Vindbelgur eða vindhani?

Í líffræðibókum er gerður greinarmunur á hryggdýrum og hryggleysingjum. Þegar litið er yfir þjóðfélag nútímans er dapurlegt að sjá hve lítil kjölfesta er í fullorðnu fólki, sem á það til að sveiflast með tíðarandanum, belgja sig út af innantómum skoðanahroka ... en hefur litla sem enga innistæðu þegar umræðu er beint að grunnforsendum. Upp í hugann kemur mynd af appelsínugulum vindbelg sem sjá má á flugvöllum og gegnir því hlutverki að sýna áttina sem vindurinn blæs úr hverju sinni og styrkleika hans. 

Öfugt við appelsínugula vindbelginn er vindhaninn merki styrkleika. Vindhaninn sem prýðir ótal kirkjuturna er tákn um árvekni og vöku (Matt 26:34, Mark 14:30, Lúk 22:34, Jóh 13:38). Haninn galar að morgni og vekur fólk. Hann galar úr myrkri inn í ljósið. Hann minnir okkur á að vaka og vera reiðubúin fyrir stund sannleikans. Vindhaninn táknar sigur ljóssins yfir myrkrinu og minnir okkur á að skylda okkar er að halda vöku okkar, vera rétt áttuð og halda réttri leið. 

Hvort viltu vera (hrygglaus og innantómur) vindbelgur (og sveiflast með vindátt hvers tíma) eða vindhani (með hryggsúlu og rödd og hugrekki)? Hertu þig upp, vertu vindhani en ekki vindbelgur, maður en ekki hryggleysingi. 

Lífið er of stutt til að leika hlutverk og vera innantómur. Þegar þú ert kominn undir græna torfu og spurt verður ,,hver var hann / hún?", þá hlýturðu að vilja að hægt verði að segja að þú hafir haft hryggsúlu - og kjöt á beinunum ... og kjark í hjarta.

Lífið gengur ekki út á að þóknast tískustraumum samtímans, heldur að standa vörð um klassísk og góð gildi, hlúa að rótunum og vera stöðug hvernig sem vindurinn blæs. 

vindhani

 

 
 

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband