27.3.2025 | 08:08
Grafið undan íslensku dómsvaldi
Stjórnarskrá Íslands heimilar ekki framsal ríkisvalds úr landi, hvorki löggjafarvalds, framkvæmdavalds né dómsvalds. Um áratugaskeið hefur EES samningurinn þó grafið undan íslensku löggjafarvaldi með hömlulausu innstreymi erlendra lagareglna, þar sem Alþingi á ekki frumkvæði að reglunum sem innleiddar, auk þess að geta hvorki aðlagað þær með viðunandi hætti né afnumið. Komi til þess nú í vor að Alþingi geri efni frumvarpsins um bókun 35 að lögum þá er með því grafið undan íslensku dómsvaldi.
Þar sem stjórnskipun Íslands heimilar ekki framsal ríkisvalds úr landi hafa íslensk stjórnvöld ekki svigrúm til að samþykkja beina réttarverkun Evrópuréttar hérlendis því forgangsréttur erlends réttar samræmist ekki skýrum stjórnarskrárákvæðum, sbr. sérstaklega 2. gr. stjskr. Þar sem ekki var unnt að samræma, í meginmáli EES samningsins, þau ólíku sjónarmið sem hér vegast á, var farin sú leið að útfæra millileið, sem sett var í bókun 35. Með bókun 35 var m.ö.o. komið til móts við afstöðu Íslands og annarra EFTA ríkja um fullveldi hvað varðar lagasetningu og dómsvald en um leið reynt að tryggja réttarsamræmi. Með frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 er lagt til að Alþingi lögleiði reglu um almennan forgang EES-reglna hérlendis. Slíkt ákvæði fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenskum rétti, þar sem íslenskir dómstólar munu ekki lengur hafa neitt vald til samræmisskýringar ef íslensk lög stangast á við EES reglur. Þess í stað er lagt til að líta beri alfarið fram hjá skýrum íslenskum lagaákvæðum sem mæla fyrir um annað en EES-reglur. Túlkunarvald um þessar EES reglur verður m.ö.o. alfarið eftirlátið erlendum dómstólum.
Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar skal enginn fara með dómsvald á Íslandi aðrir en þeir sem réttilega hafa verið skipaðir í dómaraembætti samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 59. gr. stjskr. Frumvarpið um bókun 35 er því ekkert smávægilegt mál, heldur snertir innstu taug stjórnskipunar Íslands.
Ef þingmenn á Alþingi Íslendinga ætla að misvirða stjórnarskrá lýðveldisins með þeim hætti sem hér um ræðir felst ekki aðeins í því aðför að stjórnskipuninni, heldur eru þeir einnig að brjóta gegn því drengskaparheiti sem þingmenn hafa hafa sjálfir undirgengist. Á góðri íslensku heitir þetta trúnaðarbrot í starfi.
Í mannkynssögunni eru mörg dæmi um ríki þar sem stjórnarskrárákvæði voru gerð að innihaldslausu gluggaskrauti og allir vissu að hástemmd orð um sjálfstæði, frelsi og réttindi borgaranna veittu enga vernd, því valdhafar misvirtu þau í framkvæmd. Ekkert þessara ríkja teljast góðar fyrirmyndir fyrir Ísland árið 2025.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.3.2025 | 10:04
Hlutleysi Íslands er hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu
Með sambandslögunum 1918 var lýst yfir "ævarandi hlutleysi" Íslands. Hlutleysi hefur verið grundvallarviðmið í íslenskri utanríkisstefnu frá árinu 1918 og frá þessari stefnu hafa stjórnvöld ekki vikið. Herverndarsamningurinn við Bandaríkin breytir þessu ekki.
"Arnar Þór benti á að hlutleysisstefna Íslandshafi verið við lýði í gegnum báðar heimsstyrjaldir og hafi jafnvel lifað af inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Sú stefna hafi aldrei verið formlega felld úr gildi og sé því enn hluti af þeirri meginreglu sem utanríkisstefna Íslands byggir á. Hann vakti athygli á því að samkvæmt íslenskum hegningarlögum sé það refsivert að stofna til gjörða sem setja öryggi ríkisins í hættu og að sú hætta geti skapast ef stjórnvöld færa Ísland inn í hernaðarlegt samkomulag sem gengur gegn hlutleysisstefnunni.
Hernaðaruppbygging ESB brýtur gegn hefðbundinni stefnu Íslands
Arnar Þór gagnrýndi sérstaklega hvernig íslensk stjórnvöld virðast nú draga Ísland inn í aukið samstarf við Evrópusambandið á sviði hernaðar og öryggismála. Hann sagði að þar væri verið að taka þátt í ferli sem snúist ekki aðeins um tæknilegt samstarf heldur grundvallarbreytingu á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Með því að tengja Ísland við hernaðarbandalög Evrópu sé verið að veikja hlutleysisstefnuna í reynd og þar með brjóta gegn þeirri löggjöf sem verndar sjálfstæði og öryggi ríkisins.
Lagaákvæði gilda þrátt fyrir pólitíska stefnu
Arnar bendir á að pólitísk stefnumótun breyti ekki þeirri staðreynd að lögin gilda. Hann sagði að íslensk stjórnvöld geti ekki farið fram hjá ákvæðum stjórnarskrár eða hegningarlaga með því að vísa til breyttra aðstæðna eða erlends þrýstings. Ef gripið sé til aðgerða sem grafa undan hlutleysi og þar með setja fullveldi Íslands í hættu sé það álitamál hvort um sé að ræða refsiverða háttsemi sem varðar við lög.
Þjóðin á rétt á vernd gegn ábyrgðarlausri hernaðartilfærslu
Arnar lagði mikla áherslu á að íslenskur almenningur eigi rétt á að stjórnvöld virði þá stefnu sem verið hefur hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu í rúma öld. Hann sagði að það sé skylda stjórnvalda að gæta að öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar með því að virða þau lög sem tryggja hlutleysi Íslands.
Í þessu samhengi sagði hann að það sé ekki síst mikilvægt að uppræta þá hugsun að hlutleysisstefnan sé úrelt eða óþörf. Hún hafi reynst Íslandi vel og verið lykillinn að því að landið hafi haldið sjálfstæði og friði í gegnum öld pólitískra og hernaðartengdra átaka. Að ráðast gegn henni í nafni nýrra alþjóðlegra stefna eða samruna sé ekki aðeins pólitísk áhætta heldur lagaleg ábyrgð sem kalli á aðkallandi umræðu um stjórnskipuleg mörk og ábyrgð æðstu stjórnvalda í landinu."
Ofangreind umfjöllun er úr samtali okkar Péturs Gunnlaugssonar í gær á Útvarpi sögu. Hlusta má á allt viðtalið hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2025 | 09:29
Gangi okkur öllum reglulega vel
Þegar rætt er um varnir Íslands er gott að horfa til nágrannaþjóða til samanburðar, því engum er greiði gerður með umræðu sem er óraunveruleikatengd. Áður en hlaupið er til og farið í að kaupa vopn og byggja herstöðvar getur verið gagnlegt að skoða hvað sé raunhæft þegar kemur að herkvaðningu almennings.
Í breska hernum eru yfir 70.000 manns. Af þeim fjölda er áætlað að færri en 19.000 menn teljist "vopnfærir", því hinir eru væntanlega skrifstofumenn o.þ.h. Bretar eru 68,5 milljónir talsins. Íslendingar munu nú vera tæplega 400.000 talsins. Vopnfærir menn á Íslandi meðal allra þeirra sem mögulega væri unnt "að kalla til þjónustu" væru samkvæmt þessu í mesta lagi rúmlega 100 að tölu. Í þessum samanburði er litið fram hjá því að Bretar státa af rótgrónum hernaðarhefðum, en Íslendingar ekki.
Í þessu er heldur ekki tekið tillit til þess að íslensk stjórnvöld með aðstoð fjölmiðla hafa um árabil grafið undan ást landsmanna á landinu sínu og dregið upp þrískipta mynd af hinu pólitíska landslagi, þar sem menn eru ýmist vinstri menn, alþjóðasinnar (ESB sinnar) eða "hægri öfgamenn". Í breyttu alþjóðlegu landslagi neyðist þetta fólk nú til að skipta um tón og nú gerist það hratt. Ný forsíða Stern og herskár talsmáti íslenskra ráðamanna eru til marks um það. Áherslubreytingar stjórnvalda ættu að vekja okkur til umhugsunar og aðgátar.
![]() |
Lögregla gæti kallað almenning til þjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2025 | 09:30
Örlagastund
Þegar Hæstiréttur Íslands tók til starfa 16. febrúar 1920 var það stór áfangi fyrir íslenska þjóð, því fullveldi felur ekki aðeins í sér að íslensk lög séu sett af lýðræðilega kjörnu Alþingi, heldur einnig að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenskum dómstólum. Um þetta er stjórnarskráin nr. 33/1944 alveg skýr.
Í umræðu um frumvarpið um bókun 35 hefur ekki verið lögð nægileg áhersla á það hvernig frumvarpið veikir þetta eftirlitshlutverk Hæstaréttar Íslands og framselur í reynd dómsvald úr landi því í framkvæmd er æðsta úrskurðarvald um Evrópurétt hjá dómstól ESB. Í því samhengi öllu hafa reglur ESB um fjórfrelsið tekið sæti einhvers konar yfirstjórnarskrár, sem allt annað verður að lúta.
Við stöndum á krossgötum sem gefa verður gaum að: Í stað þess að treysta endurskoðunar- og aðhaldshlutverk Alþingis og íslenskra dómstóla miðar frumvarpið að því að veikja lýðræðislegar undirstöður íslenska ríkisins og ofurselja okkur kerfi sem setur markaðshyggju á oddinn sem æðsta markmið og efsta gildi. Líf Íslendinga lýtur ekki svo einföldum lögmálum og stjórnvöldum ber að taka tillit til fleiri hagsmuna og samræma þá eftir fremsta megni. Það er hið klassíska hlutverk stjórnmálamanna. Frumvarpið um bókun 35 er afsprengi annars konar nálgunar, þar sem sjónarhornið hefur verið þrengt og öllum öðrum hagsmunum en þeim fjárhagslegu er ýtt til hliðar. Allt sem stendur í vegi fyrir eða hægir á markaðsviðskiptum skal víkja, þ.m.t. stjórn á innflytjendamálum, miðlun ódýrrar raforku til heimila og fyrirtækja, lýðræðisleg valddreifing o.fl.
Úr þjóðsögunum þekkjum við frásagnir af mönnum sem á krossgötum mættu efnislegum freistingum og annað hvort stóðust þær eða féllu á prófinu með óafturkræfum afleiðingum. Íslensk þjóð stendur nú á slíkum krossgötum. Runnin er upp örlagastund í sögu þjóðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2025 | 15:23
Guð blessi Ísland
Á yngri árum, þegar meira traust ríkti í samfélagi okkar, fékk ég oft að kíkja inn í flugstjórnarklefa og sjá flugmennina að störfum. Undantekningalaust fylltist ég öryggiskennd við að sjá að þar var allt í traustum höndum fagmanna. Þetta rifjaðist upp þegar ég gekk út af fundi utanríkismálanefndar Alþingis sl. mánudag og hugsaði: "Stjórn landsins er ekki í höndum fagfólks sem veit hvað það er að gera, þvert á móti gætir yfirgripsmikillar vanþekkingar hjá þingmönnum um undirstöður stjórnskipunar okkar og vandaða lagasetningarhætti." Fundurinn fyllti mig m.ö.o. óöryggi, því eins og þingið er nú skipað hefur það ekki raunhæfa burði til að veita ríkisstjórninni viðunandi eftirlit og aðhald.
Og talandi um ríkisstjórnina, þá hafa atvik þróast þannig sl. daga að hún stendur á jafnvel enn veikari fótum en okkur grunaði. ESB flokkarnir tveir sitja uppi með "lík í lestinni", þ.e. "Flokk fólsins". Án þess að ég vilji gefa mig út fyrir að vera sérfræðingur í líkamstjáningu, þá mátti lesa nokkuð skýrlega út úr blaðamannafundi "Valkyrjanna" í gær að Kristrún og Þorgerður hafa misst þolinmæði gagnvart Ingu Sæland og flokki hennar, því flokkurinn er svo illa mannaður að hann telst vart húsum hæfur í stjórnarráðinu og hvert klúðrið hfeur því rekið annað. Með "vin" eins og "Fokk fólksins" þurfa ESB flokkarnir enga óvini og komast ekkert áleiðis með sín mál. Það blasir raunar við nú því fjármálaáætlunin er ófullburða og fátt verið afrekað annað en að ferðast til útlanda til að lýsa yfir hollustu við Brussel-valdið og erlenda hermangara. Milljarðanir sem þannig er búið að ráðstafa til stríðsreksturs í bága við 2. mgr. 92. gr. almennra hegningarlaga hefði betur mátt nýta til að efla íslensku lögregluna sem stendur vanmáttug gagnvart ofbeldisglæpum og skipulagðri glæpastarfsemi almennt.
Þegar (ekki ef) Flokki fólksins verður skipt út úr ríkisstjórninni munu ESB flokkarnir vart eiga annan valkost en að reyna að fá hinn svokallaða "Sjálfstæðisflokk" til samstarfs. Þórdís Kolbrún verður væntanlega fús til slíks samstarfs, enda mun hún hafa lýst því yfir nú fyrir stuttu að henni hugnist ESB aðild Íslands ekki illa. Ekki er óhugsandi að fleiri ESB sinnar í þingflokki XD muni þá "koma út úr skápnum". Skrefið verður a.m.k. stutt fyrir þá þingmenn XD sem lýst hafa stuðningi við frumvarpið um bókun 35. Allir þessir þrír flokkar eiga það nú sameiginlegt að tala fjálglega um gildi hins "frjálsa markaðar" en telja þó að hann verði best varinn með því að drekkja fyrirtækjum í þykkum bunkum af regluverki frá Brussel! Þingmenn XD, eins og þingmenn ESB flokkanna, hafa stutt fjáraustur í stríðsrekstur, loftslagssjóði og erlenda þróunaraðstoð á meðan innviðir Íslands, þ.m.t. vegakerfið, grotna niður. Ríkisstjórn ESB flokkanna og XD mun sömuleiðis geta verið samstíga í því að halda áfram marxískri innrætingu í miðstýrðu skólakerfi Íslands og að afhenda erlendum stofnunum stefnumörkunarvald á sviði heilbrigðismála, auk þess að halda áfram að fjölga ríkisstarfsmönnum og þenja út ríkisstofnanir með tilheyrandi skattahækkunum, auk þess að leggja drög að íslenskum her!
Guð blessi Ísland.
![]() |
Stunguárás á Ingólfstorgi: Tveir fluttir á sjúkrahús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2025 | 07:03
Af landráðum
Að gefnu tilefni og í framhaldi af spurningu sem til mín var beint á fésbókinni um frumvarpið um bókun 35 vil ég segja þetta:
Á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis sl. mánudag minnti ég þingmenn á að þeir sækja umboð sitt til íslenskra kjósenda. Í því umboði felst engin heimild til að afhenda stjórnartauma, ríkisvald og löggjafarvald, í hendur erlendra valdastofnana. Ég tel að frumvarpið um bókun 35 sé ófullburða, vanhugsað og standist ekki gagnvart mikilvægustu grundvallarreglum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Því ber þingmönnum skylda til að stöðva frumvarpið í nefnd. Takist það ekki ber þingheimi að kjósa gegn því að frumvarpið verði að lögum, því það felur í raun í sér aðför að stjórnskipun íslenska lýðveldisins. Að öðrum kosti bregðast þingmenn því drengskaparheiti sem þeir hafa unnið að stjórnarskránni og væru með því, í reynd, að grafa undan henni eftir stjórnskipulega ólögmætum og ólýðræðislegum leiðum sem allt eins mætti líta á sem brot gegn öryggi og sjálfstæði lýðveldisins Íslands, sem jafna mætti við ólögmæta ríkisvaldsyfirtöku, sem ótvírætt hefði ófyrirsjáanlegar og mögulega grafalvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir samfélagið allt.
Landráð er stórt orð, en vísar til þess þegar menn fremja verknað sem miðar að því að "ráða íslenska ríkið undir erlend yfirráð". Þótt stjórnarskráin nefni landráð ekki sérstaklega þá leggur hún grunninn að völdum og ábyrgð (og þar með fullveldi) íslenska lýðveldisins. Athafnir ráðamanna sem brjóta gegn fullveldinu og stjórnskipun landsins kunna að því að falla undir skilgreiningu á landráðum og fyrir það væri unnt að saksækja hlutaðeigandi á grundvelli X. kafla alm.hgl. nr. 19/1940.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2025 | 22:27
Eru veikgeðja karlar og herskáar konur að stefna okkur í stríð?
Ég hef verið einn af þeim sem í einlægni hef fagnað þátttöku kvenna í stjórnmálum og fjölgun kvenna í áhrifastöðum því ég hef trúað því að þær færðu með sér nauðsynlega mildi, víðsýni og kærleika, sem Ísland og heimurinn þurfa svo sárlega á að halda. Því miður sýnist mér reynslan benda í aðra átt, sbr. framgöngu síðustu tveggja kvenutanríkisráðherra Íslands og það hvernig "forkonur" á Alþingi virðast nýta tækifærið til að höggva hver í aðra hvenær sem færi gefst. Eru konur þá ekkert mildari en karlarnir? Eða sannast hér kenning Margaret Mead um það að karlar verði mýkri með aldrinum en konurnar harðni?
Dæmi 1: Kaja þessi Kallas virðist a.m.k. ekki minna herská en Þorgerður Katín og Þordís Kolbrún.
Dæmi 2: Forsætisráðherra Breta er algjör búðingur sem finnst gaman að klæða sig upp og leika harðan nagla. Lesendur mega gera upp við sig hvort nann sé trúverðugri með plastgrímu til að verjast covid eða skotheldu vesti til að verjast í beinum átökum.
Hvað erum við að horfa á hérna? Í leit að svörum rifjast upp eitthvað sem ég las fyrir 30 árum um það að í hernaði væri vænlegt til árangurs að gera geldinga að herforingjum, því þeir væru grimmari en annað fólk.
Persónulega er ég farinn að sætta mig við að ég búi í kexrugluðum heimi þar sem öllu hefur verið snúið á hvolf: Konur eru karlar og karlar eru konur, fáviska er styrkur, stríð er friður og vanhæft fólk situr við stjórnborðið. Þá er ekki annað að gera en að spenna sætisbeltið og vona að þetta reddist ... einhvern veginn.
![]() |
Kristrún skuldar útskýringar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2025 | 16:46
Hvað á að verja með íslensku vopnavaldi sem Íslendingar nenna ekki að verja með lögum?
Morgunblaðið birtir þessa dagana greinaflokk eftir lagaprófessor sem vill að stofnaður verði íslenskur her. Því fleiri sem greinarnar verða og því meira sem hugsað er um málefnið verður betur ljóst að hugmyndin er glórulaus. Þeirri ábendingu ætti ég auðvitað að koma á framfæri í Morgunblaðinu sjálfu, en ég missti húmorinn fyrir að skrifa í Moggann þegar fyrir lá að þetta gamalgróna dagblað, sem kallast vill borgaralegt og hægri sinnað vildi styðja konu í æðsta embætti þjóðarinnar sem lýst hefur því yfir að hún vilji leyfa fóstureyðingar fram að fæðingu.
Málflutningur um íslenskan her getur hljómað eins og falleg músík í eyrum stjórnmálamanna og -rótgróinna stjórnmálaflokka, sem (eins og Morgunblaðið) hafa slitnað af rótum sínum og dunda sér löngum stundum við að halda á lofti klikkuðum (woke) hugmyndum í stað þess að verja hugsjónir sínar og stefnumið í þágu íslensks almennings. Hernaðarhyggja er nýtt eftirlæti allra áhugamanna um woke-isma, hvort sem þeir aðhyllast vinstristefnu eða hnattvæðingarstefnu, en mörkin þarna á milli verða sífellt óljósari. Þeir sem tala gegn vígbúnaðarkapphlaupi, hatri og hervæðingu mega vænta þess að vera kallaðir harðlínumenn eða jafnvel öfgamenn, og þessir stimplar verða breiðari með hverjum deginum og ná nú yfir þá Íslendinga sem aðhyllast enn hina klassísku sjálfstæðisstefnu, Bandaríkjamenn sem studdu stefnu Demókrata fyrir ca. 15 árum og Breta sem sakna gamla, góða Íhaldsflokksins. Málflutningur um íslenskan her hentar vel Sjálfstæðisflokki 21. aldar, sem misst hefur tengsl við venjulegt fólk, því hinn svokallaði Sjálfstæðisflokkur nútímans gæti séð í þessu tækifæri til að fá að tala um mikilvægi sjálfstæðis og grafa um leið undan því í verki (eins og XD hefur gert með ítrekuðum stuðningi við frumvarpið um bókun 35). Stofnun íslensks hers gæti líkað opnað tækifæri fyrir alla þingflokka til að vinna saman (undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar) að því að hlaða undir flokksgæðinga sína í alls kyns nefndum og ráðum og stjórnum. Hér skapast auðvitað líka tækifæri (fyrir réttu mennina) til að stofna fyrirtæki um vopnainnflutning sem fengju opinn aðgang að fjárhirslum ríkisins. Ef ná má þessum markmiðum með skrautyrðum og hástemmdu tali úr ræðustól Alþingis skiptir engu máli þótt kjarnafylgi flokkanna haldi áfram að fjarlægjast þá, því enn má sækja peninga úr ríkissjóði og jafnvel hækka greiðslur með því að uppfæra lög um stjórnmálaflokka.
En hvað á íslenskur her að verja? M.ö.o. hver eru þau verðmæti sem íslenskur almenningur gæti talið svo dýrmæt að verja beri þau með byssum og blóði? Er það landið sem kjörnir fulltrúar okkar í sveitarstjórnum ætla, án andmæla frá almenningi, að afhenda erlendum fjárfestum undir vindorkuver um leið og kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi hafa opnað þær flóðgáttir með innleiðingu regluverks frá ESB? Er það tungumálið okkar sem stjórnvöld vinna að því að jaðarsetja, án andmæla frá almenningi? Er það kvenfrelsið og jafnréttið sem (án andmæla frá almenningi) mun fyrirsjáanlega eyðast samhliða vexti trúarbragða sem kenna að konur séu réttlægri körlum?
Hvað á að verja með vopnum sem Íslendingar vilja ekki verja með lögum?
Sem fámenn örþjóð í stóru landi hafa Íslendingar ekki haft tök á að verjast með vopnum. Lögin hafa verið vopn okkar, sbr. m.a. sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, þorskastríðin, útfærslu efnahagslögsögunnar, Ice-save málin og neyðarlögin eftir fjármálahrunið.
Firring ráðamanna, flokka og ríkisstyrktra fjölmiðla er orðin algjör ef gefa á þeirri hugmynd undir fótinn að örþjóð eins og Íslendingar geti varist með innlendum her, á sama tíma og eina vopn þjóðarinnar, íslensk lög, er slegið úr höndum hennar með lagasetningu um bókun 35 og síðar beinni aðild að ESB, allt í þeim tilgangi að gera erlend lög rétthærri almennum lögum frá Alþingi.
Höfundur er lögmaður sem gerði tvær úrslitatilraunir árið 2024 til að vekja Íslendinga af værum svefni.
[Greinin birtist fyrst á visir.is 19.3.2025].
![]() |
Átti mjög gott spjall við Selenskí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
En á þetta var þó bent þegar á árinu 2021, þegar ljóst var að stöðugt var verið að fækka sjúkrarýmum hjá ríkinu.
P.S. Fróðir menn hafa tjáð mér að legurýmum á krabbameinsdeild muni ekki fjölga um eitt einasta rúm á nýja og fína spítalanum í miðbænum. Í hvað eru eiginlega allir milljarðarnir að fara ef þeir fara ekki í að fjölga þvi sem mikilvægast má telja, þ.e. sjúkrarýmum, svo að fólk þurfi ekki að liggja á göngum LSH eða í kraðaki með öðrum á bráðamóttökunni?
![]() |
Fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um 100 á ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2025 | 08:39
Myndir segja meira en mörg orð
Hér eru 2500 ára gamlar fréttir fyrir þingmenn Íslendinga: Það á ekki að vera auðvelt að setja lög. Í "Bókinni um ferlið og dygðina" segir Laozsi m.a.: "Því fleiri lög og tilskipanir, því fleiri þjófar og ræningjar". James Madison, 4. forseti USA og einn helsti stjórnvitringur síðari tíma, sagði að ekki mætti drekkja fólki í pappírs-stormi: Lögin ættu að vera einföld og skýr. Deildaskipting þjóðþinga miðaði að því að gera lagasetningarferlið hægvirkara og verja almenning fyrir því að regluverk yrði ofvaxið og ógagnsætt.
ESB brýtur daglangt og árlangt gegn þessum viðmiðum og dembir yfir aðildarþjóðir tugþúsundum blaðsíðna á ári sem enginn kemst yfir að lesa. Afleiðingin verður lagaþoka sem enginn ratar í og afleiðingin verður sú að ólýðræðislegt skrifstofuveldi herðir smám saman tökin á daglegu lífi fólks.
Á fundi með utanríkisnefnd í gær viðurkenndi þó einn þingmaður fyrir undirrituðum að hún sæi ekki til botns í öllum þeim reglum sem innleiddar eru í íslenskan rétt í gegnum Alþingi. Fyrir þessa hreinskilni ber að hrósa viðkomandi þingmanni, sem er maður að meiri fyrir hreinskilnina. Fleiri mættu taka sér hana til fyrirmyndar, því auðmýkt er undanfari virðingar.
Á fundinum minnti ég þingmenn á að þau hafa öll unnið drengskaparheit að stjórnarskránni og benti á að margir af merkustu lögfræðingum Íslands hafa talið að frumvarpið um bókun 35 samræmist illa stjórnarskránni, auki á réttaróvissu og grafi undan Alþingi.
Það er ekki nema mannlegt að vilja belgja sig út, klífa metorðastigann, vera góður liðsmaður o.s.frv., en það má ekki verða til þess að Alþingi breytist í innantóma skel, þar sem þingmenn ræða um innantóma hluti og greiða atkvæði um lög sem þeir geta ekki breytt.
Nýtt og glæsilegt húsnæði Alþingis mun ekki bæta úr niðurlægingu þingsins ef það umbreytist í leikhús. Breytingar á bréfsefni þingsins gefa ekki góð fyrirheit að þessu leyti og slá mögulega tóninn fyrir það sem koma skal, þar sem Alþingishúsið hefur verið "augnstungið" á nýja merkinu og íslenski fáninn afmáður. Myndir segja meira en mörg orð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)