Færsluflokkur: Bloggar
2.10.2023 | 09:16
Frjálsar raddir
Við heimkomu eftir stutt ferðalag las ég helgarútgáfu Morgunblaðsins nú í morgun. Þar eru tvær greinar sem allt hugsandi fólk þarf að lesa: Ritstjórnargrein sl. laugardag um valdaásælni Mannréttindadómstóls Evrópu og harða gagnrýni Sumption lávarðar, fyrrum hæstaréttardómara í Bretlandi sem færir rök fyrir því í Spectator að pólitísk framganga MDE kalli á að Bretar tryggi að MDE eigi ekki lengur lögsögu í Bretlandi. Með þessu er Sumption ekki að leggja til að dregið verði úr vörn mannréttinda, heldur séu þetta nauðsynleg viðbrögð við því hvernig MDE grafi undan stjórnskipun og lýðræði aðildarríkjanna.
Sambærilega gagnrýni setti undirritaður fram í Morgunblaðsgrein 19. mars 2019, þar sem ég kallaði inngrip MDE í íslensk innanríkismál vegna skipunar dómarar í Landsrétt ,,nýja tegund óskapnaðar".
Lokaorð greinar minnar voru þessi:
Niðurstaða MDE hefur sett íslenskt réttarkerfi í algjört uppnám og að öllu óbreyttu munu eftirskjálftarnir vara lengi. Í millitíðinni krefjast dæmdir menn þess að afplánun þeirra verði frestað. Enn alvarlegri tel ég þó þá staðreynd að hér hefur erlendur dómstóll tekið fram fyrir hendurnar á lögmætum handhöfum íslensks ríkisvalds. Þeir síðarnefndu svara til ábyrgðar gagnvart íslenskum almenningi, en MDE ekki. Vilji menn láta þetta yfir sig ganga er eins gott að þeir séu meðvitaðir um fórnarkostnaðinn. Ef íslenska ríkið mótmælir ekki niðurstöðunni væri búið að leggja línu sem er á skjön við ákvæði stjórnarskrár um æðstu handhöfn ríkisvalds. Afleiðingar þess má nú þegar sjá í því uppnámi laga og friðar sem niðurstaða MDE hefur valdið. Hér er því um grundvallarmál að ræða fyrir lýðveldið Ísland, sem kallar á sérstaka athygli og snör viðbrögð. Úrlausn MDE má jafna til þess að dómstóllinn ýti til hliðar stjórnskipunarhefðum sem hafa verið öldum saman í mótun. Með því má segja að MDE taki sér æðsta (og ótemprað) vald yfir lögum, stjórnmálum og lagaframkvæmd á Íslandi. Í því samhengi geta menn velt fyrir sér hvort MDE hefði komist að sömu niðurstöðu ef stærra ríki en Ísland hefði átt í hlut. Fái þessi niðurstaða að standa er verið að skera á böndin milli íslensks almennings og þeirra stofnana sem fara með æðsta ákvörðunarvald í málefnum þjóðarinnar. Dómur MDE endurspeglar vafalaust færni dómaranna í lögtækni, en getur verið að þarna hafi menn farið að hugsa of mikið um hið tæknilega á kostnað yfirsýnar, heildarsamhengis og þess sem kenna mætti við efnisleg mannréttindabrot? Ef svo er, þá hefur MDE misst sjónar á boltanum sem dómnum er ætlað að vakta. Miðað við opinberar málatölur um mál sem bíða meðferðar hjá MDE færi þá kannski betur á að dómstóllinn beindi kröftum sínum aftur að því að fást við mannréttindi, fremur en að framkvæma það sem Alexis de Tocqueville (1805-1859) lýsti sem nýrri tegund harðstjórnar, þ.e. að smætta hverja þjóð niður í að vera ekki meira en hjörð ofurvarkárra og vinnusamra dýra, sem ríkisstjórnin gætir. Það er illa fyrir lýðveldinu komið ef stjórnmálamenn og æðstu embættismenn lýðveldisins eiga að kasta frá sér hlutverki sínu gagnvart stjórnarskrá, stjórnskipunar- og lagahefðum í því skyni að ofurselja sig ólýðræðislegu valdi. Slíka valdbeitingu á að kalla sínu rétta nafni, jafnvel þótt hún skrýðist búningi mannréttinda.
Óhætt er að segja að tilvitnuð grein mín hafi valdið nokkrum skjálfta meðal kollega minna, sem virtust telja að MDE væri yfir gagnrýni hafinn. Þetta var dæmi um það sem Kolbrún Bergþórsdóttir fjallar um í sunnudagsblaði Moggans undir fyrirsögninni ,,Hin eina rétta skoðun". Þar bendir Kolbrún á það hvernig skoðanamótun hérlendis virðist byggjast á því að kanna vel landslag leyfilegra skoðana á samfélagsmiðlum ,,og þá er maður allt í einu kominn með réttar skoðanir á öllum málum" því Íslendingum finnist heppilegast að ,,kúra í þægilegum skoðunum sem engjan styggja og flestir geta verið sammála um. Því fylgir alls ekkert vesen. Og flest viljum við vera laus við vesen".
Óskandi væri að við ættum fleira fólk eins og Kolbrúnu Bergþórsdóttur, leiðarahöfund Morgunblaðsins og Lord Sumption. Við þá upptalningu vil ég nú bæta Ole Anton Bieltvedt, sem ég er sjaldan sammála, en birtir góða og holla hugleiðingu í Morgunblaðinu í dag undir yfirskrifinni ,,Falskt vörumerki?".
Megi frjálsar raddir heyrast sem víðast og sem lengst, lausar undan oki þeirra sem aðhyllast þöggun, fábreytni, ritskoðun og eina stýrða útgáfu af sannleikanum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2023 | 14:57
Samstarf við CHD, stofnun Roberts Kennedy
Þetta blogg hefur verið í loftinu síðan í janúarmánuði sl., fengið yfir 170.000 flettingar og er þegar þetta er ritað 2. vinælasta bloggsíðan á eftir Páli Vilhjálmssyni.
Á næstu dögum mun höfundur færa þessi skrif yfir á vefsíðu sem tengist Childrens Health Defense sem er stofnun á vegum Roberts Kennedy.
Þegar hin íslenska vefsíða verður opnuð mun verða tilkynnt um það hér. Í millitíðinni eru lesendur hvattir til að kynna sér efnið sem finna má á alþjóðlegri vefsíðu CHD, sjá hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.9.2023 | 09:24
Öryggi hverra?
Í frétt á visir.is 29. september sl. var sagt frá því að nú væri Grannt fylgst með Slóvakíu og upplýsingaóreiðu. Fram kom í fréttinni að ráðamenn Evrópusambandsins hefðu nýlega samþykkt ný lög (Digital Services Act - DSA) sem sporna eiga gegn upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum, en nú muni reyna almennilega á lögin í fyrsta sinn vegna kosninganna í Slóvakíu en forsvarsmönnum samfélagsmiðla hefur verið sagt að taka betur á upplýsingaóreiðu þar.
Við lestur þessara fyrstu lína fréttarinnar vakna óþægileg hugrenningatengsl. Sovétríkin voru nefnd Ráðstjórnarríkin, því soviet (ráðið) var grundvallareining í stjórnkerfi Sovétríkjanna. Í slíku stjórnarfyrirkomulagi eru menn ekki kosnir til áhrifa í almennum kosningum heldur handvaldir inn í svonefnda nomenklatúru og þar með inn í hóp embættismanna og flokksgæðinga, en slíkir menn nutu sérréttinda í Sovétinu og höfðu forgang í stöðuveitingar innan flokksins, hjá ríkinu, fyrirtækjum og í menningarlífi. Ef þetta kemur kunnuglega fyrir sjónir lesenda er það mögulega vegna þess að stjórnarhættir ESB þykja líkjast USSR svo mjög að erlendir gárungar nota skammstöfunina EUSSR í háði um þá ólýðræðislegu og miðstýrðu stjórnarhætti sem miða að því að gera valdið fjarlægt borgurunum og koma því fyrir á stjórnarskrifstofum sem lúta ekki lýðræðislegu aðhaldi.
Í framangreindu samhengi skal hér á það minnt að þegar stjórnvöld þrengja að málfrelsinu þá þjónar það einmitt þeim tilgangi að draga úr lýðræðislegu aðhaldi, því ekkert lýðræði lifir án málfrelsis.
Í fyrrnefndri frétt Vísis segir m.a. orðrétt:
DSA nær yfir nítján samfélagsmiðla og vefsvæði. Þar á við samfélagsmiðla Meta, X og TikTok, leitarvél Google, Wikipedia og verslunarsíður eins og Alibaba, Aliexpress og Amazon. Google Maps er einnig á lista ESB, samkvæmt frétt DW frá því í síðasta mánuði, þegar lögin tóku gildi.
Lögin eiga að tryggja að forsvarsmenn þessara fyrirtækja beiti sér gegn upplýsingaóreiðu og lygum á samfélagsmiðlum og vefsvæðum. Þeim er einnig ætlað að auka gagnsæi varðandi auglýsingar. Brjóti fyrirtækin reglurnar geta þau verið sektuð um allt sex prósent af veltu sinni á heimsvísu. Séu brotin ítrekuð gæti þeim verið bannað að starfa í Evrópu.
Skuggahliðin, sem glöggir lesendur koma strax auga á er að með þessu er í raun verið að veita embættismönnum ESB ógnarvald til að ritskoða og eyða því sem ólýðræðislegir ráðamenn skrifstofuveldis ESB vilja stimpla sem upplýsingaóreiðu. Er í frétt Vísis meðal annars nefnt að einhver hafi haldið því fram að þingframbjóðandi hafi dáið vegna bóluefnis gegn Covid og að það sé upplýsingaóreiða sem þurfi að taka á Þó vita allir að yfirvöld stunda stórkostlega þöggun á öllum skuggahliðum þessara tilteknu bóluefna, og nú skal bætt í.
Hér er háski á ferð, því með lögum þessum er verið að afhenda sovéti nútímans skilgreiningarvaldið um það hvað má segja. Þar með er aftur verið að gera hið ólýðræðislega og handvalda ráð að grundvallareiningu stjórnkerfisins, þvert gegn öllu því sem sagan ætti að hafa kennt okkur um kosti málfrelsis umfram ritskoðun og að lýðræði sé skárra en ráðstjórn.
Þótt efni áðurnefndra lagareglna kunni við fyrstu sýn að teljast sakleysislegt og ópólitískt verður það ekki svo í framkvæmd, þar sem hið vestræna sovét mun, eins og fyrr í sögunni, beita valdheimildum sínum til að þagga niður í sjónarmiðum sem ósamrýmanleg eru málflutningi stjórnvalda og hinni opinberu stefnu. Vert er einnig að vekja sérstaka athygli á því hvernig valdinu er beitt gegn þeim sem hafa mikla áheyrn. Þetta er aðferð hins mildilega ráðríkis sem við búum nú við í sífellt auknum mæli. Hér er birtingarmyndin sú að mönnum leyfist að andæfa, svo lengi sem aðeins örfáir heyra andmælin og gagnrýnina! Lítill vefur eins og Krossgötur verður því mögulega látinn óáreittur þar til lesendum hefur fjölgað svo mjög að óþægilegt megi teljast fyrir stjórnvöld, en þá mun viðeigandi ráð væntanlega finna viðeigandi aðferðir til að loka vefnum eða leggja á hann óbærilegar sektir.
Ef ekkert verður að gert til að stöðva þessa þróun munum við sigla hraðbyri inn í stjórnarfyrirkomulag þar sem pólitísk hugmyndafræði er gerð að átrúnaði; þar sem kennimenn stefnunnar verða að veraldlegum klerkum sem ekki má gagnrýna; þar sem táknmyndir kreddunnar verða tilbeðnar í fjölmiðlum og á torgum; og þar sem almenningur skal í orðum og gjörðum sýna að hann sé sanntrúaður og beri engar efasemdir í brjósti. Þannig munu okkar miklu leiðtogar ná að leiða okkur að strönd fyrirmyndarríkisins (útópíunnar) þar sem allri upplýsingaóreiðu hefur verið útrýmt og fólk getur í fullkomnum fyrirsjáanleika farið út á torg himneskra fjölmiðla og samfélagsmiðla, þar sem stjórnvöld hafa tryggt að öryggi svífi yfir öllum vötnum. Eini gallinn verður sá þessi himneski friður og þetta himneska öryggi mun ekki þjóna almennum borgurum, heldur aðeins valdhöfunum sjálfum.
Greinin í heild birtist fyrst á www.krossgotur.is 30.9.2023
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2023 | 09:38
RÚV hefur brugðist hlutverki sínu. Skylduáskrift er tímaskekkja.
Páll Vilhjálmsson fjallar um RÚV í bloggi sínu í dag og sparar ekki stóru orðin, enda kannski engin ástæða til þegar um er að ræða stofnun sem sogar til sín þúsundir milljóna úr vösum skattgreiðenda og misnotar það fé í þágu pólitísks málstaðar. Stöðugt fleiri Íslendingar eru að átta sig á því hversu einhliða og þröngsýn umfjöllun RÚV er um flest allt sem máli skiptir, hvort sem það eru loftslagsmál, innflytjendamál, bandarísk stjórnmál, stríðsrekstur, ESB, kóvid o.fl. Skilaboðum sínum kemur RÚV áleiðis með ýmsum hætti, t.d. með því að þegja um sumt og bjaga sjónarhorn á annað. Samt er RÚV, lögum samkvæmt, ætlað að vera hlutlaust og hefur ekki leyfi til að fylgja einni pólitískri stefnu umfram aðra. Um þetta má rita mun lengra mál og vonandi gefst tími til þess síðar.
Framsetning RÚV á fréttum um heimsfaraldurinn var einhliða og gagnrýnislaus. Hræðsla við veiruna var mögnuð upp, aðhald gagnvart stjórnvöldum var lítið (ef nokkuð) og umfjöllun um almenna sprautuherferð algjörlega bremsulaus. Þetta er býsna alvarlegt í ljósi öryggis- og almannavarnahlutverks RÚV, sérstaklega nú þegar vísbendingar eru komnar fram um að bóluefnin kunni að hafa valdið útbreiddum og miklum heilsufarsskaða. Auk þess sem nú er fram komið og viðurkennt af hálfu Lyfjastofnunar Bretlands (MHRA) að eftirlit með lyfjunum hafi verið vanrækt, en ekki liggur fyrir að Lyfjastofnun Íslands hafi viðhaft betra eftirlit heldur þvert á móti apað upp allt það sem systurstofnanir erlendis höfðu gert viðvíkjandi umræddum lyfjum.
RÚV hefur brugðist þeim kröfum sem til þess eru gerðar. Slíka stofnun á ekki að hafa áfram á dýrum fóðrum, heldur skera niður og gefa frjálsum fjölmiðlum færi á að stíga inn. Áhættan fyrir almenning er engin, því stórar fjárhæðir munu sparast og vandséð að unnt sé að standa verr að málum en RÚV gerir fyrir alla þá milljarða sem stofnunin hefur fengið til ráðstöfunar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2023 | 18:22
Örugg og árangursrík / safe and effective?
,,Miðvikudaginn Þann 4.október næstkomandi kl.18:00 verður á Grand Hótel haldið málþing um Covid faraldurinn og bóluefnin og hvort þau hafi staðist öryggiskröfur og hvort sumar lotur efnanna séu skaðlegri en aðrar. Í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag ræddi hún við Arnar Þór Jónsson lögmann, varaþingmann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi héraðsdómara um efni málþingsins en Arnar verður fundarstjóri á málþinginu.
Á málþinginu verða viðstaddir meðal annars tveir vísindamenn sem nýlega birtu niðurstöðu danskrar rannsóknar sinnar á Covid bóluefnum en í rannsókninni kom meðal annars fram að 5% af framleiðslulotum bólefnanna séu þær lotur sem standi á bak við sem flestar tilkynntur aukaverkanir. Það þýði að það sé þessi 5% hluti sem hafi valdið langmestum heilsufarsskaða af þeim bólefnum sem gefin voru.
Hér á landi hafi hins vegar verið látið undir höfuð leggjast að skrá upplýsingar um hvort og þá hvaða lotur hafi valdið mestum aukaverkunum.
það hefur hvorki verið leitað eða skráð hugsanlegt samhengi milli þeirra sem hafa hugsanlega lent í heilsutjóni af völdum þessara lyfja og lotunúmera þeirra og þá má halda því fram að slíkt jaðraði við einhvers konar gáleysi af hálfu stjórnvalda segir Arnar.
Dreifing efnanna sögð refsiverð
Svissneski lögmaðurinn Philipp Kruse sem einnig verður meðal framsögumanna á málþinginu mun þar einnig greina frá sinni skoðun á efnunum en hann hefur meðal annars látið frá sér fara, að í ljósi þess að vitað sé um skaðsemi efnanna, geti dreifing þeirra talist refsiverð.
það liggi fyrir að skaðinn af þeim sé slíkur og það hafi legið fyrir lengi að það megi nánast líkja þessu við rússneska rúllettu segir Arnar Þór.
Bendir Arnar þór á að nú sé betur að koma í ljós að Covid bóluefnin hafi verið skaðleg heilsu fólks".
Um hið síðastnefnda verður fjallað nánar á þessu bloggi á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2023 | 20:39
Til samanburðar og umhugsunar
Lesendur eru hvattir til að bera hér saman ræður tveggja mikilla leiðtoga. Önnur er nú því miður hætt sem forsætisráðherra Nýja-Sjálands eftir að hafa bjargað lýðræðinu þar í landi með því að innleiða harðræði og ofríki til að verja fólk fyrir ,,veirunni skæðu" með ritskoðun og lögregluofbeldi. Hin situr sem betur fer enn sem forseti framkvæmdastjórnar ESB og beitir ögrunum í bland við þvingunartilburði til að skikka aðildarþjóðir til hlýðni við stefnu ESB, en mætir skilningsleysi meðal illa upplýstra borgara sem skilja ekki hvaðan hún hefur slíkt umboð, því valdamiklir fulltrúar á þingi ESB völdu hana í embætti og ljótt er að halda því fram að hún hafi þar notið frændhygli frá fyrrum kanslara Þýskalands.
Þessir miklu skörungar hafa nú nýlega báðar haldið glæsilegar ræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú fyrrnefnda flutti sitt mál með æfðum handahreyfingum og leikrænni tilgerð, þar sem hún í anda skáldsögunnar 1984 vildi fórna málfrelsinu til að verja málfrelsið, allt til að verja almenning fyrir upplýsingaóreiðu, ,,misinformation" og ,,disinformation", sérstaklega um loftslagsmál. Ekki hafa borist neinar fréttir af mótmælum / athugasemdum / leiðréttingum þessarar miklu vinkonu sannleikans eftir að sú síðarnefnda flutti sína eldræðu um nauðsyn harðra aðgerða til að bjarga okkar ,,sjóðandi plánetu" (e. boiling planet). Það hlýtur að vera vegna þess að sú síðarnefnda fer með rétt mál, því sú fyrrnefnda er sjálfskipaður einkaleyfishafi sannleikans og leiddi ríkisstjórn í heimalandi sínu sem tók sér það hlutverk að vera ,,ykkar eina sannleiksheimild" (e. your single source of truth). Sannleiksráðuneyti Orwells hefur talað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2023 | 13:15
Harðstjóri lætur sig hverfa
Þegar horft verður til baka yfir atburði síðustu ára munu ófáir stjórnmála-,,leiðtogar" fá nöfn sín rituð á svartan lista yfir þá sem smánuðu lýðræðishefðir og sjálfa sig, misnotuðu völd sín og grófu undan réttarríkinu. Þeirra á meðal er Daniel Andrews, sem nú hefur fyrirvaralaust hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Viktoríu-fylkis í Ástralíu. Á ferli sínum umbreytti Andrews þessu áður frjálslynda svæði í lögregluríki, þar sem stjórnað var með boðum og bönnum, m.a. með lengsta útgöngubanni sem beitt var í kófinu, bólusetningarskyldu og aðskilnaðarstefnu sem gerði óbólusetta að annars flokks borgurum, sem bætir gráu ofan á svarta mynd umframdauðsfalla í Ástralíu. Öllu þessu framfylgdu Andrews og handbendi hans af grimmilegri hörku svo sem sjá má m.a. hér, viðkomandi lögreglumönnum til ævarandi skammar og almennum borgurum um víða veröld til viðvörunar um það hvernig verðir laganna geta umbreyst í þrælmenni valdsins ef höggvið er á samfélagslegar rætur opinbers valds og menn fara að ímynda sér að valdið eigi uppruna sinn í ráðherrastólum en ekki hjá þeim sem landið byggja.
Hvort sem skyndileg afsögn Andrews stendur í beinu eða óbeinu sambandi við þá staðreynd að stöðugt koma fram nýjar upplýsingar sem benda til að bólusetningarskylda hafi ekki stuðst við læknisfræðileg rök og í reynd borið öll einkenni valdboðs og geðþótta, þá má gleðjast yfir því að stjórnlyndu gerræðisfólki fækki á valdastólum hins vestræna heims.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.9.2023 | 09:36
Hversu lengi getur þögn íslenskra stjórnvalda og íslenskra fjölmiðla haldið áfram?
Með alræðisstjórnarfari er átt við ástand þar sem stjórnvöld leitast við að stjórna sem flestum þáttum mannlífsins. Aðalsmerki slíks stjórnfarfars er lokað upplýsingakerfi, þar sem stjórnvöld hafa hreðjatak á fjölmiðlum og stjórna því sem fólk fær að heyra. Þetta er gert í þeim tilgangi að ná stjórn á hugsunum fólks og þar með hegðun þeirra.
Að því sögðu tel ég bæði rétt og skylt að benda lesendum á þessa ítarlegu samantekt frá Englandi sem hefur að geyma hræðilega tölfræði sem þagnarhjúp hefur verið slegið um á Íslandi. Um er að ræða tölur yfir umframdauðsföll og dánarlíkur, flokkaðar eftir fjölda mRNA sprauta sem viðkomandi hafa móttekið. Sá sem tók saman þessa tölfræði skorar á lækna, lyfjafræðinga, hjúkrunarfræðinga, fjölmiðlamenn, starfsmenn eftirlitsstofnana, ráðherra, lyfjaframleiðendur o.fl. að stöðva tafarlaust notkun mRNA lyfja sem eru að leiða hörmungar yfir þjóðir heims.
Í framangreindu ljósi hvet ég lesendur til að fylgjast vel með því hvort íslenskir fjölmiðlar muni fjalla um ráðstefnu um þessi mál sem haldin verður í Reykjavík 4.10. nk. og ekki síður, hvort launaðir sérfræðingar á vegum íslenska ríkisins muni þiggja boð um að mæta á ráðstefnuna eða hvort menn halda áfram í sjálfvalinni blindu og þögn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2023 | 07:48
Tvær tilvitnanir
,,Ég tel að það sé betra að segja satt en að ljúga. Ég tel að það sé betra að vera frjáls en að vera þræll, og ég tel að það sé betra að vera upplýstur en óupplýstur". - H.L. Mencken.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2023 | 08:33
Hver ertu? Hvaðan kemurðu? Hvert ertu að fara?
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að hingað til lands séu komnir EVE-Online spilarar frá 56 löndum. Fyrir 10 árum hitti ég nokkra glaðbeitta félaga sem hingað voru komnir á sambærilegan viðburð. Þetta voru virkilega geðþekkir og vingjarnlegir menn, sem tjáðu mér það í framhjáhlaupi að þeim gengi vel í leiknum og ættu þar ógrynni fjár og einhvers konar geimskip. Síðar í samtalinu kom fram að í raunheimum ættu þeir heima í hjólhýsum og keyrðu um á gömlum bílum. Oft hefur mér síðan verið hugsað til þessara ágætu manna þegar ég stend sjálfan mig (og aðra) að skakkri forgangsröðun. Væri ekki betra að rækta garðinn okkar í þessu lífi hér, en í sýndarveruleika tölvuleiks? Með sama hætti má út frá kristindómnum spyrja hvort líf okkar hér í þessum heimi sé sýndarveruleiki og nokkurs konar próf sem kemur til skoðunar í hinum sanna heimi, handan þessa lífs. Slíkar spurningar skipta máli og því ber að hrósa þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins sem lagt hafa fram frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla, nánar tiltekið um kristinfræðikennslu. Kristin trú er snar þáttur í íslenskri og vestrænni menningu og ef skera á þessar rætur í burtu er hætt við að hinn vestræni heimur standi aðeins eftir sem afskorið blóm, sem dæmt er til að glata bæði lífi og lit. Með því að höggva á þessar rætur veikist mótstöðuafl Vesturlanda gegn alræðisógninni sem ávallt er yfirvofandi og hótar að svipta okkur lífi og frelsi. Abraham Lincoln er sagður hafa haft aðeins eina bók á náttborðinu, þ.e. Biblíuna, og allar ræður hans eru gegnsýrðar af tilvitnunum í hina helgu bók. Af handahófi má einnig nefna hér Edmund Burke (1729-1797)og nýja bók Samuel Burgess um þann kristilega grundvöll sem Burke byggði alla sína stjórnmálaheimspeki á.
Svo lengi sem sögur herma hefur fólk lifað lífi sínu í samhengi við umhverfið, menninguna, kynslóðirnar á undan (og eftir) og síðast en ekki síst trúarvitund og lifandi trúarhefðir. Nútíminn færir okkur annars konar skilaboð, um yfirborðslegt og afbakað frelsi. Í því felst að við séum óbundin af hefðum, að við rjúfum tengsl við það sem íþyngir okkur á einhvern hátt, slítum okkur úr samhengi við þá sögu eða menningu sem við erum sprottin úr. Alvarlegasta hættan er þó kannski sú að við slítum sambandið við okkar innra sjálf, við samvisku okkar og sálarlíf, við Guð sem gaf okkur lífið. Ef þetta samband rofnar er snaraukin hætta á að við festumst í að leika hlutverkið sem við höfum valið okkur, ímyndum okkur að við séum starfið okkar, að við séum ekki andi heldur aðeins líkami, að ekkert standi á bak við grímuna sem við berum dags daglega.
Á hljóðum stundum ævinnar finnur sérhver maður óminn frá hinu sanna sjálfi. Þá bæra grundvallarspurningar á sér: Hvaðan kem ég? Hvert er hlutverk mitt í lífinu? Hvert er ferð minni heitið? Á hinu stóra leiksviði lífsins getur þessi lágmælta innri rödd auðveldlega drukknað í hávaðanum frá skoðunum annarra. Sá sem aldrei gefur sér tóm til að hlusta á rödd samviskunnar og skynseminnar verður farþegi í eigin lífi, því fyrr en varir sitja aðrir við stjórnvölinn í lífi hans. Á öllum tímum er þetta vafalaust eitt stærsta verkefni mannanna, þ.e. að stíga út úr erli hversdagsins og inn í þögnina þar sem hlusta má eftir svörum sannrar visku. Við verðum að hafa þrek og kjark til að fylgja hjartanu og standa gegn alræðistilburðum ríkjandi viðhorfa á hverjum tíma, sem bjóða aðeins fram þröngt sniðmát sem farísear nútímans ætlast til að allir lúti.
Í framkvæmd fær frelsið best þrifist í óþvingaðri samvinnu á vettvangi fjölskyldna, félagasamtaka, skóla, trúfélaga, góðgerðarstarfs og viðskipta, þar sem samstarfið byggist á viðurkenndum félagslegum reglum og gagnkvæmu trausti. Án borgaralegs samstarfs á þessum breiða hugmyndafræðilega (og kristilega) grunni myndu öll önnur kerfi, þ.m.t. hagkerfið, fljótlega hrynja til grunna vegna innri veikleika.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)