19.8.2025 | 18:55
,,Bílfluga" kennir broddflugu dýrmæta lexíu
Á langri bílferð um daginn sat ég uppi með leiðinlegan laumufarþega, sem var auk þess uppáþrengjandi og slepjuleg með óþægilega nærveru. Þessi ferðafélagi var spikfeit fluga sem stakk sér inn í bílinn í upphafi ferðar og neitaði að yfirgefa hann þótt allar gáttir stæðu henni opnar í sterkum vindi sem hefði getað frelsað hana um leið og hún sleppti takinu á innviðum bílsins. Ítrekaðar tilraunir mínar til að opna gluggana og m.a.s. til að fæla hana út með handahreyfingum dugðu ekki. Minnugur þess að svona ,,farþegar" hafa orsakað bílslys þegar reynt er að drepa þær á ferð ákvað ég að umbera þetta þar til komið yrði á leiðarenda og ég gæti gefið mér tíma til að fremja annað hvort snyrtilega aftöku eða kurteislega brottvísun. En þá tók ekki betra við, því þegar ég loks hafði ,,vopnast" og opnað allar hurðar upp á gátt, þá sá ég að kvikindið vildi hvergi fara og flaug í hringi inn í bílnum í stað þess að fara út.
Óvísindaleg skýring mín á þessu háttalagi er eftirfarandi: Flugan er ekki bara ljót og leiðinleg, heldur líka svo heimsk að þegar hún hefur flogið nokkra hringi í litlum bíl heldur hún að bíllinn sé veröld hennar og að ekkert sé á bak við glerið annað en blekking.
Þegar maðurinn skipar henni að fara og lifa í frelsi, nærast og fljúga eins og henni er ætlað, þá svarar hún: ,,Það er ekkert til sem heitir ytri veruleiki. Það eina sem er áþreifanlegt og raunverulegt er það sem ég sé hér og get setið á (og flogið á). Hver sem reynir að sannfæra mig um annað flytur fram samsæriskenningar / elur á upplýsingaóreiðu / setur fram hatursorðræðu".
Þótt þessi feita fluga hafi augljóslega áður lifað við bestu skilyrði í frjálsri náttúru og fengið ómælt lífsþrek, þá var hún búin að gleyma því og afneitaði allri hvatningu til leiks og frelsis sem vitfirrtri samsæriskenningu / upplýsingaóreiðu. Hvers vegna? Af því að skjáirnir (bílrúðurnar) segja henni aðra sögu og sú saga er bláköld, lífvana og lokuð. Í gegnum skjáinn má að vísu sjá liti og líf, en allt sem er handan skjásins er óraunveruleg blekking. Það vita allir sem nógu lengi hafa lifað umkringdir glerskjám, eins og þessi ,,spakvitringur" hér, sem veit hvenær samsæriskenning verður að sannleika.
Þegar ég loksins losnaði við hana hafði ,,bílflugan" kennt mér dýrmæta lexíu: Það er sama hvað ég hrópa, kalla og veifa, þeir sem orðnir eru ,,skilyrtir" af lífi á bak við glerskjái munu neita að trúa því að til sé annar veruleiki á bak við skjáinn, víðara samhengi, önnur sjónarhorn, líf í fleiri víddum og fullri gnægð. Ég lagði frá mér ,,vopnin" og lofaði sjálfum mér að taka mér frí frá því að reyna að vekja fólk. Menn verða að fá að velja sinn eigin veruleika, sinn eigin lífsstíl, sína eigin lífslygi.
Ég hef sagt það sem ég tel mig hafa þurft að segja - í bili. Um leið opnast tækifæri til að rækta það sem gefur ávöxt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning