Færsluflokkur: Bloggar

Fullreynt í fjórða sinn?

Mér telst til að nú sé verið að ljúka þingstörfum í fjórða sinn án þess að sitjandi ríkisstjórn takist að knýja í gegn frumvarpið um bókun 35, sem felur í sér beina tilraun til að gengisfella og óvirða Alþingi Íslendinga. 

Rökstuðningur: Samkvæmt 47. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands ber hverjum einasta nýjum þingmanni skylda til að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni þegar kosning hans er tekin gild. - Þetta stendur í stjórnarskrá til að árétta og undirstrika að enginn má fara með löggjafarvald á Íslandi án þess að hafa lýst hollustu við lýðveldið og stjórnarskrá þess. Þetta er hreint og klárt skilyrði þess að þingmaður haldi sæti sínu. 

Eftir ævintýralegt rugl og uppákomur á Alþingi nú síðustu daga og vikur má öllum landsmönnum vera orðið ljóst að þingmenn ráða ekki allir vel við hlutverk sitt og hafa ófullburða skilning á skyldum sínum og inntaki þingræðisins. En að þeim skuli hafa dottið í hug að þeim geti leyfst að afhenda óþekktum starfsmönnum ESB löggjafarvald á Íslandi - og að reglur frá þessum mönnum eigi að njóta almenns forgangs fram yfir íslensk lög frá Alþingi - án þess að hlutaðeigandi hafi lýst nokkurri hollustu við Ísland, lýðveldið, stjórnarskrána eða íslenska þjóð, er til marks um að sömu þingmenn eru óhæfir til að gegna þingmennsku. 

Landvættir Íslands hafa í fjórða sinn varið lýðveldið fyrir þessari aðför. Vonandi láta óþjóðhollir alþingismenn hér staðar numið. 


mbl.is Rýr uppskera ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi á að veita framkvæmdavaldinu aðhald og eftirlit. - Þetta gildir einnig gagnvart framkvæmdavaldinu í Brussel sem heimtar að fá að semja lagareglurnar sem gilda eiga á Íslandi.

Vilji menn hafa staðreyndirnar með í för þegar kemur að umræðu um bókunarfrumvarpið þá eru hér nokkrar til íhugunar fyrir lesendur:
1. Íslendingar gerðust aðilar að EES árið 1993 í þeirri trú að þeir væru að gera viðskiptasamning.
2. Nú hefur samningurinn umbreyst í samning sem virðist eiga að vera grunnur að einhvers konar pólitískri og lagalegri sameiningu á sviðum sem eru fjarlæg fyrstu útgáfu EES.
3. Eins og mál hafa þróast er vart hægt að tala lengur um samstarf. Nær væri að tala um einstefnu, þar sem ESB leggur línurnar / semur reglurnar og Ísland samþykkir - ýmist með eða án heimatilbúinna viðauka (blýhúðun).
4. ESB gerir kröfu um réttareiningu (Gleichschaltung). Í þvi felst að aðildarþjóðir verði að lúta einu sameiginlegu heildrænu regluverki.
5. Vandamálið er að Ísland hefur aldrei gerst aðili að ESB - og þarf að breyta stjórnarskrá áður en slíkt getur gerst.
6. Á meðan þrýstingurinn eykst frá ESB verður áhrifaleysi og valdaleysi Íslands sífellt meira áberandi - og pínlegra fyrir þá sem enn reyna að halda uppi Pótemkín-tjöldum um að Ísland hafi einhver raunveruleg áhrif en sé ekki eins og (tæplega 400þ manna) korktappi í (400M manna) úthafi.
7. Ísland hefur aldrei beitt samningsbundnu neitunarvaldi. Þegar slíkt hefur verið ávarpað hefur því verið svarað af hálfu ESB með þjósti og hótunum þannig að ráðamenn Íslands hafa koðnað niður eins og smákrakkar. Minna má hér á umræður um Orkupakka 3.
8. Kæmi til þess að Ísland beiti neitunarvaldi þá eru ýmsar hótanir hafðar í frammi, þar á meðal um samningsrof, samningsbrotamál og / eða skaðabótamál.
9. Með því að lögfesta efni frumvarpsins um bókun 35 er verið að festa Ísland enn harðar í snöru ESB og girða í raun fyrir að neitunarvaldinu verði beitt. Auk þess er verið að slá út af borðinu alla aðkomu íslenskra dómstóla að túlkun og lögskýringum á því réttarsviði sem hér um ræðir.
10. Með frumvarpinu er því í raun grafið undan fullveldisrétti Íslands á tvennan hátt, þ.e. bæði innlendu löggjafarvaldi og innlendu dómsvaldi.
11. Þetta er alþingismönnum þó óheimilt að gera, því þeir hafa ekki heimild til að framselja umboð sitt til erlendra valdastofnana. Alþingismenn hafa verið kjörnir til að fara með íslenskt löggjafarvald, nánar tiltekið til að semja lagareglurnar sem hér eiga að gilda, taka þátt í umræðum um efni reglnana og greiða atkvæði um það hvort reglurnar eigi að öðlast hér lagagildi.
12. Verði frumvarpið um B35 að lögum hér verður almenna reglan sú að erlendar reglur - samdar erlendis af erlendum mönnum sem við höfum aldrei kosið - gildi hér fram yfir íslensk lög frá Alþingi ef þetta tvennt stangast á.
P.S. Öllum heilvita mönnum sem þekkja sögu EES vita að setningin "nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað" er aðeins upp á punt. Alþingi hefur aldrei - og mun aldrei - setja lög sem fara í bága við það sem yfirvaldið í Brussel vill. Vilji menn hins vegar halda slíkum möguleika opnum, þ.e. að Íslendingar geti markað sína eigin braut og haldið óskertu frelsi til að setja sín eigin lög, þá eiga menn að hafa vit á því að binda ekki hendur sínar með því að samþykkja þetta frumvarp.

Hlutverk þingmanna

Þessi bloggsíða hefur verið í gangi síðan í janúar 2023 og þjónað ágætlega sem vettvangur hugsunar, tjáningar og samskipta. 

Aðalmarkmið mitt hefur verið að leggja lóð á vogarskálar nauðsynlegrar leiðréttingar, því Íslendingar hafa - allt of margir - lagt blint traust á ríkisvaldið og viljað greiða götu slíkrar valdbeitingar, á meðan ég hef í anda klassísks frjálslyndis minnt á að öllu valdi verði að setja mörk. Fyrir það hef ég verið kallaður öllum illum nöfnum, þar sem hófstillt íhald og klassískt frjálslyndi hefur verið jaðarsett af ríkisreknum fjölmiðlum og flokkum hérlendis síðustu ár. 

Einn áhugasamasti lesandi þessa bloggs er huldumaður sem aðhyllist allt það sem ég tel verst í stjórnarfari, þ.e. fyrirvaralausan skoðanahroka, andstöðu við málfrelsi, ofurtrú á að sérfræðingar viti betur en jafnvel þeir sem standa næst vettvangi, blint valdboð, fyrirlitningu á öllum hefðum og venjum, vanþekkingu á sögulegum staðreyndum, kommúnisma, ótakmarkað vald og að valdið komi ekki frá almenningi heldur ofan frá og niður. Athugasemdirnar hafa verið svo ógáfulegar, svo illa ígrundaðar, svo þröngsýnar, svo uppfullar af órökstuddum sleggjudómum, að mér er ljóst að hér er ég að sá fræjum í ófrjóan svörð. 

En vonandi ná einhver fræ að spíra - og þótt ég sé ósammála athugasemdum og telji þær jafnvel stafa af vanþekkingu, þá hvetja þær mig og kannski aðra til að hugsa og lesa og rifja upp, því öll erum við enn að læra. 

Í tilefni af "umræðum" hér um hlutverk þingmanna eru hér nokkrir punktar til íhugunar:

  1. Alþingi gegnir lykilhlutverki í stjórnskipuninni og í því felst ekki síst eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldi (bæði í Reykjavík og Brussel) sem verður sífellt ágengara og seilist nú til þess að setja lögin sjálft með tilskipunum og reglugerðum sem Alþingi telur sér skylt að samþykkja og innleiða í íslensk lög. 
  2. Í þessu felst að hlutverk þingmanna er m.a. að verja sjálfstæði Alþingis og valdsvið þingsins samkvæmt stjórnarskrá. (Þeir sem íhuga að styðja frumvarpið um bókun 35 virðast hafa gleymt þessu eða aldrei lært).
  3. Í kosningum gefst kjósendum tækifæri til að veita þingmönnum endurgjöf vegna starfa þeirra, annað hvort með því að kjósa þá (listann) aftur eða með því að velja annað.
  4. Af þessu leiðir að þingmenn þurfa að halda sambandi við kjósendur sína, hlusta, heyra hvað brennur helst á fólki, skynja til hvers er ætlast af þingmanninum. Þingmaður sem vanvirðir vilja kjósenda og / eða vanvirðir skyldur sínar við þjóðina getur ekki búist við að fá endurkjör. 
  5. Af þessu leiðir að augljóslega verða þingmenn fyrir alls kyns þrýstingi, bæði frá hagsmunahópum, frá þingflokknum o.fl., en stjórnarskráin (48. gr.) minnir þá á að himinn og haf getur verið milli þess sem tiltekinn hagsmunahópur heimtar og þess sem telja má farsælast fyrir þjóðarheildina.
  6. Þingmenn eru fyrst og síðast umboðsmenn þjóðarheildarinnar, ekki sérhagsmuna. Meginhlutverk þeirra er að gæta hagsmuna lands og þjóðar, ekki flokkshagsmuna og ekki sinna eigin hagsmuna. 
  7. Í allri umræðu um þjóðarhag þurfa menn að geta lagt mismunandi sjónarmið á vogarskálarnar. Samhliða þurfa menn að geta lagt mat á vægi þeirra röksemda sem settar eru fram. Dæmi: Fjárhagslega hagsmuni þarf að vega á móti sjónarmiðum um fullveldi, borgaralegt frelsi o.s.frv.
  8. Í nútímapólitík eru fæst mál svart/hvít. Því er mikilvægt að á þingið veljist fólk sem getur séð samhengi hlutanna á hlutlægan hátt og tekið ákvörðun út frá heildarmynd, en ekki út frá þröngsýni, kreddu, sérhagsmunagæslu eða flokkshagsmunum. 

Er Alþingi þannig skipað í dag? Því getur hver og einn svarað fyrir sig. 

 


Takk fyrir að hlusta.

Alþingismenn eru kjörnir sem umboðsmenn þjóðarinnar til að annast lagasetningu og geta því ekki framselt löggjafarvaldið áfram til erlendra stofnana nema með skýru og fyrirframgefnu umboði kjósenda. Slíkt umboð hefur hvorki verið gefið né fengið og því eru þingmenn umboðslausir til að samþykkja frumvarpið um bókun 35. Líkja má þessu við að lögmaður eða endurskoðandi framseldi vald umbjóðanda síns án heimildar frá umbjóðandanum – slíkt væri einfaldlega ógilt. Á nánari umfjöllun um þetta má hlusta með því að smella á þetta viðtal síðan í gær, sem finna má hér.

 

 

 


Án áttavita getur enginn ratað heim

Stærsta vandamál þeirrar kynslóðar sem nú heldur um valdatauma á Íslandi er að henni er ekkert heilagt. Stjórnarmeirihlutinn, sem sjálfur styður stjórnarskrárbrot sbr. frumvarpið um bókun 35, greip fegins hendi tækifærið til að fyllast vandlætingu vegna yfirsjónar 5. varaforseta þingsins, sem fyrrum formaður Samfylkingar segir þó að hafi ekki verið neitt brot! Þingvetur sem hófst sem harmleikur endar að sumri sem farsi. 

Þessari kynslóð er ekkert heilagt. Í kófinu létu allir Alþingismenn það yfir sig ganga að stjórnarskráin væri tekin úr sambandi, þingið sent heim, völdin afhent (misvitru) þríeyki og að landinu væri stjórnað af framkvæmdavaldinu með tilskipunum. Á sama tíma - og enn í dag - veigruðu nánast allir lögfræðingar landsins sér við því að ræða með gagnrýnum hætti um það hvernig stjórnarskráin var gerð óvirk og borgaralegt frelsi misvirt vegna "neyðarástands" sem öllum mátti þó snemma vera ljóst að var alls ekkert neyðarástand. Ný forysta Sjálfstæðisflokksins leggur 100 ára sögu hans og stefnuskrá á bálið með beinum og óbeinum stuðningi við frumvarpið um bókun 35 sem felur í sér að Alþingi afhendi löggjafarvald til Brussel, án umboðs frá íslensku þjóðinni. Ný forysta Þjóðkirkjunnar leggur þrenningarjátninguna á fórnaraltari woke-ismans. Foreldrar sætta sig andmælalaust við að hugur og hjarta barna þeirra séu sóðuð út með "fræðsluefni" um kynvitund og kynhegðun. Fjölmiðlar hampa yfirborðsmennsku og hégóma, en hæðast að þeim sem aðhyllast klassísk trúarleg og þjóðleg gildi. Ef ekkert af þessu er heilagt, hvað þá með landið og náttúruna? Jú, þessi kynslóð ráðamanna hefur sýnt stuðning við að eiturefnum sé dælt hér niður í grunnvatnið, að erlendum úrgangi sé dælt í hafið og að hálendið verði tætt í sundur og mengað með vindmyllugörðum. Öllu því sem fyrri kynslóðir töldu fagurt, gott og satt er verið að snúa á hvolf. Gamla fólkið sjálft stendur frammi fyrir því að erlendir aðkomumenn fleyti rjómann ofan af því félagslega kerfi sem fyrri kynslóðir byggðu hér upp með sínum eigin verkum. Þjóðvitund og ættjarðarást er reynt að úthrópa sem "öfgar" á meðan ráðherrar Íslands ferðast um heiminn til að verja fullveldi annarra þjóða (Úkraínu) með herskáu tali og vopnakaupum. 

Hvaða fólk er þetta eiginlega? Horfa menn á fréttir og þekkja þar sjálfa sig / sína eigin þjóð? Við verðum að snúa af rangri braut og finna aftur okkar sögulegu, menningarlegu, trúarlegu, lagalegu rætur. Við höfum ekki annað val. Áttavitalaus getur engin þjóð verið til lengdar.  

 


mbl.is Össur segir Hildi ekki hafa brotið neinar reglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar eru að vakna

Í grófum dráttum mætti segja að pólitísk umræða milli hægri og vinstri snúist um það hvort setja beri skorður á valdbeitingu ríkisins (því reynslan sýni að fæstir kunna að fara með vald) eða hvort sleppa beri valdinu lausu (því valdbeiting ríkisins stuðli að öryggi / framförum / betri lífsgæðum). Íslendingar hafa gleymt (eða ekki meðtekið) að allar hörmungar 20. aldar voru afleiðingar ofurtrúar á mátt ríkisvalds til að endurskapa samfélög frá grunni. 

Hér þarf ekki að fara út í neinar sögulegar eða heimspekilegar pælingar: Mörkin milli hægri og vinstri snúast í raun um það hvort lögin eigi að vernda almenning gagnvart ríkisvaldinu eða hvort þau eigi að auðvelda ríkinu að ráðskast með fólk. 

Lýðræðinu er ætlað að vera trygging almennings, þannig að við getum verið örugg um það að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð. Stjórnarskráin á að verja frelsi hvers einasta borgara, þ.m.t. málfrelsi, fundafrelsi, friðhelgi heimilis o.s.frv. 

Átakalínurnar hafa orðið skýrari á síðustu misserum. Í "kófinu" afhjúpuðu nánast allir stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar sig sem talsmenn þess að ríkisvaldinu yrði leyft að skerða frelsi einstaklinga í þágu "öryggis". Nú vill þetta sama fólk efla "öryggi" Íslendinga með því að ofurselja okkur risavöxnu ríkisbákni í Brussel.     

Verður lýðræðið okkur til bjargar? Er von til þess að við munum geta átt hér þróttmikla umræðu um alla þætti þeirra álitaefna sem hér koma til skoðunar? Það tókst ekki í "kófinu" og meðan fjölmiðlaumhverfi á Íslandi er háð ríkisvaldinu um framfærslu munum við áfram sjá þrengt að pólitískri umræðu, því ef líkja má pólitík við ás frá 1 til 10, þá má hún í reynd aðeins eiga sér stað milli ca. 3,5 og 5,5. Þeir sem vilja vera málsvarar einstaklingfrelsisins, takmarkaðs ríkisvalds, sjálfsákvörðunarréttar, málfrelsis, fullveldis o.s.frv. mega vænta þess að vera sakaðir um "öfgar", þótt málflutningur þeirra sé algjörlega klassískur, öfgalaus og sé í raun nauðsynlegt mótvægi við þá ríkisvæddu, kreddubundnu hugmyndafræði sem sýkt hefur alla þingflokka á Alþingi (þar sem allir eru mið- eða vinstri flokkar), alla (ríkisstyrkta) fjölmiðla, allar ríkisstofnanir o.s.frv.   

Frammi fyrir þessu er bara eitt til ráða: Við þurfum að pólitíska vakningu. Sú vakning er reyndar þegar hafin - og hún verður ekki stöðvuð, því þegar menn eru einu sinni vaknaðir til þessarar nýju vitundar er ekki hægt að svæfa þá aftur. Sá sem þetta ritar er lifandi sönnun þess.


Lágpunktur í sögu Alþingis: Óvirðing við lýðræðislegar hefðir, gegn stjórnarskrá, trúnaðarbrot gagnvart kjósendum.

Frumvarpið um bókun 35 er líklega mesti smánarblettur sem fallið hefur á Alþingi frá stofnun lýðveldisins árið 1944. 

Útskýring: Þingmenn fara með löggjafarvald í umboði íslensku þjóðarinnar og eru þannig í raun umboðsmenn kjósenda sinna, kosnir til að gæta hagsmuna þeirra á Alþingi. Eins og aðrir umboðsmenn starfa þingmenn á grunni persónulegs trausts, þ.e. þeim hefur verið treyst fyrir þessari ábyrgð á grundvelli þess að þingmaðurinn auðsýni heilindi, noti alla sína dómgreind og svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum sínum. (Þetta á einnig við um varaþingmenn sem kjörnir hafa verið til að koma inn á Alþingi í forföllum þingmanna). 

Grundvallarregla í íslenskum, norrænum, engil-saxneskum og Rómarrétti, er sú að umboðsmaður getur ekki afhent umboð sitt öðrum manni án yfirlýsts samþykkis umbjóðandans (í þessu tilviki kjósandans). 

Þetta þýðir að þingmenn geta ekki afhent öðrum umboð til að koma fram sem handhafar íslensks löggjafarvalds. Þeim er m.ö.o. óheimilt að afhenda öðrum vald til að taka þátt í umræðum um fyrirhuguð lög, þeim er óheimilt að afhenda öðrum vald til að kjósa um lög sem eiga að gilda á Íslandi og þeim er óheimilt að afhenda öðrum ákvörðunarvald um efni og innihald lagareglna sem gilda eiga hérlendis. 

Ástæðan er sú að allar þessar skyldur verða þingmenn að annast persónulega enda hafa þeir verið persónulega kosnir til þess - og bera persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum á grundvelli þess trausts sem kjósendur hafa sýnt þeim. Lög um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 undirstrika þetta: Enginn má taka til máls í umræðum á Alþingi nema þeir sem löglega hafa verið kjörnir til þingmennsku.  

Í stuttu máli snýst þetta um persónulega ábyrgð þingmanna við kjósendur sína, um virðingu við lýðræðislegar hefðir, um aldagamlar meginreglur laga um hlutverk og skyldur umboðsmanna - og síðast en ekki síst - um það drengskaparheit sem þingmenn hafa sjálfir undirritað, sbr. 47. gr. stjskr., sem felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. 

Allt er þetta til áminningar um og staðfestingar á að frumvarpið um bókun 35 er hreinasta ósvinna, dónaskapur við kjósendur, ósvífni gagnvart lýðveldinu, óvirðing við stjórnarskrána, brot á þeim skyldum sem þingmenn (og ráðherrar) hafa persónulega skuldbundið sig til að sinna og virða. 

 

 

 


Ætlum við að bregðast komandi kynslóðum?

  • Stjórnarskrá lýðveldisins byggir á þeim grunni að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni. Í þessu felst m.a. að lögin stafa frá vilja þjóðarinnar en ekki geðþótta valdhafa.
  • Þetta er til áminningar um að ríkisvaldið skal vera takmarkað: Sömu aðilar mega ekki semja lögin / setja þau og framkvæma lögin.
  • Handhafar valdsins bera ábyrgð gagnvart valdhafanum, sem er íslenska þjóðin (ekki ESB / Nato / SÞ).
  • Vald sem ekki er takmarkað umbreytist, fyrr eða síðar, í óheft vald sem ógnar öllu og öllum. 
  • Samkvæmt íslenskri réttarhefð eru lögin sett til að stuðla að réttlæti (að hver og einn fái það sem hann verðskuldar). Á sama grunni miðar málsmeðferð fyrir dómi að því að leita sannleikans. 
  • Stjórnarskráin var sett til að setja ríkisvaldinu skorður og reisa varnargarða í kringum frelsi borgaranna. 
  • Stjórnarskráin miðar þannig að því að koma í veg fyrir að ríkisvaldið setji reglur og noti þær til að berja á almenningi.  
  • Nú standa Íslendingar frammi fyrir því að verið er að reyna að umbylta lögum Íslands og stjórnarfari með því að framselja lagasetningarvaldið frá kjörnum fulltrúum Íslendinga á Alþingi til starfsmanna hjá framkvæmdavaldi ESB í Brussel.
  • Sjálfstæði, sjálfsstjórn, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur: Allt þetta byggir á þeirri undirstöðu að ENGIR AÐRIR en kjörnir fulltrúar þjóðarinnar (valdhafans) semji og setji lögin í landinu, m.ö.o. að ALLT LÖGGJAFARVALD sé í höndum kjörinna þingfulltrúa þjóðarinnar.
  • Þetta byggir á þeirri undirstöðu að lögin stafa frá fólkinu í landinu ekki frá geðþótta valdhafans. Ætli menn að hörfa af þessum grunni, þá ráðum við ekki lengur okkar eigin för.   
  • Forn meginregla í germönskum rétti, sem á sér samsvörun í kirkjurétti o.fl., er að sá sem fer með vald í umboði annarra (þingmenn í umboði þjóðarinnar) getur ekki framselt það vald í hendur annars manns (t.d. til ESB), sbr. lat. Delegata potestas non potest delega). Þetta þýðir m.ö.o. að Alþingi hefur ekkert umboð til að víkja sér undan ábyrgð sinni gagnvart umbjóðanda sínum / valdhafanum / þjóðinni og framselja erlendri valdastofnun lagasetningarvald sitt. 
  • Niðurstaða: Þjóðin getur ekki orðið bundin af öðrum lögum en þeim sem sett eru af kjörnum fulltrúum hennar.  

Við sem nú lifum höfum enga heimild til að skerða frelsi komandi kynslóða, veikja stjórnarfarið í landinu, skemma lykilstofnanir lýðveldisins, grafa undan frelsi Íslendinga og möguleikum afkomenda okkar til sjálfsákvörðunar. 


25 cm árið 1993, 4 hillumetrar nú.

Íslenskir stjórnmálamenn virðast flestir haldnir einhvers konar EES-blæti og tala eins og allt muni fara hér á hvolf ef við "virðum" ekki "skuldbindingar okkar" samkvæmt samningnum. Svona hefur m.a. nýr formaður Sjálfstæðisflokksins talað í ræðustól Alþingis um frumvarpið um bókun 35. 

Frammi fyrir þessu skulum við hafa eitt á hreinu: Ísland gerði efnahagslegan samning við EB árið 1993. Á þeim forsendum taldist EES naumlega standast kröfur stjórnarskrárinnar, þar sem valdaframsal samkvæmt samningnum væri takmarkað og á afmörkuðum sviðum. 

Nú hefur gagnaðilinn stökkbreyst í pólitískt bandalag (ESB) sem gerir sífellt auknar pólitískar og lagalegar samræmingarkröfur til Íslands. 

Þegar Íslendingar gerðu samninginn er áætlað að heildarregluverkið sem Íslendingar bjuggu við hafi verið 4-5 þúsund blaðsíður (25 cm. í bókahillu). Nú, rúmlega 30 árum síðar, er áætlað er blaðsíðufjöldi regluverksins sé á bilinu 60-80 þúsund (4 hillumetrar!). Inni í þessu eru þúsundir lagalegra "skuldbindinga" sem Íslendingar hafa undirgengist blindandi, þ.e. án nægilegrar umræðu og án viðeigandi aðgæslu, enda er viðurkennt að hagsmunagæsla Íslands hafi ekki verið nándar nærri góð. 

EES er ekki heilög kýr. Löngu er tímabært að gerð sé heiðarleg úttekt á kostum samningsins og göllum, þ.m.t. óhagræði fyrirtækja af því að búa við flókið og ógagnsætt regluverk - og þeim göllum sem í því felast að reglur sem gilda hér séu samdar erlendis og að íslensk stjórnmál séu í hugrænni gíslingu erlendra stofnana, sem gera kröfu um það að Íslendingar (og þó sérstaklega íslenskir stjórnmálamenn) endurtaki í sífellu að okkur "beri" að "virða skuldbindingar okkar samkvæmt EES" sem þanist hafa út eftir að samningurinn var undirritaður og enginn íslenskur stjórnmálamaður sér lengur til botns í. 

P.S. Öldum saman létu menn sér duga 10 boðorð - og ef menn hefðu vit á því (og siðferðilegt þrek til) að fylgja þeim reglum sem þar birtast, þá værum við laus við sífellt uppnám og æsifréttir, skrifræðisbákn væru óþörf og lífið vafalaust talsvert einfaldara! 

 

 

  


Kófið var spegill á okkar innri mann

Hér er félagsfræðileg kenning sem sennilega sannar sig sjálf: "Orð þín og athafnir í kófinu, sýna hver þú ert í raun og veru". Fyrir hönd höfundar biðst ég forláts á óheflaðri orðnotkun hans, en honum til hróss má þó segja að hann fer ekki í kringum hlutina eins og "grautur í kringum heitan kött". 

  • Trúðir þú fréttaflutningi fjölmiðla gagnrýnislaust (og gerir kannski enn)?
  • Framfylgdirðu fyrirmælum í blindni?
  • Treystirðu sérfræðingum fremur en þinni eigin dómgreind?
  • Varstu í flokknum sem stoltur gerði slagorðið "hlýðum Víði" að sínu? Dáðir þú þríeykið og hafðir allt þitt vit frá þeim?
  • Fylgdistu með "upplýsingafundunum" reglulega og skipulagðir líf þitt út frá þeim?
  • Veittirðu hagsmunaaðilum (lyfjafyrirtækjum) óheftan aðgang að líkama þínum í skiptum fyrir brauðmola (tímabundið ferðafrelsi)?
  • Varstu einn af þeim sem fordæmdir efasemdamenn sem "samsæringa"?
  • Telurðu enn að C19 hafi verið stórhættuleg drepsótt sem réttlætti að stjórnarskráin og almenn mannréttindi væru tekin úr sambandi?
  • Taldirðu neyðarástandi slíkt að rétt væri að afhenda völdin fólki sem enginn hafði kosið og að landinu væri stjórnað með tilskipunum frá framkvæmdavaldinu?
  • Læddistu með veggjum eins og mús og andmæltir engu / efaðist ekki um neitt?
  • Lastu þig ekkert til um innihaldsefni / mögulegar aukaverkanir varðandi sprautulyfin?
  • Hvað fórstu í margar sprautur áður en þú komst að þeirri niðurstöðu að þú þyrftir alls ekkert á þeim að halda?

Allt eru þetta góðar spurningar til að læra að þekkja sjálfan sig - og samfélag sitt - betur.   

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband