22.5.2024 | 14:57
Þráhyggja Björns Bjarnasonar
Enn heldur Björn Bjarnason áfram að veifa röngu tré um Bókun 35, sbr. færslu hans í dag, en Björn virðist eiga orðið erfitt með að tjá sig án þess að nefna þetta mál í þeim tilgangi að reyna að koma höggi á mig.
Af þessu tilefni vil ég ítreka eftirfarandi:
Aðild Íslands að EES samningnum hefur frá upphafi hvílt á þeirri grunnforsendu að samningurinn fylgdi reglum hefðbundins milliríkjasamstarfs. Um leið liggur fyrir að af hálfu gagnaðila Íslands (áður EB, nú ESB) hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að tryggt væri að reglur EES-samningsins nytu forgangs fram yfir landsréttinn. Þar sem stjórnskipun Íslands byggir á tvíeðli þjóðaréttar en ekki eineðli og þar sem stjórnarskráin heimilar ekki framsal ríkisvalds úr landi hafa íslensk stjórnvöld ekki svigrúm til að samþykkja beina réttarverkun Evrópuréttar hérlendis því forgangsréttur erlends réttar samræmist ekki skýrum stjórnarskrárákvæðum, sbr. sérstaklega 2. gr. stjskr.
Þar sem ekki var unnt að samræma þessi ólíku sjónarmið og orða það í meginmáli EES samningnum sjálfs var valið að að útfæra millileið, sem sett var í bókun 35. Með bókun 35 var m.ö.o. komið til móts við afstöðu Íslands og annarra EFTA ríkja en um leið reynt að tryggja réttarsamræmi. Með frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35. var lagt til að Alþingi lögleiddi reglu um almennan forgang EES-reglna hérlendis. Slíkt ákvæði fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenskum rétti: Himinn og haf er milli þess, annars vegar, að reyna með lögskýringu að skýra íslensk lög til samræmis við EES-rétt og hins vegar þess að líta alfarið fram hjá skýrum íslenskum lagaákvæðum sem mæla fyrir um annað en EES-reglur gera.
Frammi fyrir gervirökum Björns Bjarnasonar er tímabært að Íslendingar skoði heildarsamhengið og leiti svara við alvarlegum spurningum.
Gera verður alvarlegar athugasemdir við það að frumvarpið um bókun 35 er fært fram undir því yfirskini að sem lítið og opið samfélag [hafi] Ísland ríka hagsmuni af því að staðið sé við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þetta er svonefnd fait accompli skírskotun, þar sem gefið er til kynna að ekki sé lengur um neitt að tala, ákvörðun hafi þegar verið tekin og málið í reynd afgreitt. Þessu verður Alþingi að hafna afdráttarlaust. Engin atkvæðagreiðsla hefur farið fram á Alþingi Íslendinga sem réttlætir notkun slíkra gerviröksemda. Álitamálið sem hér um ræðir, þ.e. framsal löggjafarvalds, hefur verið umdeilt frá upphafi og aldrei hlotið neina þá heildarafgreiðslu að leyfilegt sé að segja það útkljáð eða útrætt. Til þess þyrfti í raun stjórnarskrárbreytingu. Meðan stjórnskipun Íslands heimilar ekki framsal löggjafarvalds berum orðum verður að gera alvarlegar athugasemdir við framsetninguna í skýrslu utanríkisráðherra, enda stappar sú framsetning nærri því að vera tilraun til að afvegaleiða þing og þjóð í stjórnskipulega mikilvægu máli.
Einnig ber afdráttarlaust að hafna þeirri fullyrðingu sem rangri að frumvarpið um bókun 35 snúist um að tryggja Íslendingum aðgang að mikilvægu markaðssvæði. Sá aðgangur var að mestu leyti tryggður með fríverslunarsamningum EFTA ríkjanna við Efnahagsbandalag Evrópu árið 1972. Á þeim grunni höfðu flest innflutningsgjöld á iðnvörur verið felld niður árið 1977.[1] Færð hafa verið fram rök fyrir því að EES hindri nú orðið frjálsa verslun við umheiminn með tæknihindrunum og að þetta sé vaxandi vandamál.[2]
Þegar heildarmyndin er skoðuð er nærtækara að draga þá ályktun að frumvarpið um bókun 35 sé lokahnykkurinn í ferli sem réttara væri að kenna við efnahagslegan og lagalegan samruna Íslands við ESB, þar sem ESB ræður ferðinni. Afleiðingin af slíkum samruna verður augljóslega sú að markaðurinn verður settur í fyrsta sæti, en sjónarmið sem byggjast á samfélagslegum markmiðum, þjóðarhag, innviðauppbyggingu, matvælaöryggi o.þ.h. verða út undan af þeirri einföldu ástæðu að EES-samningurinn fjallar ekki um slík atriði. Í stað þess að hugsa t.d. um að standa vörð um hreinleika innlends landbúnaðar eða byggja upp hitaveitu- og raforkukerfi til að þjónusta innlend heimili og innlendan iðnað skulu fjórfrelsisákvæði EES réttar yfirtrompa aðrar reglur og allt markaðsvætt nema ríkin geti réttlætt undanþágur. Dæmi: Með því að fella orkumál (að nauðsynjalausu) undir EES samninginn er orka orðin skilgreind sem vara á markaði. Þegar þarfir markaðarins kalla á að sæstrengur verði lagður til Íslands (eða frá Íslandi) verður ekki hlustað á röksemdir um það að uppbygging raforkukerfisins á Íslandi hafi átt að þjóna íbúum Íslands með því að færa heimilum og fyrirtækjum á Íslandi ódýra orku og bætt lífsgæði. Annað dæmi um ófyrirsjáanleikann og það hvernig EES reglur þenja sig út yfir svið sem Íslendingar töldu standa utan við samningssviðið er sú staðreynd að nú má flytja inn hrátt og ófrosið kjöt til Íslands frá öðrum hlutum EES svæðisins, því slíkt kjöt telst nú vara samkvæmt túlkun dómstóla. Í þessu sannast að fjórfrelsi Evrópuréttarins og þarfir markaðarins yfirtrompa allt annað, þannig að m.a.s. sjónarmið um vernd íslensks landbúnaðar gegn fjölónæmum bakteríum verða að lúta í lægra haldi.
Með því sem hér blasir við er verið að aftengja stjórnmálin grundvallarhlutverki sínu að leita jafnvægis milli ólíkra hagsmuna og sjónarmiða. Með því að ofurselja þjóðfélagslega hagsmuni markaðslögmálum er verið að gengisfella pólitíska umræðu, grafa undan flokksstarfi, þrengja möguleika almennings á því að hafa áhrif á pólitíska stefnumörkun, veikja löggjafarhlutverk Alþingis og í stuttu máli skerða íslenskt fullveldi. Þetta verða menn að taka alvarlega því afleiðingarnar gætu orðið mjög skaðlegar fyrir Ísland. Af þessu leiðir að skoða verður málið vel, ekki aðeins út frá lögfræðilegu sjónarhorni, heldur einnig í sögulegu, pólitísku, hagfræðilegu og efnahagslegu ljósi. Um hina sögulegu og lögfræðilegu hlið má m.a. lesa hér.
[1] Sjá https://www.efta.int/media/publications/fact-sheets/EEA-factsheets/FACTSHEET-20ICE-20webversion-202005.pdf
[2] Um þetta hefur m.a. Hjörtur J. Guðmundsson fjallað nokkrum sinnum, sjá nánar á www.fullveldi.is
Bloggar | Breytt 23.5.2024 kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2024 | 14:45
Öllu frelsi fylgir ábyrgð, líka tjáningarfrelsinu
Í mörg ár hef ég ritað greinar í blöð og tímarit til varnar frelsinu, þ.m.t. tjáningarfrelsinu. Þar hef ég alltaf lagt ríka áherslu á að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Þannig hef ég verið talsmaður þess að menn noti tjáningarfrelsið til að eiga málefnalegar rökræður, en ekki til að ráðast að persónum annarra með ómálefnalegum hætti. Ég er á móti því að tjáningarfrelsið sé notað til að grafa undan stoðum lýðræðisins, t.d. með því að skrumskæla aðra að ósekju.
Stuðningur við tjáningarfrelsið kemur ekki í veg fyrir að við veitum viðnám þeim sem fara yfir velsæmismörk í sinni tjáningu, ala á fordómum eða ganga fram af siðleysi, óbilgirni eða fyrirlitningu. Frelsi til að tjá hugsun sína er hluti af borgaralegum réttindum, en þann rétt má ekki slíta úr samhengi við borgaralegar skyldur. Sérfræðingar og fagstéttir, þ.m.t. blaðamenn, hafa sett sér siðareglur og bera sérlega ríkar siðferðilegar og samfélagslegar skyldur þegar kemur að ábyrgri tjáningu.
Í frjálsu og borgaralegu samfélagi svara menn sjálfir til ábyrgðar fyrir orð sín og gjörðir. Með því að ala á fjandskap og fordæmingu í garð annarra er höggvið á þau samfélagslegu bönd sem tengja fólk hvert við annað. Vilji menn búa í samfélagi sem einkennist af kurteisi og umburðarlyndi þá þurfum við að gæta mjög vandlega að því hvernig við tjáum hug okkar og skoðanir.
Tjáningarfrelsið lýtur almennum siðrænum takmörkunum um virðingu og náungakærleik. Hér sem annars staðar er Gullna reglan til leiðbeiningar: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Yfirgangur og vanvirðing rúmast ekki innan þessa ramma. Frelsi til athafna skyldar okkur um leið til að virða helgi annarra. Lýðræðið krefst þess í raun og veru að við sýnum hvert öðru mannúð. Vonandi getum við sameinast um það að bæta íslenska umræðu, bæði í máli og myndum, og sett okkur það markmið að sýna hvert öðru hlýju, skilning og kærleika.
Greinin birtist fyrst á www.visir.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2024 | 09:14
Getum við leyft okkur hvað sem er?
Frelsið er það dýrmætasta sem við eigum. Frjálslynd lýðræðishefð gerir þá kröfu til okkar að við virðum annað fólk og umberum skoðanir annarra í lengstu lög. Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Þá ábyrgð berum við gagnvart okkar eigin frelsi og annarra, því öllu þarf að stilla í hóf og öllu þarf að setja mörk svo það umbreytist ekki í andhverfu sína. Dyggð er jafnvægi milli tveggja öfga, eins og hugrekki er meðalhóf milli hugleysis og fífldirfsku. Á sviði tjáningarfrelsis þarf að finna mörk og gæta meðalhófs milli undirgefni og yfirgangs, milli þagnar og háreystis, milli smjaðurs og smánunar. Hér þarf að beita yfirvegun og halda sig innan ramma velsæmis, því allir vita að til er nokkuð sem kenna má við velsæmismörk. Velsæmismörkin spretta af djúpum menningarlegum og siðrænum rótum sem mótast hafa í aldanna rás og minna okkur á nauðsyn þess að við sýnum hvert öðru elsku og virðingu. Í þessu felst líka gagnkvæm viljayfirlýsing um að við viljum lifa í friði hvert við annað.
Sagan sýnir að þegar þessar umgengnisreglur eru vanvirtar þá riðar siðmenningin á fótunum og friðurinn leysist upp í ófrið. Grín og glens er nauðsynlegt á öllum tímum, sbr. m.a. hirðfífl fyrri alda sem gegndu mikilvægu starfi því háðið var og er í raun sáluhjálparatriði. Hirðfíflinu leyfðist að segja það sem engum öðrum leyfðist að segja, en til að háðið nái í gegn og skili tilætluðum áhrifum þarf að vera fótur fyrir því sem sagt er. Sérstaklega blasir þetta við þegar komið er út í alvörumál sem varða allt samfélagið miklu. Í slíkum málum geta ekki einu sinni hirðfíflin leyft sér hvað sem er. Fari menn þar út fyrir velsæmismörkin er engin ástæða til að láta það óátalið, því óskunda þarf enginn að umbera.
Á Hvítasunnudag kom yfirnáttúruleg orka yfir postulana, heilagur andi. Í dag má því hver og einn minna sig á að við höfum frjálsan vilja og val um að birta það góða og fallega sem í okkur býr og láta ljósið leiða för en ekki skuggana sem við berum öll innra með okkur. Vöndum okkur í orðum og gjörðum. Komum vel fram við aðra og hjálpum öðrum að vaxa. Þannig getur samfélag okkar orðið betra, dag frá degi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2024 | 11:40
Kæra til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2024 | 22:59
Birni Bjarnasyni svarað
Björn Bjarnason er lagður af stað í skógarferð þar sem hann virðist hafa í hyggju að reyna að ná höggi á undirritaðan. Sem skotfæri hefur hann valið tilvitnanir til annarra fremur en að vitna beint til mín.
Fyrst Björn vill opna þessa umræðu er ekki nema sjálfsagt að nýta tækifærið til að dýpka hana og víkka um leið það þrönga sjónarhorn sem Björn kýs að viðhafa í skrifum sínum:
Aðild Íslands að EES samningnum hefur frá upphafi hvílt á þeirri grunnforsendu að samningurinn fylgdi reglum hefðbundins milliríkjasamstarfs. Um leið liggur fyrir að af hálfu gagnaðila Íslands (áður EB, nú ESB) hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að tryggt væri að reglur EES-samningsins nytu forgangs fram yfir landsréttinn. Þar sem stjórnskipun Íslands byggir á tvíeðli þjóðaréttar en ekki eineðli og þar sem stjórnarskráin heimilar ekki framsal ríkisvalds úr landi hafa íslensk stjórnvöld ekki svigrúm til að samþykkja beina réttarverkun Evrópuréttar hérlendis því forgangsréttur erlends réttar samræmist ekki skýrum stjórnarskrárákvæðum, sbr. sérstaklega 2. gr. stjskr.
Þar sem ekki var unnt að samræma þessi ólíku sjónarmið og orða það í meginmáli EES samningnum sjálfs var valið að að útfæra millileið, sem sett var í bókun 35. Með bókun 35 var m.ö.o. komið til móts við afstöðu Íslands og annarra EFTA ríkja en um leið reynt að tryggja réttarsamræmi. Með frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 var lagt til að Alþingi lögleiddi reglu um almennan forgang EES-reglna hérlendis. Slíkt ákvæði fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenskum rétti: Himinn og haf er milli þess, annars vegar, að reyna með lögskýringu að skýra íslensk lög til samræmis við EES-rétt og hins vegar þess að líta alfarið fram hjá skýrum íslenskum lagaákvæðum sem mæla fyrir um annað en EES-reglur gera.
Ef EES stóð á ystu nöf 1993, þá keyrir frumvarp um bókun 35 nú fram af brúninni
Með orðalagi frumvarps utanríkisráðherra um bókun 35 er verið að opna flóðgáttir erlends réttar inn í íslensk lög, þvert gegn þeim forsendum sem lágu til grundvallar aðild Íslands í EES. Ljóst var talið árið 1993 að þátttaka Íslands í EES-samstarfinu gengi út á ystu nöf stjórnarskrárinnar, enda geymir stjórnarskrá lýðveldisins Íslands ekkert ákvæði um framsal ríkisvalds. Til slíks framsals hefur aldrei verið pólitískur vilji hérlendis. Réttlætingin fyrir þátttöku Íslands í EES var sú að aðeins væri um að ræða valdframsal á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum. Íslenskir dómstólar hafa umgengist bókun 35 út frá þessari grunnforsendu. Fyrir liggur, sbr. svar utanríkisráðherra á 150. löggjafarþingi (2019-2020) í þskj. 2146 113. mál, að þrýsting ESA á íslensk stjórnvöld vegna innleiðingar á bókun 35 megi alfarið rekja til síðari tíma dómaframkvæmdar hér á landi. Ljóst er að á þeim tíma sem liðinn er frá lögleiðingu EES-samningsins hafa stöðugt fleiri svið verið felld undir EES. Ísland gekk í EES til að taka þátt í efnahagslegu samstarfi, en ekki á þeim forsendum að við værum að ganga í einhvers konar stjórnmálabandalag, þar sem Alþingi ætti ekki lokaorðið um gildandi lög hér á landi.
Frumvarpið sem hér um ræðir myndi hafa í för með sér varhugaverð vatnaskil í íslenskri réttarsögu, veikja Alþingi stórlega, stórskaða íslenskt lýðræði, draga úr réttaröryggi og fyrirsjáanleika laga, grafa undan réttmætum væntingum til íslenskrar löggjafar og opna dyrnar fyrir alls kyns síðari skaðabóta- og samningsbrotamál ef Alþingi reyndi síðar að verja hagsmuni íslenska ríkisins með sérlögum sem ættu að ganga gegn EES-rétti. Fyrir utan allt þetta skal áréttað, að alvarleiki málsins mælist í því að frumvarpið um bókun 35 brýtur gegn stjórnarskrá lýðveldisins nr. 33/1944, sem þingmenn og ráðherrar hafa raunar unnið drengskaparheit að.
Hvorki frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 né skýrsla fyrrverandi utanríkisráðherra um málið byggjast á traustum málefnalegum, sögulegum eða lögfræðilegum grunni. Þvert á móti felst í þessu fullkomin uppgjöf gagnvart þrýstingi ESB. Þessi uppgjöf birtist í því að íslenskir ráðamenn virðast hafa lagt haldgóð rök fyrri ráðherra til hliðar en tekið þess í stað upp málflutning ESA og gert að sínum. Í stað þess að verja hagsmuni Íslands gagnvart erlendu valdi er verið að leggja niður varnir Íslands. ,,Varðstöðumenn" sem slíkt fremja eru verri engir.
Bloggar | Breytt 18.5.2024 kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.5.2024 | 09:25
Afmælisósk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2024 | 09:23
Svör við spurningalista Mannlífs
,,Senn rennur út frestur til að safna lágmarksfjölda meðmælenda, ætli maður sér að sækjast eftir því að verða forseti Íslands. Á áttunda tug manna hefur að undanförnu safnað meðmælum en nokkrir hafa nú þegar náð þeim áfanga og eru því gjaldgengir í framboð.
Mannlíf lagði spurningalista fyrir þá frambjóðendur sem náð hafa lágmarksfjölda meðmæla, svo þjóðin fái að kynnast þeim betur. Munu svör frambjóðendanna vera birt á næstu dögum.
Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður er næsti frambjóðandi sem svarar spurningum Mannlífs. Í svörum hans má sjá ýmislegt áhugavert, til dæmis það að Jesús Kristur er hans helsta fyrirmynd í lífinu og að hann hlusti helst á Barokk tónlist.
Hér má lesa svör Arnars:
Uppáhaldsstaður á Íslandi?
Vestmannaeyjar, þar sem ég er fæddur.
Á forseti að sitja lengur en tvö kjörtímabil?
Að mínu mati ætti það að vera nógu langur tími. Viðmið um hámarkstíma í embætti hafa verið sett víða um heim. Að baki slíkum tímatakmörkunum standa góð rök.
Hvaða breytingar viltu sjá á stjórnskipan Íslands?
Hver er þinn uppáhalds forseti?
Þar sem þetta er opin spurning leyfi ég mér að nefna Thomas Jefferson, sem var aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingar BNA og mótaði margar grundvallarhugmyndir vestræns stjórnskipunarréttar, m.a. um réttindi einstaklingsins og takmarkað ríkisvald. Ég hef einnig sérstakt dálæti á Jóni Sigurðssyni forseta þótt ekki hafi hann orðið forseti sjálfstæðs Íslands.
Finnst þér að gera eigi kröfu um fleiri fjölda meðmælenda frambjóðenda til embættis forseta Íslands?
Mér finnst sjálfsagt að uppfæra þennan fjölda til samræmis við fólksfjölgun á Íslandi frá 1944. En þröskuldurinn má heldur ekki vera of hár, því framboð til forseta á ekki aðeins að vera fyrir þá sem eru þegar þjóðþekktir.
Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu?
Jesús Kristur, enda var hann sannur leiðtogi. Ástæðurnar eru nánar þessar:
Hann reis upp gegn spilltu peningaveldi (Jóh. 2:14-16)
Stóð óttalaus frammi fyrir blóðþyrstum múg
- Gekk í gegnum mannþröng í Nasaret sem vill kasta honum fram af fjallsbrún (Lk 4:28-29)
- Varði seku konuna (Jóh. 7.53-8.11)
- Varði lærisveina sína gegn rómverskri herdeild (Jóh. 18:8)
Boðaði fagnaðarerindið þrátt fyrir ógn og hótanir
Sneri aftur til Galíleu til að halda áfram starfi Jóhannesar skírara sem hafði verið fangelsaður og tekinn af lífi (Mk. 1:14)
- Hélt áfram þótt ýmsir hópar ráðgerðu og reyndu að ráða hann af dögum (Jóh. 5:16; Mk. 7:5; Jóh. 8:59; Jóh. 10:20; Lk 13-31; Jóh. 11:53; Lk. 19:47).
Bugaðist ekki við yfirheyrslu dómarans (Matt. 27:1-26)
Andmælti falskenningum áhrifamikilla manna
- Vann læknisverk á hvíldardegi (Mk. 2:7; Matt. 12-10)
- Svaraði fræðimönnum sem ásökuðu hann (Mk 3:22)
- Benti á hræsni farísea og fræðimanna (Lúk. 11.53-54)
- Kenndi í musterinu þrátt fyrir morðhótanir (Mk. 11:27-28)
Mætti ofsóknum og pyntingum af hugrekki.
- Hafði mörg tækifæri til að hörfa, hætta við, umorða boðskap sinn en gerði það ekki (Matt. 27:27-50)
Mætti dauðanum af hugrekki (Jóh. 10:18; Jóh. 15:13).
Hver er uppáhaldstónlist þín?
Barokk tónlist.
Hefurðu neytt ólöglegra fíkniefna?
Nei.
Gerði Ólafur Ragnar Grímsson rétt með því að beita neitunarvaldinu á sínum tíma?
Já, Icesave málið var af þeirri stærðargráðu að þjóðin sjálf átti að eiga síðasta orðið, sbr. 26. gr. stjskr.
Hver var stærsta stundin í lífi þínu?
Þegar ég giftist konunni minni, Hrafnhildi Sigurðardóttur og þegar börnin okkar fimm fæddust.
Hver eru mestu vonbrigðin?
Að hafa ekki fengið betri söngrödd, en konan og börnin vega það upp.
Fallegasta ljóðið?
Ljóðið Vitinn eftir Pétur Sigurðsson, sem birt var í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1967:
Vitinn
Þar sem berast er land, út á bjargtanga köldum,
einatt barinn af stormum og rjúkandi öldum;
þar sem brimið er mest, þar sem brotsjóir rísa
er þér boðið að standa, að vaka og lýsa.
Þú átt bjargfasta lund, þú ert byggður á kletti,
þaðan bifast þú aldrei, þig meistari setti,
til að beina þeim leið framhjá boðum og strandi,
sem á brothættu fleyjunum sigla að landi.
Upp úr kólgunni lyftir þú höfðinu háa,
yfir hraunið og flúðir og sandana gráa,
þannig verða þeir allir, sem langt vilja lýsa,
upp af lágmennsku auðninni sterkir að rísa.
Engin bölsýni kæft getur blossana þína,
þú ert bjartsýnn á lífið og þolinn að skína,
þú ferð aldrei að vilja þíns umhverfis svarta,
sem er andstæða verst þínu ljóselska hjarta.
Þó að óstjórn og lausung og ofbeldi ríki,
þó að ægilegt náttmyrkur huga manns sýki,
þó að stormarnir tryllist, er stjörnurnar hylja,
ekkert sturlar þinn frið og þinn bjargfasta vilja.
Víða sendir þú geisla að leita og leiða,
miklu ljósmagni þarft þú að dreifa og eyða
út í myrkur og auðn, þó að engan þú finnir,
þessu eilífðar starfi þú trúfastur sinnir.
Þótt aldrei þú spyrjir frá eyjum né veri,
hvort árangur starf þitt í heiminum beri,
þá lama ekki áhyggjur ljósiðju þína,
því að líf þitt og yndi er þetta að SKÍNA.
Besta skáldsagan?
Brennu-Njáls saga, ef hana má flokka sem skáldsögu. Annars Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov.
Hvað er það besta við Ísland?
Ósnortin víðerni, hreint vatn, ferskt loft, gott fólk, merk saga, djúpar rætur.
Kanntu á þvottavél?
Að sjálfsögðu.
Ef þú ættir eina ósk, Íslendingum til hagsbóta, hver væri hún?
Að við náum að standa vörð um sjálfstæði okkar, sem einstaklinga og sem þjóðar, komandi kynslóðum til góðs.
Að þínu mati, hvert er helsta hlutverk forseta Íslands?
Að tala von og kjark inn í hjörtu Íslendinga. Minna á að við eigum hér sameiginlega hagsmuni, sem við getum sameinast um að gæta, þótt vissulega séum við ólík. Sem forseti vil ég mynda góð og sönn tengsl við íslensku þjóðina. Hlusta og þjóna í þeirri von að við náum að standa þétt saman eins og fjölskylda um okkar sameiginlega heimili, sem er Ísland. Á þessum grunni getur forseti verið talsmaður þjóðarinnar út á við og staðið vörð um fullveldi landsins.
Borðarðu þorramat?
Já.
Ertu rómantísk/ur?
Ekki í Hollywood skilningi, en ég kann að elska.
Í stuttu máli; hvers vegna ætti að kjósa þig til embættis forseta Íslands?
Vegna þess að ég mun standa vörð um lýðræðið og vera dyggur og trúr þjónn fólksins í landinu, verja stjórnarskrá lýðveldisins, verja sjálfstæði Íslands, vera málsvari frelsis og sjálfsákvörðunarréttar. Ég er engum háður. Enginn flokkur, ekkert valdakerfi, engin peningaöfl ráða yfir mér eða stjórna því hvernig ég tala. Ég vil verja hrein og góð gildi, verja sakleysið og verja Ísland. Standa vörð um íslenska tungu, leggja rækt við íslenska menningu, vera rödd friðar og sátta. Ég er ekki á þessari vegferð fyrir sjálfan mig, heldur til að verja framangreindar hugsjónir. Það geri ég ekki einn, heldur með mína traustu og sterku eiginkonu mér við hlið og vonandi studdur af þeim sem unna landi og þjóð."
Sjá nánar hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2024 | 08:20
Rödd skynseminnar lifir góðu lífi
Fjölmiðlar láta nú eins og skoðanakannanir séu heilagur sannleikur þótt þær séu framkvæmdar áður en framboðsfrestur rennur út, áður en kosningabaráttan er formlega hafin og áður en minna þjóðþekktum frambjóðendum hefur gefist kostur á að kynna sig. Þetta fer í bága við lagalegar skyldur fjölmiðla um að virða lýðræðislegar grunnreglur.
Gunnar Heiðarsson bloggari talar á öðrum nótum, eins og fjölmargir sem ég hitti á fundum og á förnum vegi. Fólki mislíkar þessi framganga fjölmiðla því kjósendur vilja fá að mynda sér sjálfstæða skoðun og taka sjálfstæða afstöðu eftir að hafa kynnt sér öll framboð.
Gunnar Heiðarsson á þakkir skildar fyrir sína skýru framsetningu.
Bloggfærsla Gunnars í dag er svohljóðandi:
Kjósið réttan frambjóðanda
Það er sorglegt þegar frambjóðendur velja að heyja sína baráttu á því að telja fram ókosti annarra frambjóðenda, í stað þess að spila fram eigin ágæti. Það eru svo kjósendur sem velja og þeir mega tala um bæði ágæti og lesti allra frambjóðenda. Frambjóðendur sjálfir eiga hins vegar að halda sig við að boða sína eigin stefnu og eigið ágæti.
Reyndar er það svo að flestir frambjóðendur eru á svolitlum villigötum í sinni baráttu. Telja embætti forseta Íslands vera stærra og meira en það er, jafnvel að það nái yfir alla heimsbyggðina. Svo er ekki. Forsetinn er fyrst og fremst forseti okkar Íslendinga og ber að standa vörð lands og þjóðar.
Einn frambjóðandi hefur ekki valið þá leið að níða meðframbjóðendur sína, telur fram eigið ágæti og hvað hann telji sig geta gert fyrir land og þjóð. Hann býður sig fyrst og fremst fram til að standa vörð þjóðarinnar. Er ekki haldinn þeirri ranghugmynd að þessu embætti sé ætlað að stjórna heimsbyggðinni.
Þessi frambjóðandi er ekki stjórnmálafræðingur, ekki leikari og ekki dýralæknir (sem er víst viss frami í stjórnmálum á Íslandi), heldur lögfræðingur og fyrrum dómari. Þessi frambjóðandi hefur sýnt í verki að hann lætur verkin tala, jafnvel þó það kosti streð, erfiði og vinsældir meðal vina og samherja. Lætur ekki stjórna sér. Það sást vel í baráttu hans gegn orkupakka 3, þar sem hann fékk eigin flokk gegn sér. Fyrir löngu tímabært að fá mann með lögfræðiþekkingu og kjark til að standa vörð þjóðarinnar inn í embættið á Bessastöðum.
Fyrir þá sem ekki vita hvern er talað um er rétt að nefna nafn hans:
Arnar Þór Jónsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2024 | 07:28
Geir Ágústsson virtúós
Kæru lesendur.
Ykkur hefur verið gefin dýrmæt gjöf, sem er bloggsíða Geirs Ágústssonar, en Geir er einn beittasti penni Íslendinga nú á tímum. Færsla hans í gær er svo skýr og góð að ég hefði viljað skrifa hana sjálfur. Þegar ég las hana kom í hug sagan af því þegar Bjarni Thorarensen las Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson og sagði "Nú er mér bezt að hætta að kveða".
Tilvísuð færsla Geirs er hljóðar svo:
Höfum þetta bara alveg á kristaltæru: Flestir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að leita að þægilegri innivinnu, og, ekki síður mikilvægt, mikilli athygli.
Þeir vilja ferðast til útlanda til að drekka kampavín með útlendingum.
Þeir vilja klippa á borða.
Þeir vilja vera þægir og óumdeildir.
Kannski var þetta allt í góðu einhvern tímann, en núna eru breyttir tímar. Alþingi er á fullu að innleiða beint og óbeint framsal á fullveldi Íslands til erlendra embættismanna.
Þingið er líka að reyna koma á fyrirkomulagi sem keyrir utan við stjórnmálin. Það er gert með því að setja lög sem leyfa ráðherrum að innleiða allskyns takmarkanir í gegnum reglugerðir. Heilu atvinnugreinarnar hafa nú þegar fengið að finna fyrir því.
Þingið er með veik hné. Minnisblað frá útlöndum fær það til að hrista og skjálfa.
Þingið reyndi að binda Íslendinga í skuldafangelsi fyrir ekki mörgum árum síðan. Það tókst ekki af því að fyrrverandi forseti ákvað að spyrja þjóðina.
Sem leiðir hugann að hlutverki forseta í dag.
Hann getur ekki lengur verið falleg sál sem gróðursetur tré eða klappar börnum. Forseti þarf að vera vakandi. Hann þarf að vera varðhundur. Stjórnarskráin heimilar þetta.
Því miður segja skoðanakannanir að Íslendingar ætli að kjósa gegnumstreymisloka frekar en varnagla.
Vonum að það breytist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2024 | 10:06
Undiraldan vex
Með hverjum deginum sem líður tengja fleiri við málflutning minn. Á ferð um landið finn ég sterka undiröldu sem bíður þess að brjótast upp á yfirborðið. Ég trúi því að þetta undirliggjandi þjóðfélagsafl muni fleyta mér langt í kosningunum. Úr Morgunblaðinu í dag má tilnefna tvær greinar sem tengjast beint þeim áherslum sem framboð mitt grundvallast á.
Leiðari Morgunblaðsins í dag hefst svona:
Áhyggjur af stöðu lýðræðisins hafa farið vaxandi í hinum frjálsa heimi undanfarin ár. Einræðisríkjum vex ásmegin, en pópúlisminn ágerist. Í Evrópusambandinu verður lýðræðishallinn sífellt brattari, og hvarvetna í þróuðum lýðræðisríkjum þar er Ísland ekki undanskilið trompar regluverkið bæði lýðræðið og einstaklingsfrelsið í síauknum mæli.
Þar ræðir um valdahnupl ókjörinna og ábyrgðarlausra embættismanna, lagatækna og hagsmunaafla, sem frekar færist í aukana en hitt. Sem aftur mun reynast vatn á myllu pópúlískra afla, en milli þeirra og möppudýranna kremst vestrænt, frjálslynt lýðræði.
Nýjasta dæmið um það hvernig ólýðræðislegar stofnanir hrifsa til sín völd frá almenningi er frá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) í Strassborg, sem í fyrri viku kvað upp dóm, sem í senn færir út kvíar dómstólsins og setur lýðræðið í annað sæti.
Í sama blað dagsins í dag skrifar Meyvant Þórólfsson, fyrrverandi háskólakennari, ágæta grein um forsetaframbjóðendur hinnar líðandi stundar. Mér þykir vænt um stuðninginn sem hann lýsir yfir við framboð mitt og er einnig hugsi yfir því sem hann nefnir um mögulegan þátt fjölmila í skoðanamyndandi fréttaflutningi. Grein Meyvants verðskuldar ekki annað en að vera birt í heild sinni og ég leyfi mér að láta hana fylgja hér:
Af vindhönum og forsetaefnum
Liðin eru 80 ár frá því að Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti þjóðhöfðingi frumbyggja þessa örríkis. Hann hlaut aldrei mótframboð og var því sjálfkjörinn forseti til dauðadags. Mótframbjóðendur Ásgeirs Ásgeirssonar árið 1952 voru tveir og Kristjáns Eldjárns árið 1968 einn. Hvorugur hlaut mótframboð í embætti. Sjálfhverfusóttin, sem nú geisar meðal frumbyggjanna, var sem sagt óþekkt fram eftir öldinni sem leið. Mótframbjóðendur næstu forseta voru jafnan þrír en núverandi forseta átta. Allir fengu þeir mótframboð í embætti. Nú er liðið hátt á aðra öld og sjálfhverfusóttin orðin að faraldri. Mótframbjóðendur sjöunda forseta lýðveldisins virðast nú á áttunda tug þótt framboðsfrestur sé enn drjúgur.
Hvað veldur?
Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan heiður að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni?
Trú á eigin getu? Íslendingar eru vissulega meðal hamingjusömustu þjóða heims samanber skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar. Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm. Spilling hefur einatt leikið okkur grátt. Jónas heitinn Kristjánsson tók svo til orða að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur.
Eða hugsa sumir þetta kannski sem grín? Höfuðborgin mun seint hjarna við eftir sirkus Besta flokksins fyrir áratug, gjörning sem var stundum rosalega skemmtilegur og fyndinn eins og meðhjálpari sirkusstjórans komst að orði. Bent hefur verið á tyrkneskan málshátt í því sambandi, verðan umhugsunar: Það að trúður flytjist í höll gerir hann ekki að kóngi, en höllina hins vegar að sirkus.
Eða er það vindhaninn á Bessastaðakirkju? Þegar Bessastaðir urðu að bústað forseta var gamli vindhaninn fjarlægður af turni kirkjunnar og kross settur í staðinn af virðingu við hina lútersku þjóðkirkju, enda þjóðhöfðinginn höfuð hennar. Á tveggja alda afmæli turnsins var krossinn fjarlægður og nýr vindhani settur upp til að geta séð hvernig vindar blása hér á Álftanesi eins og núverandi forseti komst að orði, en hann stendur utan trúfélaga eins og kunnugt er. Upplifa einhverjir hinna nýju frambjóðenda sig kannski eins og Pétur postula forðum, þegar hann afneitaði Jesú hyggjast þeir sum sé láta á það reyna hvort vindhaninn á turni Bessastaðakirkju taki upp á því að góla, eins og haninn í sögunni um Pétur, ef þeir stökkva á Siðmenntarvagninn og afneita Jesú og þjóðkirkjunni?
Eða áskorun til að mæta átakamálum?
Fyrsti forseti íslenska lýðveldisins fylgdi málum eftir af kyrrlátri festu og hógværð og var laginn við að laða til einingar andstæð sjónarmið, eins og Hermann Jónasson komst að orði. Þrátt fyrir hógværð og hæglæti hikaði Sveinn Björnsson sjaldan við að skipta sér af stjórnmálum með beinum eða óbeinum hætti. Hann kom hreint til dyranna í deilunni um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og einnig þegar synja þurfti beiðni um þingrof.
Átakamálin voru mörg í þá daga; þau eru enn fleiri nú og erfiðari. Forsetaefnið sem á endanum verður kosið er þess vegna ekki öfundsvert. Framar öllu skyldi það forðast þá glýju í augum að verða óumdeilt sameiningartákn, er ferðist um í svartri bifreið með blaktandi fána og sitji tedrykkjur þess á milli með erlendum þjóðhöfðingjum eða setji popphátíð í páskabyl norður við heimskautsbaug.
Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar í húfi
Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar. Hann er staðfastur og laus við hégómlegar hugargælur samanber orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur. Og hann sækist síst af öllu eftir sviðsljósinu svo notuð séu hans orð.
Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi. Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikst í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði. Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB og fleiri alþjóðlegra stofnana. Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur sem stafa af bókun 35 og síðast en ekki síst þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér að ástæðulaust sé að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigst til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá fyndnasta föstudagssófa veraldar, og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents. Miðvikudagskvöldið 3. apríl tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem sterka frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin að RÚV segi henni hverjir komi til greina sem forsetaefni?
Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)