnni fylgja ekki boð og bönn eins og Guðmundur Örn Ragnarsson Ómegapredikari og guðfræðingur skrifar um, þá er hún máttlaust, nær ekki að tyfta fólk og halda því frá mannlegum hvötum í öfgum, syndinni öðru nafni.
Ingólfur Sigurðsson, 4.8.2025 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.