Kristalskúlur brotna þegar þær mæta raunveruleikanum

Í umræðum um mikilvægustu landsmál (stjórnmál, vírusa o.fl.) hafa stjórnvöld og fjölmiðlar kosið að reiða sig á tölfræðileg gögn, annars vegar skoðanakannanir og hins vegar spálíkön. Smám saman er almenningur að átta sig á að mjög óhollt geti verið að gleypa hráar þær tölur sem fjölmiðlar halda að okkur frá degi til dags

Hvernig ber annars að skilja misræmið milli spádómanna og veruleikans? Síðast í gær voru allir stóru (ríkisreknu og ríkisstyrktu) fjölmiðlarnir sammála um að forsetakosningarnar í USA yrðu hnífjafnar. Í dag kemur í ljós að Trump er að sigra með umtalsverðum mun. 

Hver gæti verið skýringin á því að spálíkönin bregðast ítrekað? Er innbyggð skekkja / óskhyggja / skoðanamótun til staðar hjá þeim sem framleiða tölfræðina? Er ekki verið að horfa nægilega vítt fyrir sviðið? Eru sumir þjóðfélagshópar útilokaðir þegar verið er að útbúa þessi gögn? Eru gögnin mögulega beinlínis framleidd í þeim tilgangi að hafa áhrif á hegðun fólks?

Hvernig stendur á því að frambjóðandi Demókrata, sem síðustu vikur hefur verið lofuð alls staðar fyrir kjörþokka og vitsmuni, skilar alls staðar verri úrslitum en Biden sem háði kosningabaráttuna 2020 úr kjallaranum heima hjá sér? 

Voru kjósendur Trumps feimnir við að opinbera val sitt? Voru þeir mögulega sniðgengnir meira en aðrir við gerð skoðanakannana? Hver gæti verið skýringin á því að skoðanakannanir gefa ítrekað skakka mynd

Hvenær kemur að því að kjósendur hætta að láta fjölmiðla mata sig á lélegu efni ... og fari þess í stað að hugsa sjálfstætt og kjósa með hjartanu? 


Látum gusta um sjónvarpssalina og loftum út á Alþingi

Nk. miðvikudag býðst mér að fara í beina útsendingu á Stöð 2 með forsvarsmönnum annarra flokka – ef XL hefur þá náð tilskildum fjölda meðmæla. Þegar þetta er ritað, á laugardagsmorgni, vantar aðeins nokkur hundruð meðmæli. Náist þau fáum við tækifæri til að fara og hrista upp í íslenskum stjórnmálum. Á því er engin vanþörf. Takist það ekki munum við þurfa að horfa upp á endurtekið efni: Kunnugleg andlit atvinnustjórnmálamanna (í bland við fræg andlit) án pólitísks erindis, sem brosa fallega og segjast bera umhyggju fyrir öllu sem hreyfist (nema helst sjálfstæðum atvinnurekendum og vinnandi fólki sem heldur uppi ríkisbákninu) en einbeita sér svo í sameiningu að því eftir kosningar að drekkja okkur í fleiri lagareglum, hærri vöxtum og hærri sköttum.

Eftir aldalanga erlenda stjórn eru Íslendingar kannski vanari því en aðrar þjóðir að kyssa vöndinn. Aðrir myndu mögulega reyna að skýra hegðun kjósenda með vísan til einhvers konar Stokkhólms-heilkennis. Hvað sem því líður er löngu tímabært að Íslendingar fari að sjá í gegnum þessa gervi-umhyggju og fölsk loforð flokkanna (um að „gera betur“ og „breyta stjórnmálunum“), enda gera þessar valdastofnanir ekki annað en að sölsa undir sig meiri völd og meira fé úr vösum almennings.   

Ef Íslendingar ætla að halda áfram að kjósa „vók“ stjórnmálamenn mun það framkalla áframhaldandi niðurbrot á innviðum Íslands, þar sem ríkisvaldið heldur áfram að tútna út á kostnað almenns, borgaralegs frelsis. Lýðræðisflokkurinn er stofnaður til að berjast gegn þessu á grunni klassískrar frjálshyggju: Vernda ber frelsi einstaklingsins með rökhugsun sem byggir á staðreyndum og mannlegum gildum sem sannað hafa ágæti sitt í tímans rás.

Ég hvet alla til að mæla með XL svo að unnt verði að tefla fram alvöru valkosti, til að unnt verði að beina kastljósi að samgróningum íslenskra stjórnmálaflokka, til að unnt verði að krefjast þess – innan frá á Alþingi – að stjórnmálamenn starfi í þágu lands og þjóðar en ekki í þágu erlendra hagsmuna.

Ef ekkert breytist, ef sömu flokkar (og sama fólk) verður kosið inn á Alþingi mun þingið halda áfram að innleiða hér erlendar reglur, án umræðu, án ágreinings. Með því móti breytist Alþingi úr löggjafarþingi í afgreiðslustofnun, þar sem hlýðnir þingmenn ýta á takka eins og þeim er sagt og kjósendur horfa hjálparvana á völdin – og svo auðinn – flytjast úr landi.

Það er orðið tímabært að þessari öfugþróun sé andmælt á skýrum, frjálslyndum, borgaralegum og lýðræðislegum forsendum. Til þess var Lýðræðisflokkurinn stofnaður fyrir tæplega einum mánuði síðan. Við höfum enn tíma til stefnu.

Hjálpaðu okkur að skapa sögulegan viðburð með því að mæla með flokknum og hleypa ferskum, óspilltum vindum inn. Það þarf að lofta út á Alþingi.


Klukka landsins

Hver er ástæða þess að klukka er í merki Lýðræðisflokksins?

Klukka er táknræn fyrir vakningu. Í aldanna rás hafa klukkur gegnt því hlutverki að kalla fólk saman, til samveru, til fundar, til máltíðar, til messu og til starfa. Misstórar klukkur hafa ólíka tíðni og hljóma því á ólíkan hátt og hafa mismunandi áhrif, því hljómurinn er tíðni og tíðni er orka. Talið er að klukkur hafi löngum þjónað heilunarhlutverki, m.a. í kirkjum.  

Í styrjöldum voru klukkur bræddar og notaðar í vopn. Notkun málms klukknanna var breytt úr því að vera heilandi og uppbyggjandi í niðurrif og dauða. Í Íslandsklukku Halldórs Laxness skipar embættismaður erlends konungsvalds Jóni Hreggviðssyni að skera niður klukku landsins sem kallað hafði menn til Alþingis frá örófi:Klukka

„En þetta er ekki kirkjuklukka. Þetta er klukkan landsins. […] Ég er orðinn gamall maður. Klukkuna þá arna hefur landið altaf átt. Hvur hefur bréf uppá það? sagði böðullinn. Faðir minn var fæddur hér í Bláskógaheiðinni, sagði gamli maðurinn. Einginn á annað en það sem hann hefur bréf uppá, sagði kóngsins böðull. Ég trúi það standi í gömlum bókum, sagði öldúngurinn, að þegar austmenn komu hér að auðu landi hafi þeir fundið þessa klukku í einum helli við sjó, ásamt krossi sem nú er týndur. Mitt bréf er frá kónginum segi ég, sagði böðullinn. Og snautaðu uppá þekjuna Jón Hreggviðsson …“

Klukka Lýðræðisflokksins er táknræn á margan hátt og áminning um mikilvægi þess að hver og einn vakni til vitundar um mikilvægi sitt í samfélaginu. Saman getum við gert kraftaverk, íslensku þjóðinni og framtíð landsins til heilla.


Er hægt að bjarga sjálfum sér með því að skaða aðra?

Ofangreind spurning leitar á hugann eftir ,,morgunheimsókn" mína á x.com (twitter) þar sem mannskepnan afhjúpar sjálfa sig á svo margbreytilegan hátt. X, í núverandi mynd, er dýrmætur vettvangur í öllum sínum hryllingi. Í veröld þar sem þrýstihópar, hagsmunaaðilar, stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir leitast við að stýra umræðunni, er X vettvangur tiltölulega óskerts málfrelsis. Þar má því sjá ýmislegt sem hvergi er sýnilegt á öðrum fréttamiðlum. 

En þar með er ekki sagt að heimsókn á x.com sé skemmtileg eða þægileg. Þar ber margt ljótt fyrir augu, t.d. þessa upptöku hér, sem skilur mig eftir mjög dapran á sunnudagsmorgni með fleiri spurningar en svör. Hvað er þetta sem ég var að horfa á?   

Ef heimurinn er svona skelfilegur, ef börn eru látin ganga kaupum og sölum, án þess að fullorðið fólk, sem kann skil á réttu og röngu, geri neitt, þá er hugleysi um að kenna í bland við hreina illsku.

Til hvers lifum við? Hvað myndir þú gera í stöðu flugvallastarfsmannsins sem þarna er rætt við? Er samviska þín til sölu? Er hægt að kaupa sannfæringu þína með mánaðarlegu launaumslagi? Hvert er gildismat okkar? Eru æðstu gæðin þau að geta keypt sér dýr hús og fína bíla, farið til útlanda og á skemmtanir? Eru ekki örugglega til æðri gildi, m.a. sjálft sakleysið, sem eru þess virði að verja? 

Ef við teljum það á annað borð vera skyldu okkar að gera gagn, skilja eitthvað gott eftir okkur, bæta líf þeirra sem á eftir koma, þurfum við þá ekki að íhuga alvarlega hvernig við getum nýtt þetta líf okkar sem best? Hvar getum við nýtt krafta okkar og látið gott af okkur leiða? Því minna sem menn hugsa um þessi atriði, því minna sem menn ígrunda líf sitt, því auðveldara er að gera þá að þrælum sem gera það sem þeim er sagt, án þess að spyrja spurninga. Sjálfstæð hugsun er forsenda þess að við getum verið frjáls. 

Sá sem lifir í ótta er ekki frjáls. Sá sem beygir sig undir vilja annarra til að forða sjálfum sér frá því sem hann óttast (útskúfun, óvild, ofbeldi, fátækt), sá maður tekur stóra áhættu með eigin sálarheill, þ.e. að tapa sjálfum sér, brjóta gegn eigin samvisku og enda sem skugginn af sjálfum sér, í sjálfsfyrirlitningu. 

Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér;

sérhver maður er brot meginlandsins, hluti veraldar;

ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, engu síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri;

dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu;

spyr þú aldrei hverjum klukkan glymur; hún glymur þér.

John Donne (þýð. Stefán Bjarman).

The Liberty Bell

 

 


,,Að viðlögðum heiðri og drengskap"

Höfundur hefur oftar en einu sinni undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni, bæði sem embættismaður og sem þingmaður. Þessa undirritun hef ég tekið alvarlega, enda felur yfirlýsingin í sér loforð, að viðlögðum drengskap og heiðri,  starfa ávallt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 

Nánar lít ég svo á að í þessu felist skuldbindandi loforð um að leggja sig fram af alefli við að þjóna Íslendingum, landinu okkar og lýðveldinu okkar. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi sig til að verja hagsmuni þeirra sem hér búa, verja frelsi, frið og eignir fólksins í landinu, á jafnræðisgrunni, virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins og framfylgja lögum sem sett eru á grundvelli stjórnarskrárinnar, og síðast en ekki síst að vinna af heilindum, samviskusamlega og þannig að allir fái að láta rödd sína heyrast, að á þá sé hlustað og að menn njóti sannmælisDrengskaparheit Alþingi

Stofnun lýðræðisflokksins birtir viðleitni í þá átt að virða þessar mikilvægu skuldbindingar, með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Flokksmenn vilja vinna að því að leiðrétta þá slagsíðu sem í vaxandi mæli hefur einkennt stjórnmál á Íslandi hin síðari ár, þar sem persónulegir hagsmunir eru látnir ganga framar almannahag, þar sem klíkuvæðing og sérhagsmunagæsla verður stöðugt meira áberandi, þar sem til er orðin stétt atvinnustjórnmálamanna, þar sem hugsjónir hafa gleymst, þar sem ráðherrar sýna erlendum embættismönnum meiri vinsemd og hollustu en íslenskum kjósendum. 

Þetta þarf allt að færa til betri vegar. Undir merkjum Lýðræðisflokksins verður unnið að leiðréttingu í þessum efnum með það að meginmarkmiði að þjóna almenningi í þessu landi í stað þess að þjóna ráðandi öflum. Forgangsatriði í þeim efnum verður í því fólgið að tryggja almenningi og fyrirtækjum sambærileg vaxtakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar og tryggja þannig stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir landsmenn alla.


Við erum borgarar en ekki þegnar. Á því er mikill munur.

Á grundvelli sinna pólitísku kenninga verður Gunnari Smára Egilssyni tíðrætt um ,,auðvaldið" sem rót alls hins illa. Ríkisvaldið kallar hann ,,almannavald" og gefur sér að það vald sé almenningi vinveitt. Sjálfur hef ég ávallt stutt við frjálst einkaframtak og samfagnað þeim sem auðgast á heiðarlegan hátt því framleiðni og hagvöxtur er undirstaða samfélagslegra framfara. Öfugt við Gunnar Smára hef ég ekki blint traust á ríkisvaldi. Í anda vestrænnar stjórnskipunarhefðar hef ég minnt á nauðsyn þess að valdbeitingu ríkisins séu settar stífar skorður, þannig að verjast megi ofríki og harðstjórn. 

Í þessu samtali okkar Gunnars Smára í gær [01:15:00] (þar sem þáttastjórnandinn yfirtók reyndar hljóðnemann í lokin) beindi ég athyglinni að því að mögulega þurfum við GSE báðir að endurskoða afstöðu okkar í ljósi þeirrar stöðu sem við blasir:

Fyrir liggur að ríkustu menn heims eiga reglulega stefnumótunarfundi með þjóðarleiðtogum, stjórnmálamönnum, herforingjum o.fl., auk boðsgesta úr röðum áhrifafólks úr ýmsum geirum. Fundir þessir eru iðulega skipulagðir af World Economic Forum, en ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa verið virkir á þeim vettvangi, m.a. fyrrv. forsætisráðherra Íslands. Á þessum fundum, m.a. í Davos, eru línurnar lagðar um framtíð almúgans. Núverandi forsætisráðherra Bretlands, Keith Starmer, hefur opinberlega sagt frá því að hann kjósi fundina í Davos umfram þingfundi í Westminster.  

Um þessa stöðu er mikið rætt erlendis, en á vettvangi íslenskra stjórnmála hvílir einhvers konar bannhelgi yfir umræðu um þessi mál. Sú þögn er býsna alvarleg í ljósi þeirra áhrifa sem þessir fundir, sem stýrt er af fulltrúum stórvelda og stærstu fyrirtækja heims, hafa á íslensk stjórnmál og stefnumörkun stjórnvalda.

Í samtali okkar GSE í gær lagði ég áherslu á að menn þurfi að horfast í augu við breytta heimsmynd og þá hættu sem í því getur fólgist að kjörnir fulltrúar almennings ráðslagi á bak við luktar dyr með fulltrúum alræðisríkja og risastórra hagsmunaaðila (m.a. vopna- og lyfjaframleiðenda) undir merkjum þess sem kallað er "stakeholder capitalism".  

Hver er staða smáríkis eins og Íslands í heimi þar sem auður og völd safnast á æ færri og stærri hendur? Hvernig ver dvergþjóð auðlindir sínar í slíkum heimi? Þurfum við ekki öll, þ.m.t. ég sjálfur og GSE, að íhuga hversu vel hugmyndir okkar um heiminn samræmast þeim nýja veruleika sem við blasir?

Í heimi þar sem peningavald og pólitískt vald er gengið í eina sæng verður meginspurningin kannski þessi: Viltu beygja þig undir þessa þróun og lúta valdinu umyrðalaust? Eða viltu standa vörð um frjálsan vilja mannsins, frjálsa skoðanamyndun, frjálsa tjáningu, lýðræðislega lagasetningu og, síðast en ekki síst temprað vald, þ.e. bæði ríkisvald og peningavald? 

Lýðræðisflokkurinn er stofnaður til að veita fólki rödd, virkja beint lýðræði í mikilvægustu málum og efla þar með sjálfsvirðingu okkar sem frjálsra einstaklinga. Við erum borgarar, en ekki þegnar. Á því er grundvallarmunur.

 

 


Drullupollar og kristalskúlur

Gríski heimspekingurinn Epiktet (50-138) sagði ,,Ef þú ætlar að taka þér eitthvað fyrir hendur, skaltu gera þér ljóst hvert eðli þess er. Ef þú ætlar t.d. að ganga til laugar, skaltu gera þér ljóst, hvað tíðum hendir í lauginni. Vatni er skvett á suma og öðrum er troðið um tær, sumir skattyrðast og enn aðrir stela. Þú munt ganga öruggari að verki ef þú segir sjálfum þér áður: Ég ætla að fara í laug og halda skapi mínu í eðlilegu horfi. Farðu eins að hvert sem verkið er. Ef eitthvað mótdrægt hendir þig í lauginni, þá hefur þú svarið á reiðum höndum: Ég ætlaði ekki einungis að lauga mig, heldur einnig að halda skapi mínu í jafnvægi, en það myndi ég ekki gera ef ég yrði gramur af því er hér gerist". (Þýð. Dr. Broddi Jóhannesson).
 
Með því að lýsa yfir þátttöku í stjórnmálum tók ég auðvitað með í reikninginn að skvett yrði á mig vatni úr ýmsum áttum, en að útgefandi DV og leigupenni hans reyndu að draga mig ofan í drullupollinn sinn með ósannindum, fleipri, óhróðri og uppnefnum bendir til að framboð mitt valdi þeim áhyggjum. Þótt útgefandi DV sé á þeirri skoðun að best sé að framselja sem mest vald til Brussel, þá myndi ég fremur vilja rökræða við þá en að kalla þá stjórnlynda, andstæðinga lýðræðis o.s.frv. Í Pallborðinu á Stöð 2 í gær hrósaði ég Lilju Alfreðs fyrir að koma hreint fram. Leigupenni hjá DV sem rýnir í kristalskúlu í bergmálshellinum sínum á ekki slíka virðingu skilda. Kjósendur munu eiga síðasta orðið, ekki kristalskúla DV.
 
 

Fréttatilkynning: Stofnun nýs stjórnmálaflokks.

Á vegferð minni í framboði til embættis forseta Íslands fann ég mikinn stuðning víða um land, sem ég er þakklátur fyrir.

Framboðið var heiðarleg tilraun til að vekja Íslendinga til vitundar um þá öfugþróun sem er að eiga sér stað í landsmálum. Innviðir okkar eru við það að brotna, sumir jafnvel þegar brotnir: Löggæslan, landamærin, vegakerfið, menntakerfið, sjúkrahúsin og okkar sameiginlegu siðrænu viðmið. Ef innviðirnir brotna, þá brestur einnig sjálfur grundvöllur samfélagsins, þ.e. sú góða samfélagsgerð sem við Íslendingar höfum búið við fram að þessu. Engin þjóð vill missa frá sér lagasetningarvaldið, landið, innanlandsfriðinn, auðlindir sínar, tungumálið o.fl. Þetta gæti allt gerst innan fárra áratuga. Frammi fyrir þessari alvarlegu stöðu hljótum við að spyrja hver muni koma okkur til bjargar og verja frelsi okkar? Kynni mín af Alþingi, stjórnmálaflokkunum, dómstólunum, háskólunum, stjórnsýslunni o.fl. segir mér að við getum ekki reitt okkur á flokkakerfið, stjórnkerfið, dómskerfið, menntakerfið, fjölmiðlana né stórfyrirtækin. Lausnin er heldur ekki fólgin í að ofurselja okkur fjarlægu, yfirþjóðlegu valdi. Hver er þá að fara að koma okkur til bjargar? Enginn nema við sjálf.

Frammi fyrir aðsteðjandi ógnum er okkur bæði rétt og skylt að verja þá samfélagsgerð sem við sjálf höfum fengið að njóta góðs af, þar sem börnin okkar geta verið frjáls og örugg. Þessi vörn þarf að eiga sér stað á opnum og lýðræðislegum vettvangi, þar sem allir fá að láta rödd sína heyrast á jafnræðisgrunni, skrumskælingarlaust. Þessar leikreglur þarf að virða svo að lýðræðið verði ekki að blekkingarvef. Stjórnmálaflokkar eru kosnir á grundvelli loforða sem þeir sjálfir gefa og gangi þeir á bak orða sinna eiga kjósendur ekki að una því andmælalaust. Stjórnmál snúast um hagsmuni þjóðarinnar, ekki hagsmuni stjórnmálamanna. Lýðræðið má ekki verða flokksræði að bráð. Kjörnir fulltrúar hafa ekki umboð til að leggja ákvörðunarvald í hendur ókjörinna embættismanna. Ákvörðunarfælið fólk á ekki erindi í stjórnmál. Stjórnmálamenn eiga ekki að gerast blaðafulltrúar ráðandi afla í von um að halda starfi sínu. Þrýstihópar mega ekki ná tangarhaldi á ríkisvaldi. Íslenskir kjósendur hafa aldrei samþykkt að alþjóðlegar stofnanir ákvarði stefnu íslenskra stjórnvalda og að sú stefna sé innleidd hér án umræðu.

Mjög alvarleg staða blasir við, bæði hér og í nágrannalöndum okkar. Stjórnmálaflokkar hafa gengist sérhagsmunahópum á hönd, ríkisvald er í síauknum mæli afhent alþjóðlegum stofnunum. Smáríki tala eins og stórveldin fyrirskipa. Stjórnmálaþróunin virðist vera í átt til miðstýrðrar alheimsstjórnar, þar sem þjóðríkin afhenda fjármuni og vald til alþjóðlegra stofnana, samhliða því að tengslin rofna milli kjósenda og þeirra sem fara með valdið. Slíkt andlitslaust og ábyrgðarlaust valdakerfi er ógn við borgaralegt frelsi og virðist raunar miða að því að ná stjórn á öllum þáttum mannlífsins: Orkunotkun okkar; hvað við fáum að sjá og lesa á Internetinu; hvaða lyf við tökum; hvað við fáum að kjósa um. Alræðisógnin sem í þessu felst er greinileg og vaxandi. Frammi fyrir þessu ber okkur að verja frelsi okkar, virkja almenning til lýðræðislegrar þátttöku og standa vörð um Ísland. Sem smáþjóð með merka lýðræðissögu hafa Íslendingar dýrmætan möguleika á að marka sína eigin braut í átt til farsældar með náungakærleik og samvinnu að leiðarljósi.

Landnám Íslands var knúið áfram af frelsisþrá og enn leitar fólk hingað í leit að frelsi. Okkur ber því að verja frelsið og gæði landsins. Við höfum fengið þetta land að gjöf og frelsið í arf. Okkur hefur verið trúað fyrir þessu landi, en við erum að tapa því frá okkur og um leið töpum við auðæfum landsins. Ef ekki kemur sterk rödd inn á þingið til að verja allt það sem við þurfum að vernda þá mun illa fara. Koma verður til móts við unga fólkið sem vill hafa atvinnu og vill eignast þak yfir höfuðið og bændur sem vilja fá möguleika til að lifa af við framleiðslu sína. Koma verður því fólki til aðstoðar sem er að missa hæfileikana til að takast á við lífið og leysa vanda margs eldra fólks sem býr við ótrúlegar fjárskerðingar og bág kjör. Unga fólkið og gamla fólkið verður að hafa von um breytingar: Lausn undan valdboði. Gegn misrétti. Gegn endalausri skattheimtu og græðgisvæðingu.

Á síðustu vikum hafa fjölmargir hvatt mig til að stofna stjórnmálaflokk til að freista þess að snúa þjóðfélagi okkar til betri vegar. Baráttu minni sé alls ekki lokið, hún sé í raun rétt að byrja. Framtíð landsins og íslenskrar þjóðar eru í húfi. Þetta eru verðmæti sem eru þess virði að berjast fyrir og verja.

Á grunni framangreindra sjónarmiða hef ég nú stofnað stjórnmálasamtök, Lýðræðisflokkinn - samtök um sjálfsákvörðunarrétt, í þeim tilgangi að vinna gegn þróun í átt til ofstjórnar og óstjórnar[1] sem er að knésetja íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki. Spyrna verður gegn öfugþróun sem birtir verstu hliðar stjórnmálanna, gerir lýðræðið óvirkt, eyðir lýðfrelsi og skapar í reynd nýja yfirstétt sérfræðinga og tæknimanna, sem öðlast sífellt meiri völd án þess að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum. Gömlu flokkarnir eru þá orðnir eins og tveir vængir á ófleygum fugli, hluti af kerfi sem hætt er að þjóna almenningi en þjónar þess í stað sjálfu sér, flokksgæðingum, hagsmunaaðilum og erlendu valdi.

Lýðræðisflokkurinn snýst um að efla lýðræði, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Þessi nýju stjórnmálasamtök verða byggð á heiðarleika og þeim gildum sem best hafa reynst. Ég er tilbúinn að fara í þessa baráttu með öllu því hugrakka og velviljaða fólki sem vill heyja hana með mér af heilu hjarta, með réttsýni og visku að leiðarljósi, fyrir landið okkar, Ísland.

Garðabær, 29. september 2024,

                                                                      

Arnar Þór Jónsson.

 

[1] Ofstjórn felur í sér tilhneigingu í átt til alræðis, þar sem ríkið stjórnar öllu. Óstjórn er myndbirting stjórnleysis.


Ó-Sjálfstæðisflokkur herðir snöru að eigin hálsi, aðrir flokkar lána reipið

Utanríkisráðherra Íslands er nú lofuð af varautanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir stuðning og hollustu. Bandaríkin hafa verið í stöðugum stríðsrekstri síðustu áratugi og utanríkisráðherra Íslands hefur í orði og verki kastað olíu á ófriðarbálið. En hafa Íslendingar verið spurðir álits? Styðja Íslendingar áframhaldandi stríðsrekstur í Úkraínu? Í umboði hvers talaði Þórdís Kolbrún þegar hún ögraði Rússum og rússneska flotanum?  Hvaða siðferðilegu forsendur hefur utanríkisráðherra vopnlausrar þjóðar til að hvetja til hernaðar og blóðsúthellinga? Ætlar hún sjálf fram á vígvöllinn eða telur hún rétt að Íslendingar sendi menn fram til orrustu? Væri ekki rétt að við Íslendingar fengjum að lýsa afstöðu okkar til þessara stríðsæsinga áður en ráðherrar gefa yfirlýsingar í okkar nafni? Hvers konar lítilsvirðing er það fyrir almennum borgurum að nota skattfé þeirra til vopnakaupa, án þess að bera slíka ákvörðun undir dóm þjóðarinnar?

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, er skoðanabróðir utanríkisráðherra Íslands í flestum efnum. Trudeau er maður sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa raunar sýnt sérlega vinsemd, m.a. með því að bjóða honum hingað til lands. Hér er ný upptaka af honum að hvetja til stigmögnunar stríðsátakanna í Úkraínu, þar sem hann hvetur til þess að langdrægár eldflaugar, sem framleiddar eru í NATO ríkjum, verði notaðar á skotmörk í Rússlandi. Réttlætingin er sú að Úkraína ,,verði að vinna stríðið" gegn Rússlandi. Öllum sæmilega skýrt hugsandi mönnum er ljóst að Úkraínumenn eru aldrei að fara að vinna þetta stríð. Ástæðan er sú, eins og Trudeau og Þórdís Kolbrún ættu að vita, að Rússar gætu tortímt gjörvöllu mannkyninu aðeins með því að nota brotabrot af vopnabúri sínu. Því er enginn að fara að ,,vinna stríð" gegn Rússum. Ræða Trudeaus er óráðstal óábyrgs manns sem ekki ætlar sjálfur að fórna neinu í þeim blóðsúthellingum sem hann boðar. 

Á sama tíma og lægra settir pótintátar hittast á Íslandi, sitja æðstu ráðamenn Bretlands og Bandaríkjanna á fundi til að ráðslaga um hvernig unnt sé að stigmagna stríðsátökin. Hefur einhver heyrt framangreinda ,,leiðtoga" NATO ríkjanna kalla eftir friðsamlegri lausn? Væri orkunni ekki betur varið í friðarviðræður en stríðstal? Hið pólitíska vald á Vesturlöndum er komið í trölla hendur. Fáviska þeirra hefur fært alla heimsbyggðina á barm gjöreyðingarstríðs þriðju heimsstyrjaldarinnar.  

Utanríkisráðherra Íslands er holdgervingur þeirrar öfugþróunar sem orðið hefur i vestrænum stjórnmálum á síðustu árum og áratugum. Í stað þess að þjóna almenningi í sínu eigin landi koma ráðamenn fram sem eins konar lénsherrar, þ.e. fulltrúar erlends yfirvalds. Eins og sannir lénsherrar ber þetta fólk meiri umhyggju fyrir yfirþjóðlegum hagsmunum en því að framkvæma vilja almennings og þjóna sínum eigin landsmönnum. Þess í stað ganga þau fram sem fulltrúar valdstjórnarinnar. Þetta er gert með því að tilkynna ákvarðanir sem búið er að taka (án lýðræðislegrar umræðu). Vilji valdhafanna er þá klæddur í búning stjórnvaldsreglna og þær svo notaðar til að skerða bæði frelsi og eignir borgaranna. Þetta veldur því að stöðugt sígur á ógæfuhliðina í stjórnarfarslegu tilliti.

Og nú hefur utanríkisráðherra tilkynnt að hún hyggist bíta höfuðið af skömminni og misvirða stjórnarskrá lýðveldisins með nýrri tilraun til að leggja fram frumvarp um bókun 35. Með frumvarpinu er grafið undan Alþingi og íslensku lýðræði, auk þess sem vegið er að réttaröryggi landsmanna því frumvarpið mun hafa þau áhrif að samþykkt lög frá Alþingi þurfa að víkja fyrir EES reglum verði árekstur þar á milli. Með frumvarpinu vefur utanríkisráðherra snöru um háls síns eigin flokks, kastar rýrð á alla sögu flokksins og pólitíska arfleifð hans, gengisfellir sjálfstæðisstefnuna og rýrir auðvitað sjálfstæði Íslands. Frumvarpið felur í sér misgerð gegn öllum þeim sjálfstæðismönnum (með stóru og litlu essi) sem fórnuðu tíma og fjármunum til að vinna að sjálfstæði Íslands á þeim góða grunni sem lagður var með Sjálfstæðisstefnunni 1929. Með því að hleypa þessu frumvarpi í gegnum þingflokksherbergið hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins brugðist sjálfum sér, flokknum og kjósendum. Afleiðingarnar munu birtast í næstu kosningum.

Aðrir þingflokkar hljóta glaðir að vilja lána þingmönnum Sjálfstæðisflokksins reipi í framangreinda snöru, því það er augljóslega hagur allra annarra þingflokka að Sjálfstæðisflokkurinn dingli sem lengst í gálganum sem þeir hafa sjálfir valið sér.  

Ef þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands hyggjast veita frumvarpinu brautargengi og gera þessi ólög að lögum, þá ganga bregðast þau um leið því drengskaparheiti sem þau hafa öll unnið, þ.e. að standa vörð um stjórnarskrá Íslands. 

Öllu hefur verið snúið á hvolf: 

“We now live in a nation where doctors destroy health, lawyers destroy justice, universities destroy knowledge, governments destroy freedom, the press destroys information, religion destroys morals, and our banks destroy the economy.” (Chris Hedges)

Everything is fake


Varúð, óhefluð framsetning

Í einhverri bók eftir Milan Kundera las ég fyrir löngu síðan setningu um það að veruleikinn væri heimsálfa sem við ferðumst allt of sjaldan til. Þessi orð rifjuðust upp þegar ég hlustaði á þetta nýja viðtal Tucker Carlson við Michael Benz, því hér falla sannleiksbombur ótt og títt. 

Fyrir alla þá sem enn hafa ekki áttað sig á því hvernig verið er að snúa öllu á hvolf, hvernig ritskoðun er beitt í nafni ,,lýðræðis", hvernig sannleikur er útmálaður sem lygi, réttar en óþægilegar upplýsingar stimplaðar sem "malinformation", hvernig vilji almennings er afbakaður sem ,,popúlismi", hvernig stefnuboðun stóru fjölmiðlanna (MSM) er samstillt og hvernig áróðursvélarnar eru fjármagnaðar úr opinberum sjóðum sem knúnar eru áfram af taumlausri peningaprentun, þá mæli ég með því að menn gefi sér tíma til að hlusta.

Fyrir þá sem kjósa að einblína á leiktjöldin sem stóru fjölmiðlarnir stilla upp daglega, þá er best að forðast áheyrn, því menn gætu meiðst þegar leikmyndin hrynur.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband