5.6.2025 | 08:19
Kennslustund í "stjórnmálaskólanum"
Þótt ég hafi aldrei gengið í stjórnmálaskóla hjá stjórnmálaflokkunum, þá sýnist mér að meginlexían þar hljóti að vera eftirfarandi:
- Ekki tala við fólk eins og það sé viti borið. Talaðu heldur við það eins og þau séu prinsipplausir fávitar og treystu því að þau muni trúa öllu sem þú segir (sætar lygar ganga betur ofan í fólk en beiskur sannleikur) og að þau muni treysta þér í blindni (ef þú lofar að leysa þau undan ábyrgð) og vera fús til að afhenda þér völd (ef þú lofar að hugsa fyrir þau).
- Gæði stjórnmálamanns eru ekki mæld í því hvort hlutaðeigandi segir satt / varar við hættumerkjum / tjáir sig út frá bestu samvisku / talar út frá innri sannfæringu / kemur heiðarlega fram / elskar landið sitt / ber umhyggju fyrir þjóð sinni. Nei, stjórnmálamaður telst aðeins nothæfur ef honum gengur vel að gefa út loforð sem fá fólk til að mæta á kjörstað og kjósa hann. Ekkert annað skiptir máli. Spurningin er bara hvað þú treystir þér til að segja og gera - samvisku þinnar vegna. [Stjórnmál eru ekki hentugur vettvangur fólks sem vill hafa hreina samvisku].
- Til þess að veiða atkvæði þarftu að vera tilbúinn að gefa loforð sem þú veist að aldrei verður unnt að efna. Dæmi: Lofa lægri sköttum, hærri bótum, styttri vinnuviku, meiri frítíma, fullkomnu jafnrétti, útrýma öllu óréttlæti o.s.frv.
- Síðast en ekki síst þarftu að muna: Að brosa blíðlega, vera smart í tauinu, styðja fóstureyðingar (án minnstu fyrirvara), vera tilbúinn til að gera góðverk þín á annarra manna kostnað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.6.2025 | 09:10
"Gallia est omnis divisa in partes tres"
Ef þér finnst heimurinn vera genginn af göflunum, þá er það sennilega af því að hann ER genginn af göflunum. Öðru vísi er ekki unnt að útskýra allar þessar stríðsæsingar, hernaðartal, sverðaglamur, valdboðsstefnu, áætlanir um hærri skatta og fleiri bannreglur til að stýra loftslaginu og viðleitni manna til að leika Guð.
Eitt af því sem skapar mestan vanda í stjórnmálum og efnahagsmálum nútímans er það hversu langt til vinstri miðja stjórnmálanna hefur færst með þeim afleiðingum að klassískir hægri menn læðast með veggjum af ótta við að verða stimplaðir sem hugsanaglæpamenn. Að hitta slíkan mann í nútímasamfélagi er raunverulegt gleðiefni. Við þau tilvik rifjast upp saga frá Sigurði Líndal af tveimur menntamönnum sem hittust í fjarlægu landi. Þessir bræður í andanum þekktu hvorn annan á því að fara með upphafsorðin í einu þekktasta riti latínu-bókmenntanna um Gallíu-stríðin eftir Sesar. Þegar annar hafði byrjað: "Gallia est omnis divisa in partes tres" botnaði hinn setninguna með því að segja: "quarum unam incolunt Belgae, aliam Aquitani, tertiam qui ipsorum lingua Celtae, nostra Galli appellantur". Að þessu búnu féllust þeir í faðma. Hægri menn í sósíalistaríkinu Íslandi þurfa kannski að koma sér upp slíku dulmáli til að þekkja hvern annan og vinna saman af því marki að jafnvægisstilla þjóðarskútuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2025 | 18:28
"Er ekki bara best" að treysta sérfræðingunum ... og fjölmiðlunum?
Á Bylgjunni í gær benti ég á að kennivaldspostular nútímans eru ekki minna forstokkaðir í valdhroka sínum en þeir voru á tíma Galileos: Stofnanaveldið getur ekki viðurkennt mistök.
Þegar rykið sest lítur margt öðru vísi út en fullyrt var áður:
- Joe Biden gekk ekki á öllum ventlum í forsetatíð sinni og huldumenn stýrðu penna hans.
- Ólympíumeistari kvenna í boxi er ekki kona.
- "Veiran skæða" virðist eftir allt saman hafa komið frá rannsóknarstofunni í Wuhan, en ekki frá leðurblökumarkaði.
- "Bóluefnin" voru ekki hefðbundin bóluefni
- Þau voru ekki árangursrík (e. effective)
- Þau voru ekki örugg (e. safe)
- Ein sprauta dugði ekki (um 800.000 skömmtum hefur nú verið dælt í Íslendinga)
- Sum efnin hafa verið tekin úr umferð (AstraZeneca)
- Aðrir framleiðendur (Pfizer) vissu að efnin vörðu menn ekki fyrir smiti
- Upplýsingum um aukaverkanir var leynt (CDC mælir ekki lengur með að börn og barnshafandi konur séu sprautuð).
- Efnin voru ekki föst í handlegg heldur dreifðust um líkamann.
- Virknin var ekki tímabundin, heldur eru þau enn að framleiða broddprótein.
Margt er hægt að læra af þeim mistökum sem gerð voru. Einn lærdómurinn ætti að vera sá að treysta ekki yfirvöldum (og fjölmiðlum) í blindni ... og sperra eyrun þegar valdastofnanir tala um mikilvægi þess að berja niður gagnrýna hugsun.
Traust almennings var misnotað: Læknar o.fl. stéttir hafa glatað trausti og þurfa að endurvinna það.
Vanþakklátasta hlutverk sögunnar er að reyna að fá aðra til að hugsa. Mun auðveldara er að gera fólk vitstola. Síðarnefnda leiðin færir völd og áhrif þeim sem kunna að hagnýta sér ótta og fávisku almennings. Sjálfur hef ég of lengi barið hausnum í steininn í (vonlausri) tilraun til að fá fólk til að hugsa / ná áttum / koma aftur til sjálfs sín. Ég þakka þeim sem hlustuðu. Góðar stundir.
-
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2025 | 08:22
Til upprifjunar fyrir Íslendinga
Ísland er eina landið í Evrópu - og öllum hinum vestræna heimi - þar sem enginn hægri flokkur situr á löggjafarþinginu. Segi og skrifa ENGINN. Miðflokkurinn er miðflokkur - og vill vera það. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn "woke" sósíaldemókratískur flokkur sem vill auka áhrif ESB hérlendis. Viðreisn er ekki hægri flokkur. Orð eru óþörf um hina þingflokkana í þessu samhengi.
Í þessu ljósi - og með hliðsjón af niðurstöðum forsetakosninganna í Póllandi - er ástæða til að undirstrika hvað "hægri stefna" í stjórnmálum í raun er: Hægri er ekki samheiti yfir "öfgar" eins og fréttastofurnar vilja hamra á. "Hægri" lýsir vilja borgaranna til að viðhalda þeirri samfélagsgerð, tungumáli og menningu sem heimaland þeirra hefur fóstrað í aldanna rás og vilja setja hömlur á ríkisstyrktan innflutning fólks sem hefur allt önnur gildi. Fyrir utan slíka verndarstefnu (e. conservatism) aðhyllast hægri menn klassískt frjálslyndi sem miðar að því að takmarka vald ríkisins, verja réttarríkið, réttláta málsmeðferð fyrir dómi, verja borgaralegt frelsi skv. stjórnarskrá, þ.m.t. málfrelsi, trúfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi og frjálsan markað (sem ekki er kæfður í regluverki).
Takist Íslendingum að muna þetta eru þeir síður líklegir til að gleypa staðhæfingar um alla vondu "öfgamennina" í útlöndum sem "heimskar" þjóðir kjósa í opinber embætti. Meðan Ísland heldur áfram með framangreinda pólitíska einsleitni, án heilbrigðs viðnáms, þá munum við halda áfram að hringsnúast í kringum iðusvelginn. Skolist Ísland ofan í það niðurfall er ómögulegt að segja hvað verður um okkur.
P.S. Líta má á fundinn sem haldinn var á Austurvelli um helgina "þvert á flokka" sem heilbrigt lífsmark - og mögulega merki um að fólk telji rétt að jákvæð þjóðvitund eigi einhverja rödd á hinu pólitíska sviði, þótt RÚV hafi eflaust notað önnur lýsingarorð.
![]() |
Nawrocki kjörinn forseti Póllands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
1.6.2025 | 09:13
Vopnakaup og sverðaglamur innsigluð með kossaflensi
Ég fékk hræðilega martröð í nótt. Fyrir sjónum mér dönsuðu endalausar myndir af leiðtogum "hins frjálsa heims" í faðmlögum og kossaflensi.
Myndirnar runnu saman við gamlar myndir frá Sovét-tímanum, þar sem kossar og faðmlög höfðu verið gerðir að nokkurs konar helgisiðum: "Sósíalískur bróðurlegur koss" varð að siðrænni venju milli leiðtoga kommúnistaríkjanna og var ætlað að tákna samstöðu og djúp tengsl milli sósíalísku ríkjanna sem heyrðu undir Sovét-veldið. Allir leiðtogar ríkjanna tóku þátt í þessu sem pólítískri siðvenju til að sýna einhug og gagnkvæmt traust.
Frægust er myndin af Brezhnev og Honecker (leiðtoga Austur-Þýskalands, sem síðar var teiknuð á Berlínarmúrinn og gefin yfirskriftin "Guð, hjálpaðu mér að lifa af þessa lífshættulegu ástúð" (þ. "Mein Gott, hilf mir, diese tödliche Liebe zu überleben).
Allt var þetta hluti af stærri pólitískum leikþætti, því með því að sýna kossa og faðmlög á almannafæri var hægt að senda almenningi skilaboð um sterk bönd á milli ríkjanna. Því var það mjög alvarlegt (og í raun óhugsandi) að nokkur leiðtogi viki sér undan kossaflensinu.
Allt rifjast þetta upp þegar ég vaknaði með andfælum með myndir af Kristrúnu og Þorgerði fyrir hugskotssjónum, þar sem þær, á fundum með leiðtogum NATO og ESB, gefa brosandi og óhikað loforð upp á tugi milljarða króna framlög Íslands til hernaðar og vopnakaupa, allt undir yfirskini kærleika og samstöðu.
Guð, frelsaðu mig frá þessari lífshættulegu ástúð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2025 | 08:55
Stjórnmál eru ekki grín
"Ég þarf ekki að búa til neina brandara. Ég bara fylgist með ríkisstjórninni og segi frá staðreyndum". Will Rogers (1879-1935)
Í síðustu viku var ég spurður að því a.m.k. tvisvar sinnum hvað ég hefði lært af pólitískri þátttöku. Án þess að vilja vera of neikvæður sagðist ég hafa stigið út í marga drullupolla um dagana, en engan eins ógeðfelldan og þann pólitíska, þar sem hnífarnir koma fljúgandi úr öllum áttum, hugsjónir eru gerðar að gluggaskrauti og sá nær bestum árangri sem best kann að segja ósatt / fá fólk til að trúa óraunsæjum loforðum.
Fyrir stuttu skrifaði ég hér á bloggið að VG og XD greiði nú fyrir framgöngu sína síðustu árin, þ.e. fyrir að hafa fórnað hugsjónum sínum fyrir völd. Flokkar sem hafa skorið sig af sinni hugmyndafræðilegu rót eru einskis virði. Falleg orð á landsfundum bjarga þeim ekki þegar allt annað blasir við í framkvæmd. Um Framsóknarflokkinn þarf ekki að tala, því hann er hentistefnuflokkur. Núverandi ríkisstjórnarflokkar náðu góðum árangri í kosningunum með því að lofa öllu fögru (m.a. að hækka bætur en ekki skatta), tala fallega um frið og um það hvernig þeir vildu framkvæma vilja kjósenda. Eftir kosningar hafa þeir snúið sér að því að hækka skatta, framkvæma vilja erlendra búrókrata með því að vinna að því að koma ríkisstjórn Íslands undir erlenda stjórn (ESB), auk þess að vilja efla hernaðarþátttöku Íslands (með 70 milljörðum úr tómum ríkissjóði) á sama tíma og horft er fram hjá því að mesta ógnin við öryggi Íslendinga kemur nú innan frá en ekki utan frá, þ.e. frá skipulögðum glæpasamtökum sem hér starfa án verulegra afskipta frá fjársveltri lögreglu.
Sem lýðræðissinni vil ég auðvitað ekki fæla fólk frá þátttöku í stjórnmálum, en við þurfum þó að vera raunsæ og horfast í augu við að flest (ekki öll) þeirra sem sitja nú á þingi vilja vera á framabraut í stjórnmálunum (innan flokksins, innan alþjoðastofnana) og þá er hætt við að hagsmunir lands og þjóðar lendi í öðru sæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2025 | 08:12
Hugsunarglæpamaður sem þarf að stöðva!!
Ef þú tilheyrir enn (ört minnkandi) hópi fólks sem veitir fréttaútgáfu ríkisins (RÚV) daglegan aðgang að huga sínum, þá eru hér upplýsingar sem gætu komið þér á óvart: Landlæknisembætti Bandaríkjanna hefur, að frumkvæði heilbrigðisráðherrans, RFK jr., stöðvað notkun "covid-bóluefna" gagnvart börnum og barnshafandi konum. Fyrir þessu eru ríkar læknisfræðilegar ástæður. Á sama tíma er RFK að taka til hendinni gagnvart matvælaiðnaði sem tekið hefur gróðasjónarmið fram yfir hollustu og heilsuvernd. Þetta gerir hann með því að leggja bann við notkun tiltekinna litarefna og gerviefna í matvælaframleiðslu.
RFK er sjaldgæf tegund í mannlífsflórunni: Maður sem þorir að synda á móti straumnum og verja það sem hann telur satt og rétt, öfugt við flesta sem kjósa að berast með straumnum hvert sem hann leiðir. Hvers vegna kýs fólk að blakta eins og lauf í vindi fremur en að standa með því sem það veit að er satt? Við því er ekkert einfalt svar, en flestir gera þetta líklegast af ótta við að verða stimpluð sem "rugludallur" eins og Ríkisfréttastofan leyfði sér að stimpla RFK. Það er auðvelt að sitja á vernduðum, ríkisreknum vinnustað og nota svona stimpla, sérstaklega ef maður hefur sjálfur aldrei hugsað frumlega hugsun eða tekið skýra afstöðu á grundvelli eigin sannfæringar og samvisku.
Frammi fyrir því sem RFK er að gera hljóta allir þeir sem láta RÚV hugsa fyrir sig að sameinast í hörðum mótmælum, því siðapostular RÚV eru á einu máli um að hugsunarglæpir séu verstir allra glæpa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2025 | 12:45
Ég ekki skilja ...
Eitt af því sem er ofar mínum takmarkaða skilningi er langlundargeð almennings. Fólk sættir sig andmælalaust við að verja helmingi okkar dýrmæta tíma og starfsorku í vinnu fyrir "hið opinbera" sem sólundar svo stærstum hluta peninganna, m.a. til vopnakaupa fyrir aðrar þjóðir á meðan löggæslan hér innanlands er fjársvelt og vanrækt. Enginn horfir gagnrýnum augum um öxl á þá staðreynd að yfir 90% fullorðinna létu sprauta sig aftur og aftur með efnakokteil sem veitti litla sem enga vörn og hefur framkallað alls kyns aukaverkanir og heilsutjón. Kjósendur velja frambjóðendur sem gefa stærstu loforðin, en sætta sig þegjandi við að loforðin séu svikin.
En kannski er best að spyrja engra spurninga. Þegar Sókrates frétti að Véfréttin í Delfí hefði sagt að hann væri "vitrasti maður Aþenu" varð hann furðu lostinn því hann taldi sig ekki hafa sérþekkingu á neinu. Þetta leiddi til þess að hann fór að beina spurningum til stjórnmálamanna, herforingja og annarra sem hann hélt að væru með viti. Þessi (ó)siður hans varð til þess að hann var dæmdur til dauða. Þess vegna er kannski best að vera eins og allir aðrir: Sætta sig við svikin loforð, blekkingar, fals og óheilindi.
Og þó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2025 | 10:20
Í fréttum er þetta helst ...
Daglegur fréttaflutningur færir okkur þau skilaboð að heimurinn sé að fara til fjandans: Stríð, loftslagsbreytingar, vírusar, hryðjuverk, rán, ofbeldi o.s.frv. Með því að berja á almenningi með þessu oft á dag er í raun verið að flytja þau skilaboð að algjört stjórnleysi sé á næsta leiti.
En ekki hafa áhyggjur, því í stað óstjórnar verður okkur boðið upp á ofstjórn: Stjórnvöld rétta fram "hjálparhönd" til að koma skikki á hlutina með eftirliti, gjaldheimtu, "öryggismyndavélum", vopnakaupum, fleiri ríkisstofnunum, valdframsali til erlendra stofnana o.s.frv. Handvaldir sérfræðingar stjórnvalda munu taka enn þéttar um stjórnartaumana. Í skiptum fyrir (falskt) öryggi afsalar óttasleginn almenningur sér frelsinu í hendur valdhafa.
Þegar valdakerfi ríkisins er farið að nærast á ótta þarf almenningur að finna sinn innri styrk. Besta leiðin til þess er að hætta að hlusta á hrollvekjur ríkisstyrktra fjölmiðla.
Those who would give up essential liberty to purchase a little temporary safety, deserve neither liberty nor safety.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2025 | 08:53
Ó Liverpool
Fólk trúir þessu ekki, en Seneca (4 fKR-65 eKR) bjó fyrir ofan baðhús og líkamsræktarstöð í Róm og í einu af bréfum sínum kvartar hann yfir skarkala frá mönnum sem eru þar að lyfta lóðum. Bók hans "Um lífsins stuttu stund" (e. On the Shortness of Life) er gagnrýni á það hve illa menn fara með tíma sinn. "Lífið er nógu langt, en mennirnir sóa því í hégóma, persónulegan metnað, auðsöfnun og hvers kyns fánýti". Þeir einu sem lifa skynsamlega eru þeir sem nýta tímann vel, kunna að gera greinarmun á eigin vilja og annarra, og geta einblínt á það sem skiptir máli.
Ekkert hefur breyst. Við förum ekki betur með tímann nú en fyrir 2000 árum. Einn versti tímaþjófurinn eru daglegar fréttir. Tíminn sem fer í þær er óréttlætanlegur þegar haft er í huga að eftir árið situr ekki annað eftir en 3-4 stórviðburðir. Harmleikurinn í Liverpool verður væntanlega einn þessara atburða, þar sem 50 manns slösuðust og þar af 4 lífshættulega. En þegar ég sá að lögreglan rannsakar þetta "ekki sem hryðjuverk" heldur sem árekstur í umferð (e. road traffic collision), gat ég ekki varist þeirri hugsun að fréttirnar séu raunverulega forheimskandi. Hvað er það annað en hryðjuverk að aka bíl í gegnum mannþröng (án tillits til uppruna / útlits ökumannsins)? Í þessu - og því hvernig flest önnur stórmál eru leyst upp í frumeindir þar til þau hverfa - birtist stef sem m.a. kristallast í Njálu: Útúrsnúningar eru notaðir til að þurfa ekki að taka á stærstu vandamálum samtímans, því slíkt uppgjör hentar hvorki valdamönnum, né almenningi, því ef við ættum að ræða þau þyrftum við að horfast í augu við eigin heimsku, fordóma, græðgi, hégóma og forgengileika.
Ég ætla að fara í fréttabindindi - og er sannfærður um að það mun auka lífshamingju mína. Ef einhver vill tala við mig þá verð ég á Óðinsgötu 4, í skarkala "heimsborgarinnar", að kortleggja skynsamlegustu leiðina að réttu marki - í anda Seneca.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)