4.8.2025 | 17:55
Umbreytingartímar fyrir einstaklinga og samfélög
Svo ótalmargt hefur umbreyst í umhverfi okkar síðustu 5-6 árin að enginn þarf að undrast það að þurfa að gegnumganga einhvers konar persónulegt umbreytingarferli þar sem ,,okkar gamli maður" er skilinn eftir og ,,nýr maður" verður til. Sjálfur hef ég lýst þessu á eftirfarandi hátt:
- Ég hafði trú á háskólunum sem vettvangi frjálsrar og gagnrýninnar hugsunar, þar til mér fannst umhverfið þar umbreytast yfir í það sem kalla má "mónó-menningu" þar sem allir áttu að hafa sömu skoðanir. Eftir á að hyggja tel ég að einhvers konar vatnaskil hafi orðið 2016 / 2017.
- Ég hafði óbilandi trú á lögreglunni og dómstólunum sem útvörðum réttarríkisins þar til ég hafði sjálfur verið skipaður í dómarastarf og upplifði á eigin skinni að sömu þröngsýnu skoðanirnar ("woke-ismi") höfðu yfirtekið menninguna þar líka.
- Árið 2020 sá ég, eins og allir aðrir, hvernig ríkisvaldinu var misbeitt með þeim afleiðingum að stjórnarfarið var afskræmt og borgaraleg réttindi voru tekin úr sambandi með vísan til "neyðarástands" sem snemma var ljóst að var ekkert neyðarástand. Til að vekja athygli á þessu skrifaði ég fjölmargar greinar í dagblöð og vefmiðla. En þar sem vegið var að tjáningarfrelsinu á þessum tíma í nafni "vísinda" sem skyndilega höfðu umbreyst í trúarbrögð sem ekki mátti gagnrýna, þá hugsaði ég með mér að aðhaldið þyrfti að koma úr pólitíkinni.
- Frá æsku hafði ég óbilandi trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn ætti mannauð sem gæti varið borgaralegt frelsi, stjórnarskrána og réttarríkið. Þessu trúði ég þar til ég af eigin raun áttaði mig á að Sjálfstæðisflokkurinn reis ekki lengur undir merkjum og að aðalmarkmiðið væri að halda völdum, gæta hagsmuna og skaffa (þægum mönnum) vinnu. Flokkurinn var m.ö.o. engu betri en hinir ríkis-flokkarnir.
- Ég hafði óbilandi trú á Alþingi sem grunnstoð lýðveldisins, þar til ég sem varaþingmaður sá hvernig þingið er orðið að vélrænni afgreiðslustofnun fyrir ESB.
- Ég hafði trú á fjölmiðlum þar til ég sá hvernig þeir afhjúpuðust í "kófinu" sem málpípa stjórnvalda, sem í stað þess að veita valdinu aðhald í þágu almennings sneru sér að því að gelta á almenning í þágu valdsins.
- Ég hafði trú á embættismönnum og sérfræðingum þar til ég sá að Styrmir Gunnarsson hafði verið nær sannleikanum þegar hann sagði að hér giltu ,,engin prinsipp" og að flestir hugsa meir um þægilegheit og eigin ,,karríer" en stjórnarskrána og hagsmuni lands og þjóðar.
Hvað stendur eftir? Kannski fátt annað en sviðin jörð. En lögmál náttúrunnar segir að einmitt þá séu bestu forsendur fyrir nýjan gróður að vaxa og vonandi nýja hugsun í mannheimum.
Ef lesendur kæra sig um, þá er hér viðtalsbrot við Julian Assange (sem ég taldi áður hættulegan rugludall, þ.e. áður en ég sá að ,,burðarstoðirnar" sem taldar eru upp hér að framan vernda ekki almenning og að Julian er líklegast maður sem við ættum að hlusta meira á).
P.S. Til hliðsjónar er hér hlekkur á einhvers konar heimildamynd sem mér var bent á að rammaði inn sumt af því sem ég hef hér reynt að lýsa. Sjálfur hef ég ekki horft á þetta ennþá en skil þetta eftir hér og öllum er frjálst að tjá sig um hvort tímanum er vel varið í að horfa á myndina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning