Framtíðin tilheyrir Lilju Alfreðsdóttur og sjálfstæðu Íslandi. Fortíðin tilheyrir Birni Bjarnasyni og EES.

Skaðleg hugmyndafræðileg þröngsýni hefur sett hættulega slagsíðu á íslensku þjóðarskútuna, sbr. frábæra grein Rajan Parrikar, sem vitnað var til hér í gær. Háskinn sem af þessu stafar er raunverulegur og ef ekkert verður að gert mun skaðinn verða margþættur og óafturkræfur. Af borgaralegri skyldu valdi ég mér erfiða vegferð á síðasta ári til að vekja Íslendinga til vitundar um hvað er að gerast og hvað hægt er að gera. Fræjum var vonandi sáð sem enn eru að spíra í hugum þeirra sem hlustuðu. Í kjölfar þessarar reynslu hef ég lagt nýtt mat á margt í tilverunni, sem m.a. hefur leitt mig á þann stað að segja mig úr alls konar félagsstarfi. Eftir að hafa hætt í einum slíkum félagsskap nýverið lýsti ég því fyrir félaga mínum að úrsögnin hefði valdið mér sérkennilegri sorgartilfinningu sem ég hafi t.d. ekki fundið þegar ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann svaraði að bragði: "Það er vegna þess að þú ætlaðir þér aldrei að vera félagi í Samfylkingunni". Með sínum glöggu augum sér hann það sem fleiri sjá, að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn langt af leið og líkist Samfylkingunni æ meir í þjónkun sinni við ESB, sbr. undirgefni þingflokks XD við EES samninginn og stuðning þingflokksins við frumvarpið um bókun 35, eins og flokkurinn hafi gleymt því að EES samningurinn er tvíhliða samningssamband þar sem ekki verður gerð krafa um skilyrðislausa hlýðni. Ef Sjálstæðisflokkurinn stæði undir nafni væri krafa ESB um undirgefni orðin að úrsagnarástæðu, en ekki að kennisetningu. EES samningurinn ber nefnilega ekki lengur nafn með rentu. Hann er farinn að ganga allt of nærri Íslendingum, á sviðum sem heyra ekki undir efnahagsmál. Í raun er hann orðinn ES samningur - um "Evrópska svæðið" - og þar með kominn út fyrir það sem Alþingi Íslendinga samþykkti árið 1993. 

En margt verður skýrara þegar haft er í huga hverjir eru hugmyndafræðingar Sjálfstæðisflokksins nú á tímum. Séu menn í vafa um ESB ástina og EES tilbeiðsluna geta menn lesið bloggsíðu Björns Bjarnasonar í dag þar sem hann veitist að persónu Lilju Alfreðsdóttur, sem á hugrakkan hátt tjáir sig í Morgunblaðinu í dag um bókunarfrumvarpið og hefur komist að skynsamlegri niðurstöðu, eins og ég vissi að Lilja myndi gera, því Lilja er vel lesin, skynsöm, greind og vel að sér á allan hátt. Í æsku var mér kennt að ,,vitur maður skiptir um skoðun en heimskinginn aldrei". Með þessum samanburði er ég ekki að kalla Björn Bjarnason heimskan, því það er hann ekki. En í samanburði við Lilju Alfreðsdóttur lítur hann illa út, svo ekki sé meira sagt. Forherðing og skoðanahroki prýðir engan mann. Gagnrýnin hugsun, virk hlustun, velvild gagnvart samferðafólki sínu, virðing fyrir menningarlegum, lagalegum og lýðræðislegum hefðum, sem og ábyrgð gagnvart landinu sínu og framtíð þess, það eru merki farsæls og vaxandi stjórnmálamanns. Þessa kosti hefur Lilja Alfreðsdóttir og ég óska þess að Íslendingar hafi vit á að hefja hana aftur til æðstu metorða því það á hún skilið. Lilja er fulltrúi framtíðarinnar. Björn er fulltrúi fortíðar.  

Lilja

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband