Glatað lýðræði?

Til hvers erum við að kjósa forseta? Til hvers kjósum við þingmenn? Er það ekki til að vera ráðsmenn, umsjónarmenn eigna okkar, vörslumenn hagsmuna okkar? Þessir fulltrúar eiga að vera hollir og dyggir þjónar sem starfa fyrir fólkið í landinu - ekki fyrir sig sjálfa og ekki fyrir flokkinn sinn heldur fyrir þjóðina.

Það er ekki réttur kjörinna fulltrúa, heldur skylda þeirra, að gera allt sem hagsmunir og þarfir þjóðarinnar kalla á sé það innan ramma laga og stjórnarskrár. 

Blákaldur pólitískur veruleiki Íslendinga er sá að engu skiptir hvaða flokka fólk kýs því við stöndum alltaf frammi fyrir sömu niðurstöðu þar sem ríkisvaldið þenst út á kostnað einstaklinganna og borgaralegs frelsis. 

Framboð mitt til embættis forseta Íslands er hugsað sem mótvægi; mótframboð gegn aðgerðaleysi - og andvaraleysi - kjörinna fulltrúa. Eins og mál hafa þróast hérlendis á síðustu árum þolir erindi mitt enga bið vegna þess að ef engin breyting verður á mun lýðræði okkar halda áfram að veikjast og jafnvel glatast.

Það er afar mikilvægt að þjóðin velji sér forseta sem mun standa vörð um lýðræðið, frelsi okkar og sjálfstæði.  

[Greinin birtist fyrst á www.visir.is 11. apríl 2024]

 

 

 


Þjóðarskútan þarf styrka stjórn

Þjóðarskútan er í raun forn-grísk myndlíking til að lýsa þjóðlífi og stjórnmálum: Skipseigandinn er holdgervingur almennings, stór og sterkur, en skammsýnn og ekki vel að sér í siglingafræðum. Skipverjarnir , deilugjarnir og fákunnandi, eru táknmyndir fyrir stjórnmálamenn og múgæsingamenn hvers tíma. Eini maðurinn um borð sem getur markað rétta stefnu út frá stjörnum himins er siglingafræðingurinn , sem því miður er þó áhugalaus um daglegar ryskingar hinna og blandar sér ekki í stjórnmál nema skylda hans krefjist þess. Skipverjarnir kalla hann skýjaglóp en keppa innbyrðis um hylli eiganda skipsins (almennings) í þeim tilgangi að fá sjálfir að sitja við stjórnvölinn.sigling
 
Nú er brýnt að við hjálpumst að svo skútan okkar komist á réttan kjöl og á farsæla stefnu. Hér er að teiknast upp ófremdarástand: Siglingafræðingurinn hefur sagt upp, skipstjórinn er stokkinn frá borði og skipverjarnir (pólitíkusarnir) bítast um að komast að stýrinu. Nú verðum við, sem eigendur skipsins, að taka ábyrgð á okkar eigin velferð, öryggi og framtíð, því ekki viljum við að skútan sökkvi.

Sannleikurinn frelsar

Á páskum gefst tóm til íhugunar og lestrar. Rit Dr. Sigurbjörns Einarssonar geyma mörg gullkorn sem gefa kraft og styrk. Undir yfirskriftinni ,,Sannleikurinn sem frelsar" segir Sigurbjörn frá því að árið 1880 hafi verið byrjað að reisa alþingishús í Reykjavík.hornsteinn (3)

Það var æði stórmannleg ákvörðun, sem lýsti áræði fátækrar en vaknandi þjóðar.

Þegar að því kom að leggja skyldi hornstein hússins, þurfti að velja spakleg orð til þess að letra með honum í grunninnn. Fyrir vali urðu orð Krists: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Þau eru skráð á skilfurskjöld í hornsteini Alþingishússins. 

Sextíu árum síðar höfðu Íslendingar reist sér veglegt háskólahús. Í því húsi er kapella eða kirkja. yfir altari þess helgidóms í musteri íslenskra vísinda eru skráð gullnu letri sömu orð: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.

Tvö hinna tignustu húsa Íslendinga eru helguð þessum einkunnarorðum. Það er auðsætt að þau hafa þótt tilkomumikil. 

Ein fátæk kirkja af mörgum íslenskum var máluð fyrir nokkrum árum. Ágætur listamaður bauðst til þess að skreyta hana fyrir ekkert. það var þegið með þökkum. Vel þótt við eiga að mála ritningarorð á kórbogann. Og þessi orð voru valin: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Þar standa þau stóru og fögru letri skráð, meira segja á latínu.

Hver og einn þarf að velja hvert athyglin beinist hverju sinni. Þessu vali mætum við á hverjum degi. Veljum við sannleika, fegurð, heiðarleika, kærleika og frelsi eða ætlum við að byggja líf okkar á ósannindum, ljótleika, sviksemi, illsku og helsi? Ég vona að ég sé að skynja hjörtu Íslendinga rétt, og að hver og einn vilji setja athygli og orku í það sem er satt, rétt, fagurt og gott. Með réttu vali breytum við aðstæðum okkar til hins betra, því það sem við veitum athygli vex. Þá eigum við bjartari og betri tíma framundan. 

 


Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma

,,Íslenska þjóðin verður öllum öðrum fremur, vegna smæðar sinnar, að geta byggt traust og vonir á hverjum einasta hlekk, hverjum einasta einstakling." Jóhann Hafstein, Þjóðmálaþættir (Almenna bókafélagið 1976), bls. 32. Þessi orð, sem ég rakst á í gærkvöldi, ríma vel við meðfylgjandi texta sem birtist á bls. 5 í helgarútgáfu Moggans. [Smellið til að stækka].mbl300324


Í forsetakjöri 1. júní nk. gefst Íslendingum einstakt tækifæri til að velja sér þjóðkjörinn forseta í beinni kosningu. Fáar þjóðir hafa tækifæri á slíku. Viljum við velja fulltrúa fjárhagslegrar / pólitískrar „elítu“ eða viljum við velja mann sem er óháður slíkum öflum? Með framboði mínu vil ég veita Íslendingum tækifæri til að eiga rödd á ríkisráðsfundum og víðar, þar sem tækifæri gefst til að minna kjörna fulltrúa og ókjörna valdamenn á að það er þjóðin sem er hinn sanni valdhafi. Sá maður þarf að vera óháður flokksaga og kunna að standast hópþrýsting. Samviska hans og sannfæring mega ekki vera til sölu. Þetta þarf að vera maður sem þorir að tjá sannfæringu sína óttalaust. Þessi maður þarf að treysta sér til að efast þegar allir aðrir virðast sannfærðir. Ég treysti mér til að gegna þessu mikilvæga hlutverki og vona að Íslendingar treysti mér til þess einnig.


Daglegt val markar lífsbraut okkar ... og heilindi

Erum við sönn og heil í því sem við segjum og gerum? Er hollusta okkar til sölu? Erum við tilbúin að svíkja okkur sjálf, okkar eigin prinsipp, fyrir silfurpeninga? Fremjum við slík svik gagnvart sjálfum okkur / samborgurunum / samfélaginu fyrir launaseðilinn / fyrir að halda embættinu / fyrir frægð / fyrir frama?
Konstantínus mikli keisari lifði fyrir 1600 árum. Hann varð fyrstur allra Rómakeisara til að leyfa kristnum mönnum að rækja trú sína einnig opinberlega. Tími bænahalds og samkomu í neðanjarðar-grafhýsum var liðinn. Faðir hans, sem var keisari á undan honum, var enn heiðinn maður. Hann hét Konstantíus.
Þegar Konstantíus þessi komst til valda gerði hann sér grein fyrir því að fjölmargir kristnir menn gegndu mikilvægum störfum bæði í ríkisstjórn Rómaveldis sem og við hirð keisarans.
Hann gaf öllum kristnum starfsmönnum skipun:
Yfirgefið Krist eða yfirgefið starfið!
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra kaus frekar að leggja niður starfið en að afneita trúnni. Og þá kom keisarinn öllum á óvart og setti þá sem höfðu verið tryggir trú sinni aftur inn í embætti og rak hina sem í kjarkleysi og hugleysi höfðu afneitað Kristi í þeirri von að halda starfinu. Og hann sagði við þá:
Ef þið haldið ekki tryggð við Krist sýnið þið mér ekki heldur tryggð.
 
Þessi saga á erindi við okkur enn í dag. Skilaboðin eru að þeim er umbunað sem fylgja innsæi sínu og leið hjartans. Því ber okkur alltaf að velja heilindi og trúfestu fram yfir skjótfengna umbun, þægindi og metorð.

Hvað skortir íslensku þjóðina mest?

Sigurbjörn EinarssonEinu sinni efndi íslenskt tímarit til verðlaunasamkeppni um svar við spurningunni: Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Hvert er svarið? Ekki snjallasta heldur sannasta svarið?

Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það land er auðugt, sem á menn. Jónas kvað fyrir meira en 100 árum:

… eyjan hvíta / átt hefur sonu fremri vonum.

Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku. Og það land er ekki ríkt, sem er fátækt að slíkum mönnum, þótt fjölmennt væri og fésælt. Sú þjóð er ekki að vaxa og ekki að auðgast, þó hún vaxi að höfðatölu og auratali, sem rýrnar að manndómi, tapar á vettvangi trúmennsku, bindindissemi, grandvarleiks, ábyrgðarvitundar, samviskusemi. Sú þjóð er ekki að dafna sem gerist hirðulaus um hugarfar sitt, sinnulaus um sál sína. Sú kynslóð er ekki upplýst, sem afrækir uppbyggingu hins innra manns, hversu fjölfróð sem hún kynni að vera. Slík lýðmenntun og landsmenning, sem hefur annað í fyrirrúmi en það, sem miðar að innri vexti og þroska einstaklinganna, horfir ekki fram, heldur aftur, hversu glæst sem hún kann að vera á ysta borði. Það fólk er ekki á leið inn í jarðneskt sæluríki, sem hættir að líta til himins, hversu mjög sem hagir vænkast, þægindi aukast, öryggi vex. Það eru meiri líkur á að slík kynslóð sé á leið ofan í þá jörð sem hún prettar um himininn, niður í dýflissu af einhverju tagi, svarthols sinnar eigin jarðhyggju, sinnar eigin tækni, í tröllahelli, sem gín að baki hillinganna, ef hún lýkur þá ekki ferli sínum í ófæru þeirrar styrjaldar, sem guðvana girnd, vitfirrtir vítisórar og djöflatrú æsir á hendur henni.

[…] Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Þú veist það svo vel. Það er meira af heilskyggni, fleiri slíkir menn. Viltu ekki að þínum hluta bæta úr þeim skorti?

Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (Skálholtsútgáfan 2006) 275-278.


Forsetinn, málfrelsið og lífæð lýðræðisins

Ísland er á hraðri leið undir áhrifavald ESB. Sú vegferð nýtur stuðnings flestra þingflokka á Alþingi Íslendinga. Sú afstaða þingmanna afhjúpaðist á fundi með utanríkismálanefnd 9. maí 2023.[1] Með framlagningu frumvarps um bókun 35 er stefnan mörkuð, en frumvarpið miðar að því að lögfesta, sem almenna meginreglu, að íslensk lög skuli víkja fyrir reglum ESB ef árekstur verður.

Hvað þýðir þetta fyrir Íslendinga? Svar: Samhliða því að stöðugt fleiri málaflokkar eru felldir undir EES samninginn mun ákvörðunarvald í stórum málaflokkum flytjast frá Alþingi til ESB, eins og þegar liggur fyrir á sviði orkumála. Þetta mun hafa þau áhrif að við missum ekki aðeins frá okkur lögin, heldur einnig völdin. Í framkvæmd mun þetta auka hættu á að Íslendingar missi úr sínum höndum eignarhald og yfirráð yfir landinu, vatninu, rafmagninu og sjávarútveginum. Í stuttu máli þýðir þetta að við munum missa frá okkur frelsið og sjálfsákvörðunarréttinn.

Íslendingar verða að átta sig á að í ráðherraráði ESB ráða stærstu ríkin för og stöðugt fækkar þeim málaflokkum þar sem enn er krafist einróma samþykkis aðildarríkjanna. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að ríki geti beitt neitunarvaldi á sviði orkumála eða sjávarútvegs. Með afhendingu íslensks ríkisvalds til fjarlægra stofnana er grafið undan sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga.

Þegar þráðurinn milli valdsins og borgaranna hefur verið rofinn með þessum hætti erum við á háskalegri leið, þar sem burðarstoðir lýðræðisins falla: Í stað þess að viðurkennt sé að valdið stafi frá þjóðinni og að ríkið sé þjónn fólksins er lagt til grundvallar að valdið komi frá ríkinu og að fólkið þjóni ríkinu.

Frammi fyrir þessu verður að minna á, í aðdraganda forsetakosninganna, að tilgangur ríkisvalds er ekki að veita réttindi, heldur að tryggja þau og verja. Hvert og eitt mannsbarn, hver og einn Íslendingur, er dýrmætur, mikilvægur og einstakur. Því þarf rödd hvers og eins að fá að heyrast. Til að raddirnar hljómi, svo að valdhafar heyri, þurfum við að hafa hugrekki til að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tala út frá eigin brjósti. Slík tjáning og slíkt samtal er frumforsenda þess að þráðurinn slitni ekki milli valds og borgara. Í þessu samhengi er málfrelsið í raun lífæð lýðræðisins, sem hvorki má stífla né rjúfa.   

Sem verndari stjórnarskrárinnar og íslensks lýðræðis hefur forseti lýðveldisins það hlutverk að tala kjark og þor í þjóðina þannig að hún rísi upp, taki ábyrgð á tilveru sinni og finni styrk til að standa gegn ofríkistilburðum innlendra valdamanna, erlendra ríkja og fjarlægs stofnanavalds.

 

[1] Sjá nánar umsögn sem kynnt var á fundinum:  https://www.althingi.is/pdf/erindi_mals/?lthing=153&malnr=890

 


Rödd fólksins í landinu

Á þessu stigi er ferð okkar um landið í raun undirbúnings- og könnunarleiðangur til að heyra hvað fólkinu í landinu liggur á hjarta. Í þessari viku fórum við norður í land, um Borgarnes, til Sauðárkróks, um uppsveitir Skagafjarðar, til Húsavíkur og um Mývatnssveit, um Ásbyrgi, til Kópaskers og Þórshafnar. Bændur og iðnrekendur voru heimsóttir víðs vegar á þessari leið. Þegar öllum þessum samtölum er púslað saman birtist rauður þráður:
 
Íslendingar hafa áhyggjur af þróun landsmála, þar sem óstjórn ríkir í stórum málum samhliða kæfandi ofstjórn á öðrum sviðum. Valdamenn eiga ekki að þjóna eigin hag, heldur fólkinu í landinu. Stjórnmálamenn eiga ekki að víkja sér undan ábyrgð með því að láta embættismenn taka ákvarðanir. Íslendingar kæra sig ekki um stjórnarfar þar sem embættismenn eru settir í hlutverk stjórnmálamanna og stjórnmálamenn koma fram eins og embættismenn. Verktakar, bændur, kjötiðnaðarmenn, útgerðarmenn o.fl. sitja undir sífellt þyngra regluverki, eftirliti, skýrsluskilum, sköttum og gjöldum. Reglurnar eru samdar af fólki sem skortir innsýn í veruleika vinnandi fólks og skilur ekki rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Ofstjórn í bland við óstjórn er görótt uppskrift og óheilnæm.Þórshöfn
[Myndin er frá Þórshöfn, þar sem allt er með myndarbrag og bæjarstæðið fallegt].

Hvað getum við lært af sögunni?

Í Reykjavíkurbréfi Moggans (10.3.2024) er m.a. fjallað um rómverska ræðusnillinginn Cicero (106-43 f.Kr.). Eftirfarandi línur eru skrifaðar af því tilefni.
Í rómverska lýðveldinu, sem stóð í nær 5 aldir, bjuggu borgararnir við réttarvernd sem ekki hafði áður þekkst. Óskrifuð stjórnarskrá lýðveldisins mælti fyrir um mótvægi og aðhald, dreifingu ríkisvalds, synjunarvald æðstu embættismanna, afmörkuð kjörtímabil, réttláta málsmeðferð, reglulegar kosningar o.fl. Allt var þetta styrkt með áherslu á gott og farsælt líf, þar sem hinar grísku höfuðdyggðir stóðu í forgrunni (hugrekki, viska, hófsemi, réttlæti).Cicero
Cicero lifði hnignunartíma Rómaveldis, þar sem spilling og valdafíkn höfðu grafið um sig í stjórnkerfinu og þar sem ytri ásýnd lýðveldisins var að molna, ekki aðeins vegna sundrungar innanlands, heldur einnig vegna stríðsrekstrar á fjarlægum slóðum og vegna þess að stöðugt fleiri sóttu framfærslu sína til ríkisins. Stjórnmálamenn mærðu lýðveldið í orðum en grófu undan því í verki með því að hagnýta sér pólitísk tengsl í þeim tilgangi að seilast sjálfir til auðs og valda. Embættismenn sem höfðu það hlutverk að standa vörð um lýðveldið urðu spillingu að bráð og létu múta sér með greiðslum úr opinberum sjóðum. Í þessu umhverfi, þar sem ofbeldisverk urðu sífellt tíðari og stjórnmálin stöðugt hatrammari, urðu Rómverjar sinnulausir um frelsi sitt, lýðveldið og stjórnmálin.
Óhjákvæmilega sogaðist Cicero inn í pólitísk átök samtíma síns. Að lokum neyddist hann til að velja milli Sesars og annars leiðtoga að nafni Pompey. Cicero tók stöðu með Pompey þar sem hann taldi lýðveldinu stafa minni hætta af honum. En Sesar hafði sigur úr býtum og kúgaði svo þingmenn til að skipa hann keisara til lífstíðar. Mánuði síðar var Sesar myrtur í þinginu af lýðveldissinnum. Markús Antoníus reyndi að taka við af Sesari sem einræðisherra en Cicero lagðist þvert gegn því í 14 kynngimögnuðum ræðum, þar sem hann sagðist hvorki ætla að svíkja lýðveldið, né skjálfa af ótta frammi fyrir harðstjórum. ´
Andstaðan kostaði það að Cicero var útnefndur „óvinur ríkisins“. Þegar leigumorðingi ríkisins vitjaði hans krafðist Cicero þess eins að drápið yrði „sómasamlegt“.
Með andláti Ciceros var síðustu hindrun harðstjórnar rutt úr vegi. Hið 500 ára lýðveldi leið undir lok. Á rústum þess reis keisaralegt alræðisríki. Valdhafar hafa komið og farið síðan, en nafn Ciceros hefur lifað í rúmlega 2000 ár - og lifir enn, því hann hörfaði ekki undan hótunum né harðstjórum, heldur hélt á lofti þeim kyndli sem enn logar: Frumskylda ríkisvalds er að verja frelsi einstaklinganna og eignarétt þeirra. Þótt hugsjónirnar hafi kostað hann lífið, þá veitir hugrekki hans innblástur enn í dag. [Heimild: Real Heroes, Lawrence W. Reed,2016]

Við vatnaskil hljóta menn að ganga í lýðræðisátt, fremur en að stefna í átt að valdboði og skrifræði.

Stöðug útþensla EES réttar, sem saminn er af fjarlægum embættismönnum, er farin að kalla fram alvarlegar lýðræðislegar spurningar.
Lagasetning á að bæta hag þeirra sem eiga að búa við lögin, ekki þeirra sem semja lagareglurnar. Lög frá Alþingi eiga að bæta íslenska hagsmuni, ekki hagsmuni ESB.
Ísland gekk í EES til að taka þátt í efnahagslegu samstarfi en ekki á þeim forsendum að við værum að ganga í einhvers konar stjórnmálabandalag, þar sem erlend yfirvöld eigi síðasta orðið á sífellt fleiri sviðum um hvaða lög gildi hér.
Hvers vegna vilja íslenskir stjórnmálamenn veikja stöðu Alþingis?
Hvernig sjá þeir fyrir sér að leiðrétta EES reglur sem eru Íslandi óhagstæðar?
Hvernig á Alþingi að færa slíkar reglur til betri vegar án þess að kalla skaðabótaskyldu yfir Ísland?
Hver er staða íslensks almennings í slíku valdakerfi?
Í alvöru lýðræði svara valdhafar til ábyrgðar gagnvart borgurunum og þar geta kjósendur kosið nýja valdhafa í stað þeirra sem bregðast. Við viljum ekki lúta fjarlægu, ólýðræðislegu valdi sem krefst þess að eiga hér síðasta orðið um þær reglur sem við búum við. Um þetta fjalla ég nánar í Morgunblaðinu í dag. [Smellið til að stækka / lesa].
mbl240224

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband