5.10.2025 | 12:41
,,Ég hugsa ekki."
Á háskólaárum mínum starfaði ég m.a. sem afgreiðslumaður í verslun. Viðskiptavinirnir voru misjafnlega skemmtilegir, eins og gengur. Einn þessara manna átti það til að sýna af sér almenn og ítrekuð leiðindi. Svo gerðist það að hann var tekinn tali af blaðamanni DV sem daglega tók frá nokkra dálksentimetra undir fyrirsögninni "Spurning dagsins". Þar voru vegfarendur t.d. spurðir: ,,Mun Valur sigra leikinn á móti KR?" eða "Ætlarðu að fara til útlanda í sumar?". Þessi sérstaki "vinur" okkar afgreiðslumannanna birtist sem sagt á mynd þarna og svaraði ,,Ég hugsa ekki". Þetta þótti fyndið og andlitsmyndin af honum var hengd upp á lagernum þar sem hún blasti daglega við öllum starfsmönnum.
Ég rifja þetta upp hér því áður en ég flyt erindi mitt í Iðnó þriðjudaginn 7. október nk. vil ég fá að heyra frá lesendum hvað Íslendingar eru eiginlega að hugsa á meðan fjarar undan þeim í lagalegum og lýðræðislegum skilningi. Í gær heyrði ég af manni á fimmtugsaldri sem situr öll kvöld með heyrnartól í bílskúrnum og spilar tölvuleik af svo miklum áhuga að börnin ná engu sambandi við hann og heimilishundurinn fær enga hreyfingu. Margir drekkja sér eflaust í víni og vinnu. Svo er líka leikur í sjónvarpinu í dag (?!).
Getur verið að þú sért maðurinn á myndinni sem kannski hangir enn á lager-veggnum? Eru einkunnarorð þín í lífinu ,,Ég hugsa ekki"?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning