Færsluflokkur: Bloggar
30.8.2023 | 07:14
Uppgjör óskast
Morgunblaðið segir frá því í dag að í ársskýrslu Umboðsmanns Alþingis vilji að ,,covid-tíminn verði gerður upp" og að umboðamaður ítreki þar ósk um að ,,dreginn verði lærdómur til framtíðar af aðgerðum stjórnvalda á tímum faraldursins". Í grein Morgunblaðsins segir að umboðsmaður hrósi skýrslu nefndar forsætisráðherra frá því í október 2022 sem greina átti áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í faraldrinum en telji að meira þurfi að gera. Án þess að gefið sé í skyn að með hinum eða þessum aðgerðum hafi verið gengið of langt eða rangt að verki staðið tel ég því, enn sem fyrr, mikilvægt að þessi tími sé gerður upp, m.a. m.t.t. grunnreglna réttarríkisins, og af því dreginn lærdómur til framtíðar, segir Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis.
Af þessu tilefni er ástæða til að benda á þingslályktunartillögu, sem dreift var á Alþingi 14.12.2022, um ,,skipun nefndar til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar". Höfundur er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Sem varaþingmaður skora ég á meðflutningsmenn mína að fylgja málinu eftir í minni fjarveru. Nágrannaríki okkar, þar á meðal Bretland og Noregur, hafa þegar látið vinna fleiri en eina slíka skýrslu. Þögn og athafnaleysi íslenskra stjórnvalda lítur ekki vel út í samanburði. Réttarríkið ver sig ekki sjálft.
E.S. Ef lesendur skyldu hafa reynt að gleyma því hvernig ríkisstjórnir á Vesturlöndum beittu borgarana ofríki á þeim tímum sem hér um ræðir, má benda hér á vikugamla umfjöllun um það hvernig norsk stjórnvöld lokuðu mann inni á geðdeild fyrir að hafa lýst efasemdum um mRNA sprautulyfin sem haldið var stíft að almenningi, börnum jafnt sem gamalmennum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2023 | 07:42
Sá sem spillir heimili sínu mun erfa vindinn
Á bloggi Björns Bjarnasonar í gær, 28.8., má lesa tilraun BB til að drepa alvarlegu máli á dreif með því að beina athygli að aukaatriðum og fram hjá kjarna málsins sem hér um ræðir. BB veit manna best, að markmið Sjálfstæðisflokksins frá upphafi hefur verið að tryggja sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar samhliða einstaklingsfrelsi til orð og athafna. Samt sem áður kýs hann að sjá ekkert athugavert við frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Sú blinda BB er sérstök í ljósi þess að frumvarpið grefur undan fullveldinu með því að veikja lagasetningarvald Alþingis og þar með fullveldi og sjálfstæði Íslands. Sú þjóð er ekki frjáls og fullvalda sem ekki ræður lengur efni þeirra laga sem hún býr við og hefur undirgengist að greiða skaðabætur til yfirþjóðlegs valds ef hún setur lög í andstöðu við réttareininguna sem yfirvaldið krefst.
Fyrir flokksráðsfundinn og við upphaf hans óskaði ég eftir að fá að bera fram þá tillögu sem BB vísar til, en nú brá svo við að skipulag fundarins var í anda svonefnds Þjóðfundar sem haldinn var 2009 til að ræða um bankahrunið 2008. Eins og BB nefnir sjálfur þýddi þetta það að fundarmönnum var skipt í umræðuhópa. Fundarstjóri og þingflokksformaður beindu mér í einn slíkan hóp og BB lýsir því réttilega að menn hafi fjölmennt í tilvísaðan hóp um EES mál. Tillöguna bar ég upp á þessum vettvangi sem í anda Þjóðfundarins 2009 bar yfirbragð lýðræðislegrar umræðu, sem þó var í framkvæmd stranglega stjórnað og séð til þess að ekkert kæmist í gegn sem ekki var fundarstjóra umræðuhópsins og hans fólki þóknanlegt. Gamalreyndur Sjálfstæðismaður sem varð vitni að þessu líkti þessu, í mín eyru, við alræðistilburði gagnvart flokksmönnum og sagði þetta hægláta ögrun sem miðaði að því að ráðskast með fólk á útsmoginn og óviðfelldinn hátt.
Fundurinn var skipulagður á þann hátt að að formaður, varaformaður, ritari og þingflokksformaður fengu rúman tíma til að flytja langar ræður sem skertu um leið tíma almennra flokksmanna til frjálsrar tjáningar, sem þó ætti að vera mikilvægasti hluti svona fundar. Í stað þess að gefa orðið frjálst var farin sú leið að gefa fólki kost á að bera fram stuttar spurningar og þurftu menn að fara í röð til að geta þannig ávarpað flokksforystuna. Skipulag flokksskrifstofunnar var að þessu leyti mjög skýrt, en langar ræður urðu til þess að þegar loks kom að afgreiðslu stjórnmálaályktunar var klukkan langt gengin í sjö. Það er rétt hjá BB að á þeim tímapunkti las undirritaður salinn þannig að menn vildu flýta sér í auglýstan kokteil eða heim, auk þess sem þrír áreiðanlegir menn höfðu þá kælt mig niður með því að tjá mér að frumvarpið um bókun 35 yrði ekki lagt fram að nýju í haust. Í ljósi samþykktrar málamiðlunartillögu kaus ég að láta kyrrt liggja og líta svo á að hér hefði unnist ákveðinn varnarsigur.
Að því sögðu er skal hér áréttað, að komi þess að frumvarpið verði lagt fram aftur, þá væri það enn alvarlegra en fyrr í ljósi þeirra ábendinga sem fram hafa komið. Frumvarpið felur í sér tilraun til að færa æðsta valdþátt íslenska ríkisins undir erlend yfirráð. Slíkt er býsna alvarlegt í stjórnskipulegu tilliti.
Ef pólitísk sátt ríkti um það að íslensku löggjafarvaldi væri betur komið í höndum erlendra stofnana en hjá Alþingi Íslendinga, þá þyrfti að framkvæma slíkan valdatilflutning í réttri röð, með því að breyta stjórnarskránni að loknum kosningum um þetta atriði, sem Íslendingar myndu þó væntanlega aldrei samþykkja.
Alþingi hefur vítt og mikið valdsvið, en völd þess takmarkast þó augljóslega við það að lög þingsins verða alltaf að standast stjórnarskrá. Staðreyndin er sú að 1. og 2. gr. stjskr. standa í vegi fyrir því að löggjafarvald Alþingis sé framselt til erlendra stofnana. Alþingi brestur lýðræðislega heimild og stjórnskipulegt vald til að samþykkja frumvarpið um bókun 35. Ef BB og aðrir slíkir Sjálfstæðismenn ætla að halda áfram að mæla frumvarpinu bót mun Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál og fjölmargir sjálfstæðismenn (með stóru og litlu essi) koma stjórnarskránni og lýðveldinu til varnar. Sú vörn verður kröftugri en hingað til og dregið skýrt fram að hinn endanlegi mælikvarði á leyfilegt valdaframsal er stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en ekki tveggja stoða kerfi EES eins og það er fráleitlega orðað í stjórnmálaályktun flokksráðsfundarins 2023.
[Fyrirsögnin er úr Orðskviðunum og skýrir sig sjálf. Í Viðeyjarbiblíu (1841) er þýðingin jafnvel skýrari: ,,Hvör sem raskar sínu eigin húsi, mun erfa vind"]
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2023 | 08:02
Stærsta báknið
Til að hægt sé að tala um frjálsa þjóð í frjálsu landi, þarf sú þjóð að hafa hafa fullt forræði á þeim lögum sem hún býr við. Umræða um þetta kjarnaatriði hefur verið jaðarsett í Sjálfstæðisflokknum og menn eins og Björn Bjarnason reyna að smætta sjálfstæðisstefnuna niður í að hún snúist nú aðeins um frelsi einstaklingsins. Einstaklingur sem býr við ofríki stjórnvalda, ólýðræðislega lagasetningu og löggjafa sem svarar ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar er ekki frjáls. Besta vörn lýðræðislegs stjórnarfars er fullvalda ríki þar sem almenningur fær að kjósa fulltrúa sína á löggjafarþing í frjálsum og leynilegum kosningum.
Á fulltrúaráðsfundi XD um helgina kvörtuðu margir undan íþyngjandi og tilgangslausri lagasetningu, án þess að rót vandans væri nefnd, þ.e. skrifræðisveldið í Brussel. Reglur sem settar eru fyrir milljónasamfélög henta (augljóslega) ekki vel fyrir smáríki. Regluverk sem mælir fyrir um endalaust eftirlit og opinbera skoðunarmenn og skýrsluskil til yfirvalda íþyngja litlum og meðalstórum íslenskum fyrirtækjum meira en stórfyrirtækjum á meginlandinu. Á þennan mælikvarða teljast flest íslensk fyrirtæki lítil og lagasetningarárátta ESB verður stöðugt aðgangsharðari. Þetta birtist m.a. í því hvernig stöðugt fleiri svið eru felld undir gildissvið EES og hvernig reglurnar teygja sig stöðugt lengra inn í daglegt líf okkar.
Innleiðing þessara reglna hefur verið bremsulaus í 30 ár. Hraði og þungi þessa innstreymis fer vaxandi með hverju árinu. Veruleikinn sem ég hef verið að benda á - og áréttaði í umræðum um bókun 35 á fundinum um sl. helgi - er að hér er að teiknast upp grafalvarleg staða, þar sem upp er risið risavaxið, ólýðræðislegt, fjarlægt og valdagírugt skrifræðisbákn á meðan hinn almenni borgari, maðurinn á götunni, er gerður stöðugt minni og áhrifalausari um þróun mála.
Ég hef skorað á Sjálfstæðismenn að hætta fyrirvaralausri þjónkun við þetta lagasetningarbákn í Brussel og hyggja betur að grunngildum Sjálfstæðisflokksins um lýðræðislega ábyrgð, íslenskt löggjafarvald, sjálfstæði þjóðarinnar o.s.frv., því án þessa er tómt mál að tala um frelsi einstaklingsins. Málflutningur minn byggir á þeim grunni að besta leiðin (og eina leiðin) til að endurheimta fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins sé að standa með sínum eigin stefnumálum í verki.
[Meðfylgjandi er umfjöllun Morgunblaðsins í dag um þessi mál. Smellið til að stækka]
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2023 | 09:11
Innsýn í innviði innra starfs
Þegar þetta er ritað, á sunnudagsmorgni eftir flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins, er ég enn að vinna úr því sem þar bar fyrir augu og eyru. Í þessu undarlega ferðalagi sem tilvera okkar er, má líta á svona samkomu sem áhugavert tækifæri til að fá innsýn inn stofnanakerfi þjóðfélagsins (því stjórnmálaflokkar nútímans eru orðnir að stofnunum), en líka í mannlegt eðli.
Sjálfstæðismenn eru gott og vel meinandi fólk. Á fundinum í gær voru allir glaðir, brosmildir, vinsamlegir og viðtalsgóðir, m.a.s. við þá sem ekki ganga alltaf í takt við aðra! Sjálfstæðismönnum til hróss má segja að þau kunni vel þá dýrmætu list að geta rökrætt mál og verið ósammála án þess að það framkalli óvild og vinslit.
Að því sögðu vil ég deila nokkrum persónulegum þönkum um þennan fund í gær og skoða í víðara samhengi. Þegar málefnastarf hófst á fundinum var kveikt á skeiðklukku og í 20 mínútur urðu elskulegir samherjar að línumönnum. Með hugtakinu línumönnum á ég við þá sem tala ekki út frá eigin hjarta og hlusta ekki með opnum huga, heldur tala út frá flokkslínunni, eins og þau telja sig eiga að gera. Þessa manngerð hef ég oft hitt áður, m.a. í háskólaumhverfinu þar sem rétttrúnaðarlína pólitískrar rétthugsunar framkallaði setningar eins og að við þyrftum að banna hina og þessa tegund tjáningar, en líka á fundum í dómarafélaginu þar sem þeirri hugmynd var haldið á lofti að við værum starfið okkar en ekki sjálfstæðir einstaklingar með sjálfstæða hugsun og sjálfstæða rödd.
Ég set þessar línur á blað til áminningar fyrir sjálfan mig og þá sem þetta lesa, því enn hef ég engan hitt sem er betri í hlutverki línumanns en sem hann sjálfur. Utanríkisráðherra og varaformaður XD lýsti þessu ágætlega í gær þegar hún sagði að innst inni værum við öll friðsemdarfólk, þótt það væri skylda okkar út á við að vera herská og kenna öðrum þjóðum lexíu. [Hér er ræða utanríkisráðherra lauslega umorðuð til að árétta inntakið, en lesendur eru hvattir til að íhuga í þessu samhengi erlendan málshátt sem segir að tannlausir hundar gelti hæst. Mín skoðun er sú, að það fari Íslendingum ekki vel, sem herlausri þjóð, að hvetja aðrar þjóðir til blóðsúthellinga. Betur færi á að við værum málsvarar friðar en hernaðar].
Helsta lexía mín eftir gærdaginn er sú að okkur myndi farnast betur sem einstaklingum, sem flokki og sem þjóð ef við þyrðum að tala með okkar eigin rödd, vera við sjálf, hlusta af einlægni og sjá aðra sem dýrmæta ferðafélaga á lífsins braut. Vandi Sjálfstæðisflokksins er að hann þorir ekki lengur að vera hann sjálfur. Vandi stjórnmálamannanna er að þeir eru að leika hlutverk og halda að þau séu hlutverkið (gríman). Vandi íslenska ríkisins er að ráðamenn þess eru tregir til að horfast í augu við þá staðreynd að við erum örþjóð, sem eigum ekki að gelta grimmilega á alþjóðavettvangi og getum ekki hýst ótakmarkaðan fjölda flóttamanna.
Það jákvæða sem ég tók með mér af fundinum var að þótt tillaga mín hafi verið hressilega útvötnuð í málefnanefnd komst ein mikilvæg setning hennar þar í gegn og inn í stjórnmálaályktun fundarins, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn muni standa vörð um fullveldi Íslands. Þetta er eina setningin í rúmlega 3ja blaðsíðna ályktun þar sem orðið fullveldi er nefnt. Ég ætla að leyfa mér að líta á þetta sem mikilvæga áminningu til flokksforystunnar og þingflokksins í aðdraganda þess að Alþingi taki aftur til starfa. Í því ljósi ætla ég líka að leyfa mér að trúa því sem ég heyrði frá fólki eftir að formlegum umræðum lauk, þ.e. að frumvarp um bókun 35 verði ekki lagt fram að nýju á haustþinginu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2023 | 09:07
Grunnstefna Sjálfstæðisflokksins miðar að sjálfstæði, ekki ósjálfstæði
Björn Bjarnason hefur birt óteljandi greinar í blöðum og tímaritum sl. áratugi, en aldrei verri grein en þá sem birtist í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins (27.8.), því þar afhjúpar BB úrelta heimsmynd manns sem hefur tapað pólitískum, lagalegum og hagfræðilegum áttavitum sínum. Grundvallarforsendur þær sem BB byggir grein sína á brustu fyrir mörgum árum og greining BB er því bjöguð, villandi, ósönn og ónothæf. Meginland Evrópu er mjög á fallanda fæti í hagfræðilegu tilliti. Hagvöxtur framtíðarinnar og sóknarfæri eru í Asíu, en ekki í Evrópu. Hröð öldrun evrópuþjóða og minni framleiðni mun augljóslega leiða til þess að Evrópa verður aukaleikari í nýrri heimsmynd þar sem valdaþræðirnir munu liggja frá Bandaríkjunum yfir Kyrrahafið til Indlands og Kína en ekki yfir Atlantshafið. Í því ljósi er óskiljanleg þessi þráhyggja BB í þá átt að Íslendingar skuli binda sitt trúss æ fastar við haltrandi og brögðóttan skrifræðisjálk ESB. Þrátt fyrir þetta lýkur BB grein sinni í anda áróðursmeistara fyrri tíðar með því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að ,,opna fyrir framtíðarbirtu" úr austri. Þessi myndlíking BB vekur upp óþægileg hugrenningatengsl við málsvara alþjóðlegs sósíalisma sem horfðu vonaraugum til roðans í austri.
Ég vil ekki gera því skóna að BB vilji villa um fyrir lesendum. Því ætla ég að ganga út frá að hann viti ekki betur og vil því benda á nokkur undirstöðuatriði honum til upplýsingar og upprifjunar:
- Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Þar er m.ö.o. ekki gert ráð fyrir að erlendar stofnanir geti sett Íslendingum lög eins og frumvarpið um bókun 35 miðar við.
- Eðlisbreyting hefur orðið á EES samstarfinu á þeim 30 árum sem liðin eru frá lögfestingu þess. Stafar það ekki síst af þeirri staðreynd að viðsemjandinn hefur stökkbreyst í átt til sambandsríkis, sem seilist eftir sífellt meiri völdum innan aðildarríkja. Framhjá þessu horfir BB algjörlega.
- Ísland er ekki aðildarríki ESB og Íslendingar hafa aldrei samþykkt að gangast yfirþjóðlegu valdi á hönd í þeim mæli sem frumvarpið um bókun 35 miðar að.
- Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að laumupokast með Ísland inn í ESB, þá er það óheiðarlegt gagnvart kjósendum flokksins og Íslendingum almennt. XD leyfist ekki að bera kápuna á báðum öxlum og draga Ísland undir áhrifavald ESB án þess að hafa orð á því beint, enda á slík fyrirætlan sér enga stoð í stefnuskrá flokksins.
- Í frjálsu lýðræðisríki verður stjórnskipulagi og stjórnarfari ekki breytt með laumuspili. Slík breyting verður ekki réttlætt með vísan til lögfræðiálita, síst af öllu í ljósi þess að EES samningurinn var fyrir 30 árum talinn ganga út á ystu nöf þess sem stjórnarskrá okkar leyfir.
- Áður en sorfið er að sjálfstæði þjóðar með frumvarpi eins og þessu þarf að fara fram lýðræðisleg umræða. Ef niðurstaðan er sú að halda áfram þá verður að gefa almenningi kost á að kjósa um hvort taka eigi upp nýtt stjórnarfar, þar sem völdin eru afhent ósýnilegum og fjarlægum mönnum sem svara ekki til ábyrgðar gagnvart kjósendum.
- Með frumvarpi utanríkisráðherra er verið að veikja stöðu íslensks réttar og grafa undan Alþingi, sem burðarstoð lýðveldisins.
- ESB er ekki málsvari frjálsrar verslunar, heldur verðsamtök sem reisa skorður gagnvart viðskiptum utan frá. Mengunarskattur ESB á íslensk skipafélög er ein myndbirting þess hvernig slíkur samráðshringur starfar.
Þjóð sem hefur ekki fullt forræði á eigin lagasetningu, þjóð sem hefur undirgengist að greiða skaðabætur til yfirþjóðlegs valds ef hún setur lög í andstöðu við réttareininguna sem yfirvaldið krefst, sú þjóð er ekki lengur frjáls og fullvalda. Öfugt við fullyrðingar BB getur slík þjóð ekki haldið uppi varðstöðu um grunnstoðir samfélagsins.
BB á þakkir skildar fyrir að birta þessa vondu grein. Hún afhjúpar að hann hefur orðið viðskila við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2023 | 07:13
Verkin tala
Í grein þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Óla Björns Kárasonar, í Morgunblaðinu 23. ágúst, er undirstrikað að sjálfstæðisfólk verði að skynja að í ríkisstjórn séu þingmenn og ráðherrar trúir grunnhugsjónum. Í greininni fjallar Óli Björn um hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar, sem m.a. ver frelsi fólks til sjálfstæðrar hugsunar og sjálfstæðrar tjáningar, sem markar grunninn fyrir hreinskiptnar umræður, fjölbreyttar skoðanir og rökræður. Í þessum anda er ástæða til að minna á það, í aðdraganda flokksráðsfundar nk. laugardag, að markmið Sjálfstæðisflokksins er að verja frelsi einstaklingsins og frelsi þjóðarinnar til sjálfsákvörðunarréttar og að standa gegn hvers kyns ytri þrýstingi, þvingunum, ásælni og ágengni.
Með vísan til framanritaðs og þess sem fram kemur í grein Óla Björns hvet ég flokksráðsmenn til að kalla eftir því að kjörnir fulltrúar þeirra sýni í verki að þeir séu trúir grunnhugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Hyggjast þingmenn og ráðherrar standa gegn hugmyndum forsætisráðherra um takmörkun á tjáningarfrelsinu, sbr. þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026?
Ætla þingmenn og ráðherrar að standa vörð um sjálfstæðis- og frelsishugsjón flokksins í umræðum um ný sóttvarnalög? Er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 í samræmi við þá grundvallarhugsjón Sjálfstæðisflokksins að lögin eigi sér lýðræðislega rót?
Traust grundvallast á því sem menn sýna í verki, en skrum grefur undan trausti. Ef flokksráðsfundurinn á að skila árangri þarf þar að eiga sér stað kraftmikil umræða, ekki orðagjálfur, um sjálfstæðisstefnuna í framkvæmd. Þar verða kjörnir fulltrúar að sannfæra fundarmenn um það að þeir séu í reynd trúir grunnhugsjónum og að hugur fylgi máli þegar vísað er til þeirra í ræðum og greinum.
[Birt í Morgunblaðinu 25.8.2023]
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2023 | 08:43
Tillaga fyrir flokkráðsfund nk. laugardag
Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður nk. laugardag, 26. ágúst, mun ég f.h. Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) leggja fram tillögu til ályktunar sem hljómar svo:
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35).
Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar.
Með þessu er markmiðið ekki að skemma ,,góða stemningu" á fundinum heldur að minna á nauðsyn þess að Sjálfstæðismenn standi vörð um grunngildi og stefnuskrá flokksins með lýðræði, frelsi og fullveldi Íslands að leiðarljósi.
Sjálfstæðisflokkurinn má ekki umbreytast í gervi-flokk, sem segir eitt en gerir annað. Ræða okkar ,,skal vera: já, já; nei, nei; en það sem er umfram þetta, er af hinu vonda". Við eigum ekki að láta hópþrýsting hefta hugsun okkar og málfrelsi. Tjáningarfrelsið er kjarni alls frelsis. Ef við viljum búa við lýðræðislegt stjórnarfar verðum við að vera reiðubúin til að taka þátt í vörn þess og viðhaldi, gegn öllum þöggunar- og hjarðhugsunarkröfum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2023 | 09:12
Sjálfstætt fólk þarf að taka ábyrgð á eigin sjálfstæði
Stefna Sjálfstæðisflokksins byggir á þeim klassíska grunni að lögin eigi sér lýðræðislega rót. Þetta er kjarni fullveldisins og fullveldisfélagsins: Fullveldi snýst um að hafa rétt til að setja sín eigin lög á lýðræðislegum forsendum, án ytri þvingunar. Þetta er lögfræðilegt atriði, en einnig pólitískt og samfélagslegt. Þetta er grundvallaratriði sem allir geta skilið. Íslenskur réttur og vestræn stjórnskipun byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum.
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að tryggja að grunnstefna hans sjáist í daglegri framkvæmd stjórnmálanna, en ekki bara sem orð á blaði. Öfugsnúin nútímamenning hefur orðið til þess að stjórnmálaumræða hefur ranghverfst: Kjarnagildum hefur verið ýtt til hliðar en jaðarsjónarmið gerð miðlæg. Þögn og meðvirkni hefur grafið um sig innan flokkanna og stjórnkerfisins eins og krabbamein. Það er mikið að þegar lárétt skuldbinding milli kollega / embættismanna er farin að vega þyngra í framkvæmd en hin lóðrétta tenging milli embættismanna og borgara.
Hluti skýringarinnar: Við erum orðin að aðildarríki í stað þess að vera þjóðríki. Við samþykktum vissulega að gerast aðilar í efnahagslegu samstarfi, en höfum ekki samþykkt að verða hluti af pólitísku samstarfi sem miðar að réttareiningu gagnvart ESB sem sambandsríki.
Allt framangreint leggur Íslendingum skyldur á herðar. Okkur ber að axla ábyrgð á eigin nútíð og framtíð. Í því felst að við: 1. megum ekki framselja úr landi ákvörðunarréttinn um framtíð þjóðarinnar, landsins og ráðstöfun auðlindanna. 2. Hér getur ekki allt verið til sölu. Frjáls markaður er af hinu góða en má ekki verða algjörlega hömlulaus kredda sem veður yfir allt. Kreddan má t.d. ekki verða þjóðarhagsmunum yfirsterkari.
Innri markaðurinn er ekki heilagri en aðrir markaðir og sjálfstæðið má ekki leggja á fórnaraltari hans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2023 | 10:52
Á helvegi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2023 | 17:24
Örlagaspurningar lands og þjóðar
Í örstuttu máli má lýsa Íslandssögunni svona: Menn sigldu yfir hafið í leit að frelsi undan ofríki og skattpíningu, stofnuðu Alþingi 930 til þess að geta leyst úr ágreiningi með lögum í stað hnefaréttar, mótuðu lögin í sameiningu og urðu þar með að einni heild, þjóð sem átti lögin í sameiningu, landið, hefðir, sögu og síðast en ekki síst tungumálið.
Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið vegið svo alvarlega að þessum undirstöðum þjóðríkisins að komið er að ögurstundu í sögu þessarar þjóðar. Hver erum við sem hér búum? Hvað sameinar okkur? Er rétt að afsala löggjafarvaldinu úr landi og afnema þannig í reynd sjálfstæði þjóðarinnar með því að láta Ísland renna inn í mun stærri réttareiningu? Hafa menn hugsað til enda hvað gerist þegar handhafar löggjafarvalds svara ekki til ábyrgðar gagnvart borgurunum? Hverfur þá ekki frumforsenda þess frelsis sem landnámsmenn leituðu að?Þegar gagnkvæmar skuldbindingar milli ríkis og borgara gufa upp þá umbreytumst við í þegna sem hafa það eina hlutverk að borga og hlýða.
Hvað kennir sagan okkur um hættuna af ríkisvaldi sem ekki er bundið af stjórnarskrá og lýtur ekki lýðræðislegum reglum? Hvað heldur aftur af miðstýrðu valdi þegar almenningur hefur ekki lengur bein áhrif, engan lýðræðislegan vettvang til að koma saman og ákvarða sameiginlega framtíð sína? Hvað gerist þegar fólk er ekki lengur fullvalda, frjálst og sjálfstætt sem einstaklingar og sem þjóðir?
Hverju tilheyrum við ef við erum ekki lengur þjóð heldur bara tilviljanakennt samansafn af fólki sem býr á sama stað? Er betra að tilheyra þrýstihópi eða skilgreina sig út frá útliti? Geymir sagan ekki ótal hörmuleg dæmi um það þegar hugmyndafræði / hagsmunir / hóphyggja er gerð að kreddu? Hverjar eru afleiðingar þess að íbúar lands eiga ekki nógu mikið sameiginlegt til að geta notað orðið ,,við" um þá sem landið byggja? Býður slíkt ástand ekki heim hættu á stöðugum átökum og ófriði? Þurfum við ekki að eiga hlutdeild í lögunum til að geta átt hlutdeild í framtíðinni?
Ísland er landið sem fóstrar okkur. Íslendingar elska landið sitt og vilja tilheyra því. Það er friðsælt sameiningartákn, sem ögrar ekki. Sem fámenn þjóð eigum við okkar dýrmæta tungumál sem geymir perlur menningarsögunnar. Heilvita fólk kastar ekki dýrum perlum á glæ.
Þegar lagareglur streyma í síauknum mæli utanfrá, frá ESB og SÞ, þá tekur stjórnarfarið að líkjast harðstjórn. Þegar fólk á ekki lengur hlutdeild í lögunum sem það á að búa við verða lögin ekki lengur sameign okkar heldur fyrirskipanir annarra. Undir slíku kúgunarvaldi dofnar smám saman tilfinning almennings fyrir því að þau séu bundin af lögum. Slíkt ástand leyðir til upplausnar, stjórnleysis og ofbeldis, þar sem hnefarétturinn ræður, en lögin eyðast.
Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð á því hvernig komið er. En hann á ennþá möguleika á því að rétta kúrsinn og gerast sá málsvari réttarríkis, lýðræðis og sjálfstæðis, sem honum er ætlað að vera.
Fyrr í sumar hef ég boðað fundahöld um hvert flokkurinn stefnir. Nú styttist í flokksráðsfund XD sem haldinn verður 26.8. nk. Best fer á því að flokksmenn geti truflunarlaust ákvarðað þar næstu skref - og þar með örlög flokksins í bráð og lengd. Fundirnir sem ég hef áður boðað verða haldnir þegar sú stefna hefur verið mörkuð. Þá vitum við betur hvar við stöndum og getum rætt um fyrirliggjandi staðreyndir í stað þess að halda áfram að vara við vondum stefnumálum sem mögulega verða aflögð á flokksráðsfundinum.
Þegar hjólin fara að snúast á fullum hraða í september og félagasamtök boða til funda, þá er ég tilbúinn að fara hvert á land sem er til að ræða þessi mál. Áhugasamir geta sent mér beiðni um slíkt á arnarthor@griffon.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)