Lög á ekki að setja í tilraunaskyni

Birgir Þórarinsson var sennilega eini stjórnarþingmaðurinn, auk mín, sem greiddi atkvæði gegn nýjum lögum um leigubílaakstur í árslok 2022. Meirihluti þingmanna samþykkti frumvarpið þrátt fyrir blikkandi viðvörunarljós, því vitað var að reynslan í nágrannalöndum okkar gaf tilefni til fyllstu varfærni. Við atkvæðagreiðsluna sagði ég m.a. að það væri ,,engin dyggð í því fyrir löggjafarþing að buna út lögum að nauðsynjalausu og mér sýnist að það sé einmitt að gerast hér. Verið er að setja hér lög með hálfum huga því að þingið er nýbúið að samþykkja hér áðan að hefja skuli endurskoðun þessara laga eigi síðar en 1. janúar 2025."

Tæpri viku síðar fjallaði ég um málið í eftirfarandi Morgunblaðsgrein, sem enn á brýnt erindi við lesendur:   

Sýndarmennska elur af sér gervisamfélag. Gervisamfélag leiðir fram gervistjórnmál.

Við lifum á öld eftirlíkingarinnar. Öld uppgerðar. Öld sýndarmennsku. Við eigum fáa sanna vini í raunheimum en þúsundir „vina“ í netheimum. Samfélagsmiðlar eru andfélagslegur vettvangur, sem málsvarar lýðræðis hafa á síðustu árum notað til að grafa undan málfrelsi.

Menntastofnanir vanrækja gagnrýna hugsun. Þeir sem mest flagga eigin góðmennsku vilja að ríkið axli ábyrgð á allri góðvildinni. Skattfé er sólundað í nafni umhyggju. Undir merkjum manngæsku er velferðarkerfið smám saman sligað, þar til það að lokum mun hrynja undan eigin þunga. Undir yfirskini trúleysis gera menn vísindin að átrúnaði og fræðimenn að prestum. Uggvænleg reynsla síðustu ára bendir til að frelsisákvæði í stjórnarskrá og lögum séu í reynd marklaus, samanber það hvernig stjórnvöldum leyfðist að kippa borgaralegum réttindum úr sambandi að vild.

Gervisamfélag elur af sér gervistjórnmál, þar sem almannatenglar hanna skoðanir og stjórnmálamenn fylgja skoðanakönnunum. Hagsmunaaðilar stýra fjölmiðlum og þyrla upp ryki sem yfirskyggir upplýsingarhlutverkið. Í heimi gervistjórnmálanna skrifa aðstoðarmenn ræður og greinar fyrir þá sem leika hlutverk þingmanna og ráðherra. Sérfræðingar móta lagafrumvörp. Þingmenn greiða atkvæði eftir flokkslínum og forðast þannig persónulega ábyrgð. Íslenska ríkið er á stöðugu (en duldu) undanhaldi innan EES. Lagasetning Alþingis líkist í auknum mæli leikriti. Á bak við tjöldin fer fram hægfara – og ólýðræðisleg – aðlögun Íslands að ESB.

Þeir sem efast um framangreinda lýsingu mega íhuga eftirfarandi dæmi:

Í nafni lýðræðislegra stjórnarhátta innleiða Íslendingar erlendar reglur umræðulaust . Í nafni alþjóðasamvinnu eru Íslendingar þvingaðir til að breyta löggjöf sinni. Frammi fyrir hótun ESA um málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum „ákveður“ íslenska ríkið að breyta lögum sínum, nú síðast lögum um leigubifreiðaakstur. Undir oki slíks utanaðkomandi helsis er málið kynnt í þinginu sem „frelsismál“ . Til að draga úr óbragðinu samþykkti meirihluti alþingismanna lögin 16.12. 2022 með því fororði að þau „skuli sæta endurskoðun“ eigi síðar en 1.1. 2025 „með tilliti til reynslu“ af lagabreytingunum.

Samantekt

Lög á ekki að setja að nauðsynjalausu og alls ekki að illa athuguðu máli. Hafi löggjafinn sjálfur efasemdir um réttmæti eða gagnsemi lagafrumvarps mæla öll varfærnissjónarmið gegn lögfestingu þess. Af síðastnefndum ástæðum greiddi ég atkvæði gegn lögfestingu frumvarps um leigubifreiðaakstur. Ég er ekki andvígur því að lagareglur um þetta efni séu teknar til endurskoðunar, en hefði viljað að sú endurskoðun færi þá fram að betur athuguðu máli, án utanaðkomandi þrýstings og án pínlegra afbötunarákvæða um endurskoðun þeirra reglna sem verið er að setja. Lagasetning er of alvarlegt inngrip í daglegt líf almennings til að unnt sé að réttlæta að henni sé beitt í einhvers konar tilraunaskyni.

 

[1] Áður birt í Morgunblaðinu 22. desember 2022.

 

 


mbl.is Vill endurskoðun leigubifreiðalaga strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband