Færsluflokkur: Bloggar

Lýðræðis-einræði

Ef færsla mín hér í gær dugir ekki til að vekja menn til umhugsunar, þá er hér rúsínan í pylsuendanum: Ritstjórnargrein Vísis frá 13. mars 1946 um stjórnarhætti sem tíðkaðir voru í ráðstjórnarríkjunum en í stöðugt vaxandi mæli teknir upp hér á Vesturlöndum undir yfirskini lýðræðis, þótt í reynd beri þetta allt svipmót valdboðs og fámennisstjórnar þar sem almennir borgarar og almennir flokksmenn hafa það eina hlutverk að gjalda jáyrði við fyrirskipunum þeirra sem hönd hafa á valdataumunum.

Hafi þetta verið alvarlegt árið 1946 er nú verið að færa þessa óstjórn yfir á hærra og enn alvarlegra stig, þar sem ólýðræðislegar valdaklíkur hafa seilst til áhrifa innan alþjóðastofnana og vilja þaðan ráðskast með innri málefni þjóðríkjanna, þ.m.t. orkumál, umhverfismál o.fl. Þetta finnst Birni Bjarnasyni í góðu lagi, sbr. þessa færslu hans í dag, þar sem hann freistar þess að verja málstað þeirra sem í órökréttri þjónkun við ESB vildu að nauðsynjalausu innleiða regluverk hins svonefnda þriðja orkupakka og veikja þannig varnir Íslands þegar að því kemur að sæstrengur verður lagður til Íslands með þeim afleiðingum að Landsvirkjun verður seld hæstbjóðanda og orkuverð hér á landi skrúfað upp. Hugmyndafræði Björns Bjarnasonar og annarra sem þannig grafa undan hagsæld og sjálfstæði Íslands hefur þegar valdið miklu pólitísku tjóni. Hömlulaus innleiðing ESB reglna hérlendis er í raun trójuhestur sem gerir Ísland smám saman hluta af yfirþjóðlegu og ólýðræðislegu sambandsríki. 

Út frá viðvörunarorðum leiðara Vísis 1946 blasir við að stjórnmálin munu æ minna snúast um hvað eigi að gera og þess í stað snúast um hver taki ákvarðanir. Afleiðingarnar verða grafalvarlegar, bæði hagfræðilega og lýðræðislega. Ísland mun hægt og bítandi halda áfram að lokast inni í ósveigjanlegu stjórnarfari sambandsríkisins ESB, þar sem vinnuafli og fjármagni er stýrt með verndartollum o.fl. Lagareglur sem skaða íslenska hagsmuni verða áfram réttlættar með vísan til ,,heildarhags" (e. the greater good) og afleiðingarnar verða ekki þær að Ísland færist nær valdakerfinu, heldur munu auður og völd sogast frá Íslandi. Í stað þess að Ísland fái mikilvægan sess við háborð valdsins verður staða Íslands staðfest sem áhrifalaus útkjálki. En út frá títtnefndum leiðara Vísis má gera ráð fyrir að umræða um þessi atriði nái að óbreyttu aldrei upp á yfirborðið, a.m.k. ekki meðan stjórnmálaflokkarnir gerast stöðugt ólýðræðislegri og á meðan áróðursvélar í eigu ríkisvalds og hagsmunaaðila breiða út ótta, því óttaslegið fólk getur ekki hugsað rökrétt. Rökhugsun er ekki vel séð af þeim sem halda um valdataumana, því hún rýrir ,,samstöðuna" sem lýðræðis-einræðið grundvallast á. Slíkt getur enginn flokkur umborið - eða hvað? 

Lýðræðis-einræði

Lýðræðis-einræði 2


Tímalaus orð fyrir árið 2023, með kveðju frá 1946

Við árbakka norður í landi var í vikunni rifjuð upp saga af giftusamlegri björgun bónda sem hrapaði ofan í gjá og hafðist þar við í 60 klukkustundir áður en hann fannst - og mætti til vinnu næsta morgun eins og ekkert hefði í skorist. Þegar flett var upp í fjölmiðlum frá þessum tíma (1946) blasti við þessi blaðagrein úr Vísi sem eins hefði getað birst árið 2023. Stoð lýðræðisins

Allir áhugamenn um stjórnmál eru hvattir til að lesa hér þessa þrjá hluta greinarinnar. Aðrir þættir hennar, því miður ekki síður nútímalegir, verða birtir síðar.

P.S. Textann á að lesa í eftirfarandi röð: 1. "Stoð lýðræðis", 2. málsgrein án fyrirsgnar, 3. "Allir á sama máli", en þar má lesa þarfa áminningu um heilbrigða umræðu - og óheilbrigða. 

P.P.S. Greinin er ekki undirrituð en væntanlega skrifuð af ritstjórum Vísis á þessum tíma.stoð lýðræðisins 3

stoð lýðræðisins 2


Ekki aftur

Góðu fréttrnar í þessari frásögn mbl.is eru þær að flestar þjóðir hafa (skiljanlega) fengið nóg af hræðsluáróðrinum og sýna engan áhuga á að fóðra WHO á upplýsingum sem kunna að verða notaðar til að réttlæta nýja innilokunarherferð: ,,aðeins 43 lönd, inn­an við fjórðung­ur af 194 aðild­ar­ríkj­um WHO, til­kynni um dauðsföll til stofn­un­ar­inn­ar og aðeins 20 veiti upp­lýs­ing­ar um sjúkra­hús­inn­lagn­ir". Vonda fréttin er sú að hér blasir við að yfirmenn WHO eru hvergi af baki dottnir. 

Í ljósi reynslu siðustu ára, þar sem alþjóðlegir og innlendir ,,sérfræðingar" héldu röngum, villandi og misvísandi upplýsingum að fólki, og nutu aðstoðar ríkisstofnana til að kæfa og berja niður gagnrýnisraddir og koma í veg fyrir frjálsa umræðu, þá tel ég að okkur starfi meiri ógn af sameinuðu valdi ríkis, alþjóðastofnana og lyfjarisa en af árstíðabundnum veikindum. 

Stöðugt fleiri eru að vakna upp við það að hafa verið hafðir að fífli með því að samþykkja fyrirvaralaust að hagsmunir ríkisins réttlættu aftengingu vestræns stjórnskipulags með öllu því valdboði, þvingunarráðstöfunum, eftirliti, ritskoðun og skoðanakúgun sem því fylgdi. Stöðugt fleiri átta sig á því að almenningur getur ekki leyft sér að treysta handhöfum ríkisvalds í blindni, að ríkið er ekki endilega vinveitt borgurunum og að embættismenn hafi margir hverjir brugðist skyldum sinum til að þjóna eigin hag. 

Til hliðsjónar bendi ég á tvær nýjar greinar eftir Geir Ágústsson á Krossgötum í dag og Jóhannes Loftsson í Morgunblaðinu í gær, en báðar greinar varpa sínu ljósi á það sturlunarkennda hugarfar sem sveif hér yfir vötnum sl. misseri.  

 


mbl.is Vara við Covid-19 fyrir veturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í plati?

Síðustu tvo daga hef ég varað hér við því að Alþingi sé umbreytt í leikhús og að réttarríkið sé gengisfellt þannig að ekkert standi eftir annað en skel sem gefur valdníðslu stjórnvalda einhvers konar lögmætisblæ, líkt og gert var í Þýskalandi á 4. áratug síðustu aldar, í Sovétríkjunum og víðar þar sem ráðamenn beittum lögum gegn almenningi en ekki þeim til varnar. 

Nú er komið að kjarna málsins: Ef Alþingi er orðið að leikhúsi og réttarríkið að leikmynd, þá er það væntanlega vegna þess að fólkið á sviðinu lítur á sig sem leikara, sem eru m.ö.o haldnir þeirri ranghugmynd að þau séu hlutverkið sitt og ekkert umfram það. 

Að lokinni vel heppnuðu málþingi í Reykholti í júnímánuði var andakt í kirkjunni. Þar sagði ég frá þeirri einkennilegu, en óþægilegu upplifun að hafa þá nýlega verið viðstaddur hátíðlega athöfn ásamt mörgum samferðamönnum mínum í lífi og starfi til margra ára. Í stuttri hugvekju vísaði ég til þess þegar ég gekk um og sá allt þetta fína fólk í sínu fínasta pússi og með sitt fínasta bros, þá rann upp fyrir mér að ég veit ekkert um þau, annað en hvaða hlutverki þau gegna. Þrátt fyrir að hafa unnið með sumum þessara einstaklinga, verið í skóla með sumum, spilað fótbolta með sumum, verið nágranni sumra og bekkjarforeldri með öðrum, þá veit ég ekki hver þau eru í raun: Ekki hvaða lífsskoðanir þau hafa, hverju þau trúa í hjarta sínu, hvað þeim sjálfum finnst. Starfið er gríma, titillinn er gríma, fötin eru gríma, en hið sanna sjálf er hvergi til sýnis.

Gengur þú með grímu í lífi og starfi? Hver ert þú á bak við grímuna? Hver þekkir þig í raun ef þú tekur hana aldrei niður? Þekkir þú sjálfan þig? Lífið er of stutt til að þykjast vera einhver annar en þú ert. Sá sem ekki þekkir sjálfan sig veit ekki hvernig hann getur lifað góðu lífi. Sá sem ekki þekkir sjálfan sig leggur ekki rétt mat á eigin styrk, veit ekki hvaða umhverfi hentar honum best eða hvar hann getur blómstrað. Því minna sem menn hugsa um þetta, því auðveldara er að hneppa þá í þrældóm. Sjálfstæð hugsun er forsenda frelsis, en þeir sem láta aðra hugsa fyrir sig eru dæmdir til litlausrar hjarðtilveru á leiksviði sem aðrir smíða í kringum þá og til að þylja þar upp setningar sem aðrir hafa samið. Hver getur hugsað sér þátttöku í slíkum leiðindum og slíku ófrelsi? Veldu þínar eigin hugsanir. Tjáðu hug þinn óttalaust. Það er þitt sanna hlutverk. 

 


Réttarríkið er meira en leikmynd

Réttarríkið felur í sér þrjár grunnhugmyndir:

  • Ríkið hefur ekki vald til að beita almenning þvingun nema innan ramma laga.
  • Allir eru jafnir fyrir lögunum og lágmarksréttindi verður að virða: Lágmarkið er líf, frelsi og eignaréttur. Lögin verða að vernda okkur fyrir handahófskenndum inngripum á þessum sviðum. 
  • Dómstólar eiga að verja þessi grundvallaratriði / grundvallarrétt. Sjá til þess að ríkið virði þessar hömlur og haldi sig innan þeirra valdmarka sem lögin veita þeim.

 Í kófinu var þessu snúið á hvolf og réttarríkið umbreyttist í sóttvarnaríki, án þess að lögfræðingar þessa lands andæfðu því. Réttlætingin fyrir þessari umbreytingu byggðist á skírskotun til valdsins, þ.e. ríkið hafi vegna ytri aðstæðna vald til að skerða réttindi almennings og þar með breyta þeim úr frjálsum borgurum í ófrjálsa þegna. Íslendingar (og fleiri þjóðir) gengu af göflunum í frelsisskerðingum og opinberri valdbeitingu, í andstöðu við grunnhugmyndir réttarríkisins.  

Mannréttindi er ekki eitthvað sem við þiggjum að gjöf frá ríkinu. Á öllum tímum þurfa menn að standa gegn viðleitni valdhafa til að svipta menn lágmarksrétti.

Í gær mælti ég hér gegn því að Alþingi sé umbreytt í leikhús. Í sama anda - og með vísan til atburða síðustu missera - skal hér áréttað að almennir borgarar verða að halda vöku sinni og standa gegn því að valdhafar grafi undan réttarríkinu þar til ekkert stendur eftir annað en leikmynd, óstöðug hrákasmíði, sem fellur  í fyrstu vindhviðu.

 


Alþingi er ekki leikhús og dómstólar ekki heldur

Þegar ég las drottningarviðtal Morgunblaðsins við Helgu Völu Helgadóttur í gær 3.9.23 þurfti ég, eins og Njáll á Bergþórshvoli forðum, að lesa eina málsgreinina ,,þrem sinnum" til að meðtaka innihaldið. 

Helga Vala segir:

Já, mér finnst pólitíkin skemmtileg, finnst hinn pólitíski leikur skemmtilegur [...] 

[Innskot blaðamanns:] Þú ert náttúrulega lærður leikari ...

Já, þetta er leikhús, svona það sem snýr að almenningi. ÉG held að menntun mín hafi nýst vel þarna, bæi lögfræðin og leiklistin. Að kunna að beita röddinni, þekkja töfra þagnarinnar, hafa presens og ná valdi á salnum. Sem raunar á líka við í dómsal.

Þessar línur afhjúpa nöturlegan sannleika um stjórnmál Helgu Völu o.fl., en líka alvarlegan misskilning um málflutning fyrir dómi, sbr. eftirfarandi lýsingu sem undirritaður birti í Morgunblaðinu í ágústmánuði 2018. Athugasemdir í hornklofum eru ritaðar eftir lestur viðtalsins við HVH:

Réttarríki starfrækir dómstóla [og löggjafarþing] í þeim tilgangi að gera mönnum kleyft að binda friðsamlegan endi á ágreining sinn. Á vettvangi dómstólanna [og Alþingis] kemur rökræða í stað ofbeldis. Þetta er gert með vísan til þeirrar beisku reynslu að þar sem rökræðan þrýtur tekur valdbeiting oftar en ekki við. Með hliðsjón af slíkum staðreyndum má undrast það af hvílíkri léttúð menn treysta sér til að grafa undan rökræðu á opinberum vettvangi með afbökunum, útúrsnúningum, rökbrellum og leikrænum tilþrifum ýmiss konar. Því miður má enn finna dæmi þess að jafnvel alþingismenn falli í þessa djúpu gryfju.

Í málflutningi fyrir dómi [og í þingsal] opinberast fljótt munurinn á góðum málflytjendum og þeim sem stunda rökbrellur. Góður málflytjandi velur orð sín af kostgæfni og leitast við að byggja upp trausta röksemdafærslu. Rökbrellumaðurinn misnotar hugtök og hugsar meira um áhrif ræðunnar en inntak hennar.

Til að geta rökrætt þurfa menn að vera sammála um undirstöður samtalsins. Hvað er verið að tala um? Hverjar eru staðreyndir málsins? Tilfinningar eru ekki mælanlegar og „upplifun“ fólks ekki heldur. Slík umræðuefni standa því fyrir utan svið eiginlegrar rökræðu. Setningar sem lýsa engu öðru en huglægri afstöðu fela ekki í sér röksemdir. Þannig er það t.d. ekki efnisleg röksemd að segjast vera móðgaður eða sár. Þegar slík sjónarmið koma fram er rökræðunni í raun lokið og annars konar samtal tekur við. Í stað þess að reyna að draga fram hlutlægar staðreyndir ræða menn þá um huglæg atriði á borð við þægindi og óþægindi, um tilfinningar en ekki rökleiðslu. Þótt slíkt samtal megi sannarlega fara fram lýtur það ekki lögmálum rökræðunnar. Tilfinningar er betra að ræða í einlægni og út frá hjartanu. Reyni menn klæða slíkt samtal í annan búning verður útkoman gervirökræða og endar oftast í hávaða.  

Efnisleg rökræða kann að reynast mörgum óþægileg. Í dómsal [og í þingsal] mætast ólík sjónarmið og þar þurfa menn ekki aðeins að horfast í augu við gagnaðilann heldur einnig að hlusta á sjónarmið hans og röksemdir. Við slíkar aðstæður verður ekki með góðu móti hjá því komist að horfast einnig í augu við sjálfan sig og endurmeta þau orð og athafnir sem leitt hafa deiluna á þetta stig. Þótt allt geti þetta reynst mönnum tilfinningalega erfitt er staðreyndin sú að málflytjandi sem lýsir aðeins tilfinningum [og höfðar aðeins til tilfinninga] er ekki líklegur til að ná árangri í réttarsal. Vissulega er munur á því sem fram fer í dómsal og í stjórnmálunum. En er hið undirliggjandi markmið rökræðunnar ekki ávallt það sama? Miðar hún ekki að því að skerpa sýn þátttakenda og áheyrenda á sannleikann og leiða hann fram með röksemdum og tilvísun til staðreynda? Fyrir dómi krefst enginn lögmaður þess að dómarinn hlýði honum. Slík framsetning á heldur ekki rétt á sér í lýðræðislegu samhengi, er það? Fyrir dómi geta menn ekki reiðst þegar þeir eru leiðréttir. Rökvillur, misskilning og ranghermi ber að leiðrétta, ekki satt? Ef aðrar leikreglur ættu að gilda í stjórnmálum og fréttaflutningi væri illa fyrir okkur komið.



Leiðtogi leiðtoganna

Eftir nokkra daga hittast fulltrúar svonefndra G20 ríkja í Dehli undir blaktandi fánum með slagorðinu "One Earth, One Family, One Future" (,,Ein jörð, ein fjölskylda, ein framtíð"). Ef ske kynni að einhverjum þyki slíkt slagorð flytja með sér óþægilegan enduróm frá 4. áratug síðustu aldar, þá þurfa menn ekkert að óttast því allar slíkar samlíkingar eru óhaldbærar samsæriskenningar sem rétt er að banna. Gaman verður fyrir alla sanna vini frelsis, lýðræðis og mannréttinda, að fylgjast með samkomu þessara miklu leiðtoga heimsins, þar sem þeim gefst væntanlega góður tími til að ræða við úrval góðhjartaðra Davos manna, ,,woke" kvikmyndaleikara, rétthugsandi vísindamenn, góðviljaða auðmenn, auk sérvalinna og valdhlýðinna embættismanna.

Til að stytta biðina er hér brot úr ræðu sem leiðtogi hinna miklu leiðtoga flutti á G20 í fyrra. Myndbrotinu fylgir hættuleg umfjöllun bandarísks rithöfundar, sem m.a. mun hafa unnið sér það til óhelgis að hafa verið dónalegur við loftslagsvísindamenn með því að voga sér að draga kenningar þeirra í efa. Rithöfundur þessi gefur til kynna að markmiðið sé að rýra sjálfsákvörðunarrétt manna og þjóða, samhliða því að mikilvægustu ákvarðanir séu teknar án þess að almenningi gefist kostur á að tjá hug sinn til þeirra í kosningum.

Gaman verður að sjá hver skilaboð okkar mikla leiðtoga verða nú í ár, trúlega mun hann þó halda áfram að hamra sama járn og hann hefur gert síðan samtök hans voru stofnuð 1971. Ekki er hægt að segja annað en að starfsemin hafi fært honum mikinn persónulegan frama og auk þess straumlínulagað stjórnarhætti um allan heim í hans anda með því að lengja bilið milli almennings og stjórnvalda, auka miðstýringu, rýra völd almennings og auka veg miðstýrðs, alþjóðlegs og ólýðræðislegs valds. Til að kynnast þessum góða manni nánar má sjá fjöldan allan af leiftrandi ræðum hans á youtube, en fyrir þá sem engan húmor hafa fyrir þeirri snilld þá er hér stutt samantekt, tekin saman af jákvæðum aðdáanda

  

 


Þegiði!

Eftir erfiðan vetur, þar sem ég stóð í ströngu á mörgum vígstöðvum, hafði ég þörf fyrir að komast út í óbyggðirnar til að hlaða batteríin í friði og ró, fjarri öllum skarkala. Eftir langt ferðalag komum við seint á veiðisvæðið. Í tilhlökkun gengum við niður að vatninu en þar mætti okkur þessi hörmulega sjón (sjá mynd); álft sem dýrbítur hafði bitið á barkann. Þótt syni mínum væri nokkuð brugðið sofnaði hann áreynslulaust og svaf vært alla nóttina. Í æsku sinni heldur hann kannski að þetta sé venjuleg sjón við bakka íslensks heiðarvatns. Kannski er ég viðkvæmari en hann, en þar sem ég hafði áður upplifað friðsælt fuglalíf fylltist ég mögulega meiri óhug en hann, a.m.k. svaf ég órólega og hrökk upp um miðja nótt við martröð, þar sem mér þótti grænklæddur maður standa uppi á Gullsteini ofan við kofann og hrópa með gjallarhorni yfir auðnina sama orðið aftur og aftur: „Þegiði!“.

Sveittur og órólegur lá ég kyrr og hlustaði eftir fuglunum í nóttinni, en heyrði ekkert, alls ekkert. Ekkert lauf bærðist, engin kind jarmaði, enginn fugl tísti. Kannski var það einmitt þessi drungalega þögn sem hafði vakið mig. Ég hlustaði eftir fallegasta nætursöng íslenskra heiða, þ.e. söng himbrimans, sem ekki lét heldur í sér heyra. Yfir mig helltust ónot sem héldu fyrir mér vöku lengi nætur.

Þegar ég sneri aftur til byggða, kveikti á útvarpi, las blöð og fréttir, helltust yfir mig sömu ónot. Gjallarhorn valdhafanna glymur í Ríkisútvarpinu, á Google, youtube, facebook o.s.frv. Skilaboðin eru þau sömu: „Þegiði!“. Unga fólkið telur þetta kannski eðlilegt, mögulega jafnvel réttmætt í nafni öryggis. Spurning mín er þessi: Af hverju segir eldra fólkið ekkert, kynslóðirnar sem notið hafa frelsis til orðs og athafna í öruggu skjóli fyrir viðurstyggilegum stjórnarháttum alræðisstjórna 20. aldarinnar? Getur verið að Solzhenitsyn hafi haft rétt fyrir sér þegar hann, í ávarpi í New York árið 1975, varaði Vesturlandabúa við andvaraleysi í þessum efnum með eftirfarandi orðum: 

Getur einn hluti mannkyns lært af biturri reynslu annarra? Er mögulegt eða ómögulegt að vara einhvern við hættu? […] Stærilátir skýjaklúfarnir benda til himins og segja „Slíkt mun aldrei gerast hér. Þetta mun aldrei henda okkur. Það er ómögulegt í okkar heimshluta“.

Solzhenitsyn varpaði fram spurningu árið 1975, djúpt í sál hins vestræna heims til að kanna hversu djúp hún er: Getur verið að við munum ekki átta okkur á hættunni fyrr en á þeirri stundu sem hnífsblaðið leggst að hálsinum á okkur? Erum við svo græskulaus, svo skilningsvana, svo andvaralaus, að við ímyndum okkur að vargurinn nái ekki til okkar og leggjum höfuð undir væng án þess að nokkur standi vörð um líf okkar gagnvart ógnvaldinum sem vill þagga niður í okkur?

Á síðustu misserum gerðust mjög alvarlegir atburðir sem gjörbreyttu sambandi ríkis og borgara: Undir yfirskini sóttvarna og neyðarástands voru stjórnarskrár teknar úr sambandi, stjórnarfarið afbakað og mannréttindi fótum troðin í því skyni að innleiða nýtt stjórnarfar fámennisstjórnar, sérfræðingaræðis og ofríkis, allt undir því yfirskini að yfirvöld væru að „vernda“ þegna sína þegar þau í raun voru að grafa undan því stjórnskipulagi sem þeim var þó falið að verja. 

Hvað þarf til að Íslendingar (og aðrar vestrænar þjóðir) átti sig á aðsteðjandi hættu og skipi menn í það hlutverk að hafa vörð á þeim sem vilja þagga niður í okkur, valsa um sem handhafar sannleikans og eru jafnvel reiðubúnir að bíta okkur á barkann ef með þarf?

Vöknum við þegar fyrirmyndarríkið Noregur læsir mann inni á geðdeild fyrir að efast um gagnsemi töfralyfja? Vöknum við þegar ESB vill skikka aðildarríkin til að stofna „sannleiksráðuneyti“ (í anda 1984) til að berjast gegn ,,upplýsingaóreiðu“ og hugsanaglæpum?

Í réttarríki ná lögin jafnt til allra. Í alræðisríkjum er þetta viðmið stokkað upp og framkvæmdavaldinu falið umboð til að nota lögin eins og sleggju gegn almenningi. Í verstu tilvikum afhjúpast þetta í því að fjölmiðlar, sérfræðingar, ráðherrar o.fl. snúast gegn réttarríkinu og skírskota til laga í því skyni að halda borgurunum í skefjum. Þegar svo er komið er réttarríkishugtakið ekki lengur hornsteinn réttarverndar, heldur er slíkum sjónarmiðum sópað í burtu í nafni laganna! Í Orwellísku þjóðfélagi, þar sem stríð er friður og svart er hvítt, þar eru lögin notuð til að mylja réttarríkið í frumeindir. 

Frammi fyrir öllu þessu þarf að minna á að enginn er hafinn yfir lögin og að lögunum er með sama hætti ætlað að verja alla jafnt, líka þá sem eru leiðinlegir, þá sem efast og þá sem voga sér að spyrja leiðinlegra spurninga.

Í heilbrigðu samfélagi leyfist mönnum að eiga rödd. Margradda kór hljómar betur í sumarnóttinni en þrúgandi þögn þar sem enginn þorir að bæra á sér af ótta við ógnvaldinn sem fyrirskipar öðrum að þegja.

[Greinina í heild má lesa á Krossgötum, þar sem hún birtist fyrst 2.9.2023]. 


Íslenskir stjórnmálamenn starfa í umboði Íslendinga, ekki ESB

Lesendur eru hvattir til að kynna sér vandaða grein eftir Hjört J. Guðmundsson, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Greinin ber heitið ,,Fullkomin uppgjöf". Greinin undirstrikar alvarleika frumvarpsins um bókun 35 sem lagt var fram sl. vor en verður vonandi aldrei lagt fram aftur. Lýsing Hjartar í niðurlagi greinar hans er svohljóðandi:

Versta mögu­lega staðan sem gæti komið upp, næði frum­varp ut­an­rík­is­ráðherra ekki fram að ganga og málið færi í kjöl­farið fyr­ir EFTA-dóm­stól­inn, væri sú að komizt yrði að þeirri niður­stöðu að stjórn­völd­um bæri sam­kvæmt EES-samn­ingn­um að verða við kröfu ESA. Með öðrum orðum það sem frum­varpið fel­ur í sér! Um fyr­ir­fram upp­gjöf er þannig að ræða án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyr­ir dómi.

Málið minn­ir fyr­ir vikið að ýmsu leyti á Ices­a­ve-málið á sín­um tíma. Þannig hafði ESA til að mynda í því máli líkt og nú, ekki gert nokkra at­huga­semd við inn­leiðingu á viðkom­andi reglu­verki Evr­ópu­sam­bands­ins hér á landi um langt ára­bil þegar stofn­un­in ákvað að gera mál út af því. Þá átti, líkt og nú, að gef­ast upp fyr­ir­fram í stað þess að láta fyrst reyna á málið fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um þar sem Ísland hafði að lok­um sig­ur.

Mikl­ir fjár­hags­leg­ir hags­mun­ir voru í húfi í Ices­a­ve-mál­inu en málið sner­ist þó ein­ung­is um eina til­tekna lög­gjöf frá Evr­ópu­sam­band­inu. Til­skip­un þess um inni­stæðutrygg­ing­ar. Frum­varp ut­an­rík­is­ráðherra varðar hins veg­ar alla lög­gjöf sem hef­ur verið og mun verða tek­in upp hér á landi í gegn­um EES-samn­ing­inn og ger­ir hana í reynd æðri ann­arri al­mennri laga­setn­ingu af þeirri einu ástæðu að hún kem­ur frá sam­band­inu.

Vert er að árétta það að lok­um að ein af for­send­um aðild­ar Íslands að EES-samn­ingn­um á sín­um tíma var sú að bók­un 35 yrði inn­leidd með þeim hætti sem gert var og það ekki að ástæðulausu. Að öðrum kosti hefði að öll­um lík­ind­um aldrei orðið af aðild­inni. Málið er hins veg­ar í fullu sam­ræmi við þróun samn­ings­ins á und­an­förn­um árum þar sem sí­fellt hef­ur verið farið fram á meira framsal valds yfir ís­lenzk­um mál­um.

Stjórnmálamenn eru kjörnir á þing til að verja hagsmuni lands og þjóðar gagnvart öðrum ríkjum, yfirþjóðlegum stofnunum, alþjóðlegum stórfyrirtækjum o.fl. Slíkri hagsmunagæslu er ekki sinnt með því sem Hjörtur kallar fullkomna uppgjöf.

 

Í stuttu máli

Í frjálsu samfélagi leyfist almennum borgurum að spyrja valdhafa gagnrýninna spurninga og veita valdhöfum lögmætt aðhald. Þetta er lýðræðislegt grundvallaratriði. Ríkisstarfsmenn hjá RÚV og Fjölmiðlanefnd virðast eiga bágt með að skilja þetta og veitast gegn gagnrýninni hugsun með því að saka efasemdafólk um að dreifa samsæriskenningum, falsfréttum, o.s.frv. Í frjálsu samfélagi heyrast alls kyns skoðanir, en í alræðisríkjum er aðeins ein rétt lína. Óttast starfsmenn Rúv og fjölmiðlanefndar frjálsa umræðu og nota orðið ,,upplýsingaóreiðu" til að stíga ofan á skoðanir sem víkja frá kennisetningum hinnar pólitísku ,,rétttrúnaðarkirkju"? Vonandi þýðir þetta ekki að RÚV og fjölmiðlanefnd standi í raun gegn lýðræðislegu stjórnarfari.

Ef þessar stofnanir vilja reka af sér slyðruorðið ættu þær að taka skýra afstöðu með tjáningarfrelsi og gegn hvers kyns ritskoðunartilburðum. Í stað þess að reyna sífellt að hafa vit fyrir fólki ættu þessar stofnanir og kjörnir fulltrúar sömuleiðis að treysta dómgreind fólks. Slíkt traust er hornsteinn lýðræðisins, þ.e. að kjósendum sé treystandi til að greina á milli þess sem er rétt og rangt, á milli sannleika og ósanninda, - og mynda sér frjálsa skoðun. 

Samfélagi okkar er í vaxandi mæli stjórnað af óttaslegnu fólki sem undir yfirskini ,,sérfræðiþekkingar" vill að við veljum öryggi í stað frelsis og sjálfsábyrgðar. Halda mætti því fram að málflutningur þeirra beinist gegn frjálsri samfélagsgerð og vísi okkur inn á braut annars konar stjórnarfars sem kenna má við harðstjórn.   

E.S. Áhugasömum er bent á þetta samtal okkar Gunnars Smára Egilssonar, sem birt var í gærkvöldi.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband