Í lýðræðisríki treystum við dómgreind almennings

Áður en lagt er út í vegferð eins og þá sem ég er nú að hefja þurfa menn að búa sig undir alls konar skítkast, mótlæti, gagnrýni, baktal o.s.frv. Sem betur fer á ég góða ráðgjafa sem voru búnir að vara mig við því að fjölmiðlamenn (í skjóli nafnleyndar) myndu reyna að setja mitt framboð í flokk með því sem þeir kenna við trúðaframboð. Í dag birtist raunar nýr vinkill þegar Ólafur Þ. Harðarson, sem kallaður er í viðtöl sem fræðimaður á sviði kosninga, kallar mig popúlista fyrir að vilja valdefla fólk og fyrir að tala um það að beint lýðræði sé nauðvörn fólks þegar fulltrúalýðræðið er að bregðast

Hér er spurning til lesenda: Er hægt að nálgast álitaefni sem fræðimaður ef rannsakandinn hefur áður mótað sér skoðun og gefið sér niðurstöður eins og Ólafur virðist gera í viðtalinu sem vísað er til hér fyrir ofan? 

Hér vakna fleiri spurningar: Er sá sem sakar aðra um ,,popúlisma" á móti því að höfðað sé til ábyrgðar almennra kjósenda? Er það þá ,,popúliskt" að minna á að valdið komi frá þjóðinni en ekki frá kjörnum fulltrúum eða ókjörnum embættismönnum? Eða er markmið svona orðnotkunar kannski aðallega að koma höggi á þann sem um er rætt? 

Mér hefur verið bent á að inni á DV sé könnun í gangi - og hafi verið þar í u.þ.b. 2 sólarhringa - án þess að DV birti niðurstöðurnar. Þegar þetta er ritað er ég efstur á listanum með rúmlega 15% atkvæða en næsti maður með tæplega 13% og aðrir minna. Kannski telur DV betra að bíða með að loka könnunni til að þurfa ekki að birta frétt um hana núna? 

Getur verið að ,,frjálslyndir" fjölmiðlamenn séu í reynd ekki sérlega hrifnir af lýðræði og aðhyllist fremur valdboð að ofan? Eru kosningar í þeirra huga ógn við lýðræðið, eins og þessi fyrirsögn á Bloomberg gefur til kynna

Ég hef fulla trú á að Íslendingar hafi dómgreind til að vega og meta sjálfir hvern þeir vilji velja í embætti forseta íslenska lýðveldisins og sjái í gegnum þann spunavef sem fréttastofur, ,,fræðimenn" og ólýðræðislega þenkjandi sérfræðingar kunna að vilja nota til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga nk. vor.

 

 


Með ykkar stuðningi mun ég snúa aftur í ræðustól Alþingis

Nú hafa glöggir menn séð ástæðu til að hlusta / horfa aftur á jómfrúrræðuna, sem markaði upphafið að mínum stutta þingferli. Í ræðunni sem sjá má hér á vef Alþingis og hér á fésbókinni fjallaði ég m.a. um meginundirstöður stjórnarfarsins, um valddreifingu, um hlutverk Alþingis, um nauðsyn þess að verja réttarríkið, um mikilvægi þess að almenningur veiti lögmætt, borgaralegt viðnám m.a. í formi spurninga, um hættuna sem steðjar að frjálslyndu og lýðræðislegu stjórnarfari frá fólki sem vill grípa um valdatauma undir yfirskini hættuástands, um það að við verjum Alþingi og þá samfélagsgerð sem fleytt hefur okkur lengst og reynst okkur best.  

Verði ég kjörinn forseti lýðveldisins gæfist mér tækifæri til að stíga oftar í ræðustól Alþingis til að færa fram sjónarmið sem telja mætti þörf á hverjum tíma, hvort sem það væri í formi hvatningar eða til áminningar. 

Texta ræðunnar má finna á vef Alþingis, en þar sem þessi orð mega kallast tímalaus leyfi ég þeim að birtast hér einnig: 

Virðulegi forseti. Það er sannur heiður að fá að koma hér í ræðustól hins háa Alþingis og ég er sannarlega þakklátur fyrir að fá að koma hingað og ávarpa þingið og vonandi þjóðina alla. Þetta er tækifæri sem ég get ekki sleppt og vil ekki sleppa því að ég á erindi við ykkur öll, kæru landsmenn.

Nú fara fram umræður um fjárlög og það hefur komið fram í þeim umræðum að það hefur verið mikill hallarekstur á ríkissjóði frá ári til árs og opinber stuðningur eykst. Það er verið að samþykkja fjáraukalög og það liggur fyrir að hagvöxtur verður skertur. Það liggur fyrir að ýmsar atvinnugreinar eru í vanda og það ýtir undir verðbólgu og ýmiss konar vandamál. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Thomas Möller sagði hér fyrr í dag, að nú er hagræðing mikilvæg sem á öðrum tímum. Og talandi um þingmenn þá lýsti hv. þm. Logi Einarsson því svo áðan að fjárlagafrumvarpið væri í raun myndbirting þess sem hann kallaði viðbragðsstjórnmál. Mér fannst sá kafli ágætur hjá hv. þingmanni þótt ég myndi sjálfur ekki leggja til sömu leiðir og sá góði maður.

Alþingi er lykilstofnun lýðveldisins og hér eiga ekki að vera stunduð viðbragðsstjórnmál heldur á að horfa á sviðið út frá heildarsýn, út frá almannahagsmunum og út frá langtímahag. En hættan á svona tímum eins og við lifum núna er sú að vikið sé frá meginreglum stjórnskipunarinnar um temprað ríkisvald, mögulega vikið frá meginreglum, meginviðmiðum um umfang ríkisrekstrar og mögulega vikið frá einhverjum viðmiðum um það hvað teljist viðunandi hallarekstur. En þetta er allt gert frammi fyrir hinu óþekkta sem er þessi veira sem vekur hjá fólki margs konar ótta.

Ég hef spurt mig, og ég vil beina þessari spurningu til ykkar sem hlustið: Er hættan sem við stöndum frammi fyrir orðin slík að það sé réttlætanlegt að ýta til hliðar hefðbundnum viðmiðum? Gengur þetta svo langt að það megi víkja til hliðar viðmiðum sem við höfum lagt til grundvallar, þ.e. um réttarríki, um borgaralegt frelsi eða um lýðræði? Eiga þessar undirstöður stjórnskipunarinnar að vera í uppnámi? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir svo alvarleg að það sé réttlætanlegt að raska hér öllu valdajafnvægi milli löggjafar, framkvæmdarvalds og dómsvalds?

Ég tók eftir því í dómsúrlausnum núna fyrir skemmstu þar sem látið var reyna á sjónarmið um það hvort sóttkví og slíkt fæli í sér mismunun út frá jafnræðisreglu, að dómstólar afgreiddu það með þeim orðum að það væri ásættanlegt á þeim tímum sem við lifðum að játa stjórnvöldum ríkt svigrúm. Ég fylltist, verð ég að viðurkenna, ákveðnum ótta, talandi um ótta, en ótti minn laut að því hvort verið væri að tefla í hættu þessari grundvallarreglu um temprun ríkisvalds, því að það er vissulega eitt aðalhlutverk dómsvaldsins að veita framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu aðhald. Er ásættanlegt að afgreiða mál um jafnræðisreglu sem varðar svona mikla hagsmuni með þeim orðum að játa beri stjórnvöldum ríkt svigrúm? Er hættuástandið slíkt að það megi nota sóttvarnalög til almennra skerðinga á réttindum borgaranna? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir slík að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar? Ég hef spurt, og mér er fúlasta alvara með þeirri spurningu, hvort það gæti verið að hér sé að renna upp einhvers konar nýtt stjórnarfar og að almenningur, og mögulega þingheimur, átti sig ekki á því hvað sé að gerast.

Þingið þarf að gera sig gildandi í þessu tilliti og má alls ekki láta sniðganga sig. Ég nefni þetta hér vegna þess að það er vert að minna á að í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir, þetta eru upphafsorð stjórnarskrárinnar okkar, að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þar stendur ekki: Ísland er lýðveldi með stjórnbundið þing. Þannig að besta vörnin, augljóslega, gegn hvers konar ofríki stjórnvalda er þingbundin stjórn. Þetta felur jafnframt í sér, og það blasir við, að stjórnarskrá okkar geymir enga almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi. Ég vil undirstrika þetta: Besta vörnin, besta vörn almennings gagnvart hvers kyns neyðarástandi er þingbundin stjórn, þ.e. ríkisstjórn og framkvæmdarvald sem sætir temprun af hálfu Alþingis og síðar dómstóla. Í þessu endurspeglast þá aftur að lýðræðið og réttarríkishugsjónin eru mikilvægasta vörn borgaralegs frelsis og mannréttinda á þessum tímum sem öðrum.

Af hverju er ég að tala um lýðræði? Það er út af því að allt vald stafar í raun og veru frá þjóðinni. Það sem gefur lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum, eins og þá Alþingi, lögmæti er að fulltrúar þeir sem hér sitja sækja vald sitt til þjóðarinnar. Takið eftir þessu, þetta er það sem gefur lýðræðislegum stjórnvöldum lögmæti. Hvert sækja þá ofríkismenn lögmæti sitt? Hvert hafa alræðisstjórnir og harðstjórar fyrri tíðar sótt lögmæti sitt? Því er til að svara, eða þetta er svartilraun mín, að lögmætið í slíkum tilvikum er sótt til þess að ofríkið sé svo skilvirkt, það sé svo hraðvirkt að það sé þess umkomið að túlka vilja almennings og geti gætt hagsmuna almennings svo vel.

Ástandið sem hér hefur verið uppi á Íslandi núna í næstum því tvö ár er til þess fallið að deyfa mörkin í hugum almennings og mögulega í hugum þingmanna milli þess sem við getum kallað lögmætt lýðræðislegt stjórnarfar annars vegar og þess sem ég kalla ofríkisstjórnarfar hins vegar. Annars vegar stöndum við frammi fyrir ofríki sem birtist okkur í formi valdboðs þar sem valdið er í fyrirrúmi og skilvirknin og hraðinn, og hins vegar erum við að tala um réttarríkið þar sem stjórnin er þingbundin, þar sem Alþingi er miðlægt, þar sem við stýrum samkvæmt almennum lögum o.s.frv. Vandinn eins og ég sé hann, og ég vil fá að nefna það hér, er að ég óttast að verið sé að grafa undan réttarríkinu smám saman undir því yfirskyni — takið vel eftir, þið sem hlustið — að verið sé að styrkja réttarríkið. Í praktísku tilliti stöndum við frammi fyrir því að verið er að veita hér fjármuni í stórum stíl með vísan til hættu- eða neyðarástands. Þetta var vissulega skiljanlegt í upphafi kórónuveirufaraldursins, en ég leyfi mér að efast um að það sé skiljanlegt og réttlætanlegt á þeim tíma sem nú er runninn upp. Ég nefni þetta vegna þess að út frá almennum kenningum í stjórnarfari og stjórnskipunarrétti er ekki viðurkennt að hægt sé að tala um neyðarástand ef valdhafar sjálfir hafa stjórn á þeim aðstæðum sem veldur neyðinni. Takið vel eftir þessu: Það er ekki viðurkennt í fræðunum að hægt sé að tala um neyðarástand ef valdhafarnir sjálfir hafa stjórn á aðstæðunum sem valda neyðinni.

Hvað á ég við með þessu? Ég á við að hér hefur ítrekað verið vísað til þess að við getum ekki gert annað en að þrengja og leggja meiri höft á borgaralegt frelsi í landinu vegna þess að sjúkrahúsin ráði ekki við meira. Það er vísað til þess að það sé plássleysi á Landspítalanum, en þegar gluggað er í heimildir kemur í ljós að legurýmum á íslenskum heilbrigðisstofnunum hefur fækkað á síðustu árum. Þannig sá ég að legurýmum hefur fækkað úr 1.283 á árinu 2007 og niður í 1.009 á árinu 2020. Þetta er augljóslega atriði sem íslensk stjórnvöld hafa fullt forræði á að leiðrétta. Ég hef því kallað þetta heimatilbúna innviðakrísu og ég hef sagt að á slíkum grunni sé ekki hæft og ekki lögmætt að hneppa fólk í einhvers konar helsi. Þá er það skylda stjórnvalda, skylda þingsins, að stíga inn í þetta, að fókusera aðgerðir, auka framlög til heilbrigðisstofnana, fjölga sjúkrarúmum og gera allt sem í valdi stjórnvalda stendur til þess og með það að markmiði að hér sé hægt að sleppa höftum af íslenskri þjóð. Þá er ég að vísa til barna og ungs fólks og allra þeirra sem vilja og geta unnið störf sín og tekið þátt í frjálsu samfélagi.

Virðulegur forseti. Ég vil, núna þegar ég dreg þetta saman, nota tækifærið til að minna áheyrendur á það að réttarríkið, bara svo að það komi fram hér í þessum sal, felur í sér að ríkisvaldið er bundið af reglum og á að sæta aðhaldi í samsvarandi mæli. Þessi hugsjón um réttarríkið felur í sér að borgararnir eru varðir gagnvart ólögmætri valdbeitingu ríkisins. Þetta er hugsjón sem hefur lifað með mannkyni öldum saman og við þekkjum að þetta var heilagt baráttumál t.d. á tímum einveldisins. Í þessu felst að ef skerða á borgaralegt frelsi þá verður það ekki gert nema samkvæmt ströngum reglum og að uppfylltum ströngum skilyrðum. Kórónuveiran opinberar vissulega veikleika hér sem annars staðar. Það liggur fyrir að fjöldi fólks hefur verið sviptur atvinnu sinni og lífsgrundvelli, fjöldi fólks hefur verið sviptur ferðafrelsi og fundafrelsi og börn hafa nánast verið svipt rétti til skólagöngu. Það liggur fyrir að ástandið er vissulega verra víða um heim og á meginlandi Evrópu, en það eitt og sér réttlætir ekki stórkostleg inngrip stjórnvalda í daglegt líf borgaranna með skerðingum. Út frá hefðbundnum viðmiðum, sem ég var að tala um áðan, um hlutverk Alþingis, þ.e. um aðhald og eftirlit og þingbundna stjórn, þá verðum við að draga Alþingi inn á þennan vettvang og gera það aftur miðlægt í allri þessari umræðu. Við eigum ekki að láta það gerast að með vísan til neyðarástands sé Alþingi klippt út, lýðræði gengisfellt og einhvers konar tilskipunarstjórnarfar innleitt hér á landi.

Ég vona að þegar frá líður munum við geta sagt að okkur hafi tekist að verja hér réttarríkið. Ég tel að við Íslendingar séum í dauðafæri að gera það, að í okkar fámenna ríki með okkar góðu embættismenn og lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk takist okkur að ná tökum á þessari óáran sem herjar á okkur og leysa okkur úr þeim fjötrum sem hafa hert að okkur nú um tveggja ára skeið. Ég hvet ykkur, ágætu landsmenn og ágætu þingmenn, til að veita hér aðhald í formi spurninga og lögmæts borgaralegs viðnáms. Ég hvet ykkur til að hafa uppi spurningar. Ég kalla eftir því að stjórnsýslan, sérfræðingar og ríkisstjórn svari spurningum sem lúta að því á hvaða grundvelli sé verið að grípa til þessara aðgerða. Ég hvet ykkur, ágætu landsmenn, til þess að veita viðnám gegn því að sérfræðingar grípi í krafti kennivalds í auknum mæli um valdatauma. Ég hvet ykkur til að verja Alþingi og standa með því að Alþingi geri sig gildandi í þessu öllu.

Af því að við erum að ræða um fjárlögin þá var ég einhvern tímann á spænskri sólarströnd og greip það sem var hendi næst til að lesa. Það var þýskt dagblað og þar var verið að fjalla um á þýsku að Þýskalandi væri það sem þeir kölluðu „Zahlmeister und Prüegelknabe“, þ.e. bæði sá sem mokar peningum úr kassanum, og það má segja að Alþingi sé sett í þá stöðu hér, en líka „Prügelknabe“, vegna þess að við þýskar hirðir var til sérstakt embætti manns sem var flengdur í hvert sinn sem prinsinn gerði eitthvað af sér. Alþingi á ekki að vera í þeirri stöðu að það bjóði upp á að það verði flengt ef illa fer út af því að sérfræðingar og stjórnsýslan hafa farið offari. Alþingi ber gríðarlega mikla lýðræðislega og pólitíska ábyrgð og við verðum að virkja hana. Við stöndum frammi fyrir því að það er smám saman verið að losa um viðjar hinnar þingbundnu stjórnar og áhrif hennar á lagasetningu.

Virðulegi forseti og kæru alþingismenn. Ég flyt þetta fram hérna til að minna á að það er Alþingi sjálft sem á að halda hér um stýrið, ekki aðeins til að sjá um fjárveitingar heldur einnig hvað varðar stefnumörkun, aðhald og eftirlit með ríkisstjórn og stjórnsýslunni. Hlutverk ríkisstjórnarinnar er að framkvæma lögin, hlutverk stjórnsýslunnar sömuleiðis. En það er ekki hlutverk ríkisstjórnar eða framkvæmdarvalds, stjórnsýslu, að setja lögin. Það er ekki í lagi að stjórnsýslan eða framkvæmdarvaldið taki sér víðtækt lagasetningarvald undir því yfirskyni að hér sé neyðarástand og beiti sóttvörnum til að keyra yfir allt sem heitir frjálst samfélag. Það þarf í það minnsta að skoða vandlega í ljósi raunsæs mats á hættunni og hvort þetta sé heimatilbúin hætta, og ekki láta það renna okkur úr greipum sem við höfum kallað borgaralegt frelsi, réttarríki o.s.frv. Ef stjórnsýslu og framkvæmdarvaldinu er veitt vítt og opið umboð er nefnilega ekki lengur hægt að tala um þingbundna stjórn.

Ég mæli þetta fram í áminningarskyni, virðulegi forseti. Ég mæli þetta fram sem hvatningu til Alþingis og til landsmanna sem þetta heyra til að minna á að mikilvægasta öryggistæki þjóðarinnar á tímum sem þessum er þingbundin stjórn með öllu sem í því felst, þar með talið vörn réttarríkis, borgaralegs frelsis og lýðræðis.

Ég óska þess að heill og hamingja fylgi Alþingi og þjóðinni allri á nýju ári. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að koma hér upp.


Haninn hefur galað og hann kallar okkur til starfa

Með framboði mínu til forseta Íslands vil ég leiða tímabæra vitundarvakningu um þær miklu og alvarlegu umbreytingar sem eru að eiga sér stað, ekki aðeins í landsmálapólitík, heldur einnig á sviði alþjóðamála. Um þetta fjallaði ég í ræðu á blaðamannafundinum 3. janúar sl. og ræðuna í heild má sjá hér

Með hverjum deginum sem líður sér fleira fólk ósamræmið milli þess sem yfirvöld, embættismenn og fjölmiðlamenn segja okkur að sé að gerast og þess raunveruleika sem blasir við. Yfirv0ld munu gera allt sem þau geta til að láta eins og allt lúti hefðbundnum viðmiðum og að meginreglur lýðræðislegs stjórnarfars séu enn í gildi, t.d. þannig að ráðamenn svari til ábyrgðar fyrir mistök, yfirsjónir og valdníðslu. Til að reyna að viðhalda þeirri mynd í hugum kjósenda standa menn upp úr ráðherrastólum til þess eins að setjast í annan slíkan stól nokkrum klukkustundum síðar ... eða þá standa alls ekki upp úr stólnum og vonast til að málið gleymist. Á bakvið tjöldin munu ráðandi öfl leggja allt kapp á að halda völdum og óbreyttri stöðu, sjálfum sér til verndar en almenningi til tjóns.

Það sem ég hélt að myndi gerast smám saman er að gerast mun hraðar en ég hélt. Fólk sem var steinsofandi fyrir 3 árum er glaðvaknað eins og þessi þekkti fjölmiðlamaður segir sjálfur frá hér, í einu merkilegasta viðtali sem ég hef horft á í langan tíma. Hver setning viðmælandans er svo þrungin merkingu að allir sem þetta sjá hljóta að sjá heiminn í skýrara ljósi. Þótt lýsingin sé skelfileg á köflum, þá mega allir sjá að hún er raunsæ. Haninn hefur galað og hver sem neitar að rumska eða kýs að afneita því sem hann heyrir bregst skyldum sínum við sjálfan sig og sannleikann.

Þegar nógu margir hafa fattað hvað er raunverulega að gerast, þá verða óhjákvæmilega vatnaskil. Þegar það gerist geta engin flokkseigendafélög, engar hagsmunagæsluklíkur, ekkert embættismannaveldi, engir ríkisforstjórar og ekki einu sinni meginstraumsfjölmiðlarnir lengur sópað hlutunum undir teppið, beint athyglinni annað eða falið þá mynd sem við blasir.

Vonandi verður þú, kæri lesandi, ekki með þeim síðustu til að vakna. Stígðu óttalaus inn í framtíðina og gakktu til liðs við alla þá sem eru tilbúnir til að hefjast handa við að dusta rykið af hornsteinum góðs samfélags, endurnýja stoðir lýðræðisins og endurnýja skuldbindingar okkar um að virða og verja frelsi hvers annars. 

 


Hvora hliðina veljum við að sýna?

Á hverjum degi þurfum við að mæta sjálfum okkur og vega og meta hvort við viljum birta okkar góðu hliðar eða þær slæmu. Við geymum öll bæði ljós og myrkur. Geymum öll skugga og sár sem ekki hafa gróið. Enginn maður er tært ljós í gegn. Þjóðfélagið er ekki samsett af englum annars vegar og skúrkum hins vegar eins og dagleg umræða gefur iðulega til kynna. Landamæri góðs og ills liggja ekki utan við okkur sjálf, markalínan er innra með okkur sjálfum og rennur í gegnum hjarta sérhvers manns. 

Daglega þurfum við að velja hvernig samskipti við viljum eiga við fólk, þ.e. hvort við viljum vera elskuleg eða önug. Jesús sagði að meira máli skipti það sem fer út um munninn en það sem fer inn (Matt. 15:11).

Í öllum okkar samskiptum, hvort sem það er í ræðu eða riti, í raunheimum eða netheimum, höfum við val um hvernig við komum sjónarmiðum okkar á framfæri. Það er skylda okkar að sýna náunga okkar virðingu, óháð stétt eða stöðu. Þegar við tölum við börn beygjum við okkur niður til að tala ekki niður til þeirra, heldur horfa í augu þeirra á jöfnum grunni. 

Við getum verið ósammála um málefni, rætt kosti og galla alls þess sem við erum að fást við. Takmarkið hlýtur þó alltaf að vera það að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Til að það sé unnt þurfum við að þekkja þau gildi sem við viljum leggja til grundvallar og þær hugsjónir sem við viljum fylgja. 

Hvað vilja íslendingar? Hvaða gildi viljum við verja? Hvernig viljum við að sjálfsmynd okkar sem þjóðar birtist? Hvað er það sem sameinar okkur og gerir okkur heil? 

Vil höfum alltaf val um að sýna okkar betri hlið, láta stjórnast af okkar betri manni en ekki að láta sinn verri mann ná yfirhöndinni. Við getum valið að vera góðar fyrirmyndir, setja gott fordæmi með orðum okkar og gjörðum. 


Val um nýja leið

Framboð mitt - og okkar hjónanna - snýst ekki um persónulegan metnað okkar, heldur um það að hjálpa hverjum og einum Íslendingi til að finna styrk og hugrekki til að nýta hæfileika sína til fulls og rísa upp sem sjálfstæður einstaklingur, því saman myndum við sterka heild, eins og þegar margir grannir þræðir fléttast saman í sterkan kaðal.  

Þessar áherslur undirstrikaði ég í viðtölum í gær, sbr. eftirfarandi upptökur:

1. Samtal mitt við Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni (Reykjavík síðdegis), þar sem við ræðum m.a. um það betra sé að feta hinar troðnu slóðir í lífinu og um kosti / galla þess að velja fáfarnari leiðir. Hverjum manni er frjálst að velja sína leið. 

2. Hluti (10 mín) úr nýju samtali okkar Frosta Logasonar í Brotkasti þar sem ég geri m.a. grein fyrir þeirri skoðun minni að íslenskir stjórnmálaflokkar séu marghöfða en samgrónir og ólýðræðislegir. Mygla hefur skotið rótum í flokkakerfinu. Tillögur mínar til úrbóta eru þær að beina sólarljósi inn í þessa fúnu innviði, lofta út og leyfa fólki að tjá sig. Valdhöfum ber að framfylgja þeim stefnumálum sem þeir hafa lofað kjósendum að standa vörð um. Hér eru efst á blaði sjálfstæði Íslands, frelsi þjóðarinnar, sjálfsákvörðunarrétturinn og málfrelsið.

Af öðrum vettvangi má benda lesendum á eftirfarandi skrif um framboð mitt og ég þakka þessum bloggurum fyrir jákvæða umfjöllun í gær: Páll Vilhjálmsson, Ómar GeirssonHeimssýn, Frjálst land, Birgir LoftssonJóhann ElíassonTómas Ibsen Halldórsson.  

 


Tilkynning um framboð til embættis forseta Íslands

Ávarp flutt á blaðamannafundi 3. janúar 2024

Við Íslendingar státum af merkri laga- og lýðræðishefð. Landnámsmenn komu hingað úr ýmsum áttum, frá Bretlandseyjum, Noregi og víðar. Hingað kom fólk með mismunandi bakgrunn og talaði mismunandi tungumál. Færð hafa verið rök fyrir keltneskum menningaráhrifum í tungumáli og ritmenningu Íslendinga. Ef lagt er til grundvallar að landnám hafi hafist um 870, þá er líka almennt talað um að landnámsöld hafi lokið árið 930 með því sem kalla má heimssögulegan viðburð, þ.e. stofnun Alþingis, þar sem menn lýstu því yfir að hér vildu menn útkljá sín mál með lögum, en ekki með hnefarétti. Íslenska þjóðveldið stóð fram á 13. öld, en vegna innri veikleika og ytri íhlutunar magnaðist sundurlyndi og vantraust manna á milli sem leiddi til beinna átaka og innanlandsófriðar, sem lauk með því að Íslendingar gengust erlendu konungsvaldi á hönd árið 1262/1264 í skiptum fyrir frið, verslun og viðskipti. Áhugavert er að rifja upp að innan við 10 árum síðar, nánar tiltekið árið 1271 og aftur 1281 sendi konungur hingað lögbækur með vísan til þess að nú væri runninn upp nýr tími þar sem lögin birtust sem valdboð að ofan. Þetta neituðu Íslendingar að samþykkja því okkar lagahefð byggðist á því að lögin mótuðust í daglegu lífi manna, yxu úr grasrótinni og upp. Öldum saman eftir þetta mótmæltu Íslendingar einhliða lagasetningarvaldi konungs.[1] Á þessum grunni byggðist sjálfstæðisbarátta Íslendinga á 19. og 20. öld, þ.e. að við vildum fá að ráða okkar eigin örlögum, ekki að lúta erlendu yfirvaldi eða ólýðræðislegri yfirstétt. Frjáls þjóð í frjálsu landi býr við lög sem ver tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi, trúfrelsi og vinnur að því að skapa börnum sínum bjartari framtíð í þjóðfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögunum og njóta frelsis til skoðanaskipta og til að gagnrýna á yfirvöld. Á grundvelli viðskiptasamnings (EES samningsins) seilist ESB nú eftir því að ráða lögum hérlendis í sífellt ríkari mæli. Í nafni öryggis seilast erlendar stofnanir nú til áhrifa og ítaka hér á landi.  

Með þessu er ég ekki að segja að sagan endurtaki sig en sagan birtir endurtekin stef og hún færir okkur viðvaranir sem rétt er að menn þekki og dragi viðeigandi lærdóm af, því vítin eru til að varast þau.

Við lifum nú enn á ný á tímum vantrausts, sundrungar og ófriðar, þar sem verið er að reka fleyga á milli manna og þjóðfélagshópa, þar á meðal milli karla og kvenna. Í ljósi sögunnar þurfum við að verjast slíku niðurbroti og vera vera vakandi gagnvart þeim sem vilja tvístra okkur / auka á vantraust / ala á óvild. Hver sem elur á sundrungu og vill skapa óvild / hatur út frá kyni, kynhneigð, húðlit, trú eða öðru gerir málstað sínum meira ógagn en gagn.

Við þurfum að minna hvert annað á að við eigum hér sameiginlega hagsmuni, sameiginlegt heimili, sameiginleg gildi. Þorri þjóðarinnar á sér sama siðgæðisgrundvöll til að standa á. Um meginstefin er samhljómur og þau sameina okkur.

Hér er um að ræða málefni sem standa ofan við pólitík: Um sjálfstæði þjóðarinnar, um jafnrétti allra fyrir lögunum, um frelsi okkar og sjálfsákvörðunarrétt. Þetta eru mikilvægustu hagsmunamál okkar og að þeim hefur verið sótt á síðustu árum. Þetta eru málefni sem standa hjarta mínu svo nærri að ég sagði upp dómaraembætti árið 2021 til að geta, óhindrað, tekið þátt í frjálsri umræðu um það hvernig verja megi lýðveldið okkar, landið okkar og sjálfstæði þess. Þetta eru stærstu viðfangsefni okkar kynslóðar, því sjálfsákvörðunarréttur okkar og frelsi eru í húfi.

Í þessum efnum hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina á síðustu árum, með sífellt víðtækari innleiðingu erlendra lagareglna sem miðast ekki við aðstæður hér. Við getum vissulega ekki framleitt peninga með því að skrifa betri lög, en hitt er ljóst, að unnt er að skaða / eyðileggja efnahaginn með vondum lagareglum. Erlend löggjöf sem hingað streymir í stöðugt ágengari mynd er farin að hafa neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og skerða hér lífsgæði.

    • Stöndum frammi fyrir tilbúnum orkuskorti
      • Nýjasta myndbirting þessa valdaafsals birtist í Morgunblaðsgrein Harðar Arnarsonar 27.12. sl., þar sem orðrétt segir: 
        • Landsvirkjun bar lengi vel ábyrgð á raforkuöryggi almennings. Það fyrirkomulag var afnumið fyrir tuttugu árum þegar evrópskar raforkutilskipanir voru innleiddar á Íslandi.
    • Verið að leggja gjöld á flutninga til og frá Íslandi, sbr. lögleiðingu viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir
    • Einnig: Frumvarp um bókun 35, sem tókst að stöðva með einbeittu átaki.
    • Fyrr í þessum mánuði lét varaformaður Sjálfstæðisflokksins í veðri vaka að hún teldi ekki ástæðu til að almenningur fengi að tjá sig um aðild Íslands að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur væri það hlutverk stjórnmálamanna.
    • WHO: Enginn þingmaður tjáir sig / svarar efnislega aðvörunum mínum um það fullveldisframsal sem nýjar reglur WHO munu hafa í för með sér.

Af framangreindu dreg ég alvarlega ályktun:

Þingmenn farnir að haga sér eins og embættismenn og vísbendingar um að þeir séu ekki að vinna í okkar þágu. Alþingi virðist iðulega bremsulaust. Ef fulltrúalýðræðið er í hættu, þá getur þjóðkjörinn forseti verið öryggisinnsigli í mikilvægustu málum þjóðarinnar.

Þjóðin vill ekki samþykkja það að Ísland sé að fornum – og vondum – sið gert að léni fárra útvalinna manna sem gengist hafa erlendu valdi á hönd. Slíkt valdafyrirkomulag endar alltaf með því að landsvæði, auðlindir – og auður – færast á fárra manna hendur, á meðan þorri þjóðarinnar festist í viðjum fátæktar, áhrifaleysis og valdaleysis.

---

Menn og þjóðir þurfa að lúta einhverri stjórn. Mér sýnist, því miður, að kjörnir fulltrúar okkar séu orðnir hallir undir það að afsala sér þessu hlutverki í hendur erlendra stofnana.

Staðreyndin er þessi: Ef við höfum ekki stjórn á sjálfum okkur og ef við tökum ekki stjórn landsins í okkar eigin hendur, þá munu aðrir taka stjórnina til sín.

Við eigum að stjórna okkar eigin för, okkar eigin landi, okkar eigin framtíð. Af því leiðir að ef fulltrúalýðræðið er að bregðast, þá verðum við að taka upp beint lýðræði í mikilvægustu málum.

---

Sérhver kynslóð þarf að axla ábyrgð á varðveislu lýðveldisins og lýðræðisins. Við sem nú lifum þurfum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn því valdaframsali og þeirri stjórnarfarslegu hnignun sem hefur átt sér stað og enn er að eiga sér stað: Við erum að missa frá okkur sjálfstæðið.

Ísland krefst þess af okkur að við endurheimtum sjálfstæðið, en til að svo megi vera þá þarf að snúa þessari óheillaþróun við og stýra lýðveldinu á rétta braut.  Við getum verið fyrirmyndarþjóð, farsæl og friðsöm, en það gerist ekki af sjálfu sér. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Með því móti styrkjum við innviði landsins og bætum líf okkar sjálfra. Á þeim grunni getum við litið björtum augum til framtíðar og mætt öllum áskorunum með æðruleysi og af yfirvegun.

---

Ég hef á mínum starfsferli lengst af starfað á vettvangi dómstólanna. Þar blasir við að rétt niðurstaða verður hvorki fundin né varin með því að vera í hlutlausum gír. Dómari þarf að skoða málefnin, finna út úr því hvað sé rétt, taka ákvörðun á grundvelli bestu samvisku, rökstyðja niðurstöðuna og vera reiðubúinn að verja hana því hún þarf að geta staðist gagnrýni. Lýðveldisstjórnarformið byggir á því að æðstu embættismenn ríkisins séu sjálfstæðir í starfi, geti staðið af sér sviptivinda samtímans, hafi yfirsýn og óbrenglaða dómgreind, styrk til að þola gagnrýni, mótlæti, óvinsældir. Þetta fólk þarf í stuttu máli að geta sýnt sjálfstæði í erfiðustu málum og verið heiðarlegt gagnvart sjálfu sér og öðrum.

Um borð í þjóðarskútunni hefur forseti leiðsagnarhlutverk með höndum, auk þess að hafa vald til að geta kastað út akkerum til að hægja á ferðinni ef skipinu er hætta búin.

Þegar núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti á nýársdag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri, þá stóð ég frammi fyrir skýrum áskorunum um að bjóða mig fram til þjónustu til að verja þau gildi sem áður voru reifuð. Ég hef lifað þannig að ég vík mér ekki undan áskorunum, því ég trúi því að ef það er gert þá þurfi ég að mæta þeim tvíefldum síðar. Og nú fannst mér teningunum vera kastað  … og að ég stæði skyndilega í brennipunkti alls þess sem ég hef fjallað um í skrifum mínum og stendur hjarta mínu nærri. En ef satt skal segja, þá stóð ég ekki aðeins frammi fyrir ytri þrýstingi, heldur einnig innri þrýstingi, því ég tel að hvernig svo sem þessar kosningar fara, þá hafi ég skyldu við sjálfan mig, við þjóðina og við skapara minn, að stuðla að vitundarvakningu hér á landi um þessi mikilvægu mál. Því hef ég, að höfðu samráði við eiginkonu mína, ákveðið að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands í kosningum sem fara munu fram síðar á þessu ári. Þessa ákvörðun hef tilkynnt forseta vorum, sem þjónað hefur almenningi og lýðveldinu af góðvilja, auðmýkt og velvild.    

Æðsti embættismaður ríkisins á að vera öðrum fyrirmynd. Guðni Th. Jóhannesson hefur sýnt háttvísi og hófsemi í samskiptum við almenning. Ég vil vinna áfram á þeim grunni og þjóna af auðmýkt, en leggja áherslu á að það er þjóðin sem er hinn sanni valdhafi, ekki embættismennirnir. Á næstu vikum og mánuðum hyggst ég hvetja fólk um allt land, í öllum stéttum til að láta láta rödd sína heyrast, láta ljós sitt skína, til að stækka, ekki minnka, til að blómstra, hvert og eitt á sínum forsendum. Forsetinn á að þjóna þjóð sinni af heilindum, trygglyndi og einurð, en hann á ekki að vera hafinn yfir gagnrýni. Í frjálsu landi er nauðsynlegt að forseti, eins og aðrir, fái málefnalegt aðhald, sé gagnrýndur fyrir það sem miður fer en njóti stuðnings í því sem vel er gert og verði dæmdur af verkum sínum.

Góðir gestir, ég vil undirstrika að ég tek þessa ákvörðun ekki af neinni léttúð, ég er hlédrægur að eðlisfari og kann ekki vel við mig í sviðsljósinu, en ég tek þessa ákvörðun óhræddur og óhikað, því frelsi þjóðarinnar og sjálfstæði Íslands er mér hjartans mál: Ég ber ást til landsins míns og hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Ekkert mál er mikilvægara en að standa vörð um landið okkar og sjálfsákvörðunarrétt okkar sem manna og sem þjóðar.

Ég geri þetta í trausti þess að ég er ekki einn. Ég veit að herskarar Íslendinga standa með mér og þeim fjölgar óðum sem vaknað hafa til meðvitundar um mikilvægi þeirra málefna sem ég hef viðrað. En ég hef líka annað sem veitir mér öryggi og kjark til að taka þessa ákvörðun, þ.e. mína góðu eiginkonu, Hrafnhildi Sigurðardóttur, lífsförunaut minn til rúmlega 30 ára, sem ég leyfi mér að kalla „fjallkonu“ í besta skilningi þess orðs, konu sem gæti borið alla þjóðina á herðunum ef þess þyrfti, konu sem getur fært ljós inn í svartasta myrkur, kærleika, þar sem hatur ríkir, trú, þar sem efinn ræður, von, þar sem örvæntingin drottnar.

Saman viljum við vera Íslendingum góðar fyrirmyndir og kalla þá til liðs við okkur - og hér vísum við til allra sem vilja með stolti kalla sig Íslendinga, hvort sem þeir fæddust hér eða ekki.

Við hjónin erum sammála um að tímabært sé orðið og nauðsynlegt að Íslendingar skerpi markmiðin, að við ákveðum hvert við viljum stefna, hvaða gildum við viljum lifa eftir, hvað við viljum verja. Horfa á það sem sameinar okkur, ekki það sem sundrar okkur.

Verkefnin eru stór og krefjandi, en þetta eru verkefni sem við treystum okkur í, með ykkar stuðningi og samvinnu okkar allra.

 

[1] Réttlátur konungur (lat. Rex Iustus) = Sá sem, eins og aðrir, er bundinn af hinni arfhelgu venju / grundvallarreglum. Harðstjóri (lat. Tyrannus) = Sá sem setur lög á eigið eindæmi og virðir ekki hinn eldri rétt / hinn forna rétt landsins.


Hugur og óhugur, ljós og myrkur, togast á í árslok

Það var ekki fyrr en í gær að ég heyrði af þeim orðum núverandi fjármálaráðherra að hún setti fyrirvara við það að þjóðin ætti að fá að kjósa beint um það hvort sótt yrði um aðild að ESB. Þessi orð lét hún falla í hlaðvarpi Eyjunnar fyrr í þessum mánuði. Orðrétt má lesa ummæli hennar hér: 

Ég held að við fáum ekki aðra niðurstöðu en það að það að taka upp einhliða gjaldmiðil sé vond hugmynd. Ef við ætlum að taka upp annan gjaldmiðil þá þýðir það að við ætlum að taka upp evru og það gerum við með því að ganga í Evrópusambandið sem er pólitískt stór ákvörðun sem hefur áhrif á mjög margt annað í samfélaginu en gjaldmiðlamálin og krónuna.[Leturbr. AÞJ]

En þurfum við ekki að klára þá umræðu? Hún var aldrei kláruð hér.

Nei, nei. Það var rætt um það í fjögur ár með ríkisstjórn sem var klofin í því hvort við ættum að ganga inn í ESB án þess að ræða um þá þætti sem voru langstærstir.“

Þeim var haldið bara í gíslingu.

Ég myndi ekki vilja endurtaka þann leik,“ segir Þórdís Kolbrún. „Ég held að það sé þá alla vega grundvallaratriði að ríkisstjórn sem ætlar að fara að sækja um aðild að Evrópusambandinu hafði þá áhuga og vilja á því að Ísland gangi í Evrópusambandið og sé þá með umboð til þess að gera það.“

En þarf ekki bara að kanna hug þjóðarinnar?

Það gerum við auðvitað í kosningum. Við könnum hug þjóðarinnar til ýmissa mála.“

Þarf ekki bara að kjósa um þetta sérstaklega? Fá það á hreint – fólk er að segja svo margt með atkvæði sínu annað en þetta.

Já, já, ég veit það. Ég veit að það eru sumir sem eru miklir talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslu og það kann að hljóma andlýðræðislegt þegar ég segist hafa fyrirvara á þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lít svo á að stjórnmálamenn taki það að sér að vinna fyrir hönd þjóðarinnar og fólks sem kýs þá." [Leturbr. AÞJ]

Það verður að segjast hreint út, að þessi ummæli fylla mig óhug. Íslensk lagahefð og frjálslynd vestræn lýðræðishefð hvíla á þeim hornsteini að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni, m.ö.o. að vald ríkisins sé sótt til almennings. Í því felst að stjórnmálamenn hafa aðeins tímabundið umboð og takmarkað. Valdið kemur neðan frá og upp, en ekki ofan frá og niður. Að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi látið tilvitnuð orð frá sér fara fyllir mig einkennilegri blöndu af sorg og ónotum, því eins og hún sjálf segir blasir við að slík ákvörðun myndi hafa mjög víðtæk og afdrifarík áhrif á íslenskt samfélag. Af því leiðir að fram þyrfti að fara mjög ítarleg umræða um málið í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, því tímasetningar geta einnig skipt hér miklu máli. Aðstæður á alþjóðlegum vettvangi og í samskiptum okkar við ESB geta gjörbreyst á einu kjörtímabili. Frumskylda kjörinna fulltrúa er að þjóna kjósendum sínum, ekki eigin hagsmunum eða eigin áhugamálum, ekki erlendu valdi, ekki utanaðkomandi þrýstingi.

Óþægindin minnka ekki við að lesa yfirlýsingar tveggja ágætra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar og Jóns Gunnarssonar, sem benda til að þeir séu báðir þjakaðir af innri baráttu og finnist þeir vera að bregðast hugsjónum sínum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Til hvers eru menn í pólitík ef þeir vinna gegn eigin sannfæringu og víkja sér undan því að standa (og falla) með eigin sannfæringu? En lengi skal manninn reyna og vonandi benda yfirlýsingar þeirra til þess að við sjáum stjórnmálin færast í betri átt á árinu 2024.

Í miðjum öllum þessum döpru hugsunum berst mér tölvuskeyti, sem lýsir upp daginn og veitir nýja von: 

Það fer vel á því að senda þér kveðju nú í árslok.    Ég vil þakka þér af heilum hug fyrir allt það botnlausa og óeigingjarna starf sem þú hefur unnið að undanförnu.  Allt er það svo ríkt að innihaldi, jákvætt og mikilvægt að það hálfa væri afrek.  Ég hef aldrei eins oft lent í þeirri stöðu gagnvart nokkrum manni að hafa hugsað sem svo: „ já, þetta hefði ég einmitt viljað sagt hafa, og það hefði dugað mér til að leggjast glaður til hvílu þann daginn“.   Ég veit að þér finnst hræðilega lítið miða, en þannig er alltaf með menn í þinni stöðu.  Manni finnst ekkert gerast, jafnvel þó svo dropinn holi steininn hraðar en nokkurn tímann fyrr.  Ég hygg að það séu þúsundir manna sama sinnis og við og það fólk hefur áhrif langt inn í raðir þeirra sem velta samfélagsmálum lítið fyrir sér.

Ég verð áfram reiðubúinn að bera vatn í skrúðgarðinn sem þú ræktar í ræðu og riti, ég mun dreifa skrifum og flytja mál þitt, og okkar, sem víðast.  Vonandi tekst að gera það með þeim skýrleika og þeirri yfirvegun sem þarf til að jurtin vaxi og dafni.   Að svo mæltu óska ég þér og þínum alls hins besta á nýju ári og alla ókomna daga.

Netverjum hér þakka ég lesturinn á árinu sem er að líða um leið og ég óska öllum gleðilegs árs - og friðar.

 


Hver er framtíðarsýnin?

Í framhaldi af fyrri færslu um skólakerfið hef ég átt samtöl um stöðu náms og kennslu á Íslandi. Hvað er verið að kenna / í hvað fer tíminn í skólakerfinu ef stór hluti barnanna lærir ekki að lesa á 10 árum þar? Þjónar skólakerfið þeim tilgangi að kenna börnum að hlýða fyrirskipunum? Að framleiða hlýðna þegna sem spyrja ekki spurninga og vilja helst láta lítið fyrir sér fara? Miðar kerfið að því marki að útskrifa fólk sem er þjálfað í að ganga í takt, hlýða bjölluhringingum, sitja í lokuðum rýmum fyrir framan skjá og er í stuttu máli fyrirsjáanlegt og auðvelt að stjórna? 

Þetta eru spurningar sem vel er þess virði að ræða um, því ekki er lengur hægt að láta eins og allt sé í lagi í okkar rándýra skólakerfi. Getum við ekki bætt nám og kennslu með því að af-kerfisvæða það? Með því að leggja áherslu á að börnin þjálfist í að birta það sem innra með þeim býr? Fái þjálfun í að tjá hugsun sína? Fái tækifæri til að tengjast bæði eldra og yngra fólki í stað þess að vera einangruð, árum saman, með jafnöldrum sínum? Þegar fólk er hólfað niður eftir aldri og þegar dagarnir lúta stífri dagskrá excel-skjals er kannski ekki mikið rými eftir til að kynnast fjölbreytileika lífsins og litbrigðum tilverunnar. Niðurnjörvað skólakerfi einangrar nemendur ekki aðeins frá fortíð, heldur einnig frá framtíðinni. Eða hver er framtíðarsýn ungra Íslendinga þegar þau koma út úr þessu kerfi, mögulega með laskaða sjálfsmynd? Er það að komast í vel launað starf við að selja þjónustu sína? Flytja vörur á milli staða? Senda tölvupósta? Tala í síma? Koma sér í mjúkinn hjá yfirvaldinu til að fá stöðuhækkun? Segja ekkert sem gæti hægt á eða hindrað framgang í starfi? Er þetta sú framtíðarsýn sem við viljum bjóða börnunum okkar?

Við getum boðið betur. Við eigum að hjálpa þeim að finna og rækta hæfileika sína, þora að treysta á eigin getu, geta staðið á eigin fótum, verða sterkir einstaklingar sem geta létt undir með öðrum. Við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi, því landið okkar og umheimurinn þarfnast fólks sem býr yfir kjarki og visku og getur sýnt hófsemi og iðkað réttlæti í raunheimum og á sjálfstæðum forsendum. Takist þetta ekki aukum við líkurnar á því að næsta kynslóð verði háð öðru fólki, ríkinu, ánetjist spilafíkn, vímuefnum eða öðrum löstum.   

Hvernig framtíð viljum við sjá? Það er i okkar valdi að móta þá sýn og hjálpa æskunni að blómstra. Það gerum við ekki með því að hvetja til þess að menn hafi trú á ,,kerfinu", heldur að menn hafi trú á sjálfum sér og æðri mætti.


Sigling þjóðarskútunnar á ekki að vera í höndum áttavillts fólks

Allir sem hér búa - og allir sem hingað flytja - vilja búa í góðu þjóðfélagi. Slíkt samfélag verður ekki til af sjálfu sér, því þetta er samvinnuverkefni. Um borð í þjóðarskútunni eru fá, ef nokkur, farþegasæti í boði. Frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar hefur það verið grunnstef að allir taki ábyrgð á sjálfum sér og nærumhverfi sínu. Um það má lesa í Hávamálum, hvernig allir geti orðið að liði í þessu samhengi, þrátt fyrir fötlun eða veikleika.

Áhyggjur mínar af stöðu Alþingis og íslensks lýðræðis hafa aukist eftir því sem ég kynnist stjórnmálunum betur. Þar eru stundaðar endalausar málamiðlanir, án sjáanlegrar stefnufestu. Íslensk stjórnmál eru iðkuð í einhvers konar tilbúnu tómarúmi, í prinsippleysi, þar sem flestir stjórnmálamenn virðast hafa mestan áhuga á hagsmunagæslu fyrir eigin flokk og sínum eigin pólitíska frama. Fulltrúalýðræðið er að bregðast okkur.  

Við stöndum frammi fyrir þríþættum vanda: 

1. Ríkisvaldið er að renna saman við hið fjárhagslega vald og þar vísa ég sérstaklega til alþjóðlegs ofurfjármagns.

2. Stjórnmálaflokkar á íslandi eru að renna saman í eitt marghöfða skrímsli, þar sem engu skiptir hvað er kosið, því alltaf er framfylgt sömu stefnu.

3. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið höggnir af sinni lýðræðislegu rót og þurfa ekki lengur á neinu grasrótastarfi að halda. Flokkarnir lúta forsjá og forystu flokkseigenda sem ekki hafa sig þó endilega mikið í frammi. VG eru orðnir hvatamenn ófriðar, Samfylkingin hefur ekki staðið vörð um hagsmuni hins almenna launamanns, Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist vonum sinna kjósenda með því að þenja út ríkisvald, hækka skatta og þrengja að borgaralegu frelsi. Um Framsóknarflokkinn þarf ekki að tala sérstaklega, enda hefur hann aldrei staðið fyrir nein prinsipp. 

Um þetta og margt fleira fjalla ég í þessu nýja viðtali og vona að sem flestir hlusti. Islendingar geta ekki lengur leyft sér að sýna áhugaleysi og sofandahátt, því hér er mikið í húfi. Þegar siglt er um úfið haf er ábyrgðarlaust að leyfa áhugalausu og áttavilltu fólki að stýra för.  


Ögurstundin nálgast

Í Morgunblaðsgrein sinni 27.12. sl. undirstrikaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að

við Íslendingar höfum byggt upp öflugt orkukerfi sem er einstakt í heiminum, með sína 100% endurnýjanlegu orku. 

Í allri umræðu um ,,viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir" hefðu Íslendingar átt að verja hagsmuni sína með vísan til þessa merka uppbyggingarstarfs og hafna þátttöku í þessu kerfi.

Hagsmunagæsla Íslands í Brussel virðist því miður vera í molum og sendimenn okkar þar samþykkja allt sem þar streymir í gegn. Um þetta mál og kæruleysislega meðferð þess má nánar lesa á vef Alþingis, sjá hér, og eins og þar sést kaus stærstur hluti alþingismanna að reisa engin andmæli gegn innleiðingu þessa kerfis, enda þótt það muni fyrirsjáanlega veikja samkeppnisstöðu Íslands út á við og  hækka verð á innlendum vörum, auk þess að hækka flugfargjöld með tilheyrandi skaða fyrir ferðaþjónustu og hærri útgjöldum fyrir Íslendinga, því flugið er í raun okkar eini samgöngumáti til annarra landa, öfugt við meginlandsþjóðir sem geta ferðast með lestum.

Þetta nýja regluverk mun - að óþörfu - fækka flugum til og frá Íslandi, en heildarfjöldi flugferða á svæðinu mun varla minnka, því flugið mun færast héðan til Bretlandseyja. Minna framboð á flugsætum frá Íslandi mun leiða til hærra verðs. Íslendingar áttu að hafna öllum kolefnisskatti með vísan til þess að við höfum virkjað fallvörn og framleiðum hér ál með 12x minni mengun en gert er í Kína. Til hvers var Alþingi þá að samþykkja þátttöku í þessu? Öllum má vera ljóst, að þótt málið líti sakleysislega úth þá mun það hafa mjög neikvæð áhrif á okkar hag til frambúðar.

Íslendingar eiga að njóta fyrri verka

Íslendingar kynda nánast öll hús með jarðvarma. Við erum áratugum á undan öðrum og eigum ekki að þurfa að gera neitt meir fyrr en aðrar þjóðir eru komnar á par við okkur. Íslendingar eru með um 1% af álframleiðslu í heiminum og færa mætti rök fyrir að við stöndum allra þjóða fremst á því sviði gagnvart umhverfisvernd. Íslendingar bera enga ábyrgð á CO2 í andrúmslofti og eiga að nálgast alla reglusetningu á þeirri grunnforsendu. Það er þó ekki gert því þingmenn okkar og ráðherrar eru orðnir að einhvers konar ,,grúppíum" alþjóðlegs valds.

Af hverju að sækja lög til útlanda? Við getum sótt margt gott og fallegt til útlanda, svo sem góða siði og matarvenjur. Pizzan kom til Íslands án þess að Ítalirnir kæmu allir með, hamborgarinn líka. Við eigum að velja og hafna, taka upp það besta en hafna öðru. Slík stefna miðar ekki að því að fara með landið aftur til miðalda, heldur er þetta aðeins heilbrigð skynsemi og sjálfsögð hagsmunagæsla.

Þegar völd tapast úr landi fylgir auðurinn með

 

Fyrir aðgæsluleysi kjörinna fulltrúa okkar / embættismanna erum við að missa frá okkur vald í smáum skrefum. Við þessu þarf að bregðast því þegar við missum frá okkur völd, þá missum við líka frá okkur auð. Mannkynssagan færir okkur sönnun á samhenginu þarna á milli. 

Nýjasta myndbirting þessa valdaafsals birtist í áðurnefndri grein Harðar Arnarsonar, þar sem orðrétt segir: 

Landsvirkjun bar lengi vel ábyrgð á raforkuöryggi almennings. Það fyrirkomulag var afnumið fyrir tuttugu árum þegar evrópskar raforkutilskipanir voru innleiddar á Íslandi.

Í þessu felst að með innleiðingu orkupakka ESB hafa Íslendingar bundið eigin hendur. Raforka er orðin að vöru sem á að flæða frjálst. Þótt Alþingi hafi sjálft samþykkt þessar innleiðingar, nú síðast þriðja orkupakkann þvert gegn öllum viðvörunum, þá virðast þingmenn ekki enn skilja hversu þrönga stöðu þeir hafa komið sjálfum sér og þjóðinni allri í, því nú dettur þeim í hug að setja neyðarlög til að bregðast við þeirri viðvörun forstjóra Landsvirkujunar í títtnefndri grein, að: 

Ef ekkert verður að gert getur sú raforka sem ætluð er heimilum og smærri fyrirtækjum þurrkast upp.

Að mínu mati er í hæsta máta vafasamt að Alþingi geti sett slík lög eftir að hafa skotið sig í báða fætur með innleiðingu orkupakka ESB. Ef menn eru enn í einhverjum vafa um samspil íslensks réttar og þeirra tilskipana ESB sem hér eiga við, þá má benda á nýlegan dóm Landsréttar 20.10. sl. í máli nr. 191/2023, sem hefur að geyma fróðlegar lögskýringar um þetta, þar sem m.a. er fjallað um þá skyldu að skýra beri íslenskan rétt í samræmi við ákvæði umræddra tilskipana. 

Samantekt

Raforkukerfið, sem byggt var upp á Íslandi undir því yfirskini að það ætti að þjóna íslenskum almenningi, síðari kynslóðum og íslenskum fyrirtækjum, á nú samkvæmt framangreindu að þjóna stórnotendum fyrst og fremst. Þetta er mögulega ein myndbirting þess að í Brussel starfa nú tugþúsundir ,,lobbýista" í þágu stórfyrirtækja, en enginn gætir hagsmuna almúgans, alþýðunnar, hinna vinnandi stétta, öryrkjanna, smárra og meðalstórra fyrirtækja, fjölskyldna o.s.frv. Þar hafa kjörnir fulltrúar ítrekað brugðist okkur, nú nýverið bæði á sviði orkuöryggis og erlendrar gjaldtöku á kransæðar íslensks hagkerfis, þ.e. skipaflutninga og flug til Íslands. 

Lokaorð

Frammi fyrir öllu þessu blasir við mjög alvarleg staða. Ef Íslendingar eru ekki menn til þess að stjórna sér sjálfir, ef við höfum ekki dug í okkur til að rísa undir ábyrgð á okkar eigin landi og okkar eigin framtíð, ef við höfum ekki döngun í okkur til að taka ábyrgð á stjórn okkar eigin mála, þá dæmum við okkur til þeirra örlaga að þurfa að sitja undir því að aðrir taki að sér stjórn landsins. Ögurstundin nálgast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband