Þá sem ekki þekkja söguna er auðvelt að hrekja af grunninum.

Í bók Orwells, 1984, hafði söguhetjan, Winston Smith, það hlutverk að yfirfara eldri dagblöð og breyta þeim til samræmis við hagsmuni ríkjandi stjórnar. Aðgangur fólks að bókum var takmarkaður við rusl-bókmenntir, spennusögur, reifara o.s.frv. Eldri bókmenntir voru taldar háskalegar og hver sem átti slíkar bækur tók áhættu á að verða talinn hugsana-glæpamaður. 

Síðustu daga hef ég verið að endurraða bókunum mínum og margt sýnist eins og af öðrum heimi. Ljóð Davíðs Stefánssonar, Einars Ben, Hannesar Hafstein o.fl. eru yfirfull af ást til ættjarðarinnar, tungumálsins o.fl. Ritgerðir Bjarna Benediktssonar eldri fjalla um sjálfstæðisbaráttu Íslands, um sögu þjóðarinnar og menningararf. Þessar bókmenntir færu ekki vel ofan í sjálfskipaða menningarvita nútímans sem vilja reyna að kenna slíkt tal við "öfgar", sbr. m.a. skrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Mogganum. Í "Vókistan" leyfist okkur nefnilega að standa með öllu nema okkar eigin heimaríki, veifa öllum fánum nema okkar eigin fána og tala fallega um allar aðrar þjóðir en okkar eigin. Gamlar bækur eru ögrun við vókismann og standa í vegi fyrir "hugmyndafræðilegum hreinleika". Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið að bjarga gömlu bókunum frá því að fara í ruslið. Þær eru okkar besta vörn gegn Kolbrúnu og öðrum nútímaútgáfum af Winston Smith. George_Orwell_press_photo

E.S. Þegar allar stofnanir eru orðnar vókismanum að bráð, þ.m.t. skólarnir (og sérstaklega háskólarnir), stjórnmálaflokkarnir (þ.m.t. Sjálfstæðisflokkurinn), fjölmiðlarnir o.fl., þá er kirkjan komin á sömu vegferð undir stjórn nýrra "leiðtoga". Innan kirkjunnar eru þó til menn sem þekkja undirstöður trúarinnar of vel til að láta hrekja sig af grunninum, sbr. þetta hressilega viðtal við sr. Geir Waage, þar sem hann bendir á að kirkjan geti ekki afneitað játningu trúar á heilaga þrenningu án þess að hætta að vera evangelísk lúthersk kirkja - og þar með sé hún að stimpla sig út sem þjóðkirkja, því ríkið sé ekki skuldbundið til að styðja við sértrúarsöfnuði. Nálgun sr. Geirs er skynsamleg og hagnýt: Ríkisreknar stofnanir eiga sig ekki sjálfar. Þær voru settar á fót til að þjóna almannahag, verja sögulegan arf, standa vörð um frjálsa umræðu, hugmyndafræðilegan margbreytileika, klassískt frjálslyndi, gildin sem best hafa reynst o.s.frv. Eigi að breyta þeim í mulningsvélar til að innleiða valdboðsstjórn / ný-kommúnísma þá höfum við rétt til að hætta að fjármagna þær.


Blekiðjubáknið í Brussel

Í gær birti Jón Bjarnason, fyrrum ráðherra VG, snarpa ádeilu á bloggsíðu sinni, þar sem hann vísaði til slagorðs Sjálfstæðisflokksins fyrr á árum "Báknið burt" í samhengi við þá nýju Brussel-ástríðu sem þingmenn XD hafa orðið málsvarar fyrir og vilja auðheyrilega, ásamt öðrum ESB-flokkum innleiða hér með frumvarpi um bókun 35, en frumvarpið myndi fyrirsjáanlega valdefla þetta stærsta skrifstofubákn sem nokkru sinni hefur risið á plánetunni jörð. Hafandi nýlesið færslu Jóns renndi ég höndinni eftir bókahillu og fann þar snjáða ljóðabók Davíðs Stefánssonar, "Að norðan", sem er merkt með áletrun til afa míns "frá Hrefnu og Leifi - jólin 1940". Í bókinni má lesa eftirfarandi kvæði Davíðs um "skrifstofubáknið". 

 

Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg
og bólgnar af skipulagshroka,
en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg
og grátt eins og Lundúnaþoka.
En borgarinn fálmar sig bugaður inn
og biður um rétt til að lifa,
svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn,
má hamast að reikna og skrifa.

 

Með kænsku er þessari skrifstofu skipt
í skápa og bása og deildir,
en þar eru skjölin svo skorin og klipt
og skipað í flokka og heildir,
uns hlaðarnir minna á fannþakin fjöll,
sem flóa í mórauðum lækjum,
og við þetta bætast svo ógrynnin öll
af allskonar vélum og tækjum. …

En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal,
sem skráð er gegn réttlátri borgun,
og honum er vísað sal úr sal
og sagt – að koma á morgun,
og svona gengur það ár eftir ár,
því altaf er nóg að skrifa,
og altaf fær borgarinn skipulagsskrár
og skilríki fyrir að lifa.

Það lætur víst nærri, að þriðji hver þegn
sé þjónn eða skrifstofugreifi,
en flestum er starfið þó mikið um megn
og margur fær siglingaleyfi.
En borgarinn snýst þarna hring eftir hring
og hlýðir í orði og verki,
og loks þegar alt er þar komið í kring
er klínt á hann – stimpilmerki.

Að stofnunin eflist hvern einasta dag
mun afkoma þegnanna sanna,
og auðvitað reikna þeir ríkinu í hag
sem ráðstafa lífi manna.
En varla mun borgarinn blessa þau tákn,
né bætur þeim skriftlærðu mæla,
sem vilja að alt þetta blekiðjubákn
sé bænahús – krjúpandi þræla.

---

Mér er auðvitað ljóst að Davíð Stefánsson var snillingur og vafalaust nánast helgur maður í huga margra Íslendinga. Ég vil því auðvitað ekki gera honum upp neinar skoðanir á ESB, en leyfi mér þó að nefna til hliðsjónar eftirfarandi erindi úr ljóði á fyrstu bls. í framangreindri bók. Ljóðið heitir "Í dag kom vorið" og 2. erindið hljómar svo: 

Um samfylgd var mér synjað af þeim flestum,

er sitja þing með landsins æðstuprestum,

og eins af þeim, sem allra frelsi fórna

fyrir það eitt að mega sjálfir stjórna.

davíð stefáns


"Makkíavellískur" harmleikur íslenskra stjórnmála í beinni útsendingu

Ástæða er til að vekja athygli á beittri grein Hjartar J. Guðmunssonar um "stóra valdaframsalsmálið" (bókun 35) sem birt er á Vísi. Hjörtur undirstrikar þar það sem öllum má vera orðið ljóst, þ.e. að málið er banvæn eiturpilla sem Sjálfstæðisflokkurinn ákvað því miður að gleypa. Ræður þingmanna flokksins um málið nú í vor (þar á meðal málflutningur nýs formanns flokksins) voru eins og eitt samfellt sjálfsmorðsbréf flokks sem áður státaði af hugsjón um sjálfstætt lýðveldi og óskert fullveldi. Við þessari vegvillu hef ég lengi varaðPortrait_of_Niccolò_Machiavelli_by_Santi_di_Tito-3168468007

Þessi nútíma harmleikur minnir á sorgarsöguna um Machiavelli (1469-1527) sem með orðum sínum og athöfnum sveik eigin hugsjónir og gildi. Hann hafði á fyrri stigum verið dyggur þjónn Flörenska lýðveldisins, sem hafði hrakið Medici fjölskylduna frá völdum. Machiavelli hafði á þessum tíma fögur orð um borgaralegt frelsi, valddreifingu, andóf gegn hvers kyns harðstjórn og um ábyrgð borgaranna á framtíð lýðveldisins. En þegar Medici-klíkan náði völdum að nýju 1512, þá var Machiavelli sviptur embætti, fangelsaður, pyntaður og sendur í útlegð. Í biturð sinni og reiði skrifaði Machiavelli bókina "Furstinn" 1513 sem handbók fyrir stjórnendur. Í bókinni snýr hann öllum fögrum hugsjónum á hvolf og talar um að réttlætanlegt sé að menn ljúgi, blekki og jafnvel drepi til að ná og halda völdum. Tilgangurinn (völdin) helgi meðalið (réttlæti aðferðirnar sem beitt er). Með bókinni snerist Machiavelli gegn öllum þeim hugsjónum sem hann hafði áður haldið á lofti og hélt þess í stað á loft þeirri svörtu sýn á stjórnmálin, sem virðist lita þau allt til þessa dags, að hugsjónir skili engu á því sviði og því sé öllum best að beita blekkingum, svikum, vélabrögðum og baktjaldamakki. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki endilega verri en aðrir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga, þá verður hann mér og mörgum öðrum harmdauði. 

 


Stuðningsmaður nr. 1

Í stormviðrum lífsins þurfum við öll að hafa akkeri, einhvern sem getur hastað á vindinn, einhverja heimahöfn til að hvílast í, einhvern sem stendur vaktina þegar aðrir yfirgefa skipið, einhvern til að halda skútunni á réttum kili í straumröstum og öldugangi, einhvern sem vill að draumar okkar rætist, einhvern sem hlustar, sem segir þér satt, sem réttir okkur hjálparhönd og sem samgleðst þegar lífið lyftir okkur sem hæst. Sá sem hefur slíkan stuðning getur þolað allt mótlæti og hann getur sett sér það takmark að lifa lífi sem hefur inntak og merkingu fremur en að sækjast eftir því sem er hégómlegt og hverfult. Sá sem slíkan stuðning hefur getur fundið hjá sér hugrekki til að tala út frá því sem hann veit sannast og réttast í stað þess að ritskoða sjálfan sig og fela sig í hópnum. Við höfum öll slíkan bakhjarl, sem elskar okkur skilyrðislaust og ítrekar 365 daga á ári að við eigum ekki að óttast, heldur lifa í jákvæðni, kærleika, von, trú og bjartsýni.

Glossófóbía

Er ég eini maðurinn sem finn fyrir ónotakennd þegar sýndar eru myndir frá öllum þessum "leiðtogafundum" þar sem allir eru á einu máli, brosandi og kjassandi hvern annan, faðmandi og kyssandi, hlæjandi og klappandi? Hver getur verið skýring þess að allt þetta fólk, frá öllum þessum mismunandi löndum, þar sem alls konar innanlandsófriður, ósætti og átök geisa, skuli allt geta verið svona ofboðslega sammála - og svona góðir vinir - og í svona miklum fyrirvaralausum kærleikum hvert við annað? Er eitthvað sem býr hér að baki sem við sjáum ekki / skiljum ekki? 

Mér er auðvitað ljóst að þessir "leiðtogar" eru venjulegt fólk, sem er lítið í sér og óöruggt eins og langflestir almennir borgarar. Kannanir staðfesta aftur og aftur að það sem fólk óttast mest er "glossófóbía", þ.e. að flytja ræður fyrir framan aðra (fólk virðist óttast þetta meira en dauðann, meira en loðnar köngulær, eiturslöngur o.fl.). Rót þessa ótta er ekki feimni, heldur óttinn við viðbrögð annarra, við dóm annarra. Í óöryggi sínu kjósa margir að fylgja afstöðu "sérfræðinga". Í kóvid-klikkuninni afhjúpaðist að "sérfræðingarnir" voru ekkert skárri, því í ótta sínum hörfuðu þeir (læknar, lögfræðingar o.fl.) í það að fylgja afstöðu stjórnvalda, sem í ótta sínum hörfuðu í það að fylgja afstöðu annarra þjóða, sem í ótta sínum hörfuðu í það að fylgja afstöðu alþjóðastofnana (WHO, SÞ o.fl.). Þegar óttinn fór svo loks að réna og menn áttuðu sig á að C19 var engin drepsótt og í raun á pari við slæmar flensur, kusu menn að beina athyglinni annað til að þurfa ekki að horfast í augu við vitleysuna, mistökin, fjárausturinn, frelsissviptinguna, fjárlagahallann o.s.frv. Til að breiða yfir allt þetta risastóra rugl þarf eitthvað enn ógnvænlegra. Hvað gæti það verið? Jú, stríð. Vafalaust er það algjör tilviljun að Úkraínustríðið braust út einmitt um það leyti sem almenningur var að átta sig á að C19 hafði orðið að allsherjar, tilefnislausri hjarðsturlun. Rússagrýlu má nota til að magna upp stríðsótta, berja stríðstrommur, ryksuga meira fé úr ríkissjóðum, fóðra vasa vopnaframleiðenda, halda fleiri "leiðtogafundi" og hlæja saman.

Við skulum ganga út frá því að "okkar miklu leiðtogar" séu ekki annað en venjulegt fólk, sem er lítið í sér eins og við hin, sem í ótta við dóm annarra fundarmanna þora ekki að tjá sjálfstæða skoðun sína / gæta hagsmuna heimaríkis síns, en kjósa þess í stað að fela sig í hópnum, allt í nafni "samstöðu" og "einingar". Er ég eini maðurinn sem velti fyrir mér hvernig "rétta" línan er lögð á fundum þar sem engin raunveruleg skoðanaskipti fara fram, engar gagnrýnar spurningar, enginn ágreiningur? Sá dagur hlýtur að renna upp bráðum að almenningur fær nóg af öllu þessu skrumi og yfirborðsmennsku og fer þess í stað að kjósa fólk sem þorir að segja sína eigin skoðun, þorir að verja hagsmuni lands síns og þjóðar, þorir að tala máli friðar þótt allir aðrir tali um stríð og manndráp sem "lausn". 

Fyrir mitt leyti segi ég bara: Burtu með alla þessa "leiðtoga" sem eru engir leiðtogar, heldur hjarðmenni. Burt með þau. 

 


mbl.is NATO stendur sterkara eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Utanríkisráðherra Íslands telur Donald nú "heillandi"

Bandaríkjaforseti hefur fjölda leyniþjónustumanna á sínum snærum sem undirbúa hann fyrir fundi með ráðamönnum annarra ríkja, m.a. fyrir Nato-fundinn í Haag, sem haldinn var í þessari viku.

DT: Hvað getur þú sagt mér um fulltrúa Íslands á fundinum? 

CIA: Þaðan koma 2 fulltrúar, báðar kvenkyns, enda er Ísland núna í miðri samfélagstilraun, þ.e. að verða fyrsta ríkið í sögunni (Amazon-konurnar voru aldrei til nema í grískri goðafræði) sem afhendir konum öll völd. 

DT: Hvað geturðu sagt mér um þessar tvær?

CIA: Þú mátt búast við að þær tali mikið um fullveldi, sem er þeim mjög hugleikið, þ.e. fullveldi Úkraínu. Fullveldi Íslands er annað mál, helsta áherslumál þeirra er að framselja fullveldi Íslands til ESB. 

DT: Ber mér að skilja þetta svo að þær vilji að Ísland sé undir verndarvæng ESB en ekki USA?

CIA: Já, þær vilja báðar að Ísland verði aðildarríki ESB og hafa á sama tíma gagnrýnt nánast allt sem þú hefur gert, bæði sem 45. og 47. forseti USA. 

DT: Gott væri að fá dæmi svo ég viti hvernig þær hugsa áður en þær koma og tala við mig. 

CIA: Sú hávaxna hefur líkt þér við Pútín og Erdogan, sagt að þú sért "stórhættulegur" og opinberlega efast um að Ísland geti reitt sig á vörn frá Bandaríkjunum

DT: Erum við ekki enn með varnarsamning við Ísland? 

CIA: Jú ... enda teljum við okkur hafa talsverða varnarhagsmuni þar sjálfir, m.a. til að verjast umferð rússneskra kafbáta milli Grænlands og Bretlands. 

DT: Hvaða vernd telja þær sig geta fengið hjá ESB sem þær fá ekki hjá okkur? Hvers vegna vilja þær tala illa um forseta USA og fjarlægjast það ríki sem best hefur reynst Íslandi? 

CIA: Ég er bara leyniþjónustumaður, ég get lesið skýrslur, túlkað ummæli, greint samhengi, raðað saman atburðum til að sjá samhengi. Okkar greining er þessi: Afstaða íslenskra stjórnvalda - undir þessari kvennastjórn - verður ekki skilin út frá rökrænum forsendum. Afstaða þeirra byggir á kreddu og þráhyggju, sem aðeins mun verða leiðrétt með hreinni valdapólitík. Eina leiðin fyrir USA til að draga Ísland nær sér á ný er að sýna styrk og vald. Ef þú gerir það á þessum fundi máttu búast við að þær vilji leggja sig fram um að vera kurteisari, brosa til þín, vilja jafnvel fá að vera með þér á mynd. Ef vel tekst til munu þær byrja að leiðrétta kúrsinn. Ef a.m.k. önnur þeirra mun tala fallega um þig eftir fundinn, þá er það til marks um að þú hefur náð árangri og að forherðing andstæðinga þinna er ekki óhagganleg.  

Viðbótarathugasemd: Eftir fundinn í Haag lét utanríkisráðherra Íslands hafa eftir sér jákvæð ummæli um DT, sennilega þau fyrstu á sínum embættisferli: "Hann er nú heillandi, karlinn."

 


mbl.is Kristrún: „Sterkasta varnarbandalag í heiminum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við að þramma í takt við stríðstrommurnar?

Með vaxandi óhug horfum við á (ó)ráðamenn í Evrópu verða sífellt herskárri í tali, stöðugt drýgingalegri þegar talað er um hervæðingu og stöðugt fullvissari um óumflýjanleika styrjaldar við Rússa. Sérstaklega er Ursula von der Leyen herská og vill undirbúa ungdóminn fyrir stríð, þ.e. önnur ungmenni en sín eigin. Á fundinum tilkynnti hún að "Evrópa" muni setja milljarða Evra í vopnaframleiðslu og hervæðingu. Hér vakna fleiri spurningar en svör: Ef aðildarríki ESB annast sjálf um varnir sínar, af hverju talar fulltrúi ESB fyrir þeirra hönd á fundinum? Eru fundargestir mögulega að gleyma því að það eru þjóðríkin sem munu greiða hergagnaiðnaðinum, ekki ESB? Hver kaus Ursulu sem leiðtoga Evrópu? Hvers vegna brosir hún þegar hún talar um allsherjar stríð (e. full scale war) við Rússa innan 5 ára? Hvað er Zelensky að gera þarna (Úkraína er ekki í Nato)? Augljóslega hafa Ursula, Keir Starmer, Macron og Merz mikinn áhuga á stríði við Rússa, en bendir eitthvað til að almenningur / kjósendur hafi áhuga? Væri ekki gott að byrja á að ræða við þá sem munu þurfa að blæða í stað þess að byrja á "leiðtogafundi"? Munu fulltrúar Íslands á svona fundi hafa þrek til að tala máli friðar?

Óhugur minn á sér eftirfarandi rót: Þessi fundur snýst ekki um frið eða varnir Evrópu, heldur er raun verið að taka ákvörðun um að seilast ofan í vasa almennra borgara til að fóðra vasa hergagnaframleiðenda, samhliða því að valdefla ókjörna búrókrata eins og Úrsúlu sem vilja gera ESB að einhverskonar stórveldi á sviði heimsmálanna, á pari við Rússland, Kína og Bandaríkin. Á meðan fjármunum og orku er varið í að verjast hugsanlegri framtíðaráhættu í austri molna ríki Evrópu, þ.m.t. Ísland, innan frá vegna lögleysu, stjórnleysis og vaxandi skipulagðrar glæpastarfsemi.

Áður en lengra er haldið - og áður en ríkisstjórn Kristrúnar lofar milljörðum frá Íslandi í þessa "uppbyggingu" - væri rétt að fram færi ábyrg umræða hérlendis um hvert Ísland ætlar að stefna. Frá upphafi hefur stefna lýðveldisins Íslands í þessum málum hvílt á hornsteinum friðar og hlutleysis. Við fullveldisstofnunina 1918 var því heitið að Ísland myndi aldrei ráðast á aðrar þjóðir með vopnavaldi. Frammi fyrir því hvernig "ráðamenn" Evrópu tala nú er orðið nauðsynlegt að dusta rykið af þessum grunni, hyggja betur að innlendum viðfangsefnum og íhuga fyrir hvað við viljum standa. Framlag Íslands til þess að knýja stríðsvélarnar skiptir litlu sem engu, en Ísland getur sannarlega verið rödd friðar. Það er rödd sem sárlega vantar í þá umræðu sem nú á sér stað á hinu alþjóðlega sviði. 

 

 


mbl.is Evrópa „loksins vöknuð“ til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum kurteis og prúð

Þegar ég var barn var mér kennt að þakka Guði fyrir það daglega að hafa fengið að fæðast sem Íslendingur, því hér væri friðsælt og gott að búa, því allt mannlegt líf er dýrmætt. Mér var kennt tala rétt mál og að við ættum að bera virðingu fyrir tungumálinu, sem væri perla sem fágast hefði í aldanna rás og geymdi sögu lands og þjóðar. Mér var kennt að bera virðingu fyrir eignum annarra og fyrir fullorðnu fólki. Mér var kennt að slökkva ekki á sjónvarpinu þegar þjóðsöngurinn var spilaður á sunnudagskvöldum, bera virðingu fyrir fánanum, brjóta hann rétt saman og láta hann aldrei snerta jörð. Mér var kennt um þau gildi sem sameinuðu Íslendinga og markmið okkar sem þjóðar um að vernda landið, vatnið, okkar góðu íslensku matvæli o.s.frv. Mér var aldrei kennt neitt um að við værum betri en aðrar þjóðir, aldrei rætt við mig um hvort ég væri mögulega annað en karlkyns. Ef einhver fullorðinn hefði ætlað að ræða við mig um kynferðismál hefði ég talið hlutaðeigandi stórundarlegan og mögulega háskalegan einstakling. 

En nú virðist umræðan vera komin á allt annan stað. Öllu hér að ofan er snúið á hvolf og allir hvattir til að líta á sig sem fórnarlömb frekar en sem virka þátttakendur í því að byggja upp enn betra samfélag. Allt það sem nefnt var hér í upphafi er nú reynt að útmála sem "öfgar" og að þeir sem vilja vernda íslenska samfélagsgerð séu sjálfkrafa einhvers konar illmenni.

Ég er ekki óraunsær maður, ég geri mér grein fyrir að við Ísland er smáblóm á skógarbotninum þar sem risavaxin og hervædd stórveldi yfirskyggja annan gróður. En þegar erlendar fréttir eru lesnar með morgunkaffinu blasir ekki endilega við að við eigum að keppa að því að verða eins og aðrar þjóðir. Við hljótum að mega vera við sjálf örlítið lengur. Það að vilja að hér sé virk landamæragæsla og að glæpahópar skjóti hér ekki rótum, þýðir ekki að við séum "á móti útlendingum". Við getum fagnað þeim sem hingað vilja flytja, en innviðirnir verða að þola fjölgunina (fjölgun um ca. 80.000 manns a´20 árum leggur pressu á skólakerfi, heilbrigðiskerfi, löggæslu o.fl. og þessir innviðir gætu brotnað ef ekki verður hægt á).

Þetta er ritað hér til að minna lesendur á að næst þegar einhver dregur fram stóra stimpla eins og "öfgar" þá er verið að stöðva umræðuna. Heppilegra væri að ræða saman af yfirvegun og skoða allar hliðar þeirra mála sem til umræðu eru, leyfa spurningar, svara málefnalega og vera kurteis og prúð, eins og okkur var öllum kennt í æsku.


Uppskrift að farsæld eða ávísun á vandræði?

Ég hef (ennþá) tröllatrú á dómgreind Íslendinga, en hallast þó að því að áttavitarnir sem við höfum vanist á að nota síðustu áratugi hafi allir bilað á síðustu árum. Pólitískt segulnorður RÚV, háskólanna, kirkjunnar, Sjálfstæðisflokksins og ríkisstyrktra fjölmiðla vísar allt í átt að ný-kommúnisma (woke-hugmyndafræðin er gamaldags kommúnismi í nýjum fötum).

Eins og í Rússlandi fyrir 100 árum er verið að umbylta íslensku samfélagi. Þetta er sem betur fer ekki gert með aðferðum Bolsévikka sem notuðu bál og brand, heldur Mensévikka sem vildu koma sósíalisma á í mörgum smærri skrefum, með áróðri og innrætingu sem fengi almenning til að kjósa "rétt". Samkvæmt byltingarritum (gömlum og nýjum) ber að bæla niður andmæli og byggja nýtt samfélag á grunni kreddunnar, þar sem eignum er endurúthlutað og framleiðslutækin / iðnaðurinn / landbúnaðurinn / sjávarútvegsfyrirtækin eru sett í eigu "almennings" (sem fámenn pólitísk valdaklíka og vinir þeirra stjórna og fleyta rjómann ofan af). Til að þetta megi takast þarf að koma á sterkri miðstýringu, þjappa saman valdinu, hafa stjórn á skoðanamyndun fólks til að tryggja hugmyndafræðilega einsleitni - og í stuttu máli móta samfélagið að sósíalískri (nú "vók") fyrirmynd. 

Eins og í Rússlandi Leníns freista "vókistar" nútímans þess að stýra umræðunni með því að þrengja það svið sem leyfilegt er að ræða um. Allt sem ekki má efast um / ræða er stimplað sem "öfgar" og öllum er ætlað að fylgja meginstraumnum án frekari spurninga / umræðu. 

Þar sem hugmyndafræðin gengur út á að þjappa saman valdi undir fána ólýðræðislegs yfirþjóðlegs valds má ekki ræða um mikilvægi sjálfsstjórnar, beint lýðræði, um það hvað innviðir 320.000 manna smáríkis þola, um vernd tungumálsins, um alþjóðlega glæpastarfsemi, um veikburða löggæslu, forræði þjóðríkis á eigin landamærum o.s.frv. Þetta eru víst ekki leyfilegar áhyggjur, en lögmætt er að magna upp ótta við loftslagsbreytingar (sem hafa þó alltaf verið til staðar) og vopnaskak í fjarlægum löndum (sem því miður virðist aldrei verða stöðvað). Síðastnefndu atriðin má nýta til að fá fólk til að afsala sér bæði fjármunum og valdi. Friðarsinnar eru þ.a.l. illa þokkaðir af "vók-samfélaginu".  

Á 20. öld reyndu menn víða um heim að gera pólitíska hugmyndafræði að trúarsetningu. Það gafst ekki vel og endaði með kúgunarstjórn til að tryggja "einingu" og "frið". Stóri lærdómurinn er sá að þessum þjóðum hefði farnast betur ef efasemdamönnum hefði verið leyft að spyrja lögmætra spurninga, veita málefnalegt aðhald og benda á aðrar leiðir en þá sem ríkisreknir fjölmiðlar, ríkisreknir stjórnmálaflokkar, ríkisreknir háskólar og ríkisrekin kirkja eru sammála um að beri að fylgja.

Bara lauflétt pæling á sunnudagsmorgni. Eigið yndislegan dag!


Köllum hlutina réttum nöfnum

ESB er ekki formlegt sambandsríki og hefur enga stjórnarskrá (henni var hafnað af aðildarríkjum 2005). Því er ekki unnt að tala um ESB sem fullvalda ríki. Engu að síður krefst ESB þess að reglur þess séu æðri landslögum aðildarríkja, þ.m.t. EES ríkja á þeim (sífellt fleiri) sviðum sem EES samningurinn tekur til. Verði frumvarpið um bókun 35 samþykkt á Alþingi þýðir það að Alþingi geti ekki sett lög sem ganga gegn EES. Þetta þýðir einnig að EES réttur yfirtrompar íslensk lög, jafnvel þótt þau lög hafi verið sett áður en EES kom til sögunnar og einnig íslensk lög sem sett verða héðan í frá! Þetta þýðir að ESB (og stofnanir þess) geta valtað yfir íslenskan rétt (og stjórnarskrána) með nýjum reglum sem Íslendingum ber að innleiða (eins og Íslendingar hafa niðurlægt sig með að gera andvaralaust og andmælalaust í rúm 30 ár). 

Frumvarpið um bókun 35 miðar auk þess að því að íslenskir dómstólar hafi ekkert túlkunarvald um þær ótal reglur EES réttar sem frumvarpið vísar til. Með þessu er verið að binda hendur íslenskra dómstóla og í raun framselja dómsvald úr landi

Með því að samþykkja frumvarpið um bókun 35 væri Alþingi gengisfella sjálft sig og setja sig í hlutverk valdalauss áhorfanda við lagasetningu, sem getur ekkert gert annað en að samþykkja það sem berst frá Brussel (og í mesta lagi blýhúða reglurnar). Um leið eru íslenskir kjósendur gerðir áhrifalausir og höggvið í þá lífæð lýðræðis sem gerir löggjafann ábyrgan gagnvart almenningi

Frumvarpið um bókun 35 snýst því ekki fyrst og fremst um "réttaröryggi" (eins og þingmenn hafa ranglega fullyrt), heldur um flutning valds frá Íslandi til Brussel

Stjórnarskrá Íslands geymir ekkert ákvæði sem heimilar framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Framsal eins og það sem hér um ræðir verður heldur ekki réttlætt með vísan til óskráðrar venju, því hér er ekki um að ræða afmarkað og vel skilgreint framsal, heldur framsal sem telst verulega íþyngjandi. Auk þess myndi afturköllun og síðari viðleitni til að takmarka valdaframsal þetta kalla yfir Ísland samningsbrotamál og líklegast skaðabótamál.

 

Frumvarpið stenst ekki stjórnarskrá:

Á rúmlega 30 árum hefur verið gengið mun lengra í framsali ríkisvalds en nokkur maður gat ímyndað sér þá. Hefði þetta legið á borðinu þá hefði EES samningurinn aldrei verið samþykktur. Með frumvarpinu um bókun 35 er höggvið svo nærri fullveldi Íslands og valdi íslensku þjóðarinnar að það brýtur gegn stjórnarskránni. Ef Alþingi hyggst fara þessa leið, þ.e. að gera rétt ESB æðri íslenskum lögum, þá verður að gera þetta í réttri röð, þ.e. að fara fyrst í að breyta stjórnarskránni. Hin leiðin er sú að segja að EES samningurinn sé orðinn allt annar samningur nú en í upphafi og tímabært sé orðið fyrir Íslendinga að segja honum upp og taka upp fríverslun við ESB - og allan heiminn - á frjálsum forsendum, sem sjálfstæð og fullvalda þjóð.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband